Í dag ræða netverjar nýútkomnar föndurbækur fyrir börn. Bláa bókin er með myndum af drengjum sem stefna á að verða geimfarar og bleika bókin sýnir stúlkur að ryksuga. Ég hef ekki séð meira af þessum bókum en myndirnar sem sjá má hér en ef þetta er allt í þessum dúr þá er ég svosem ekkert hissa á því að sjá ummæli um að jafnréttisbaráttan hafi engu skilað.
Ég hef gaman af að skoða staðalmyndir, ekki síst í barnabókum og dægurlagatextum. Staðalmyndir í listum má oft nota til að vekja athygli á forneskjulegum viðhorfum og sá er nú tilgangurinn hjá þessari konu.
Hvort það skilar svo tilætluðum árangri að ganga fram af heilagri vandlætingu, án þess að virða höfundum það til vorkunnar að vera börn síns tíma, það er svo önnur saga. Það er ekki svo í dag að hann fái bók en hún nál og tvinna og þó glymur „Hátíð í bæ“ allsstaðar í desember. Ólíklegt er því að fjöldinn hafni gömlum jólasöngvum vegna karlrembunnar í þeim og sennilega finnst flestum þetta bara óþægilegt tuð, helst til þess ætlað að eyðileggja jólin.
En þeir sem eru að gefa út barnabækur í dag, eru þeir börn síns tíma? Eða einhverrar allt annarrar kynslóðar? Af hverju lifa staðalmyndir frá 1950 svona góðu lífi þrátt fyrir þrotlausa gagnrýni og fordæmingu? Getur verið að sú taktík sé bara ekkert sérstaklega árangursrík?
Ef áratuga reiði og hneykslun skilar ekki þeim árangri að almenningi finnist eitthvað athugavert við kynjaímyndir og aðrar staðalmyndir, væri þá kannski ráð að prófa aðra nálgun? Hér er ein hugmynd, góðlátlegt grín sem er afhjúpandi en þó laust við predikunartón. Mér finnst það aldeilis ágætt.