Miðvikudagur 15.06.2016 - 14:20 - FB ummæli ()

Varúð: Birgi Þór svarað III

Líklega á ég ekki eftir að hafa til þess orku að svara öllum greinarskrifum sem Birgir Þór beinir til mín, hér, hér og hér, vegna upphaflegu færslu minnar hér, um þrjátíu viðtöl Davíðs við sjálfan sig, og svo svör mín til Birgis Þórs hér og hér.

Ekki ætla ég sosum að mæla með því við nokkurn mann að þræla sig í gegnum þetta eina ferðina enn. Eins og ég minntist á um daginn, átti ég líka einu sinni í ritdeilu við Hannes Hólmstein um sama efni. Ég skrifaði bara eina grein um þetta á bloggsíðu, en ákvað svo að svara Hannesi alltaf til að sjá hversu lengi hann héldi áfram, því hann vill alltaf eiga síðasta orðið. Strategía fólks yst á hinum hægri væng íslenskra stjórnmála hefur nefnilega verið sú í gegnum árin að klifa bara aftur og aftur á sama bullinu. Ég var kominn uppí 15 svör eða svo þangað til að ég nennti ekki lengur. Hið skondna í því var að á þeim tíma var Hannes farinn að segja að ég fjallaði um þetta mál í „síbylju“ og væri í einhverri krossferð — þótt ég hafi eingöngu skrifað eina grein um málið og svo alltaf svarað Hannesi mér til skemmtunar til að sjá hversu lengi áfram hann héldi. Mér fannst þessi tilraun varpa ágætu ljósi á tiltekna „umræðuhefð“ upp á Íslandi og þessa taktík sem beitt hefur verið um áraraðir að bulla bara aftur og aftur sama stefið, án nokkurrar virðingar gagnvart samhengi mála.

Kannski er bara ágætt að minna fólk á stóra samhengið áður en lengra er haldið. Þessi „ritdeila“– sem vart má svo kalla — snýst um ákaflega einfaldan hlut. Hann er sá að Seðlabanki Íslands tapaði hundruðum milljarða á gáleysislegum veðlánaviðskiptum — um er að tefla miklu meiri skaða en til dæmis öll þessi endalausa umræða um icesave. Við bentum á þetta margir strax í kjölfar hrunsins, og vorum uppnefndir ýmsum nöfnum í framhaldinu, uppvaskarar, osfrv. Síðan þá hefur þessi gagnrýni verið staðfest og lagt mat á tjónið, sem hleypur á hundruðum milljarða, af ýmsum opinberum aðilum t.d.: (i) Rannsóknarnefnd Alþingis (sjá t.d,  hér), (ii) Efnahags- og Framfarstofnuninni — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðanda (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — IMF. Ekki þarf minna orða við. Um ástæður tapsins hefur löngu komið fram að raunveruleg veð hafi ekki verið tekin því menn hafi ekki „nennt því“, sjá til dæmis hér: Glefsur úr Rannsóknarskýrlu Alþingis er varða veðlánaviðskipti, og Davíð sjálfur segir á bls 207 í 6 bindi RNA, sem Birgir Þór var svo vinsamlegur að benda okkur á: „Mitt fólk hafði farið yfir það, en ég er ekki með það á takteinunum, það hefði orðið miklu flóknara og erfiðara og þurfti mikinn mannskap,“ sjá umfjöllun hér.

Það er því vandséð hvernig er yfirleitt hægt að standa í ritdeilu um þetta mál. Það er óhætt að hrósa Birgi Þór fyrir að leggja á brattann.

Mig langar bara að draga dálitla athygli að þeir aðferð sem beitt er í þessum skrifum, sjá aftur hérhér og hér. Í fyrsta lagi byrja fyrirsagnir allra greina Birgis á „Rangt hjá Gauta …..“ eða „Fleira rangt hjá Gauta …“ osfrv. Þegar textinn er svo skoðaður kemur ekki neitt fram sem sýnir fram á nokkuð af því sem ég hef sagt í þessum greinum sé „rangt“. Í staðinn er bara skipt um umræðuefni. Líklega er hugmyndin sú að enginn nenni að lesa þetta, og sjái því bara fyrirsögnina, og reynt að búa til einhverja tilfinningu hjá lesendum um að til séu rauveruleg svör við því sem ekki er hægt að svara.

Gott dæmi er þessi síðasta afurð Birgis Þórs hérna. Fyrirsögnin lofar að segja frá einhverju sem var „rangt hjá Gauta.“ En svo sé ég ekki að neitt komi fram í greininni sem skýrir þessa fyrirsögn.

Í staðinn lýsir Birgir Þór yfir sérlegum og stórfelldum sigri um að Gauti „hafi núna viðurkennt“ að form veðlánaviðskipta við vaxtaákvarðanir í Seðlabankanum hafi verið með svipuðu móti og hjá nokkrum öðrum Seðlabönkum! En um þetta hefur aldrei verið deilt! Hitt hefur verið bent á að íslensku bankarnir fóru í kringum reglurnar gagnvart Seðlabanka Íslands með þeim hætti að prenta bréf fyrir hvern annan, og leggja sem veð, og þannig í raun prentað peninga fyrir sjálfan sig í ótakmörkuðu magni. Þeir reyndu þennan sama leik gagnvart Evrópska Seðlabankanum sem voru með „sömu regur um veðlánaviðskipti“ vorið 2008. Þá hringdi Trichet, seðlabankastjóri Evrópska Seðlabankans í Davíð Oddsson brjálaður og sagði að verið væri að fara í kringum reglurnar (sem voru þær sömu og á Íslandi að stórum hluta) með sýndarviðskiptum og að íslensku bönkunum yrði lokað innan tíu daga ef ekki kæmu raunveruleg veð í staðinn. Af hverju gerði Davíð ekki hið sama nokkrum mánuðum seinna þegar íslensku bankarnir tóku sama snúning á Seðlabanka Íslands? Við vitum svarið úr Rannsóknarskýrslu Aþingis. Þeir „nenntu því ekki“  og Davíð sagði það vera allt of „flókið“ og til þess hafi þurft svo mikinn „mannskap“ eins og tilvitnunin að ofan bendir til. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði verið hægt að ráða ansi mikinn mannskap fyrir hundruðir milljarða sem var það tap sem af hlaust.

Ég ætla að liggja á milli hluta að tala hér um aðgreiningu á hefðbundnum endurhverfum veðlánaviðskiptum og lána til þrautarvara, sem er annað atriði sem Birgir Þór tiltekur. Ég hef fjallað um þetta áður í all ítarlegu máli, og get kannski grafið það upp, en ætla að hlífa lesendum að sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur