Sunnudagur 21.10.2012 - 20:20 - FB ummæli ()

Ég er Kragabúi

Það er gaman að vera frambjóðandi á ferð í Suðvesturkjördæmi. Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Álftanes og Hafnarfjörður eru mínar kjörlendur. Eins og fram hefur komið hef ég hef lýst því yfir sækist ég eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Prófkjörið fer fram laugardaginn 10. nóvember næstkomandi.

Kjördæmið mitt er oft kallað Kraginn, því eins og einhver glöggur sá þegar hin nýja kjördæmaskipan varð að lögum árið 1999 mynda sveitarfélögin sem tilheyra kjördæminu einskonar kraga eða trefil utan um höfuðborgina. Ég er svo heppin að stór hluti landsmanna býr í mínu kjördæmi auk þess sem ég get ekið í gegnum það þvert og endilangt á um það bil klukkustund.

Það ber náttúrulega dálítið á því að hvert bæjarfélag haldi með sínum frambjóðanda. Kópavogsbúar vilja sinn mann ofarlega á lista og Mosfellingar, Hafnfirðingar og Garðbæingar líka. En ég segi að þingmaður Suðvesturkjördæmis verði að vera þingmaður allra bæjarfélaganna jafnt. Maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna eins og stundum er sagt.

Ég velti reyndar þessari hreppapólitík talsvert fyrir mér áður en ég gaf kost á mér. Hvort frambjóðandi frá Seltjarnarnesi, sem er mjög fámennt bæjarfélag, ætti nokkra möguleika á að fá náð fyrir augum kjósenda í hinum sveitarfélögunum. Seltjarnarnes er yndislegur bær þar sem mætast ósnortin náttúra og borg og glæsilegur golfvöllur innan seilingar. Þar hef ég búið í bráðum 30 ára og uni hag mínum vel og vil hvergi annarsstaðar vera. En svo létti mér stórum þegar ég fann það út að ég hef tengst nánast öllum sveitarfélögunum í Kraganum nánum böndum.

Þegar ég var lítil telpa var ég svo heppin að stúlka ættuð úr Hafnarfirði passaði mig oft. Hún var mér einstaklega góð í miklu uppáhaldi hjá mér. Þegar hún varð kennari við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði leyfði hún mér stundum að koma og heimsækja bekkinn sinn þrátt fyrir að ég væri ekki enn komin á skólaaldur. Það fannst mér mikil upphefð. Hafnafjörður átti sér sérstakan stað í hjarta mínu. Svo fékk ég líka oft að gista á heimili hennar og foreldra hennar við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru mér líka afar góð og ekki spillti fyrir að þar á bæ var alltaf til lakkrís því pabbi hennar var sölumaður hjá sælgætisgerð. Hafnafjörður var því bær allsnægtanna í mínum augum.

Ég bjó í Garðabæ, sem þá hét Garðahreppur, frá 8 til 11 ára aldurs og gekk í Barnaskóla Garðahrepps. Þaðan á ég afar góðar endurminningar og festi þar djúpar rætur. Daglega ókum við út á Álftanes í skólarútunni en börnin á Áltanesi gengu líka í Barnaskóla Garðahrepps. Ég afar ósátt við að flytja úr Garðahreppi árið 1972 en sem betur fer fluttum við aftur í sveitarfélagið sem þá hét Garðabæ en þar bjó ég frá 15 til 19 aldurs. Ég segi yfirleitt að ég sé Garðbæingur þegar ég er spurð hvaðan ég sé ættuð.

Ég var Kópavogsbúi á námsárum mínum í HÍ. Kópvogur stóð á tímamótum og var að breytast í flottan nýtísku þjónustbæ í alfaraleið. Ég bjó í miðbæ Kópavogs sem þá var nýrisinn. Þar var alla þjónustu fá; matsölustaður í hæsta gæðaflokki, tískuvöruverslun, Línan vinsælasta húsgagnaverslun landsins, og fín skóbúð og blómabúð, og svo framvegs. Að búa þarna í miðbænum fyrir mig var eiginlega eins og að búa í útlöndum. Mér þykri því ávallt vænt um Kópavog.

Og síðast en ekki síst er það Mosfellsbær. Að minnsta kosti einu sinni í viku geng ég á eitthvert fellið í bænum, Helgafell, Reykjafell, Mosfell, Hádegisfell, Æsustaðafjall og Grímmannsfell g nýt fagrar nátturnnar þar. Úlfarsfell er í miklu uppáhaldi hjá mér og Erró hundinum mínum og þangað förum við oftast. Langafi minn Stefán B. Jónsson var bóndi á Suður-Reykjum í Mosfellssveit í upphafi síðustu aldar og var mikill frumkvöðull og brautryðjandi og leiddi fyrstur manna heitt vatn til húshiturnnar á Suður-Reykjum. Mér þykri líka gott að koma þangað til að heiðra minningu hans. Ég er stolt af framtaki hans á Reykjum sem komst í sögubækurnar.

Ég tengist því öllum sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi sterkum persónulegum böndum og er í raun Kragabúi, og mun framvegis kalla mig það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur