Þriðjudagur 15.10.2013 - 18:36 - FB ummæli ()

Eins og að breiða yfir Akropolis

Ræða sem ég flutti á Alþingi í dag.
Virðulegi forseti.
Við Íslendingar fögnum um þessar mundir 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara með meiru.  Ef ekki hefði verið fyrir ótrúlegan dugnað og eftirfylgni Árna þá ættum við Íslendingar aðeins brot af þeim handritum sem við eigum í dag.  Í síðustu viku var haldin glæsileg alþjóðleg ráðstefna í Norræna Húsinu í tilefni afmælisins sem um 200 manns sóttu þar á meðal fjöldi erlendra fræðimanna. Á sama tíma er hvergi hægt að skoða handritin þessa mestu dýrgripi íslensku þjóðarinnar og þó víðar væri leitað.  Árið 2002 var sett upp handritasýning í Þjóðmenningarhúsinu sem hefur verið opin allar götur síðan, en var lokað 1. september síðastliðinn.
Á sínum tíma var það skilyrði fyrir því að  Árnastofnun gæti sett upp handritasýningu í Þjóðmenningarhúsinu að þar yrði gæsla allan sólarhringinn. Var því veitt sérstök aukafjárveiting til Þjóðmenningarhússins svo hægt yrði að ráða næturverði vegna handritasýningarinnar.
En síðan er Árnastofnun tilkynnt að ekki sé gert ráð fyrir  öryggisgæslu frá 1. september í Þjóðmenningarhúsinu, einmitt núna í haust þegar við fögnum afmæli Árna Magnússonar. Þar með var stofnunni nauðugur einn kostur að flytja handritin af sýningunni. Ekki verður séð að hér á landi séu til sýningargripir sem brýnna er að almenningur og ferðamenn hafi greiðan aðgang að en handritin í Árnasafni. Þá er vil ég taka fram að ég er sammála því að fresta byggingu íslenskra fræða, því henni höfum við ekki efni á einmitt sem stendur, en við höfum ekki efni á að loka handritin okkar inni. 
Það væri svona svipað og ef  Grikkir myndu ákveða að breiða yfir Akrópólis, eða Egyptar að lokuðu leiðum að pýramídunum miklu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur