Fimmtudagur 25.02.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Að vera eða vera ekki – í bæjarstjórn

Í nýlegum pistli gagnrýndi ég hagsmunaárekstra í Kópavogi – en benti á lausnir – og nefndi sem dæmi að háttsettir stjórnendur hjá bænum sætu í bæjarstjórn og væru þannig í vinnu hjá sjálfum sér. Í gær lagði ég svo til hámark á setu í bæjarstjórn – annað hvort með lögum eða sjálfskipað. En ef sumir eiga ekki að sitja í bæjarstjórn að mínu mati og enginn of lengi – hverjir eiga þá (ekki) að sitja þar og hve lengi að mínum dómi?

 

Hverjir koma til álita?

Ekki ætla ég að fara að leika félagsfræðing og skipta fólki í stéttir enda höfum við notið þess á Íslandi að hafa ekki mikla stéttskiptingu lengi vel þó að ég telji að aðstöðumunur fólks hafi stundum verið vanmetinn með tali um stéttleysi og samstöðu stétta. Ég hef orðið var við að sumir telja að forstöðumenn eða (milli)stjórnendur stofnana og fyrirtækja eigi ekki erindi sem kjörnir fulltrúar. Þá eru eftir:

  • aðrir starfsmenn hjá hinu opinbera og á einkamarkaði,
  • námsmenn,
  • fólk í atvinnuleit,
  • öryrkjar,
  • eldri borgarar,
  • heimavinnandi og
  • eigendur fyrirtækja.

Ég er ekki viss um að ég sé sammála að útiloka eigi einhvern hóp almennt frá því að sækjast eftir og fá stöðu sem kjörinn fulltrúi, t.d. í sveitarstjórn eða á þingi, enda eru bara forseti Íslands og hæstaréttardómarar útilokaðir frá setu á Alþingi samkvæmt stjórnarskrá. Allir eru kjörgengir til sveitarstjórnar. Ef fyrstnefndi hópurinn, æðstu stjórnendur, er útilokaður getur verið að þeir útiloki óbeint aðra starfsmenn svo að úrvalið verði úr færri hópum. Varla viljum að landinu verði stjórnað eingöngu af fyrirtækjaeigendum og tilgreindum hópum sem ekki hafa reglulegar launatekjur.

 M.ö.o. held ég að hér sem fyrr sé fjölbreytni af hinu góða, sbr. fyrri pistil minn um kynjakvóta.

 

Tillaga að lausn 

Hvað Alþingi varðar er svarið í stjórnarskránni eins og fram er komið; því má breyta á stjórnlagaþingi. Að því er varðar sveitarstjórnir kann að vera rétt að hafa mismunandi reglur eftir stærð sveitarfélaga en ég vænti þess að örsmá sveitarfélög heyri brátt sögunni til. Ég held að lausnin felist í því sem ég hef áður gefið í skyn; allir séu kjörgengir til sveitarstjórnar

  1. nema háttsettir stjórnendur hjá sama sveitarfélagi og aðeins
  2. í tiltekinn tíma.

 

Er þriðjungur starfsævinnar ekki bara ágætt?

En hve lengi má fólk sitja í bæjarstjórn? Ef ég miða við að virkasti hluti starfsævi flestra (þegar staða kynjanna hefur jafnast frekar eins og stefnt var að með jöfnu fæðingarorlofi fyrir um 10 árum) sé um 40 ár er varla til of mikils mælst að hámarkslengd óslitinnar setu í sveitarstjórn sé þrjú kjörtímabil eða 12 ár sem er tæpur þriðjungur meðalstarfsævi samkvæmt ofangreindu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur