Mánudagur 19.11.2012 - 14:45 - FB ummæli ()

Nató ber líka ábyrgð á blóðbaðinu á Gaza

Ég styð tillögur um viðskiptabann gagnvart Ísrael. Ég styð allar aðgerðir gegn Ísrael sem ekki fela í sér mannréttindabrot. Íslendingar geta ekki afvopnað Ísraelsmenn en við getum gert þeim erfiðara fyrir með viðskiptabanni.

Ég er sannfærð um að friður mun ekki komast á fyrir botni Miðjarðarhafs fyrr en Ísraelsríki hefur verið leyst upp og Gyðingum boðinn ríkisborgararéttur á Vesturlöndum. Ég sé ekki aðra lausn, því á meira en sextíu árum hafa engar sáttaumleitanir borið árangur og jafnvel þótt Palestínumönnum yrði útrýmt væri það ekki lausn því nágrannaríkin myndu ekkert sætta sig við það. Það er heldur ekkert líklegt að Zionistar teldu nóg að ná allri Palestínu undir sig; þeir myndu áreiðanlega komast að þeirri niðurstöðu að Drottinn hersveitanna hefði ætlað sinni útvöldu þjóð nágrannalöndin líka. Eina lausnin á þessum átökum er sú að svelta hernaðarskrímslið en ef það gerist of skart verður Gyðingum útrýmt. Það væri því betri lausn ef Sameinuðu þjóðirnar fengjust til að viðurkenna að stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma hafi verið mistök og gerð yrði áætlun um að greiða fyrir þjóðflutningum áður en einhverjar hörmungar verða til þess að Bandaríkin klippi skyndilega á fjárhagsstuðning sinn við Ísrael.

Kannski væri nær að hætta viðskiptum við Bandaríkin en Ísrael. Bandaríkjamenn fjármagna hernað Ísraela og bera þar með mikla ábyrgð á manndrápum þeirra og mannréttindabrotum. Fjárhagsstuðningur þeirra skýrist ekki af neinum mannkærleika gagnvart Ísraelsmönnum heldur þjónar það heimsvaldaórum ríkisstjórnarinnar að hafa hernaðarítök fyrir botni Miðjarðarhafs. Af þeim sökum munu Bandaríkjamenn víst seint hætta að ausa í þá hít en hættan er sú að þeir neyðist til þess ef náttúruhamfarir, plágur eða einhverjir ófyrirséðir afburðir kalla stór fjárhagsleg áföll yfir Bandaríkin. Ja, eða viðskiptabann, en fyrr mun víst frjósa í Helvíti.

Bandaríkin bera ennþá mesta ábyrgð á ástandinu í Palestínu en þar sem Bandaríkjamenn treysta ítök sín er Nató sjaldan langt undan. Nató er ekki varnarbandalag  heldur stuðningsnet við heimsvaldasinnuð yfirvöld í Bandaríkjunum. Nató hefur m.a. staðið fyrir árásum á almenna borgara í löndum á borð við Afghanistan, þar sem almenningur er langhrjáður af fátækt, skorti á menntun og heilsugæslu, hefur búið við ógnarstjórn með tilheyrandi mannréttindabrotum og á enga möguleika á að verja sig. Nató hefur ekki fordæmt mannréttindabrot Ísraela gagnvart Palestínumönnum, heldur treyst samstarf sitt við Ísraelsher á undanförnum árum. Ísland er í Nató og ber þar með ábyrgð á illvirkjum Nató í Afghanistan, Pakistan og fleiri löndum. Aðildarríki Nató bera líka ábyrgð á hernaðarsamstarfi Nató og Ísraels.

Það er nánast útilokað að þjóðir heims taki sig saman um viðskiptabann gagnvart Bandaríkjunum en við getum nú samt alveg gert eitthvað meira en að deila myndum af viðurstyggð eyðingarinnar á facebook. Við getum t.d:

Fordæmt aðgerðir Ísraelsmanna á alþjóðavettvangi.
Fordæmt hernámið, landránið aðskilnaðarmúrinn og mannréttindabrot Ísraelsstjórnar .
Fordæmt stuðning Bandaríkjamanna við Ísrael.
Gengist fyrir alþjóðlegu viðskiptabanni gagnvart Ísrael.
Slitið stjórnmálasambandi við Ísrael.
Fordæmt samstarf Nató við Ísrael.
Gengið úr Nató.

Það fyrsta sem almenningur á Íslandi getur gert er að mæta á mótmælafund sem Ísland-Palestína boðar til fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna klukkan 17 í dag. Ég er ekki á landinu sjálf en  vona að sem flestir mæti.

 

Svo mæli ég með þessum fyrirlestri.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics