Mánudagur 04.03.2013 - 15:37 - FB ummæli ()

Sjálfstæðiskonur og næsta ríkisstjórn

Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins urðu þau tíðindi að konur voru kosnar formenn í sjö af átta föstum málefnanefndum flokksins sem starfa á milli landsfunda.  Eins og flestir vita er landsfundur æðsta valdastofnun Sjálfstæðisflokksins þar sem stefna flokksins er mótuð hverju sinni.  Landsfundir í aðdraganda kosninga eru auðvitað sérlega mikilvægir.   Á fundinum var Áslaug Friðriksdóttir var kjörin, formaður Allsherjar- og menntanefndar, Bryndís Haraldsdóttir, formaður Atvinnuveganefndar, Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður Efnahags- og viðskiptanefndar, Erla Ósk Ásgeirsdóttir formaður Fjárlaganefndar, Katrín Helga Hallgrímsdóttir formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Margrét Björnsdóttir formaður Umhverfis- og samgöngunefndar og  Kristín Heimisdóttir formaður Velferðarnefndar.

Glæsileg fundarherferð Landssambands Sjálfstæðisflokksins um allt land undir forystu Jarþrúðar Ásmundsdóttur formanns Landssambandsins í haust hefur vafalaust verið mikil hvatning fyrir konur til að láta til sín taka í stjórnmálum á vegum Sjálfstæðisflokksins, sem nú er að skila sér.

Þetta er frábær árangur sem sýnir að konur í Sjálfstæðisflokknum ætla sér stóra hluti innan flokksins og á vettvangi stjórnmálanna á næstu misserum.

Formaður gefur tóninn

Sókn kvenna innan flokksins að undanförnu endurspeglaðist líka í setningarræðu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins á landsfundinum.  Hann sagði: ,,Kannanir benda til þess að fleiri konur verði kjörnar á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor en nokkru sinni fyrr. Auk þess hefur Sjálfstæðisflokkurinn undanfarið mælst með jafnmikið fylgi meðal karla og kvenna. Þetta er mikið gleðiefni. Við höfum á að skipa öflugri framvarðasveit í Sjálfstæðisflokknum og sterkum listum. Það er valinn maður í hverju rúmi og að sjálfsögðu munum við gæta þess að hlutur karla og kvenna úr okkar röðum verði jafn þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun.“

Góður árangur í prófkjörum

Árangur kvenna í nýlegum prófkjörum flokksins er einnig mjög glæsilegur.  Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi borgarstjóri vann stórsigur í Reykjavík .  Þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttur fengu afgerðandi kosningu í 1. og 2. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Ríkharðsdóttur náði glæsilegum árangri  í prófkjörinu í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum og lenti í 2. sæti. Þar fara sterkir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, sem geta gert kröfu um ráðherrasæti í næstu ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að.

Þá má nefna tvær nýjar og öflugar konur  í Norðausturkjördæmi í 2. og 3. sæti listans, þær Valgerði Gunnarsdóttur og Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur.  Einnig þær Sigríði Andersen og Áslaugu Friðriksdóttur sem skipa 4. og 5. sæti listans í Reykjavík suður.  Ingibjörgu Óðinsdóttur og Elínbjörgu Magnúsdóttur sem skipa 4. og 5. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður.  Karen Elísabet Halldórsdóttur og Bryndís Loftsdóttir skipa 7. og 8. sæti  í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum og  Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir er í 3. sæti  í Norðvesturkjördæmi, en Norðvesturkjördæmi var eina kjördæmið þar sem ekki var haldið prófkjör á vegum flokksins.

Konur munu því svo  sannarlega setja sitt mark á kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingskosningarnar 27. apríl næstkomandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur