Mánudagur 3.10.2016 - 18:10 - FB ummæli ()

Brunaútsala ríkiseigna korteri fyrir kosningar

Það er stórfurðulegt að fram fari einhver umfangsmesta sala á eignum ríkisins á síðari tímum korteri fyrir kosningar.

http://kjarninn.is/skyring/2016-10-03-umfangsmikil-eignasala-rikisins-i-fullum-gangi/

Henni virðist handstýrt úr Fjármálaráðuneytinu af fólki sem Bjarni Benediktsson hefur handvalið í gegnum Lindarhvol. Hvernig er staðið að eftirliti með þessari sölu? Hvað kemur í veg fyrir að Borgunarmálið endurtaki sig og önnur viðlíka hneyksli? Ennþá furðulegra er alger skortur á aðhaldi frá stjórnarandstöðu um hvernig að þessum málum er staðið. Um þetta er ekkert fjallað? Og af hverju er þetta gert aðeins nokkrum vikum áður en kosið er, nú þegar útlit er fyrir að ríkisstjórnin sé að falla? Hvernig getur Alþingi haft eftirlit með að hagsmunir almennings séu hámarkaðir? Er þetta óðagot heppilegt til þess að hámarka arðinn af sölu þessara eigna almennings? Kannski er þetta bara allt hið besta mál. En er eitthvað síðustu ár og áratugi á Íslandi, sem bendir til þess, að tilefni sé til að láta stjórnvöld njóta vafans?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2016 - 00:38 - FB ummæli ()

Ættarmót í Nice og hugmynd að nýjum íslenskum samkvæmisleik

Ég setti inn færsluna hérna að neðan inná fésbókina rétt áðan eftir að koma frá Frakklandi að horfa á hinn sögufræga leik við England, og fékk nokkur skemmtileg viðbrögð, þar á meðal góða hugmynd um nýjan samkvæmisleik íslenskan, sjá neðst á síðunni hérna:

Smá saga úr USA og Frakklandi sem tengist íslenskum fótbolta eins og allt annað þessa dagana: Ég kippti strákunum mínum úr skólanum fyrir lok skóladags vegna leiksins við Austurríki um daginn. Þetta þótti náttúrulega dálítið óvenjulegt hérna í New York þannig að ég sagði barnsfóstruninni sem fór með þeim í skólann að segja bara kennurunum, að aðstæður væru afar sérstakar um þessar mundir á heimili drengjanna, vegna þess að nú væri stórmót í Evrópu og frændi þeirra spilaði í íslenska landsliðinu. Þegar ég náði ég í strákana snemma úr skólanum var ég náttúrulega spurður strax af kennurunum, sem voru fullir efastemda: Í alvörunni? Er frændi Gunnars og Óskars að spila á EM? This is HUUUUUGEEEEE? Allir krakkarnir voru líka gífurlega spenntir, greinilegt að þetta hafði verið aðal umræða dagsins í skólanum. Hvað heitir hann? Hver er frændinn????

Það hvarflaði að mér í sekúntubrot að segja sem satt var: Allt liðið eru frændur Gunnar og Óskars. Ég hafði satt að segja ekki hugmynd um hvort eða hvernig ég væri skyldur neinum leikmönnum, nema auðvitað vissi ég að ég væri skyldur þeim öllum, bara spurning hversu langt ég þyrfti að fara. Fannst þetta bara hljóma eins og góð afsökun að taka börnin úr skólanum of snemma, sem ekki tíðkast hérna í New York af svona tilefnum. En vegna þess að ef ég hefði sagt að þeir væru allir frændur mínir, hefði það hljómað eins og fáránleg lygi, sagði ég bara það nafn sem fyrst kom upp í hugann: Eiður Smári Guðjónsen!!

Þegar heim var komið voru drengirnir mjög spenntir yfir þessum risa-stóru tíðindum. Er Eiður Smári frændi okkar??!!!! Snillingurinn sjálfur?!!!! Í alvöru!! Þeir byrjuðu samt fljótlega að fyllast efasemda þegar ég gat ekki útskýrt fyrir þeim hvernig Eiður Smári er frændi þeirra, enda hafði ég ekki hugmynd um hvort eða hvernig við værum skyldir, nema ég vissi að það væri örugglega ekki erfitt að finna skyldleika. Að lokum var ég orðinn þreyttur á þessu masi drengjanna, enda trúverðugleiki minn gagnvart strákunum í húfi og farið að votta fyrir sárum vonbrigðum á andliti þeirra (þeir sáu frammá að þurfa að útskýra málið í skólanum daginn eftir fyrir vinum sínum), þannig að ég kveikti á tölvunni og fór inn á Íslendingabók.

Nú kemur í ljós — sem ég hafði ekki hugmynd um — að ég og Arnór pabbi Eiðs erum að sjálfsögðu fimmmenningar. Sumsé Amma mín — Ragnheiður — og amma Arnórs — sem líka hét Ragnheiður — áttu sömu langömmu. Sem líka hét Ragnheiður. Hefur þetta nafn verið afar vinsælt í minni fjölskyldu æ síðan, svo það hljóta að hafa verið töggur í Ragnheiði Pálsdóttur sem fædd var 1820 og dó 1905. Meðal annars heitir elsta barn Dags bróður míns Ragnheiður.

Mér til skemmtunar, fletti ég svo uppá öðrum leikmönnum í íslenska liðinu. Það eru engir náfrændur mínir í liðinu sem við svo myndum kalla upp á Íslandi, en mér sýnist að skyldleikinn hlaupi frá 5. til 9. ættliðs eða svo, þannig að yngstu sameiginlegu forfeðurnir okkar eru fæddir ekki löngu eftir 1800 líkt og Ragnheiður og deyja uppúr aldarmótunum 1900, og þegar kemur að þeim elstu (í tilfelli Birkis Bjarnarsonar sem er frændi í 9. ættlið) þarf maður að fara aftur til 1654/1672 til að finna sameiginlegan ættföður/móður.

En yfirleitt eru leikmennirnir frændur í kringum 6. til 7. ættlið eða svo að mér sýnist, t.d. er ég frændi móður Aron Gunnarssonar fyrirliða í 6. ættlið. Sameiginlegur forfaðir okkar er Árni Árnason 1786-1873 og sameiginleg ættmóðir okkar kona hans Sesselja Jónsdóttir 1786-1840.

Þetta kom uppí hugann vegna þess að ég var að lenda í New York eftir að hafa horft á England-Ísland í Frakklandi. Stemmingin í borginni, á stuðningsmannasvæðinu fyrir leikinn, og ég tala ekki um á leiknum sjálfum var ógleymanleg. Þvílíkt rafmagn í andrúmsloftinu á leikvanginum! Allir æpandi og öskrandi af öllum lífsins sálarkrafti. Og það sem var dálítið óvenjulegt miðað við þessi dæmigerðu stuðningsmannalið sem maður sér — sem eru oft fullir ungir háværir karlar — var að þetta voru ekki bara ungir karlar, heldur konur og börn, ungt fólk og gamalt, flest allt í íslenskum landsliðsbúningum og með stríðsmálningu í formi íslenska fánans á andlitinu. Og þessi fjölbreytti stuðningsmannaher — sem hlýtur að hafa verið margfalt minni en ensku bullurnar — gjörsamlega yfirgnæfði Englendinganna út allan leikinn. Ég er til dæmis algerlega búinn að missa röddina núna og held að það sé þannig með alla þá Íslendinga sem þarna voru. Stemmingin var dálítið eins og blanda af þjóðhátíð og ættarmóti. Sem var kannski ekki tilviljun, enda allir frændur og frænkur — liðið allt frændur hvers annars, að minni ágiskun frá um það bil frá 3. eða 4. ættliðs til 9. eða 10. eða svo — og stuðningsmennirnir allir frændur og frænkur allt frá börnum leikmanna, bræðrum og systrum, mæðrum og feðrum, ömmum og öfum og svo auðvitað góðri stöppu af frænkum og frændum ekki mikið fjær í tilfelli hvers leikmanns en 9.-10. ættliðs liðs eða svo….

 

PS. Ein af fyrstu viðbrögðin þegar ég setti þessa færslu á fésbókina voru frá konu Dags bróður míns: “Er Eiður Smári ekki örugglega skyldur þér í föðurætt Arnórs Guðjónsen? Annars erum við í vondum málum!” Jú, það er rétt, svaraði ég, við eru skyldir í gegnum föður Arnórs — Eið Guðjónsen. Kemur í ljós að Arna Einarsdóttir — kona Dags og móðir fjögurra barna þeirra — og Arnór eru þremenningar — en í gegnum móður Arnórs!

PS.PS. Skólafélagi minn úr MR, Finnur Breki, stingur uppá skemmtilegum samkvæmisleik sem gengur út á að finna út hverjum þú ert skyldastur í landsliðinu, sem er auðvelt í gegnum Íslendingabók og wikipedia. Mig langar að stinga uppá smá varíasjón á þessum samkvæmisleik. Í vísindaheiminum er til svokallað Erdos number, sem er hversu marga meðhöfunda þú þarf að fara í gegnum til þess að finna Paul Erdos, sem var Ungverskur stræðfræðingur sem átti aragrúa meðhöfunda. Ef maður er meðhöfundur Erdos, fær maður töluna 1, ef maður er meðhöfundur meðhöfundar 2, osfrv. Erdos sjálfur er 0 (einhvertíma reyndi ég að finna úr því hvað mitt Erdos númer var, mig minnir 5 eða 6 annað hvort í gegnum Paul Krugman eða Lawrence Summers). Svipaður leikur er “Degrees of Kevin Bacon” sem snýst um að finnan stystu tengingu við leikarann Kevin Bacon. Ég hlýt að vera í súper góðum málum í því efni því ég tók þátt í árshátíðaratriði með Hollywood stórstjörninni Ólafi Darra þegar ég var í MR! Ég er viss um að Bacon númerið mitt er því ótrúlega lágt og miklu lægra en Erdos númerið…

En hér er sumsé ein hugmynd: Hvert er landsliðsnúmerið þitt? Ef þú ert í landsliðinu færðu númer 0, ef bróðir þinn er í landsliðinu 1, ef einhver í landsliðinu er systkynabarn 3, osfrv. Og til að einfalda málið, legg ég til að þegar maður kíkir í Íslendingabók og reki sig saman við hvern leikmann, sé lægri talan valin af þeim sem upp koma í bókinni, það er, minni talan af þeim sem birtist fyrir framan þitt nafn eða nafn leikmannsins (því stundum ert þú eða leikmenn af mismunandi kynslóðum. Þannig er Gylfi Þór Sigðursson og pabbi minn frændur í sjöunda lið, svo tala sjö er fyrir framan nafn Gylfa – hann er af eldri kynslóð en ég miðað við sameiginlegan forföður/móður — en hins vegar er ég og Arnór Guðjónsen – pabbi Eiðs Smára — fimmmenningar, þannig að talan 5 er fyrir framan mitt nafn þegar ég rek mig saman við Eið). Við lauslega skoðun er landsliðsnúmer mitt 5. Ein tengingin er í gegnum Eið Smára en hin er í gegnum Elmar Bjarnason en ég og afi hans erum fimmenningar (það eru samkvæmt lauslegri athugun sumsé 2 af landsliðsmönnunum númer 5 í mínu tilfelli, mér sýnist 3 númer sex, sjö með númer 7, osfrv, fjarskyldastur er Birkir Bjarnason númer 9, sem voru konu minni stórfengleg vonbrigði sem finnst hann vera undurfríður). Mig grunar að flestir sem eru í Íslendingabók séu með landliðsnúmer 5 eða 6 en auðvitað margir með lægri tölu, en það kæmi mér á óvart ef einhver er með hærri tölu en 9. Kannski er sú lægsta 7? Við verðum að spyrja Kára Stefánsson um svarið við þeirri spurningu. En lesendur geta sjálfir tekið þátt í leiknum á Íslendingabók og gefir upp landsliðsnúmerið sitt í athugasemdum!

PS.PS.PS. Mér fannst tengingin við Eið Smára dálítið langsótt, en af öðrum skemmilegum athugasemdum á fésbókinni bendir föðursystir mín mér á að afi hennar og pabba míns, sumsé, afi Þorkell sem hún og pabbi þekktu vel og ég hef oft heyrt talað um, hafi einmitt alist upp hjá þessari sameiginlegu ættmóður okkar Eiðs Smára, Ragnheiði Pálsdóttur. Þannig að tengin er sosum ekkert voða voða langsótt. Amma mín sáluga Ragnheiður Hulda spurði alla vini mína “hverra manna ert þú” og tók svo til við að rekja ættir mínar saman við þá sem hún spurði, en hún var ættfróðasta manneskja sem ég hef hitt. Ólíkt Íslendingabók rakti hún mann saman við fólk oft á fleirri en einn hátt, enda tengingar víða. Hún hefði á augabragði rakið mig saman við Eið ef ég hefði spurt hana á sínum tíma, líkt og hún gerði þegar ég spurði um annað fólk, og líklega bætt við í þessu tilfelli: “Svona er heimurinn lítill!”. Líklega myndi ég svara í dag ef hún væri enn á lífi og eftir að hafa skoðað Íslendingabók: “Nei amma Heiða, svona er Ísland lítið!”

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.6.2016 - 14:20 - FB ummæli ()

Varúð: Birgi Þór svarað III

Líklega á ég ekki eftir að hafa til þess orku að svara öllum greinarskrifum sem Birgir Þór beinir til mín, hér, hér og hér, vegna upphaflegu færslu minnar hér, um þrjátíu viðtöl Davíðs við sjálfan sig, og svo svör mín til Birgis Þórs hér og hér.

Ekki ætla ég sosum að mæla með því við nokkurn mann að þræla sig í gegnum þetta eina ferðina enn. Eins og ég minntist á um daginn, átti ég líka einu sinni í ritdeilu við Hannes Hólmstein um sama efni. Ég skrifaði bara eina grein um þetta á bloggsíðu, en ákvað svo að svara Hannesi alltaf til að sjá hversu lengi hann héldi áfram, því hann vill alltaf eiga síðasta orðið. Strategía fólks yst á hinum hægri væng íslenskra stjórnmála hefur nefnilega verið sú í gegnum árin að klifa bara aftur og aftur á sama bullinu. Ég var kominn uppí 15 svör eða svo þangað til að ég nennti ekki lengur. Hið skondna í því var að á þeim tíma var Hannes farinn að segja að ég fjallaði um þetta mál í „síbylju“ og væri í einhverri krossferð — þótt ég hafi eingöngu skrifað eina grein um málið og svo alltaf svarað Hannesi mér til skemmtunar til að sjá hversu lengi áfram hann héldi. Mér fannst þessi tilraun varpa ágætu ljósi á tiltekna „umræðuhefð“ upp á Íslandi og þessa taktík sem beitt hefur verið um áraraðir að bulla bara aftur og aftur sama stefið, án nokkurrar virðingar gagnvart samhengi mála.

Kannski er bara ágætt að minna fólk á stóra samhengið áður en lengra er haldið. Þessi „ritdeila“– sem vart má svo kalla — snýst um ákaflega einfaldan hlut. Hann er sá að Seðlabanki Íslands tapaði hundruðum milljarða á gáleysislegum veðlánaviðskiptum — um er að tefla miklu meiri skaða en til dæmis öll þessi endalausa umræða um icesave. Við bentum á þetta margir strax í kjölfar hrunsins, og vorum uppnefndir ýmsum nöfnum í framhaldinu, uppvaskarar, osfrv. Síðan þá hefur þessi gagnrýni verið staðfest og lagt mat á tjónið, sem hleypur á hundruðum milljarða, af ýmsum opinberum aðilum t.d.: (i) Rannsóknarnefnd Alþingis (sjá t.d,  hér), (ii) Efnahags- og Framfarstofnuninni — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðanda (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — IMF. Ekki þarf minna orða við. Um ástæður tapsins hefur löngu komið fram að raunveruleg veð hafi ekki verið tekin því menn hafi ekki „nennt því“, sjá til dæmis hér: Glefsur úr Rannsóknarskýrlu Alþingis er varða veðlánaviðskipti, og Davíð sjálfur segir á bls 207 í 6 bindi RNA, sem Birgir Þór var svo vinsamlegur að benda okkur á: „Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap,“ sjá umfjöllun hér.

Það er því vandséð hvernig er yfirleitt hægt að standa í ritdeilu um þetta mál. Það er óhætt að hrósa Birgi Þór fyrir að leggja á brattann.

Mig langar bara að draga dálitla athygli að þeir aðferð sem beitt er í þessum skrifum, sjá aftur hérhér og hér. Í fyrsta lagi byrja fyrirsagnir allra greina Birgis á „Rangt hjá Gauta …..“ eða „Fleira rangt hjá Gauta …“ osfrv. Þegar textinn er svo skoðaður kemur ekki neitt fram sem sýnir fram á nokkuð af því sem ég hef sagt í þessum greinum sé „rangt“. Í staðinn er bara skipt um umræðuefni. Líklega er hugmyndin sú að enginn nenni að lesa þetta, og sjái því bara fyrirsögnina, og reynt að búa til einhverja tilfinningu hjá lesendum um að til séu rauveruleg svör við því sem ekki er hægt að svara.

Gott dæmi er þessi síðasta afurð Birgis Þórs hérna. Fyrirsögnin lofar að segja frá einhverju sem var „rangt hjá Gauta.“ En svo sé ég ekki að neitt komi fram í greininni sem skýrir þessa fyrirsögn.

Í staðinn lýsir Birgir Þór yfir sérlegum og stórfelldum sigri um að Gauti „hafi núna viðurkennt“ að form veðlánaviðskipta við vaxtaákvarðanir í Seðlabankanum hafi verið með svipuðu móti og hjá nokkrum öðrum Seðlabönkum! En um þetta hefur aldrei verið deilt! Hitt hefur verið bent á að íslensku bankarnir fóru í kringum reglurnar gagnvart Seðlabanka Íslands með þeim hætti að prenta bréf fyrir hvern annan, og leggja sem veð, og þannig í raun prentað peninga fyrir sjálfan sig í ótakmörkuðu magni. Þeir reyndu þennan sama leik gagnvart Evrópska Seðlabankanum sem voru með „sömu regur um veðlánaviðskipti“ vorið 2008. Þá hringdi Trichet, seðlabankastjóri Evrópska Seðlabankans í Davíð Oddsson brjálaður og sagði að verið væri að fara í kringum reglurnar (sem voru þær sömu og á Íslandi að stórum hluta) með sýndarviðskiptum og að íslensku bönkunum yrði lokað innan tíu daga ef ekki kæmu raunveruleg veð í staðinn. Af hverju gerði Davíð ekki hið sama nokkrum mánuðum seinna þegar íslensku bankarnir tóku sama snúning á Seðlabanka Íslands? Við vitum svarið úr Rannsóknarskýrslu Aþingis. Þeir „nenntu því ekki“  og Davíð sagði það vera allt of „flókið“ og til þess hafi þurft svo mikinn „mannskap“ eins og tilvitnunin að ofan bendir til. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði verið hægt að ráða ansi mikinn mannskap fyrir hundruðir milljarða sem var það tap sem af hlaust.

Ég ætla að liggja á milli hluta að tala hér um aðgreiningu á hefðbundnum endurhverfum veðlánaviðskiptum og lána til þrautarvara, sem er annað atriði sem Birgir Þór tiltekur. Ég hef fjallað um þetta áður í all ítarlegu máli, og get kannski grafið það upp, en ætla að hlífa lesendum að sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2016 - 20:42 - FB ummæli ()

Varúð: Birgi Þór svarað aftur

Ekki veit ég hvort nokkur nenni að lesa mikið um gjaldþrot Seðlabanka Íslands (og því set ég varnaðarorð í titil bloggsins!), en ég sé að Birgir Þór beinir til mín skeyti hérna og nokkrum spurningum. Þetta gjaldþrot hefur komið upp vegna framboðs Davíðs Oddssonar til forseta en hann var auðvitað seðlabankastjóri þegar hundruðir milljarða töpuðust í veðlánaviðskiptum bankans. Ein röksemd Davíðs er að það sé gott að vera með „slökkviliðsstjóra“ sem forseta, og ekki er hægt að neita því að hann hefur ansi mikla reynslu af eldsvoðum.

Spurningum Birgis er sjálfsagt að svara og vonandi varpa svörin kannski einhverju ljósi á gjaldþrot bankans fyrir þá sem hafa ekki fyrir löngu áttað sig á eðli málsins eftir að um það hafa fjallað fjölmargir opinberir aðilar og metið skaðann, t.d. (i) Rannsóknarnefnd Alþingi (sjá t.d,  hér), (ii) Efnahags- og Framfarstofnunin — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðandi (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — IMF. Ekki þarf minna útskýringa við.

Áður en lengra er haldið, vil ég þó ekki lofa því að svara öllum spurningum um þetta efni í framtíðinni, frá Birgi Þór eða öðrum. Einu sinni prófaði ég nefnilega að svara alltaf Hannesi Hólmsteini um þetta efni, en mér skilst að Hannes sé einmitt að rannsaka þetta mál með Birgi Þór með fjármögnun frá Fjármálaráðuneytinu. Á þeim tíma birti ég svörin til Hannesar undir titlunum Hannesi svarað I, Hannesi svarað II, Hannesi svarað III ….. osfrv —- ég var forvitinn að sjá hversu lengi hann héldi áfram, því Hannes vill nefnilega alltaf eiga síðasta orðið. Ég hætti að telja þegar ég var kominn upp í 15 eða svo og fljótlega seinna nennti ég ekki meiru, enda var umræðan löngu komin í hring og ég var farin að vísa í fyrri svör.

Það fyrsta sem Birgir vísar til er að Davíð hafi „einna fyrstur áttað sig á eðli ástarbréfanna“.

Birgir vitnar í Rannsóknarskýrslu Alþlingis og biður okkur um að fletta upp á blaðsíðu 207 í bindi 6 (skýrsla RNA, 6. bindi, bls. 207) . Ég fletti uppá þessari síðu að gamni mínu. Þessi blaðsíða á sumsé að vera rök fyrir því að Davíð hafi nú aldeilis allra fyrstur manna áttað sig á vandamálinu sem ástarbréfin voru, og Birgir telur af einhverri ástæðu þessa blaðsíðu sýna og sanna að grein mín eigi ekki við rök að styðjast.

Þar er rétt, að Davíð segir þar, á bls 207, að hann hafi talið ástarbréfin vera „froðu“ ef að allt færi á versta veg. Þá er Davíð Oddsson spurður afhverju hann hafi ekki tekið raunveruleg veð, frekar en froðu, og segir þá orðrétt í skýrslu Rannsóknarskýrslu Alþingis, bls. 207 sem Birgir Þór biður okkur um að lesa:

“ Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að taka veð í öðru en bankabréfum svaraði Davíð: „Það hefði verið miklu flóknara, já og erfiðara, að ég hygg. Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap.“

Það var nú einmitt það sem mannskapurinn í öllum öðrum seðlabönkum í veröldinni var að dunda sér við á þessum tíma, finna raunveruleg veð og lána út á þau. Slíkt er hlutverk seðlabanka. Og það var rétt að þetta var óskaplega mikið vesen. En vegna þess að þeir voru að vesenast svona mikið fóru þeir ekki á hausinn. Og þess vegna blöskraði mörgu fólki sem vann í seðlabönkum erlendis, eins og t.d. mér, hversu gáleysilega Seðlabanki Íslands hagaði sér.

Svo segir Birgir að ég svari „því ekki heldur sem bent hefur verið á að ein ástæða tapsins var auðvitað neyðarlögin sem skipuðu kröfum Seðlabankans á viðskiptabankana á eftir kröfum innstæðueigenda.“

Hvað varðar neyðarlögin, þá lá það alltaf fyrir að skynsamlegt væri að setja lög af því tagi kæmi til gjaldþrots bankanna, eins og raunar kom fram á fundinum sem ég átti með stjórnvöldum ágúst 2008 og Birgir Þór vitnar til í fyrri færslu sinni (þar sem ég talaði um að mikilvægt væri að „standa við bakið á bönkum“ gegn tryggum veðum.). Auðvitað átti Seðlabankinn að vera viðbúinn þessu og gera viðeigandi ráðstafanir, eins og raunar Rannsóknarskýrsla Alþingis bendir á (enda sýnast mér sumir stuðningsmenn Davíðs halda því fram að hann hafi komið að smíði þeirra laga?)

Þá vill Birgir að ég svari athugasemd hans um að „kröfur Seðlabankans um veð voru strangari en annarra seðlabanka á sama tíma.“ Birgir hefur eftir finnskum embættismanni að aðrir seðlabankar höfðu reglur um endurhverf viðskipti til að ákvarða vexti af því tagi sem Seðlabanki Íslands hafði, það er, sumir seðlabankar heimiluðu notkun bankabréfa í slíkum viðskiptum. Þetta er rétt. Kjarni málsins er sá að með ástarbréfaviðskiptunum voru bankarnir að misnota kerfið — kaup þeirra og sala á eigin bréfum voru sýndarviðskipti — og í raun og sann voru þeir að prenta pening fyrir sjálfan sig, með fullri vitund Davíðs Oddssonar, án raunverulegra veða. Þetta var bara „froða“ eins hann bentir réttilega á á bls 207.

Hvernig hefðu aðrir seðlabankar brugðist við slíkri misnotkun sem höfðu svipaðar reglur um endurhverf viðskipti? Við vitum svarið við því. Þegar íslensku bankarnir reyndu sama leikinn gagnvart Evrópska Seðlabankanum, vorið 2008, hringdi seðlabankastjóri evrópska bankans Trichet, brjálaður í Davíð Oddsson og krafðist raunverulegra veða, ella yrði íslensku bönkunum lokað innan 10 daga, sjá t.d. ECB og hrunið en um þetta er líka fjallað í RNA. Af hverju gerði Davíð ekki hið sama og Trichet, þegar íslensku bankarnir hófu sama leikinn skömmu síðar gagnvart Seðlabanka Íslands?

Við höfum svarið við því á bls 207 í 6 bindi RNA, sem Birgir Þór var svo vinsamlegur að benda okkur á:

Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap.“

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.6.2016 - 13:45 - FB ummæli ()

Svar til Birgis Þórs og nokkrir minnispunktar um fund

Mér sýnist að mörgu leiti það vera að gerast sem ég spáði þegar Davíð fór í framboð. Að framboð Davíðs myndi að mestu snúast um fortíðina en ekki framtíðina. Það er óneitanlega óheppilegt að umræður um forsetakosningar — sem eiga að snúa að því hvernig land við viljum byggja — snúist þess í stað um þorskastríðið, Rannsóknarskýrslu Alþingis, Icesave, einkavæðingu bankanna osfrv. Ég benti í síðustu færslu á 30 viðtöl Davíðs við sjálfan sig. Þau eru einmitt flest öll um fortíðina og tilraunir Davíðs til að endurskrifa söguna.

Í kjölfar þessarar litlu færslu minnar dúkkar upp Birgir Þór Runólfsson, dósent upp í háskóla Íslands í hagfræði og minn fyrrum lærifaðir — prýðismaður  og stórskemmtilegur kennari —  og virðist vera að reyna að endurskrifa söguna þannig að Rannsóknarskýrsla Alþingis sé ekki alvarlegur áfellisdómur yfir feril Davíðs Oddssonar sem seðlabankastjóri, heldur þvert á móti! Sú endurskrift sögunnar er þungur róður, svo ekki sé meira sagt, skýrslan er opin almenningi og hver sem er getur rennt í gegnum hana hér, sjá til dæmis ágæta samantekt Fréttablaðsins á sínum tíma hér fyrir þá sem orka ekki að fara í gegnum þetta enn og aftur.

——

Varúð, lesandi góður, óþarfi að lesa lengra, hagfræðileiðindi taka nú við. Hér er ég bara að halda til haga fyrir sjálfan mig nokkrum punktum er varða hrunið og þá 15 sekúntna frægð sem mér sýnist mér hafa tekist að næla mér í þegar ég millilendi á Íslandi á leiðinni til Bandaríkjanna frá ráðstefnu í Finnlandi í ágúst 2008. Þá var ég nefnilega fenginn á fund.

Það er eitt áhugavert við færslu Birgis Þórs frá mínum sjónarhóli sem ég gerði mér ekki glögglega grein fyrir. Hann bendir á fund sem ég átti 2008 með stjórnvöldum. Hann nefnir að sá fundur hafi meira að segja ratað inn í réttarhöldin yfir Geir Haarde (sjá bls 92 hér). Ég þakka Birgi Þór fyrir að benda mér á þetta. Þessi fundur var afar fróðlegur en hann sótti auk fjölda ráðherra, Már Guðmundsson, Friðrik Már Baldusson og svo ég sjálfur. Ég var aldrei boður til skýrslutöku um þennan fund en tókst þó að grúska í eigin gögnum og fann nokkra minnispunkta. Kannski þeir varpa einhverju ljósi á hvers vegna ég hef gengið tiltölulega hart from í gagnrýni á veðlánaviðskipti Seðlabanka Íslands í hruninu.

Samkvæmt mínum minnispunktum var eitt af þeim efnum sem ég fjallaði um nefnilega hvernig við höguðum lánveitingum til fjármálakerfisins hjá Seðlabanka Bandaríkjanna með svokölluðum „special liquidity facilities“ meðal annars í gegnum svokallað „Term Securities Lending Facility“. Ég velti því upp með hvaða hætti slíkt væri hægt að gera á Íslandi, þótt ég hefði tekið það skýrt fram að ég gæti ekki mælt með slíku á þessu stigi málsins á Íslandi. Fyrir því hefði ég engar forsendur því að ég þekkti ekki eignasafn íslensku bankana.

Á þessum tíma starfaði ég sem ráðgjafi hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og þekkti ágætlega til mála. Ef hjálpa ætti bönkunum með einhverjum hætti á Íslandi væri ekki sama hvernig það væri gert og benti ég fólki á að skoða þær leiðir sem við höfðum farið hérna í Bandaríkjunum á þeim tíma. Ég bauð svo fram aðstoð til að kynna þær leiðir frekar. Í kjölfar fundarins reyndi ég svo að koma á fundi milli Geirs Haarde og varaforseta Seðlabankans í NY. Sá fundur fór fram síðar það haust líkt og fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Íslensk stjórvöld höfðu hins vegar ekki mikinn áhuga á að kynna sér þessar leiðir en meiri áhuga á að liðka fyrir um lán í erlendum gjaldeyri, þar sem þeir komu að lokuðum dyrum líkt og fram hefur komið.

En hvernig var þessari aðstoð við bankana háttað hér í Bandaríkjunum sem ég fjallaði um á þessum fundi? Lykilskilyrði þess að veita fé inn í fjármálageirann hér í Bandaríkjunum var alltaf að trygg veð væru gegn þeim lánum sem veitt voru, þannig að seðlabankinn sæti uppi með verðmætar eignir ef allt færi á versta veg. Þannig reyndi bankinn yfirleitt að sjá það fyrir hvert virði eigna hans yrði, ef allt hryndi, og tók ég þátt í nokkrum slíkum útreikningum. Auðvitað var og er ekki hægt að útiloka eitthvert tap á einhverjum tímapunkti, en aðalatriðið var að reyna að lágmarka hugsanlegt tjón. Þannig var það til dæmis að þótt verulegu fé hafi verið veitt í bankakerfið hér í Bandaríkjunum, hefur þegar allt hefur komið til alls verið verulegur hagnaður af þeirra aðstoð, þótt fjölmargir bankar hafi farið á hausinn (þótt hagnaður hafi raunar aldrei verið markmið í sjálfu sér). Enda voru veðin sem tekin voru gegn lántökum góð.

Því miður var ekkert slíkt gert í Seðlabanka Íslandis. Lánað var með litlum eða engum veðum (svokölluð ástarbréfarviðskipi), og niðurstaðan var tap Seðlabankans uppá hundruðir milljarða króna, eins og staðfest hefur verið meðal annars í Rannsóknarskýrslu Alþingis (sjá hér), OECD (sjá hér), Ríkisendurskoðanda (sjá hér), osfrv. Þetta höfum ég og margir aðrir hagfræðingar gagnrýnt  því þetta stríddi gegn öllum góðum vinnureglum sem eiga að vera til staðar í seðlabönkum, og var auðvitað í engu samræmi við þær leiðir sem farnar voru hér í Bandaríkjunum og ég fjallaði um á þessum fundi.

Lykilatriðið er því þetta: Aðalgagnrýnin á Seðlabanka Íslands í hruninu hefur yfirleitt ekki verið að hann lánaði bönkum. Það er hlutverk seðlabanka. Gagnrýnin snýr að því hvernig hann gerði það.

Það er því alveg rétt að ég, líkt og ég hygg nánast allir peningahagfræðingar í veröldinni, er þeirra skoðunar að það sé mikilvægt að seðlabankar “standi við bakið á bönkunum”. Það er lögbundið hlutverk seðlabanka. En það er fáránlegt að halda því fram að það viðhorf feli í sér að seðlabankinn eigi að fara á hausinn í þeim leiðangri, til þess er nú einmitt allar vinnureglur seðlabanka settar saman, meðal annars fyrirbæri á borð við ´Term Security Lending Facility´ sem ég fjallaði um á þessum fundi.

Seinna skrifaði ég raunar grein um aðgerðir bandaríska seðlabankans og þær aðgerðir sem hann fór í, sjá hér.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.6.2016 - 17:24 - FB ummæli ()

30 viðtöl Davíðs Oddssonar við sjálfan sig

Þegar ég var táningur að skríða upp í tvítugt vann ég á dagblaði, sumarið 1994, sem hét Eintak. Líklega muna fáir eftir því, en þar vann margt eðal fólk eins og til dæmis Andrés Magnússon, Gunnar Smári Egilsson, Jón Kaldal, Björn Malquist, Gerður Kristný , Egill Helgason, Glúmur Baldvinsson, Björn Ingi Hrafnsson, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Jón Óskar, svo fáeinir séu nefndir og ótal margir aðrir snillingar og lífskúnsnerar.

Eitt sem ég man frá þeim tíma – því að ég var aðallega að reportera um pólitík – var að það var bara einn stjórnmálamaður á Íslandi sem ekki var hægt að ná í viðtal. Það var Davíð Oddsson. Á sama tíma gat maður beinlínis flett upp í símaskránni og hringt heim til allra hinna. Ekki man ég afhverju var svona erfitt var að ná í Davíð. Líklega hafði einhver skrifað eitthvað í Eintak sem ekki var í samræmi við hreintrú hirðarinnar sem safnaðist hafði í kringum Davíð og blaðið því komist í hina frægu svörtu bók sem svo var kölluð – sem hélt saman lista yfir fólkið í vonda liðinu á Íslandi (hvort sú bók hafi verið til eða ekki ætla ég ekki að segja til um, en það kannski lýsti dálítið skrítinni stemmingu að fólk hélt að hún væri til!).

En þetta kom upp í hugann þegar ég sá á netinu að nú hefði loksins einhverjum tekist að ná viðtali við Davíð þar sem hann loksins svarar spurningum sem ekki hefur tekist að fá svör við í langan tíma.

Um er að ræða 30 spurningar. Og spyrjandinn, að sjálfsögðu, er Davíð sjálfur. Sjá hér. Davíð að tala við sjálfan sig. Af einhverjum ástæðum sýnist mér þessi stórmerkilegu viðtöl hafa farið framhjá flestum.

Að mörgu leiti held ég að þetta sé stórfróðleg sagnfræðiheimild um Ísland eins og það var. Davíð var auðvitað fyrirferðamestur íslenskra stjórnmálamanna á seinni hluta 20. aldarinnar og svör hans lýsa því vel hvernig mönnum fannst þeir geta svarað spurningum fyrir tíma netsins. Mér sýnist nefninlega Davíð hér, svo pent sé til orða tekið, nánast bulla út í eitt.

Ekki gafst mér tími til að hlusta á öll viðtöl Davíðs, þetta nær bara til sex þeirra þar sem mér þóttu fyrirsagnirnar sérlega hnýsilegar. Og mér sýnist raunar að það séu heldur fáir í þeim hópi sem skoðað hafa allt heila klabbið. Vegna þess að youtube er með teljara er hægt að draga þá ályktun að í mesta lagi hafi um 100 kjósendur á Íslandi hafi skoðað allan afraksturinn, þegar þetta er skrifað, og sýnist mér þó að þetta efni hafi verið aðgengilegt í næstum viku. Vonandi verður þessi færsla til að auka vinsældirnar og á þá áreyðanlega margt fleira athyglivert eftir að koma í ljós.

Hér að neðan eru þau sex viðtöl sem ég stóðst ekki mátið og skoðaði, kannski gefst mér tími til að skoða afganginn seinna og segi kannski frá því, þó ég lofi engu í því efni. Ég fyrst tek saman hvað Davíð spyr og svo reyni ég að taka saman í stuttu máli hverju hann svarar – ég geri það með eigin orðum. Ekki þarf mín orð til, ég hvet lesendur til að smella á linkinn sem ég birti með þar sem Davíð sjálfur talar, þannig að fólk geti dæmt um það sjálft hvort þetta sé raunsönn samantekt hjá mér eða ekki. Þetta er slegið inn á handahlaupum, þannig að kannski hef ég misst af einhverjum fínni blæbrigðum svaranna. Sannleikurinn er auðvitað miklu skemmtilegri og furðulegri en skáldskapur þegar saga Íslands í kringum hrunið er skoðuð og því er engin ástæða til að slíta hlutina úr samhengi.

Eftir samantektina á spurningu og svari Davíðs veiti ég smá viðbótarskýringar og hlekki við fréttagreinar þar sem greint er frá tilteknum staðreyndum. Svo gruflaði ég líka dálítið í tölvunni minni til að skoða það sem ég hafði sjálfur skrifað um þessi mál og tengi við glefsur úr því.

Heimildir fréttamiðla, og það sem ég sjálfur punktaði niður á sínum tíma, rímar svo ekki sé meira sagt óskaplega illa við það sem Davíð er að segja í þessum viðtölum. Ekki þarf annað til en google leitarvél, og nokkra mínútna grúsk til að ganga úr skugga um það. Skemmtilegt væri að fá fleiri ábendingar í athugasemdum, ekki síst um þær spurningar sem ég hef ekki haft tíma til að skoða.

Davíð spyr: Settir þú Seðlabankann hausinn?

Davíð svarar: Nei Seðlabankinn fór aldrei á hausinn. Það eru bara einhverjir strákar sem eru að halda því fram gegn betri vitund aftur og aftur – strákar eru bara strákar — í þeirri von að einhver trúi þessari vitleysu.

Staðreynd: Það er óumdeilt að Seðlabanki Íslands tapaði hundruðum milljarða á svokölluðum ástarbréfarviðskiptum – oft er talað um 300 milljarða í því samhengi og tæknilegt gjaldþrot bankans (ég hef sjálfur ekki lagt sjálfstætt mat á upphæðir). Í ástarbréfaviðskiptunum fólst að íslensku bankarnir gáfu út bankabréf, seldu hvors til annars, og notuðu sem veð í Seðlabankanum. Og gerðu þetta aftur og aftur og aftur svo nam um 30 prósentum af þjóðarframleiðslu. Þannig gátu þeir í raun prentað pening fyrir sjálfan sig án nokkurra takmarka. Í flokki strákavitleysinga sem hafa staðfest þetta, gagnrýnt harðlega, og lagt mat á kosnaðinn við gjaldþrotið eru: (i) Rannsóknarnefnd Alþingis (sjá hér), (ii) Efnahags- of Framfarstofnunin — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðandi (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — IMF (sjá hér). Eru þá ótaldir ýmsir minni spámenn og strákvitleysingar sem um þetta hafa fjallað í ræðu og riti, líkt og ég sjálfur eða Jón Steinsson, hagfræðiprófessor við Columbia háskóla. Ég gróf til dæmis upp úr tölvunni minni litla bloggfærslu um þegar íslensku bankarnir reyndu sama leikinn erlendis gagnvart Evrópska Seðlabankanum (ECB), en þá var tekið hart í taumana af ECB (sjá ECB og hrunið úr gamalli bloggfærslu) og hótað að loka íslensku bönkunum ef raunveruleg veð kæmu ekki í stað ástarbréfanna. Allt er þetta hluti af íslenskri stjórnmálasögu sem hver sem er getur flett upp á netinu.

Davíð spyr: Felldi Rannóknarnefnd Alþingis áfellisdóm yfir þér?

Davið svarar: Nei. Hún benti bara á einhverja smámuni.

Staðreynd: Rannsóknarskýrsla Alþingis var stór áfellisdómur yfir Seðlabanka Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar. Hún er öllum aðgengileg á netinu, og einfalt að slá inn Davíð Oddsson og staðfesta það, sjá hér, ekki síst umrædd veðlánaviðskipti, svo ekki sé talað um þar sem komið er inn á einkavæðingu bankanna. Það er ágætis samantekt úr Fréttablaðinu í apríl 2010, sjá hér. Í þessum tengli (Glefsur úr Rannsóknarskýrlu Alþingis er varða veðlánaviðskipti) eru nokkrir punktar Rannsóknarskýrslunni sem ég punktaði hjá mér þegar ég skoðaði skýrsluna á sínum tíma. Almennileg lesning myndu auðvitað velta upp fleiri steinum — meðal annars eru færð rök fyrir því í meginniðurstöðunum nefndarinnar að veðlánaviðskiptin hafi farið á svig við lög. „Enda þótt Seðlabankinn gerði sér grein fyrir veikleikum bankanna veitti hann engu að síður umfangsmikil veðlán gegn tryggingum í verðbréfum bankanna. Sú vitneskja fær illa samrýmst áskilnaði fyrrnefnds lagaákvæðis um gildar tryggingar.“

Davíð spyr: Tapaðir þú gjaldeyrisvaraforðanum sem seðlabankastjóri?

Davíð svarar: Nei, ég lánaði að vísu Kaupþingi pening en ég fékk sem veð fyrir þennan pening danskan banka FIH sem var metinn var á margföldu virði lánsins. Það er núverandi stjórn seðlabankans að kenna að ekki fékkst rétt verð fyrir bankann FIH og “allt er þetta afskaplega sérstakt”.

Staðreynd: Davíð lánaði allan nettó gjaldeyrisforða þjóðarinnar til Kaupþings daginn sem að Geir Haarde flutti “Guð blessi Ísland” ræðuna. Fyrir því virðist ekki hafa verið heimild í lögum á þeim tíma að því er ég best get séð. Upp úr þessu spruttu dómsmál við slitastjórn Kaupþings. Fyrir rest töpuðu íslenskir skattgreiðendur 35 milljörðum vegna þess að lánsveðin voru ekki nægjanlega sterk. Sjá ágæta umfjöllun Kjarnans um atburðarrásina hér.

Davíð spyr: Af hverju varstu á lista TIME yfir hrunvalda?

Davíð svarar: Þessi listi er ákaflega sérstakur, einhver listi sem skrifaður var í bríaríi. Þeir eru dálítið sérstakir þessi listar þarna á Time. Til dæmis var því haldið fram að Jóhanna Sigurðardóttir væri ein 25 valdamesta kona heims, þegar hún gat varla stjórnað Samfylkingunni. Svo settu þessir listamenn á Time líklega met þegar þeir gerðu Hitler að manni ársins 1936.

Staðreynd: Nánast allt sem kemur fram í svarinu er rangt. Illugi Jökulsson fer ágætlega yfir nokkrar staðreyndarvillur hérna, enginn ástæða til að endurtaka hér.

Davíð spyr: Lánaðir þú sem seðlabankastjóri 75 milljarða til Kaupþings sem töpuðust að hluta?

Davíð svarar: Já en ríkisstjórnin sagði okkur að gera það. Og svo tókum mjög gott veð. Svo töluðum við líka við danska seðlabankann og danska fjármálaeftirlitið sem sagði að þetta veð væri mjög gott. Og í danskri ríkisábyrgð. Að auki var þetta veð svona tvisvar eða þrisvar sinnum verðmætara en lánið. Illa var hins vegar staðið að koma því í verð, því að þá var ég ekki lengur seðlabankastjóri.

Staðreynd: Milljarðar töpuðust. Ég er ekki viss um að maður þurfi að bæta neinu við umfjöllun Kjarnans um atburðarrásina hér. Var tap uppá tugi milljaðar öllum öðrum að kenna en Davíð sem veitt lánið og átti að tryggja gott veð?

Davíð spyr: Hrósaðir þú bönkunum fyrir hrun?

Davið svarar: Ég varaði við hættu á vaxandi skuldasöfnun bankanna. En enginn vildi hlusta.

Staðreynd: Um þetta mætti auðvitað tala í löngu máli. Davíð var náttúrulega sá sem einkavæddi bankana, og var svo í því hlutverki að tryggja fjármálastöðugleika sem Seðlabankastjóri en fórst það ekki sérlega vel úr hendi. En hérna er sosum eitt áhugavert viðtal þar sem Davíð gafst tækifæri til að vara við bönkunum rétt fyrir hrun.

Það er ákaflega athyglivert fyrir íslenska samtímasögu að skoða hverju Davíð spyr sjálfan sig sem kemur inná eina mestu umbrotatíma Íslandssögunnar. Þetta eru 30 viðtöl, og þetta er bara nokkur dæmi, ekki hef ég skoðað allt, ég sé að líka er eitthvað talað um einkavæðingu bankanna, en allt það ferli var með nokkrum fádæmum, og stendur víst til að rannsaka eftir að nýjar upplýsingar hafa komið fram um að þýskur banki hafi verið notaður sem leppur tiltekinna kaupenda.

Eftir dálitla skoðun sem svo sannarlega gæti verið ítarlegri veltir maður eiginlega fyrir sér: Er enginn í kringum framboð Davíðs sem segir honum hvort það sem hann segir sé að minnsta kosti í einhverju lágmarks samhengi við raunveruleikann?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.5.2016 - 11:25 - FB ummæli ()

Davíð, hefur þú enga sómakennd?

Var að horfa á kappræður Davíðs og Guðna Th. á netinu í gærkvöldi. Pólitísk eftirmæli Davíðs Oddssonar verða líklega spurning Guðna Th. til hans: „Davíð, hefur þú enga sómakennd?“ Davíð var auðvitað fyrir löngu búinn að svara spurningunni sjálfur með örvæntingafullum tilraunum til að flækja Guðna Th. — grandvarann, heiðalegan, hófstilltan fræðimann ofan úr Háskóla Ísland– einhvern veginn inn í Icesave á grundvelli setninga sem voru slitnar úr samhengi í viðtali við Grapewine 2009(!) (þar sem Guðni kallaði icesave samningana meðal annars Versalasamninga en þeir sem einhverja sagnfræðiþekkingu hafa, vita að þeir samningar voru taldir afar ósanngjarnir og leiddu að öllum líkindum til seinni heimstyrjaldarinnar!), bullaði eitthvað um að Guðni Th. hefði sagt eitthvað sem væri hægt að túlka sem neikvætt um Ólaf Jóhannesson fyrrum formann Framsóknarflokksins í einhverju sagnfræðierindi á Neskaupstað fyrir mörgum árum um þorskastríðið (!), og svo reynt að slíta úr samhengi einhver ummæli sem Guðni lét falla um stjórnarskrá Íslands. Óskaplega var eftirtekja rannsóknarvinnu Davíðs og vina hans gegn Guðna Th. eitthvað rýr. Ég beið bara eftir því að Davíð tefldi fram óhrekjanlegri sönnun þess að Guðni væri vondur við köttinn sinn. Hægt væri að sjá það á youtube. Þvílík örvænting. Þvílík tragikómedía.

Í morgun blasir svo við einhver furðufrétt í Morgunblaðinu — sem enn er skrifað á ábyrgð Davíð Oddssonar samkvæmt blaðhausnum — þar sem snúið er út úr orðum Guðna í einhverjum sagfræðifyrirlestri fyrir námsmenn í háskólanum á Bifröst fyrir þremur árum! Mikið óskaplega þykir manni lágt seilst í sjálfum forsetakosningunum Íslendinga. Ég get vart ímyndað mér hvað kæmi uppúr handraðanum ef fólk færi að fínkemba þá hundruðir fyrirlestra sem ég hef haldið fyrir nemendur sem ég hef kennt í Brown, Princeton, Yale og Columbia síðustu 17 árin. En svo sannarlega yrðir það eitthvað töluvert safaríkara en að tala í gamansömum tón við nemendur um að almenningur væru „fávís“ um einhver tiltekin atriði (raunar hef ég eytt allnokkrum tíma á undanförnum árum í að tala um að Seðlabankastjóri Íslands hafi verið ákaflega fávís um grundvallaratriði í rekstri seðlabanka í aðdraganda hrunsins er olli hundruð milljarða króna gjaldþroti bankans sem lenti á almenningi).

Ef þessi atlaga að Guðna Th. er það safaríkasta sem þetta ógæfufólk í kringum Davíð Oddsson finnur (og ég skil raunar ekki afhverju fólki sem er annt um orðspor Davíðs hefur att honum útí þetta framboð) eftir mikla lúsarleit í ritum og ræðum Guðna Th, lofar það nú ekki góðu fyrir framboð Davíðs Oddssonar.

En verst er að þessu fólki tekst að draga forsetakosningar sem eiga að snúa um framtíðina og sýn fólks á land og þjóð í hinu stóra samhengi niður í eitthvert furðulegt karp og orðhengilshátt um þorskastríð, icesave, Evrópusambandið, og guð má vita hvað kemur næst. Gunnar Smári stingur upp á því í athugasemdum á fésbókarsíðu minni sem birtir hluta þessara hugleiðinga að ofan að eflaust verði næsta spurningin hvort Íslendingar hefðu yfir höfuð yfirgefið Noreg ef Guðni Th. hefði verið forseti 874.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.5.2016 - 20:08 - FB ummæli ()

Góðir menn: Andri Snær og Guðni Th.

Mér líst vel á forsetakosningarnar upp á Íslandi. Mér finnst bæði Andri Snær og Guðni Th. bjóða upp á skemmtilega sýn á embættið, án þess að vilja gera lítið úr öðrum frambjóðendum.

Það sem mér finnst einna skemmtilegast við þá báða, er að þeir eru grúskarar, vel skrifandi og mælskir. Fyrst og fremst koma þeir mér fyrir sjónir sem afskaplega venjulegir og hógværir menn sem tala um mál af skynsemi og yfirvegun. Og framar öllu eru þeir heiðarlegir og virðast engum háðir. Þeir eiga engra harma að hefna, heldur horfa fram á við.

Ég þekki raunar Guðna Th. lítið en hef séð til hans í riti og ræðu, og litist vel á. Ég hef þekkt Andra Snæ frá barnæsku úr Árbænum. Því verð ég að viðurkenna að ég er meira spenntur fyrir Andra Snæ því ég þekki hann svo vel. Ég er sannfærður um að hann yrði frábær forseti.

Sem krakki kom Andri Snær mér fyrir sjónir sem skemmtilegur gaur, alltaf í boltanum, og fyndinn með afbrigðum. En hann var ekki þetta dæmigerða félagsmálatröll, að minnsta kosti ekki eftir því sem ég man, hvað þá heldur skáldaspíra (not that there is anything wrong with that!).

Það kom mér satt best að segja ákaflega á óvart þegar Andri Snær varð allt í einu orðinn rithöfundur. Ég verð að játa að þetta var það síðasta sem mér datt í hug að Andri Snær myndi gera þegar við ólumst upp þótt hann væri óvenju orðheppinn. Einhvern veginn hafði ég gert ráð fyrir því að hann yrði læknir eða ynni í heilbrigðisgeiranum eins og mig minnir að stór hluti familíunnar hans geri. En í staðinn er hann ekki bara rithöfundur, heldur margverðlaunaður rithöfundur á heimsmælikvarða sem hefur verið þýddur á fjölmörg tungumál og verk hans gefin út eða uppfærð í meira en 30 löndum. Hérna í New York, þá lesa margir krakkarnir í skóla sona minna Bláa Hnöttinn. Sjaldan hef ég verið jafn stoltur að því að vera Íslendingur og þegar ég komst að þessu, enda einstaklega falleg, frumleg og skemmtileg bók.

En það sem hefur komið mér dálítið á óvart, svona utan frá séð, er það sem ég hef lesið frá sumum andstæðingum framboðsins. Sýn margra á Andra Snæ út frá sumu því sem ég hef lesið að heiman er allt önnur en mín, enda fluttist ég til Bandaríkjanna fyrir 19 árum. Sjónarhorn mitt á Andra byggir á minningum úr æsku og þess sem ég hef lesið eftir hann á síðari árum sem er margt og óvenjulega frumlegt, á heimsmælikvarða satt best að segja.

Mér sýnist honum oft stillt upp sem annars vegar einhvers konar lappelepjandi listaspíru úr 101, hangandi á kaffihúsum “á kostnað skattgreiðenda” sem aldrei hafi pissað í saltan sjó. Á hinn bóginn er reynt að spyrða hann við VG vegna áhuga á umhverfirsmálum. Ég hef jafnvel heyrt tala um hann sem “umhverfisöfgamann” af góðum vinum mínum og ættingjum. Allt kemur þetta mér afskaplega spánskt fyrir sjónir.

Andri Snær kom mér aldrei mjög fyrir sjónir sem 101 listaspíru týpan og þess vegna kom sérstaklega skemmtilega á óvart að hann er afburðarrithöfundur. Kannski bara af þeirri yfirborðslegu ástæðu að hann úthverfagaur, fótboltamaður úr Árbænum sem spilaði í Fylki (ágætur boltamaður – en enginn snillingur frekar en ég að því er ég best man — en slarkfær), fór svo í Menntaskólann við Sund og hefur að því ég best man búið í Hlíðunum síðan þá.

Þar byrjaði hann hratt að hrúga niður börnum, sem voru fjögur þegar ég taldi síðast. Þegar ég bjó uppá Íslandi man ég varla eftir að hafa séð Andra mikið að vafra á kaffihúsum eða börum eða að lepja latte í 101 með lopatrefil. Ég held að hann hafi verið allt of upptekinn við að skipta um bleyjur og skrifa bækur og leikrit.

Hitt sem hefur komið mér á óvart er hversu mjög margir spyrða Andra Snæ við VG. Nú hef ég sosum ekkert á móti VG, á þar marga vini eins og í öllum flokkum, en þetta bendir til þess að fólk hafi ekki lesið það sem Andri Snær hefur skrifað og tengist pólitík, og þekki illa þá sýn sem hann setur fram. Hún er nefnilega miklu frumlegri og áhugaverðari en svo að hægt sé að troða henni í flokksbása, hvort heldur inní VG eða annars staðar.

Bók hans um Draumalandið – sem er ótrúlega merkileg bók um það brjálæði sem virkjanaframkvæmdir voru komnar á Íslandi með Kárahnjúkum og fleiri áformum – er nefnilega eins langt frá því að vera skrifuð út frá sjónarmiði hefðbundins vinstrisósíalisma og hægt er að hugsa sér (en með réttu eða röngu tengir fólk einmitt VG oft við vinstrisósíalisma, án þess að ég vilji eitthvað fara í einhverjar stjórnmálaskýringar hérna um VG).

Rök Andra Snæ í Draumalandinu gegn stóriðjustefnunni er að í henni felist stjórnlyndur ríkissósíalismi, enda ríkið að standa í öllum þessu framkvæmdum á kostnað almennings, og í leiðinni að fórna ómetanlegum nátturuperlum fyrir afar óljósan og áhættusaman ávinning. Til að bætu gráu ofan á svart er svo raforka seld á tombóluprís til alþjóðlegra fyrirtæki sem komast hjá því að borga skatta af arði með alls kyns æfingum.

Rauður þráður í Draumalandinu er harkaleg árás á þá nauðhyggju að það sé hlutverk ríkissins að “skapa” störf. Slíkt gerist með frjálsu framtaki einstaklinga í vel skipulögðu markaðshagkerfi þar sem hugmyndaríki fólksins í landinu er í lykilhlutverki líkt og Andri leggur áherslu á. Hann hefur gagnrýnt landbúnaðarkerfið á sama grunni, að það leiði ekki fram sköpunarkraft bændanna heldur sé öllu handstýrt af ríkinu sem taki alla dýnamíkina og sköpunarkraftinn úr greininnni. Það var því ekki tilviljum að Andri Snær fékk frelsisverðlun Kjartans Gunnarssonar, veitt af Sambandi Unga Sjálfstæðismanna fyrir útgáfu Draumalandsins. Staðreyndin er nefnilega sú að nálgun Andra er að mörgu leiti nálgun nútímalegrar hagfræði – sem oft er líka beitt af frjálshyggjumönnum – en þó eru röksemdafærslur Andra um kosti frelsisins og markaðsins settar fram á frumlegri og óvæntari hátt en maður sér annars staðar. Í því liggur snilld bókarinnar.

Það er óneitanlega kaldhæðnislegt  að einhvern veginn hafi tekist að troða Andra í eitthvað vinstriflokka box, sem er nú einmitt það sem gert er á Íslandi í nánast allri umræðu. Mikið óskaplega er þetta hvimleitt. Fólki er troðið í box. Það eina sem ég get séð að Andri eigi sameiginlegt með mörgum yst á vinstri vængnum er brennandi áhugi á umhverfismálum. En það er ekkert vinstri-hægra mál. Ef skrif Andra eru lesin eru þau miklu dýpri og hugmyndaríkari en að hægt sé að troða þeim á flokksbása eða hægri-vinstri. Og mér finnst miklu meiri frjálslyndisblær af því sem ég hef lesið frá honum um þjóðfélagsmál – djúpt vantraust á hlutverk ríkissins í að “búa til störf” — en til dæmis í málflutningin núverandi forseta.

Hvernig sem kosningarnar fara, grunar mig að það eigi eftir að þykja ákaflega einkennilegt að málflutningur Andra Snæs sé á nokkurn hátt “öfgakenndur” – ekki síst í umhverfismálum — eftir nokkra áratugi þegar litið er til baka. Ég held að hann sé fyrst og fremst nútímalegur og horfi fram á við, en sé ekki fastur í gömlum flokksbásunum og klisjum. Í sögunni heldur ég að sú sýn sem hann hefur á umhverfismálin, hljómi jafn “öfgakennd” í eyrum þeirra sem byggja landið í framtíðinni og atkvæðisréttur kvenna í dag – eða rétturinn til að drekka bjór.

Mér líst líka vel á þá sýn sem Andri hefur sett fram um að efla áherslu á leskunnáttu barna og ýmislegar frumlega hugmyndir sem hann hefur sett fram um aðkoma forsetans að menntamálum. Og ekki síst að hann er jákvæður fyrir því ferli sem hafið var með stjórnlagaþinginu með endurritun stjórnarskrár. Ég hef tekið eftir því að hann hefur ekki verið að reyna að setja neina töfralausn fram í því efni – sem ég held að sé ekki við hæfi því að Alþingi mun endalega taka ákvörðunina og svo þjóðin – heldur fyrst og fremst lagt áherslu á hversu jákvætt þetta ferli var, fallegt eins og hann orðar það,  og að við eigum að nýta það og leiða til lykta. Hann hefur verið talsmaður bjartsýnni sem er frískandi eftir endalaus rifrildi síðustu ára.

Loks finnst mér það ákaflega skemmtileg tilhugsun að söguþjóðin hafi í embætti rithöfund sem selt hefur bækur á ótal tungumálum, og leikrit hans sett upp um allan heim, og mann sem hefur áhuga á umhverfismálum. Það rímar fullkomlega við sjálfsmynd mína sem Íslendings. Ég held að með Andra Snæ sem forseta, svo skemmtilegur og orðkynginn sem hann er, verði það líklega í fyrsta skipti sem ég man eftir að maður á eftir að hlakka til að hlusta á ávörp forseta. Með því er ég ekki að gera lítið úr fyrrum forsetum, bara að segja að ávörp forseta eru tiltölulega fyrirsjáanleg, bæði á Íslandi og annars staðar í veröldinni. Mig grunar að Andri eigi eftir að vekja okkur til umhugsunar um hin ýmsu mál, sem okkur dytti ekki í hug að hugsa um að öðrum kosti.

Mig langaði bara að ljúka þessu með smá hvatningu til vina og vandamanna heima – og sérstaklega til minna mörgu vina sem telja sig hægra megin við miðju, ekki síst hagfræðinganna — nú þegar kosningabaráttan er að hefjast: Ekki setja fólk í bása. Hlustið vandlega á það sem fólkið segir í umræðunum. Ég held að sú mynd sem margir hafi búið sér til af Andra Snæ, til dæmis, sé ákaflega ófullkomin, og beinlínis villandi. Ég sé að yngra fólkið sem er ekki jafn upptekið af því að troða fólk í kassa eða flokka er að fatta plottið. En er ekki viss um þá sem eldri eru.

PS

Ég verð að játa að ég eiginlega hef mig varla í það að tala um framboð Davíðs Oddssonar. En hjá því er ekki komist, hann er fíllinn í herberginu. Ég held að hann yrði ekki góður forseti fyrir okkar tíma. Það versta við framboð hans er, að minni hyggju, að mér sýnist það vísa nánast algerlega til fortíðar, og mig grunar að hans embættistíð muni markast af sama galla. Þetta sést best á þeim fjölmörgu stuðningsgreinum sem um hann fjalla á síðustu dögum. Engin þeirra snýst um framtíðina. Þær snúast um borgarstjóratíð Davíðs, að Davíð hafi sannarlega ekki gert neitt rangt í einkavæðingu bankana, atvinnuleysi hafi verið lágt þegar Davíð var forsætisráðherra, verðbólga lág, osfrv. Erfitt er að sjá hvað þetta kemur framtíð forsetaembættisins við eða Íslands.

Og sumar greinarnar eru svör við gagnrýni sem Davíð fékk á sig í Seðlabankanum þegar bankinn tapaði hundruðum milljarða í veðlánaviðskiptum, kom upp fastgengisstefnu í einn dag og hætti svo við, lýsti yfir stórláni frá Pútín sem aldrei var til, lánaða gjaldeyrisforða þjóðarinnar án haldbærra veða, að ekki sé minnst á hið fræga Kastljós viðtal í upphafi hruns. Þar var Davíð eins og maður sem stendur upp í miðju leikhúsi og kallar eldur eldur!! Þetta er auðvitað ekki sérlega góð strategía þegar kviknar í leikhúsi, því þá panikara allir og troðast undir á leið að útganginum.

Næstu daga, eftir viðtalið fræga, voru fluttar fréttir af viðtalinu í öllum heimsfjölmiðlum, eins og til dæmis New York Times og Wall Street Journal (sem þýddi líka allt viðtalið við Davíð og birti á vefsíðu sinni). Það er óhætt að segja að viðtalið hafi verið heimshneyksli í fjármálaheiminum, og í kjölfarið var Davíð útnefndur af Time Magazine sem einn þeirra 25 í heiminum sem mesta ábyrgð báru á heimskreppunni, og einnig fékk Davíð Ig Nóbelsverðlaun Harvard háskóla fyrir efnahagslega óstjórn og að hafa ollið gjaldþroti Íslands.

Kastljós viðtalið á sínum tíma var túlkað, hvort sem það var sanngjörn túlkun eða ekki, sem yfirlýsing um að íslenska ríkið myndi ekki standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Sú túlkun kom til fyrst og fremst vegna kauðalegs orðalags Davíðs, sem hélt að hann væri bara í huggulegu spjalli við landsmenn. En nú var heimurinn að horfa. Þetta var túlkað sem nokkurs konar alþjóðleg yfirlýsing um þjóðhagslegt gjaldþrot. Strax næsta dag settu bresk stjórnvöld hryðjuverkalög á Ísland, bankaáhlaup varð á Kaupþing, og mörg erlend fyrirtæki og fjármálastofnanir hættu öllum viðskiptum við Íslendinga. Þetta markaði auðvitað líka upphafið af Icesave deilunni.

Það er óneitanlega kyndugt – eftir frammistöðu Davíðs í hruninu – að hans helstu rök fyrir framboði séu að það sé mikilvægt að vera með reyndan mann í embættinu til að gegna hlutverki “slökkviliðsstjóra”!

Sumt af þeirri gagnrýni sem Davíð hefur fengið á sig í gegnum árin, bæði heima og erlendis, er auðvitað mjög ósanngjörn. Seint verður alþjóðlegt bankahrun skrifað á reiking Davíðs Oddssonar einan manna. Hægt er svo að rökræða um einstaka þætti endalaust, fram og til baka, til dæmis væri hægt að setja upp langar rökræður um umrætt Kastjósviðtal og gildi þess í hinu stóra samhengi, og að erlend stórblöð hafi rangtúlkað málfutning hans á þeim tíma osfrv. osfrv, og að Time og Harvard séu ósanngjarnir í sínum dómum, kannski janfnvel á vegum spunadeildar Samfylkinnar. En mikið óskaplega finnst manni það leiðileg tilhugsun ef að forsetakosningunum er eytt í eitthverjar deilur um túlkun á stjórnmálasögu síðustu 30 ára, byggingu Perlunnar, einkavæðingu bankanna, hrunið, Icesave, ECB, et etc – og hvort örugglega allt sem Davíð Oddsson hafi gert einhver tíma sé ekki örugglega alveg meiriháttar.

Í staðinn vona ég að umræðan horfi fram á við en ekki afturábak og hvað sé hægt að gera næst til að bæta samfélagið. Við ættum að láta sagfræðingum framtíðarinnar og Morgunblaðinu í dag um að deila um söguna og reyna endurskrifa hana í sífellu. Endurskrifun hennar á ekki að vera inntak kosningabaráttu forsetakosninga á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.5.2016 - 19:34 - FB ummæli ()

Ólafur og Davíð

Ég er satt best að segja all nokkuð feginn því að ÓRG hafi dregið framboð sitt til baka. Ekki vegna þess að ég hefði svo miklar áhyggjur af því að hann yrði við völd önnur fjögur ár — held að hann hefði leyst ágætlega úr því, hann hefur átt góða spretti og aðra síðri á löngum ferli. En ég held að hann hefði tapað, því framboðið hefði verið veikt. Tilhugsunin var ekki skemmileg að horfa upp á ÓRG enda glæsilegan 50 ára stjórnmálaferil þannig. Held að þetta hafi verið miklu betri útkoma fyrir alla. Annars grunar mig að Davíð Oddsson hafi litla sem enga möguleika. Ég átta mig ekki á því afhverju hann er að ana út í þetta framboð? Mig minnir að það hafi verið haft eftir einhverjum íslenskum stjórnmálamanni um miðja síðustu öld að tvennt væri erfiðast í pólitík, að byrja og að hætta. ÓRG las stöðuna rétt, en ég held að Davíð hafi misst jarðsamband.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.5.2016 - 14:41 - FB ummæli ()

Ómissandi menn

Þetta verða sannarlega skemmtilegar forsetakosningar, nú þegar Davíð Oddsson hefur líka ákveðið að taka slaginn.

Bæði Ólafur og Davíð eiga giska hálfrar aldar feril í stjórnmálum og ekki annað hægt en að dáðst að dugnaðnum og fórnfýsinni fyrir land og þjóð. Báðir hafa þeir átt stóra sigra, og önnur augnablik sem ekki hafa verið sérlega gæfuleg, eins og við er að búast eftir svona langt stjórnmálastarf.

Ég hef ekki haft tök á því að hlusta ennþá á yfirlýsingar Davíðs, en eftir að hafa rennt yfir netmiðlanna stendur þessi kostulega frétt af eyjunni upp úr hjá mér:

„Spurður hvort ekki væri komið nóg af þeim Ólafi Ragnari og Davíð Oddsyni að kljást fyrir framan íslenska þjóð sagði Davíð að sumum kynni að þykja það. Hins vegar væri ekki völ á neinum öðrum í augnablikinu sem hafi sömu kosti og þeir félagar. Við núverandi aðstæður séu upp miklar ógnir í heiminum og hér heima. Alþingi sé alveg ofboðslega veikt og þjóðin væri alveg galin ef hún veldi þá líka veikan forseta. „Ég held hún sé það ekki,“ sagði Davíð.“

Já hún er aldeilis galin, þjóðin, ef hún sleppir hendinni af þessum tveimur landvættum Íslands, sem auðvitað eru ómissandi.

Ég verð að játa, að ég held að það sé mjög gott að Davíð sé kominn í framboð, og held að maður eigi aldrei að gera lítið úr því að menn gefi kost á sér í opinber embætti. Þeim mun fleiri þeim mun betra. Kjósenda er valið.

Ég er sammála Davíð í því að ég held að þjóðin sé alls ekki galin.

Og ég held að það væri líka ágætis heilbrigðisvottorð fyrir íslenska kjósendur ef þeir færu að hyggja að framtíðinni, til dæmis að nýrri stjórnarskrá sem þeir kumpánar Davíð og Ólafur af ólmast gegn með kjafti og klóm, og þakki þeim félögum pent fyrir — þetta er komið fínt kæru vinir, við þökkum góð störf fyrir hönd lands og þjóðar — og rétti einhverjum öðrum keflið. Og mér sýnist fínir kostir í boði fyrir þá sem telja að landið verði ekki stjórnlaust þótt þeir kumpánar Davíð og Ólafur snúi sér að öðrum áhugaefnum eftir hálfrar aldar stjórnmálavafstur.

Því sýnist mér þetta framboð vera hvalreki, til dæmis fyrir Andra Snæ Magnason, sem stendur fyrir ákveðna og jákvæða framtíðarsýn og hefur sterka málefnastöðu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur