Fimmtudagur 09.06.2016 - 20:42 - FB ummæli ()

Varúð: Birgi Þór svarað aftur

Ekki veit ég hvort nokkur nenni að lesa mikið um gjaldþrot Seðlabanka Íslands (og því set ég varnaðarorð í titil bloggsins!), en ég sé að Birgir Þór beinir til mín skeyti hérna og nokkrum spurningum. Þetta gjaldþrot hefur komið upp vegna framboðs Davíðs Oddssonar til forseta en hann var auðvitað seðlabankastjóri þegar hundruðir milljarða töpuðust í veðlánaviðskiptum bankans. Ein röksemd Davíðs er að það sé gott að vera með „slökkviliðsstjóra“ sem forseta, og ekki er hægt að neita því að hann hefur ansi mikla reynslu af eldsvoðum.

Spurningum Birgis er sjálfsagt að svara og vonandi varpa svörin kannski einhverju ljósi á gjaldþrot bankans fyrir þá sem hafa ekki fyrir löngu áttað sig á eðli málsins eftir að um það hafa fjallað fjölmargir opinberir aðilar og metið skaðann, t.d. (i) Rannsóknarnefnd Alþingi (sjá t.d,  hér), (ii) Efnahags- og Framfarstofnunin — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðandi (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — IMF. Ekki þarf minna útskýringa við.

Áður en lengra er haldið, vil ég þó ekki lofa því að svara öllum spurningum um þetta efni í framtíðinni, frá Birgi Þór eða öðrum. Einu sinni prófaði ég nefnilega að svara alltaf Hannesi Hólmsteini um þetta efni, en mér skilst að Hannes sé einmitt að rannsaka þetta mál með Birgi Þór með fjármögnun frá Fjármálaráðuneytinu. Á þeim tíma birti ég svörin til Hannesar undir titlunum Hannesi svarað I, Hannesi svarað II, Hannesi svarað III ….. osfrv —- ég var forvitinn að sjá hversu lengi hann héldi áfram, því Hannes vill nefnilega alltaf eiga síðasta orðið. Ég hætti að telja þegar ég var kominn upp í 15 eða svo og fljótlega seinna nennti ég ekki meiru, enda var umræðan löngu komin í hring og ég var farin að vísa í fyrri svör.

Það fyrsta sem Birgir vísar til er að Davíð hafi „einna fyrstur áttað sig á eðli ástarbréfanna“.

Birgir vitnar í Rannsóknarskýrslu Alþlingis og biður okkur um að fletta upp á blaðsíðu 207 í bindi 6 (skýrsla RNA, 6. bindi, bls. 207) . Ég fletti uppá þessari síðu að gamni mínu. Þessi blaðsíða á sumsé að vera rök fyrir því að Davíð hafi nú aldeilis allra fyrstur manna áttað sig á vandamálinu sem ástarbréfin voru, og Birgir telur af einhverri ástæðu þessa blaðsíðu sýna og sanna að grein mín eigi ekki við rök að styðjast.

Þar er rétt, að Davíð segir þar, á bls 207, að hann hafi talið ástarbréfin vera „froðu“ ef að allt færi á versta veg. Þá er Davíð Oddsson spurður afhverju hann hafi ekki tekið raunveruleg veð, frekar en froðu, og segir þá orðrétt í skýrslu Rannsóknarskýrslu Alþingis, bls. 207 sem Birgir Þór biður okkur um að lesa:

“ Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að taka veð í öðru en bankabréfum svaraði Davíð: „Það hefði verið miklu flóknara, já og erfiðara, að ég hygg. Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap.“

Það var nú einmitt það sem mannskapurinn í öllum öðrum seðlabönkum í veröldinni var að dunda sér við á þessum tíma, finna raunveruleg veð og lána út á þau. Slíkt er hlutverk seðlabanka. Og það var rétt að þetta var óskaplega mikið vesen. En vegna þess að þeir voru að vesenast svona mikið fóru þeir ekki á hausinn. Og þess vegna blöskraði mörgu fólki sem vann í seðlabönkum erlendis, eins og t.d. mér, hversu gáleysilega Seðlabanki Íslands hagaði sér.

Svo segir Birgir að ég svari „því ekki heldur sem bent hefur verið á að ein ástæða tapsins var auðvitað neyðarlögin sem skipuðu kröfum Seðlabankans á viðskiptabankana á eftir kröfum innstæðueigenda.“

Hvað varðar neyðarlögin, þá lá það alltaf fyrir að skynsamlegt væri að setja lög af því tagi kæmi til gjaldþrots bankanna, eins og raunar kom fram á fundinum sem ég átti með stjórnvöldum ágúst 2008 og Birgir Þór vitnar til í fyrri færslu sinni (þar sem ég talaði um að mikilvægt væri að „standa við bakið á bönkum“ gegn tryggum veðum.). Auðvitað átti Seðlabankinn að vera viðbúinn þessu og gera viðeigandi ráðstafanir, eins og raunar Rannsóknarskýrsla Alþingis bendir á (enda sýnast mér sumir stuðningsmenn Davíðs halda því fram að hann hafi komið að smíði þeirra laga?)

Þá vill Birgir að ég svari athugasemd hans um að „kröfur Seðlabankans um veð voru strangari en annarra seðlabanka á sama tíma.“ Birgir hefur eftir finnskum embættismanni að aðrir seðlabankar höfðu reglur um endurhverf viðskipti til að ákvarða vexti af því tagi sem Seðlabanki Íslands hafði, það er, sumir seðlabankar heimiluðu notkun bankabréfa í slíkum viðskiptum. Þetta er rétt. Kjarni málsins er sá að með ástarbréfaviðskiptunum voru bankarnir að misnota kerfið — kaup þeirra og sala á eigin bréfum voru sýndarviðskipti — og í raun og sann voru þeir að prenta pening fyrir sjálfan sig, með fullri vitund Davíðs Oddssonar, án raunverulegra veða. Þetta var bara „froða“ eins hann bentir réttilega á á bls 207.

Hvernig hefðu aðrir seðlabankar brugðist við slíkri misnotkun sem höfðu svipaðar reglur um endurhverf viðskipti? Við vitum svarið við því. Þegar íslensku bankarnir reyndu sama leikinn gagnvart Evrópska Seðlabankanum, vorið 2008, hringdi seðlabankastjóri evrópska bankans Trichet, brjálaður í Davíð Oddsson og krafðist raunverulegra veða, ella yrði íslensku bönkunum lokað innan 10 daga, sjá t.d. ECB og hrunið en um þetta er líka fjallað í RNA. Af hverju gerði Davíð ekki hið sama og Trichet, þegar íslensku bankarnir hófu sama leikinn skömmu síðar gagnvart Seðlabanka Íslands?

Við höfum svarið við því á bls 207 í 6 bindi RNA, sem Birgir Þór var svo vinsamlegur að benda okkur á:

Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap.“

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur