Föstudagur 19.10.2012 - 13:12 - FB ummæli ()

Beiðni til Brandarakastljóss

Í Kastljósinu, virtasta fréttaskýringaþætti íslenskra fjölmiðla, er pláss fyrir framhaldsskólahúmor. Það væri nú alveg ágætt ef fréttaþurrð væri ástæðan fyrir því að brandarastrákar fá að vera með. En er virkilega svo mikil gúrkutíð þessa dagana að fréttamönnum Kastljóssins detti bara ekkert merkilegra í hug? Ef svo er, þá er ég með ábendingu: Huang Nubo. Eða var það Nubo Huang?

Ég veit ekki hvort nafnið á að vera á undan en þið vitið hvern ég á við. Þennan sem segir öllum í útlöndum að hann sé að kaupa Norðurland. Jamm, fréttir fjölmiðla af Nubo snúast nefnilega aðallega um það hvað hann sjálfur segir einhverjum í útlöndum, og svo að bissnesskallarnir sem eru að selja landið segi það sé allt saman lygi, eða þá misskilningur vegna tungumálavandræða. Kranablaðamennskan í hávegum höfð. Engar fréttir berast af því hvað stendur eiginlega í samningsdrögunum. Um það vita fáir; það eru helst þeir sem fylgjast með skrifum Láru Hönnu Einarsdóttur í athugasemdakerfum netmiðlanna sem hafa minnstu hugmynd um efni og áherslur.

Síðasta góða umfjöllunin sem ég sá um Grímsstaðamálið voru einmitt bloggpistlar eftir Láru Hönnu. Þessi pistill kemur inn á það sem þá var að gerast í málinu, m.a. er tengill á samning sem þá hafði verið gerður. Að öðru leyti er fjallað um önnur umsvif Nubos. Pistillinn var birtur í júlí og nokkrum dögum síðar þessi grein sem snýst aðallega um það hvað annað Nubo hefur verið að bardúsa. Sigrún Davíðsdóttir hefur einnig fjallað um umsvif Nubos erlendis en ekkert nýverið. Þessar tvær konur hafa staðið sig með prýði en nú höfum við ekkert bitastætt heyrt í marga mánuði. Og hvað í fjáranum þessi samningur snýst um, það bara vita ekki aðrir en þeir sem hafa lesið hann.

Kæru Kastljóssmenn, eruð þið búnir að lesa samningsdrögin? Ef ekki, eftir hverju eruð þið að bíða? Á fundi í HÍ fyrir um 10 dögum kom fram að Lára Hanna Einarsdóttir og Jón Þórisson hefðu þessi drög undir höndum. Ef bissnesskallarnir sem segja þessa samninga svona ljómandi góða, vilja ekki afhenda ykkur gögnin, þá er ég viss um að Jón og Lára Hanna myndu með glöðu geði redda ykkur. Og ef þið hafið lesið drögin, finnst ykkur virkilega engin ástæða til að upplýsa þjóðina um það hvað stendur í þeim? Eða eruð þið að bíða eftir að Lára Hanna, eða einhver annar bloggari, taki það að sér í sjálfboðavinnu?

Kæru Kastljóssmenn, ólíkt ykkur, eru Lára Hanna og Jón Þórisson ekki fréttamenn á launum hjá ríkinu. Ég er  viss um að þau munu ekki láta Nubo kaupa Norðurland án þess að gera rækilega grein fyrir því fyrst hvað er eiginlega verið að selja honum, leigja eða gefa en ef leikmenn neyðast til að taka það að sér, ber það vitni um frekar ömurlegt ástand í íslenskri blaðamennsku. Ég get auðvitað ekki krafist þess af ykkur að þið fjallið um þetta mál ef ykkur finnst ekki ástæða til þess, en mig langar að biðja ykkur um eitt; ef þið ætlið að láta sjálfboðaliða sjá um að upplýsa íslenskan almenning um það hvað er að gerast á Fjöllum, viljiði þá í það minnsta vera svo vænir að biðja unglingadeildina að segja prumpubrandara um Nubo og vísa á bloggið hennar Láru Hönnu í leiðinni?

 

Þessi færsla var birt fyrr í dag hér

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar
Efnisorð:

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics