Miðvikudagur 07.11.2012 - 21:27 - FB ummæli ()

Hugtakaskýringar Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–

Í pistlunum sem ég tengi á hér að ofan ræði ég Kynungabók og kynjafræðikennslu í skólum sem tilraun til að koma á nýju kennivaldi. Lokakafli Kynungabókar fjallar um stjórnkerfi og lagaumhverfi jafnréttismála. Ég hef ekkert við hann að athuga og að sinni ætla ég heldur ekki að gera athugasemdir við annálinn yfir áfanga í jafnréttismálum,sem fylgir. Hinsvegar hef ég ýmislegt við hugtakalistann aftast í bókinni að athuga. Ég ræddi hina víðáttuvitlausu skilgreiningu á feminisma í þessum pistli. Auk þess að vera ónothæf er hún ekki í neinu samræmi við almennar skilgreiningar á feminisma sem finna má víða t.d. hér. Ég ætla ekki að tíunda allt sem betur mætti fara í hugtakaskýringunum en aðeins að nefna nokkur dæmi til viðbótar.

Eðlishyggja 

Skýring Kynungabókar á eðlishyggju er svohljóðandi:

Eðlishyggja í tengslum við kynferði felur í sér þá hugmynd að kynin fæðist með ólíka eiginleika og skapgerð. Kynjunum er þá stillt upp sem andstæðum og alhæft um eiginleika þeirra sem eru af sama kyni oft út frá staðalmyndum sem byggir á gömlum hugmyndum um kynhlutverk. Sem dæmi er algengt að tala um móðureðli kvenna, að konur fæðist tilfinninganæmari og umhyggjusamari frá náttúrunnar hendi en karlar séu árásargjarnari og virkari í eðli sínu.

Það er beinlínis óheiðarlegt að halda því fram að þeir sem aðhyllast eðlishyggju stilli kynjunum upp sem andstæðum og alhæfi um eiginleika þeirra. Ég hef aldrei séð fræðilega greiningu sem gengur út frá eðlishyggju án þess að reiknað sé með að umhverfi hafi mótandi áhrif líka. Hið rétta er að fjölmargir vísindamenn telja ótvírætt að sterkari tilhneigingar í ákveðna átt séu líffræðilega kynbundnar. Það sem við köllum „móðureðli“ og „árásarhneigð“ megi að nokkru leyti skýra með ólíkri hormónastarfsemi kynjanna.

Kynhlutverk

Fleiri rangfærslur koma fyrir í hugtakaskýringum Kynungabókar. Í skýringunni á hefðbundnum kynhlutverkum er m.a. þetta:

Hugmyndir um sérstök kynhlutverk fyrirfinnast alls staðar en þau eru breytileg frá einu samfélagi til annars og frá einu tímabili til annars.

Þetta er mjög vafasamt. Konur hafa nánast alltaf og allsstaðar borið meginábyrgðina á umönnun ungra barna og sjúkra. Karlar hafa nánast alltaf og allsstaðar borið meginábygð á vernd samfélagsins gegn hættum. Það heyrir til algerra undantekninga ef þessu er öðruvísi farið. Konur taka vissulega við karlmannsstörfum ef samfélagsaðstæður krefjast þess, t.d. á stríðstímum en þeim er umsvifalaust húrrað í fyrri hlutverk um leið og ástandið breytist aftur. Karlastörf verða ekki kvennastörf, heldur gegna konur karlastörfum í neyð og það er út af fyrir sig áhugavert viðfangsefni jafnréttisfræðslu. Eftir stendur að menningarmunur á hugmyndum um kynhlutverk birtist fyrst og fremst í því hver ber ábyrgð á einstaka verkefnum, en heildarmyndin er á flestum stöðum afskaplega lík.

Klám og klámvæðing

Skilgreiningin á klámi gæti verið nothæf til að benda unglingum á að til er klám sem sérstök ástæða er til að líta gagnrýnum augum. Hún nær þó enganveginn yfir allt klám:

Klám hefur verið skilgreint á þann hátt að það sé efni sem sýnir kynlíf og/eða afhjúpuð kynfæri í tengslum við misnotkun og niðurlægingu þannig að slík hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel hvatt til hennar.

