Fimmtudagur 11.06.2015 - 20:07 - FB ummæli ()

Rætt um mansal í Ríga

Í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, er mansal landlægt vandamál og mjög margar konur þaðan verða fórnarlömb þess sem kallað hefur verið nútíma þrælahald. Nýlega fór ég ásamt nokkrum þingmönnum Norðurlandaráðs til fundar við lettnesk yfirvöld í Ríga til að fræðast um stöðuna og bjóða hjálp Norðurlandaþjóðanna í baráttunni gegn mansali.

Mjög erfitt er að uppræta mansal þar sem glæpamennirnir hafa afar föst tök á fórnarlömbum sínum. Einnig skortir mjög á að almenningur sé meðvitaður um mansal og eðli þess. Mansal, en man er gamalt íslenskt orð sem þýðir þræll eða ambátt, fer m.a. þannig fram að brotamennirnir nýta sér fátækt, menntunarskort, eiturlyfjafíkn eða hreinlega beita hótunum. Fórnarlömbunum eru boðin vel launuð störf eða námstækifæri. Þegar til kastanna kemur eru tilboðin blekking og konurnar þá fastar í vef brotamanna. Um velskipulagða glæpastarfsemi er að ræða þar sem ávinningur glæpamannanna er gríðarlegur. Fórnarlömb mansals verða oft kynlífsþrælar; þvingaðar til að stunda vændi með margs konar hætti, á nuddstofum eða nektardansstöðum. Mansal á ungmennum er einnig vel þekkt þar sem börn eru hneppt í þrældóm til kynlífs eða vændis sem og til þrælkunar við ýmis framleiðslustörf.

Á fundinum í Ríga hittum við þingmenn fulltrúa mannréttindanefndar lettneska þingsins, innanríkisráðuneytisins, saksóknara og lögreglu. Auk þess hittum við systursamtök Stígamóta á Íslandi sem kallast MARTA. Þau samtök hafa unnið afar gott starf við að aðstoða fórnarlömb mansals og uppfræða almenning.
Í heimsókninni buðu Norðurlöndin fram aðstoð sína við lettnesk yfirvöld, til dæmis með þeim hætti að auka samstarf og samþjálfun lögreglu. Þess utan lýstum við þingmennirnir yfir miklum vilja til þess að nota stjórnmálavettvanginn á Norðurlöndum til þess að aðstoða nágranna okkar við Eystrasalt í baráttunni gegn mansali.

Ég vil skora á okkur Íslendinga að vera vel á verði þegar mansal er annars vegar en því miður hafa komið upp nokkur mál hér á landi. Um langt skeið hafa dansstaðir eða kampavínsklúbbar átt upp á pallborðið hér á landi þrátt fyrir sterkan grun um tengsl slíkra staða við vændi og mansal.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. júní 2015)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur