Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:
Hugtakaskýringar Kynungabókar
Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa?
Það vekur nokkra undrun að orðið feðraveldi kemur hvergi nokkursstaðar fyrir í Kynungabók, ekki einu sinni í hugtakaskýringum. Þetta kemur á óvart vegna þess að hugmyndin um feðraveldið er miðlæg í nálgun feminista á öll samfélagsmál og rímar fullkomlega við þá hugmynd sem lagt er upp með í inngangi bókarinnar; að kynjamisrétti í nútímanum sé afleiðing þess að samfélag og menning hafi áður fyrr mótast af hagsmunum karla.
Aðgreiningin milli ofbeldis og kynbundins ofbeldis byggir einmitt á feðraveldishugmyndinni og þar sem kynbundið ofbeldi er, ásamt meintri klámvæðingu, uppáhaldsviðfangsefni kynjafræðinga, er líklegt að það fái mikla athygli í „jafnréttisfræðslunni“. Í vissu samhengi eiga þessi hugtök rétt á sér. Feðraveldi er t.d. við lýði í Mið-Austurlöndum, þar sem karlar hafa formlegt vald til að stjórna örlögum barna sinna, einkum dætra. Þar sem feðraveldi ríkir er kynjamismunun kerfisbundin. Sumstaðar er útilokað fyrir konur að hafna hjónabandi. Einhleypar konur og ekkjur eru upp á bræður sína komar og lúta þeirra stjórn. Fólki er refsað grimmilega ef það varpar rýrð á heiður fjölskyldunnar, m.a. fyrir ástarglæpi. Nýlegt dæmi frá Pakistan er saga unglingsstúlku sem var staðin að því að horfa á pilta en í Pakistan þykir það hinn mesti hórlifnaður og klámsýki. Móðir telpunnar brást við eins og góðum púrítana sæmir og drap hana með því að skvetta á hana sýru. Piltur hefði ekki hlotið sömu örlög, þetta er því kynbundið ofbeldi.
Þar sem alvöru feðraveldi viðgengst eru konur kúgaðar. Í Afghanistan varðar það allt að 15 ára fangelsi fyrir konu að hlaupast að heiman í óþökk fjölskyldunnar. Það er feðraveldi. Yfirvöld skipta sér ekki að því þótt fólk myrði dóttur sína eða systur til þess að verja heiður fjölskyldunnar og yfirvaldið tekur sjálft að sér að hýða konur, fangelsa og jafnvel grýta þær til bana, það er feðraveldi. Að bera kerfisbundin mannréttindabrot saman við tilviljanakennda glæpi og halda því fram að allt ofbeldi gagnvart konum megi skýra á sama hátt, þ.e. út frá feðraveldinu, er frekleg afskræming á þeim veruleika sem flest okkar lifa við, veruleika þar sem ofbeldi er ekki aðeins ólöglegt heldur því harðar fordæmt ef karlmaður ræðst á konu.
Þessi heimildamynd um glæpakonur í Afghanistan gefur dálitla innsýn í heim þeirra kvenna sem búa við feðraveldi. Vinsamlegast horfið á hana og segið mér svo hvort ykkur finnst viðeigandi að tala um íslenskar konur sem fórnarlömb „feðraveldisins“ af því að einhver bókaútgáfa gefur út bleika bók (ekki lögboðna uppeldishandbók) þar sem telpur eru sýndar við húsverk.
Nauðgunarmenning
Álíka ógeðfelld afskræming feminista á veruleikanum birtist í öðru hugtaki sem merkilegt nokk er ekki er að finna í Kynungabók. Það er orðið „nauðgunarmenning“, sem merkir að kynferðisofbeldi þyki bara alveg sjálfsagt og eðlilegt. Orðið „nauðgunarmenning“ er nánast eins og mantra í munni feminista. Ef konu er nauðgað er það sönnun þess að við búum við nauðgunarmenningu. Ósmekklegur húmor er merki um „nauðgunarmenningu“ og sömuleiðis tónlistarmyndbönd og auglýsingar þar sem gert er út á kynþokka og kynferði.
Á hverju ári eru bílstjórar í tugatali staðnir að ölvunarakstri. Engum dytti þó í hug að tala um ölvunarakstursmenningu. Til þess að það væri réttlætanlegt þyrfti ölvunarakstur að tíðkast almennt og vera viðurkennd hegðun sem réttarkerfið liti mildum augum. Öðru gegnir um „nauðgunarmenningu“, það orð notar kvenhyggjufólk hiklaust enda þótt þótt fordæming almennings á kynferðisofbeldi sé slík að menn sem einu sinni hafa fengið á sig slíka ásökun eiga sér ekki viðreisnar von. Jafnvel þótt málið fari aldrei fyrir dóm er orðsporið ónýtt, menn hafa misst æruna, vinnuna og neyðst til að flýja land, þrátt fyrir að hafa verið sýknaðir, en nei, kvenhyggjufólk sér menningu okkar ekki sem menningu sem fordæmir nauðganir heldur sem menningu sem hefur kynferðisofbeldi til vegs og virðingar. Engu skiptir heldur þótt dómar í kynferðisbrotamálum hafi þyngst verulega á fáum árum og þótt minni sönnunarkröfur séu gerðiar í kynferðisbrotamálum en nokkrum öðrum málaflokki, áfram er þessu orði þjösnað inn í umræðuna og iðulega gefið til kynna að réttarkerfið sé einnig gegnsýrt af umburðarlyndi gagnvart nauðgunum.
Á þessari mynd sem birtist í DV, má sjá hugmynd feminista um það hverskonar hegðun sé talin eðlileg í okkar samfélagi
Myndin hér að ofan er ágætt dæmi um ranghugmyndir feminista um samfélag sitt. Myndin sýnir jakkafataauglýsingu sem er svo ósmekkleg og svo langt frá því sem fellur undir eðlilega hegðun að jafnvel umsjónarmenn tískusíðu New York Magazine, sem seint verður talin málsvari femniskra gilda, sáu ástæðu til að benda á viðbjóðinn:
Most Disturbing Ad – Duncan Quinn
We came across this in City and were immediately disturbed. Duncan Quinn makes bespoke suits, but who’s looking at that when the woman looks like she was drugged and dragged to the woods for strangling?
Réttupphend sem telur að myndin sýni eðlilega hegðun.
Karlar nauðga
Er þá ekki bara gott mál að hugmyndir um feðraveldi og nauðgunarmenningu skuli ekki vera kynntar sérstaklega í Kynungabók? Jú, ef við gætum treyst því að jafnréttisfræðslan hvikaði hvergi frá Kynungabók þá hefði ég ekki áhyggjur. Kynungabók er að vísu skelfing vond sem jafnréttisnámsbók því hún lítur fram hjá jafnréttismálum karla en varla beinlínis skaðleg ein og sér. Hún gefur sig út fyrir að vera hlutlæg skrá yfir tölfræðilegar upplýsingar (ekki tölfræðilegar staðreyndir heldur upplýsingar frá feministahreyfingum og kynjafræðingum) og eins og ég tók fram í fyrsta pistli mínum um Kynungabók, er hvergi ráðist beint á karlmenn.
En horfumst í augu við staðreyndir. Kynungabók er óbærilega leiðinleg. Enginn kennari fengi unglinga til að lesa hana nema bjóða líka upp á krassandi umræður og aukaefni. Kvenhyggjusinnar hafa flaggað orðunum feðraveldi og nauðgunarmenning við öll möguleg tækifæri síðustu árin og enginn sem hefur fylgst með umræðunni velkist í vafa um löngun þeirra til að þessi hugtök verði almennt viðurkennd. Það er m.a.s. hæpið að hægt sé að fjalla um feminiskan skilning á kynbundnu ofbeldi án þess að draga nauðunarmenninguna og feðraveldið inn í umræðuna. Ef kynjafræðingum verður gefinn aðgangur að skólabörnum MUNU mýturnar um feðraveldi og nauðgunarmenningu verða predikaðar í skólum landins. Og þar með erum við farin að nálgast kenninguna um að karlar nauðgi. Ekki að til séu karlar sem nauðgi, heldur að kynferðisofbeldi sé hegðun sem ávallt megi vænta af körlum.
Nú býst ég við að einhverjir lesenda séu komnir með nafn Sóleyjar Tómasdóttur fram á varirnar en við skulum athuga að það er ekki nein einkaskoðun Sóleyjar að karlar séu upp til hópa líklegir til að beita kynferðisofbeldi. Þetta er algeng skoðun innan feminstahreyfingarinnar, Sóley hefur bara vakið athygli fyrir að orða það hispurlaust. Þessi hugmynd endurspeglast m.a. í „rannsóknarniðurstöðunni“ sem Guðrún Margrét Guðmundsdóttir kemst að í MA ritgerð sinni, þegar hún gerir orð Diane Russell að sínum:
Hún segir að fyrir marga karla séu árásargirni og kynlíf nátengd fyrirbæri. Því hugsa margir ómeðvitað: Það að vera árásargjarn er karlmannlegt, það að vera kynferðislega árásargjarn er karlmannlegt, nauðgun er kynferðislega árásargjörn, þar að leiðandi er nauðgun karlmannleg.
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, sú sem kemst að þeirri niðurstöðu að karlar nauðgi af því að það þyki karlmannlegt, er einn af höfundum Kynungabókar. Hér má sjá fyrirlestur byggðan á MA ritgerð hennar, sem heitir einmitt: Af hverju nauðga karlar? Við getum víst reiknað með því að innan skamms verði skóladrengjum gefin ofangreind skýring á því.