Væri hægt að taka mark á feministum, yrði ég manna fyrst til að fagna þessari skilgreiningu. Það er ekkert einfalt að skilgreina klám, og þótt sé fullkomlega óraunhæft að meirihluti unglinga hafni kynferðislegu efni með öllu, væri kannski hægt að fá einhverja til að vanda valið, eins og ég hvatti til hér. Gallinn við skilgreininguna er sá að hún er ekki í neinu samræmi við það sem almenningur skilgreinir sem klám, sem er hreint ekki alltaf niðurlægjandi eða tengt misnotkun. Hún er heldur ekki í samræmi við það sem kvenhyggjufólk skilgreinir raunverulega sem klám, sem er allt frá legófígúrum með kvenleg útlitseinkenni og upp í myndbönd af raunverulegri barnanauðgun. Ef á að kenna kynjafræði í skólum, væri lágmark að sett yrði fram skilgreining sem lýsir raunverulegri afstöðu kynjafræðinga, sem er þessi:

Klám er allt sem feministum dettur í hug að tengja við eitthvað kynferðislegt, hversu langsótt sem það er.


Misræmið í hugtakanotkun birtist svo strax í næstu hugtakaskýringu sem er þessi:

Klámvæðing er heiti á því menningarferli þegar klám og hlutverk, myndmál, táknmyndir og orðfæri úr kláminu smeygja sér inn í okkar daglega líf sem normaliserað, samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri.

Samkvæmt þessu er „klámvæðing“ t.d. það þegar orðfæri eins og píka, böllur og ríða, orð sem fyrir 35 árum þóttu dónaleg og sáust ekki á prenti nema þá í Tígulgosanum, eru tekin upp í daglegri orðræðu. Auðvitað er það ekki það sem þær eiga við með þessu en hvern fjandann eiga þær þá við? Og hvernig rímar sú skoðun við misnotkun og niðurlægingu að það sé „klámvæðing“ að lofa stelpum að læra um tísku? Í alvöru talað, finnst ykkur vera heil brú í þessu?

 

Kynbundið ofbeldi – misræmi í skýringum

Ég hef þegar fjallað um sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi. Athygli vekur misræmi milli þeirrar skýringar sem gefin er í lesefninu sjálfu og svo í hugtakalistanum. Í kaflanum um kynbundið ofbeldi (bls 33) er skilgreiningin þessi;

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám. Ofbeldið miðar að því að lítillækka, hlutgera og/eða ráða yfir öðrum einstaklingi án tillits til vilja eða líðan þess sem fyrir því verður.

Í hugtakakaflanum er það aftur á móti skilgreint sem:

Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáningar brotaþola. Einnig á það við um hótanir um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Þessi skilgreining er öllu ásættanlegri því lykilatriði til þess að flokka ofbeldi sem kynbundið er að það beinist að öðru kyninu og sé á grundvelli kynferðis. Ég efast þó um kosti þess að flokka ofbeldi í kynbundið og ókynbundið enda er ofbeldi óásættanlegt hvernig sem á það er litið.  Bent hefur verið á að algengnara sé að nauðganir á konum en körlum séu notaðar sem vopn í stríði. Algengara er að karlar séu pyntaðir og látnir hverfa. Talað er um kynferðislega stríðsglæpi sem kynbundið ofbeldi en af einhverjum ástæðum er aldrei rætt um stríðsglæpi gegn körlum sem kynbundna. Hvernig stendur á þessu misræmi og hvaða kosti hefur þessi kyngreining á ofbeldi?

Undrun vekur að sum af lykilhugtökum kvenhyggjunnar koma hvergi fyrir í Kynungabók, hvorki í hugtakalistanum né meginmálinu. Þetta eru hugtök eins og „feðraveldi“ og „nauðgunarmenning“, hugtök sem sannarlega stendur til að troða upp á skólabörn. Ég mun gera þeim skil í næsta pistli í þessari röð, sem jafnframt verður sá síðasti um fyrirhugaða jafnréttisfræðslu í skólum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics