Þriðjudagur 13.11.2012 - 13:06 - FB ummæli ()

Anna Bentína og gervivísindin

Kynjafræðingur skrifar Smugugrein og hafnar því að kynjafræðin séu gervivísindi. Við skulum skoða rökin:

Kynjafræðin skýlir sér aldrei á bak við yfirvarp „hlutleysis“, hún setur einmitt spurningarmerki við hlutleysi og segir það vart vera til. Kynjafræðin hafnar að hægt sé að framleiða „hlutlausa“ og „réttmæta“ þekkingu.

Við erum semsagt að tala um „vísindi“ sem hafna því að hægt sé að komast að réttum niðurstöðum. Markmið vísinda er að skapa raunverulega þekkingu út frá aðferðum sem hægt er að prófa. Tilgáta telst ekki sönnuð nema niðurstaðan sé alltaf sú sama, óháð óskum rannsakandans. Þar með er grein sem gefur skít í hlutleysi EKKI vísindagrein.

 Að setja sig á stall sem hlutlausan rannsakanda og líta á þátttakendur í rannsóknum sem „viðföng“ setur rannsakandann og hennar markmið ofar þátttakendunum.

Á manneskjan við að með því að hafa vísindaleg vinnubrögð í heiðri sé rannsakandinn að „setja sig á stall“? Markmið rannsóknar er ekki að geðjast þátttakendum heldur að finna áreiðanlega þekkingu. Rannsakendur sem vita það ekki ættu að halda sig við mannúðarstarf og hætta að þykjast vera vísindamenn. Þeir eru það nefnilega ekki.

Að nota kynjafræði sem greiningartæki á samfélaginu er ein leið sem hægt er að fara, en hún er ekki eina leiðin. Það gerir hvorki lítið úr aðferð kynjafræðinnar eða gerir hana að gervivísindum.

Hér er ég loksins sammála Önnu Bentínu, þ.e.a.s. um fyrri málsgreinina. Það er hægt að nota kynjafræði sem aðferð til að skoða samfélagið. Rétt eins og hægt er að nota bókmenntamódel til þess að skoða bókmenntir. Munurinn er sá að bókmenntafræðin gefur sig ekki út fyrir að vera raunvísindi en kynjafræðingar tala hinsvegar iðulega eins og hugmyndir þeirra séu jafn óvéfengjanlegar og stærðfræði. Þegar bókmenntafræðingar kynna rannsóknir sínar getur verið um tvennt að ræða. Annarsvegar hefur fræðimaðurinn uppgötvað eitthvað sem fellur undir þekkingu, t.d. getur samanburður á handritum leitt í ljós eitthvað um aldur frásagna og ævisaga höfundar getur skýrt eitthvað í skáldskap hans. Hinsvegar er um að ræða túlkun og bókmenntamódel eru einmitt dæmi um túlkun. Þá erum við að tala um aðferðir eins og t.d. að bera saman Stjörnustríð og Grimmsævintýri til að skoða hvort samskonar týpur koma fyrir og hvort sögurnar fylgja samskonar mynstri. Ég veit ekki dæmi þess að bókmenntafræðingur haldi því fram að hann hafi komist að einhverjum vísindalegum niðurstöðum með því að beita bókmenntamódeli en það sem kynjafræðingar gera er einmitt það, þeir setja túlkun fram sem staðreynd.

Ég viðurkenni samt vissa aðdáun mína á fólki sem treystir sér til að afgreiða hvað sé „skynsamlegt“ og „vísindalegt“.

Hér gefur höfundur til kynna að það sé voðalega flókið að skera úr um það hvað teljist vísindalegt og hvað ekki. Nú er ekkert um það deilt að einstaka rannsókn er sjaldan ef nokkurntíma fullkomin og það að margra ára háskólanám þurfi til þess að tileinka sér vísindaleg vinnubrögð segir okkur auðvitað að vísindi eru flókin og í stöðugri þróun. Það breytir því ekki að grundvallarlögmál vísinda eru einmitt þau sem Anna Bentína og aðrir kynjafærðingar hafna. Til þess að uppfylla vísindalegar kröfur þarf rannsakandinn að ganga út frá því að hann viti ekki svarið. Hann hefur auðvitað ákveðna tilgátu en rannsóknin þarf að vera unnin á þann hátt að hún leiði í ljós hvernig hlutirnir eru en ekki hvernig rannsakandinn telur að þeir séu. Rannsókn sem er gerð í þeim tilgangi að staðfesta hugmyndir rannsakandans, t.d. með því að handvelja þátttakendur sem eru líklegir til að gefa „æskileg“ svör, stenst ekki vísindalegar kröfur. Ég treysti mér ekki alltaf til að segja til það hvort rannsókn er vel unnin en í þeim kynjafræðirannsóknum sem ég hef séð er fúskið augljóst.

Vísindalegur rétttrúnaður hefur haft mikinn hljómgrunn meðal almennings sem kom í stað ofurvald kirkjunnar á tilgangi og tilurð heimsins.

Nú veit ég ekki hvað Anna Bentína á við með „vísindalegum rétttrúnaði“. Sjálf hef ég skilgreint rétttrúnað á þann veg að hollusta við málstaðinn verði heilbrigðri skynsemi yfirsterkari. Eitt af einkennum áreiðanlegra vísindarannsókna er það að þegar þær eru endurteknar sýna þær sömu niðurstöðu. Ef sama niðurstaða kemur fram aftur og aftur, óháð persónulegum skoðunum rannsakandans, getum við sett fram kenningu eða jafnvel sönnun. Það er ekki óskynsamlegt og því ekki um neinn“rétttrúnað“ að ræða. Það mætti hinsvegar kalla það vísindalegan réttrúnað að flagga niðurstöðum hlutdrægrar rannsóknar sem sannleika. Það er ekki vísindahyggjufólk sem gerir það, heldur einmitt áhangendur kynjafræðinnar.

Hugmyndin um gervivísindi styðst ekki við nein hlutlæg gögn og virðist hvíla á huglægu mati um hvað er skynsamlegt/vísindalegt og hvað ekki.

Þetta er bara einfaldlega rangt. Ég hef sennilega skrifað meira en nokkur annar Íslendingur um það fúsk sem einkennir kynjafræðina og hef margsinnis vísað í svokallaðar kynjafræðirannsóknir sem augljóslega standast engar vísindalegar kröfur.   Slíkar rannsóknir eru „hlutlæg gögn“ í þeim skilning að þær gefa mjög nákvæma mynd af vinnubröðgum kynjafræðinga. Ég hef margsinnis auglýst eftir vel unnum feminiskum rannsóknum en enginn hefur ennþá bent á eina einustu sem uppfyllir lágmarksskilyrði þess að teljast vísindaleg.

Þær [þ.e. feminiskar rannsóknir] rýna í líf kyjanna út frá hefðbundnum viðhorfum sem mótuð eru af kynjakerfinu, þar sem þær hafa lært hefðbundinn menningarlegan skilning á aðstæðum kynjanna. Á sama tíma rannsaka þær veröldina undir hinu nýja sjónarhorni femínismans og gagnrýna þennan opinbera og lærða skilning sem við höfum öll fengið í arf.

Hérna viðurkennir kynjafræðingurinn hreint út að „rannsóknir“ feminsta gangi út frá pólitísku sjónarhorni og byggi á hugmyndinni um „kynjakerfið“. Þetta er ósköp svipað því og ef yfirlýstur frjálshyggjumaður tæki að sér að rannsaka áhrif hátekjuskatts á velferð borgaranna. Hann myndi ganga út frá brauðmolakenningunni (þeirri hugmynd að fátæklingar græði á því að hafa ríka yfirstétt.) Hann tæki svo viðtöl við fimm kunningja sína sem allir teldu sig finna fyrir því á einhvern óljósan hátt að fjárhagsstaða almennings væri verri eftir að hátekjuskattar hefðu verið teknir upp. Rannsóknarniðurstaðan yrði sú að hátekjuskattur væri hið mesta böl, eins og allir hefðu nú svosem vitað fyrir þar sem brauðmolakenningin sé augljós sannindi.

Væri slík rannsókn góð aðferð til þess að skoða áhrif hátekjuskatts? Gæfi hún áreiðanlega mynd af orsakasambandi hátekjuskatta og eymdar almúgans? Eða gætum við afskrifað hana sem gervivísindi?

Grein Önnu Bentínu er að því leyti ágæt að hún varpar enn frekara ljósi á áhugaleysi kynjafræðinnar á vönduðum vinnubrögðum og áreiðanlegum niðurstöðum. Það er Háskóla Íslands til háðungar að halda verndarhendi yfir slíku fúski.

————–
Hér eru nokkrir tenglar á greinar sem ég hef skrifað um feminisma, gervirannsóknir og rangfærslur, ég á miklu fleiri pistla en hef ekki tíma til að taka saman alla tenglana í dag

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics