Sunnudagur 16.11.2014 - 20:17 - FB ummæli ()

Verjum Reykjavíkurflugvöll

Framtíð Reykjavíkurflugvallar er stórmál sem varðar alla þjóðina og getur aldrei orðið einkamál borgaryfirvalda. Þess vegna á ég afar erfitt með að skilja þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar að gefa út framkvæmdaleyfi til verktaka á Hlíðarendasvæðinu. Með þeirri ákvörðun er borgin í raun að gera svokallaða neyðarbraut ónothæfa. Þrátt fyrir að hin nýja byggð nái ekki inn á umrædda flugbraut mun hún hindra bæði aðflug og brottflug. Það segir sig sjálft að við megum alls ekki missa þessa braut, því þrátt fyrir að hún sé sjaldan notuð skiptir hún miklu máli í verstu veðrum og allar áætlanir í farþega- og sjúkraflugi gera ráð fyrir því að hún sé til staðar.
Ein veigamestu rökin fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni eru þau að í höfuðborginni er eina hátæknisjúkrahús landsins og því lífsnauðsynlegt að koma fólki sem veikist alvarlega fljótt og örugglega til höfuðborgarinnar. Það er því mikið öryggismál að hafa flugvöllinn svo skammt frá aðalsjúkrahúsi landsins. Ég er því ekki reiðubúin sem alþingismaður og borgari þessa lands að sætta mig við það að þessi öryggis- og lífsgæðamál fólksins í landinu verði skert með þeim hætti sem nú er verið að gera.

Og það er þrengt að flugvallarstarfseminni á Reykjavíkurflugvelli víðar, því gert er ráð fyrir að svokallaðir Fluggarðar hverfi af flugvallarsvæðinu á næstu tveimur árum. Vel má kalla Fluggarða grasrót flugsins. Garðarnir eru byggingar upp á um 8.000 fermetra og þar eru geymdar og gerðar út um 80 flugvélar. Í Fluggörðum hafa aðstöðu ýmis félög, fyrirtæki, flugskólar, verkstæði og fleira. Það er því augljóst mál að flugvallarstarfsemin mun skerðast til muna ef þessi áform ná fram að ganga.

Það eru engin önnur flugvallarstæði sem geta leyst Reykjavíkurflugvöll af hólmi að svo komnu máli, auk þess sem flutningur flugvallarins myndi kosta þjóðina milljarðatugi. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður molaður niður með þessum hætti þá verður hann auðvitað að endingu ónothæfur. Getur verið að það sé einmitt það sem borgaryfirvöld stefna að leynt og ljóst?

(grein sem birtist í Fréttablaðinu 1o. nóvember sl.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur