Þriðjudagur 20.11.2012 - 18:16 - FB ummæli ()

Hvað er þjóðarmorð?

Í umræðunni um ástandið í Palestínu hefur heyrst það sjónarmið að rangt sé að tala um meðferð Ísraela á Palestínumönnum sem þjóðarmorð. Með því sé verið að gengisfella hugtakið. Við skulum skoða réttmæti þess að nota orðið þjóðarmorð, með því að bera ástandið í Palestínu saman við skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á þjóðarmorði.

Í 2. grein sáttmála um varnir gegn þjóðarmorði, segir að með þjóðarmorði sé átt við sérhverja þá eftirtalinna aðgerða sem framin sé í þeim tilgangi að eyða að hluta eða í heild, hóp af sameiginlegu þjóðerni, þjóðarbroti, kynþætti eða trúarbakgrunni.

(a) Dráp á meðlimum hópsins.
(b) Að valda meðlimum hópsins alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða.
(c) Að setja hópnum viljandi lífsskilyrði sem eru til þess fallin að eyða honum að hluta eða í heild
(d) Íþyngjandi aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að koma í veg fyrir barnsfæðingar innan hópsins.
(e) Nauðarflutningar barna frá hópnum til annars hóps.

Síðustu tvö atriðin eiga ekki við um Palestínu. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt að Palestínumenn séu hindraðir í því að fjölga sér þótt rétt sé að benda á að þrátt fyrir að Ísrael heimti skatta af Palestínu hafa Palestínumenn ekki aðgang að ísraelsku velferðarkerfi. Ég veit heldur ekki til þess að börn séu flutt frá samfélagi sínu.  Hin atriðin þrjú eiga öll við og hvert þeirra um sig fellur undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á þjóðarmorði.

 

a)  Manndráp

Enginn mótmælir því með tækum rökum að mannfall í Palestínu sé gríðarlegt. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa 110 Palestínumenn fallið á Gaza í árásum síðustu daga en 3 Ísraelsmenn hafa fallið fyrir hendi Palestínumanna. Ég veit ekki hvort eru til nokkrar öruggar tölur um mannfall frá 1948 en til að gefa nokkra hugmynd þá getum við skoðað tölur frá utanríkisráðuneyti Ísraels og B’tSelem (það eru mannréttindasamtök sem taka ekki afstöðu með eða á móti Palestínu.)  Samkvæmt þeim heimildum féllu 7978 Palestínumenn á árunum 1987-2011 en 1503 Ísraelsmenn.  Hér er eingöngu um að ræða þá sem hafa fallið í beinum átökum. Ekki er tekið tillit til þeirra sem hafa látið lífið í fangelsum eða þeirra sem hafa dáið vegna þess að aðgengi lækna og sjúkrabíla að slösuðum og sjúkum hefur verið hindrað. Ekki er heldur reiknað með þeim þúsundum sem hafa horfið.

Það er ekki aðeins herinn sem sprengir hús til grunna og skýtur almenna borgara. Í Hebron, þar sem landnemabyggðir eru inni í palestínskum borgum, ganga landræningjar vopnaðir á götum úti. Almenningi í Hebron stendur meiri stuggur af landræningjum en hernum því ótti hersins við alþjóðasamfélagið dugar til þess að hermenn skjóta sjaldan nema telja sig geta réttlætt það fyrir sínum yfirmönnum. Landneminn skýtur hinsvegar á eigin ábyrgð.

Afar sjaldgæft er að nokkur sé dreginn til ábyrgðar fyrir dráp eða stórskaða á Palestínumanni en Palestínumaður sem sést taka upp stein getur reiknað með þriggja ára fangelsi.

 

b)  Fólk skaðað líkamlega eða andlega

Ég dvaldi á Vesturbakkanum tvo mánuði árið 2008 og heimsótti margar borgir. Hvergi hitti ég karlmann yfir 25 ára aldri sem  hafði ekki verið handtekinn a.m.k. einu sinni. Sé handteknum manni ekki sleppt samdægurs reiknar fjölskyldan með a.m.k. þremur mánuðum þar til honum er sleppt og oft fá menn engar skýringar á því hvað þeim er gefið að sök; það er „öryggisatriði“ að leyna ákæruefninu og dómnum. Langflestir ef ekki allir Palestínumenn sem sitja í fangelsi í Ísrael sæta meðferð sem er skilgreind sem pyntingar. Þeir eru sviptir svefni, hrelldir með hvellum hljóðum þegar minnst varir, bundið fyrir augu þeirra og þeir meiddir líkamlega. Ég hitti sjálf marga menn sem bera varanlegt líkamstjón af pyntingum í ísraelskum fangelsum og einn sem er örkumlaður eftir að hafa verið lokaður í pínulitlu búri sólarhringum saman.

Mótmælaaðgerðum (jafnvel friðsamlegustu göngum þar sem markmiðið er aðeins að komast að tilteknum stað og biðjast þar fyrir) svarar herinn með hljóðsprengjum, táragasi og gúmíkúlum. Þessi vopn eru ætluð til þess að leysa upp hóp þegar óeirðir eiga sér stað en ísraelski herinn beitir þessum ráðum á ólöglegan hátt. Hljóðsprengjum er varpað beint að fólki með þeim afleiðingum að það verður fyrir þungum höggum og hvassar flísar skerast inn í hold. Brennheitum táragasshylkjum er skotið beint inn í hóp fólks og gúmíkúlum (sem samkvæmt reglum á að skjóta í fætur) er skotið í augnhæð. Allt er þetta til þess fallið að skaða fólk líkamlega og andlega.

Andlegt tjón af völdum stríðs og ofsókna er ekki eins augljóst og líkamlegt tjón en engum dylst þó að ástand eins og það sem ríkir á Gaza leiðir til andlegs tjóns. Hátt hlutfall barna á Gaza ber einkenni áfallastreituröskunar. Það er ekki ágiskun frá liðsmönnum félagsins Ísland-Palestína heldur niðurstöður rannsókna sem hafa birst í ritrýndum vísindatímaritum, t.d. hér og hér. Báðar þessar greinar eru gamlar, svo þessar niðurstöður eiga ekkert bara við um atburði síðustu daga heldur langvarandi ástand.

Auk beinna aðgerða sem leiða til líkamstjóns og andlegra áfalla er mikið um óbeinar aðgerðir svo sem tafir á ferðum sjúkrabíla. Mörg dæmi eru um að konur hafi alið börn við vegatálma og því fylgja óþarfa veikindi og dauðsföll vegna ófullnægjandi heilsugæslu við fæðingu.

Þá eru ótaldar vísvitandi aðgerðir landræningja til að valda skaða. Palestínsk börn sem búa nálægt landnemabyggðum geta alltaf átt von á að vera grýtt á leið í skólann en þar sem palestínsk börn búa til herlög er hægt að handtaka þau og halda þeim föngnum í átta daga ef þau svara fyrir sig. Þann tíma sem ég dvaldist í Palestínu kom ég eitt sinn á stað þar sem landræningjar höfðu úðað piparúða inn um svefnherbergisglugga þar sem palestínsk hjón sváfu ásamt ungum börnum sínum. Þeir sömu höfðu spillt neysluvatnsbrunni fjölskyldunnar og ég heyrði framburð fleiri fjölskyldna sem höfðu orðið fyrir því að neysluvatn væri viljandi mengað. Þetta eru augljós dæmi um vísvitandi tilraunir til að skaða fólk vegna þjóðernis síns en ísraelska lögreglan er svo ólíkleg til að bregðast við kærum vegna slíkra mála að fólk reynir ekki einu sinni að kvarta.

 

(c) Skaðvænleg lífsskilyrði 

Vísvitandi aðgerðir Ísraelsríkis til þess að gera lífsskilyrði Palestínumanna óviðunandi dyljast engum sem kynnir sér fréttir frá Palestínu. Skiptingin á neysluvatni er kannski augljósasta dæmið en hér má sjá nýjustu fréttir af því hvernig vatni er skipt milli íbúanna. Hluti af áætlun Ísraela um að sprengja Gaza aftur á miðaldir felst einmitt í því að eyðilegga vatnslagnir. Varla er hægt að flokka það sem neitt annað en morðtilraun að hefta aðgang fólks að drykkjarvatni.

Palestínumenn eru ennfremur hindraðir í ýmsum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að viðhalda heilbrigði. Gaza er ekki eina svæðið þar sem holræsamál eru í ólestri en líklega er ástandið verst þar. Vatnsskortur og höft á innflutningi lyfja, öryggsbúnaðar og annarra nauðþurfta er ekki nýtt vandamál á Gaza, þetta er langvarandi ástand sem skapað er með einbeittum vilja ísraelskra yfirvalda, með því markmiði að skaða Palestínumenn, stökkva þeim á flótta og drepa þá.

Auk beinna skaðvænlegra aðgerða er óbreyttum borgurum svo gert ókleyft að sjá fjölskyldum sínum farborða, ekki aðeins með eignanámi og byggingu aðskilnaðarmúrsins sem takmarkar möguleika á atvinnu og námi verulega, heldur einnig með lögum um að fólk megi ekki reka fyrirtæki annarsstaðar en í sinni heimabyggð og lögum um eignaupptöku á landi sem ekki skilar arði í tiltekinn tíma. Fólkinu er svo gert ómögulegt að búa á sama stað og það rekur fyrirtæki og aðgengi þess að löndum sínum hindrað með öllum ráðum, löglegum sem ólöglegum. Þúsundir heimila eru á framfæri hjálparstofnana, sjaldnast vegna örorku eða annarra óumflýjanlegra aðstæðna, heldur vegna þess að fjölskyldufaðirinn situr í fangelsi eða hefur með beinum eða óbeinum hætti verið sviptur rétti til að rækta land og stunda launavinnu.

 

Ein helför réttlætir ekki aðra 

Hjá UNWRA eru nú 5 milljónir Palestínumanna á skrá yfir flóttamenn. Ekki er með neinni vissu hægt að segja til um hversu margir eru óskráðir á vergangi. Þetta fólk er ekki í ævintýraleit; það er á flótta af því að það býr við ofsóknir sem ógna rétti þess til lífs, frelsis, öryggis og mannlegrar reisnar. Ofsóknir sem Íslendingar styðja með stjórnmálasamstarfi sínu við Ísrael.

Ef til vill eru þeir sem mótmæla því að þjóðarmorð eigi sér stað í Palestínu að hugsa um gyðingaofsóknir nazista í síðari heimstyrjöldinni og finnst lítið koma til hörmunganna á Gaza í samanburði við frásagnir Elie Wiesel og annarra sem hafa lífsviðurværi sitt af sögum úr fangabúðum nazista. Ekki er nokkur vafi á því að gyðingaofsóknir nazista voru þjóðarmorð. Saklaust fólk var handtekið, aðskilið frá ástvinum sínum og vistað í pestarbælum þar sem taugaveikifarandur geysaði, það var svelt, þrælkað, sumir voru pyntaðir og tugir þúsunda létu lífið myrtir. Um það efast enginn, ekki heldur þeir sem telja Elie Wiesel kríta liðugt.

Ein helför réttlætir þó ekki aðra. Hugtakið þjóðarmorð á einnig við um það ástand sem nú hefur varað í Palestínu í 64 ár og má telja í meira lagi kaldhæðnislegt að ríki sem stofnað var vegna þeirrar samúðar sem Gyðingar hlutu sem fórnarlömb þjóðarmorðs, skuli sjálft standa fyrir aðgerðum sem falla undir viðurkenndar skilgreiningar á þjóðarmorði.

Að sama skapi er það kaldhæðnislegt að þótt bæði almenningur og ráðherrar fordæmi þjóðarmorðið í Palestínu, skuli Íslendingar hika við að stlíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgitta Jónsdóttir ber upp þá hugmynd og þótt ég skilji það sjónarmið Össurar Skarphéðinssonar að best sé að eiga samstarf við hin Norðurlöndin um slíkar ákvarðanir, sé ég enga ástæðu til að bíða eftir því að einhver annar taki frumkvæði í þeim efnum.

Össur er fyrsti utanríkisráðherra Íslendinga sem tekur afstöðu með Palestínumönnum. Ég vona innilega að hann fylgi orðum sínum eftir og geri sitt til að stuðla að því að Norðurlöndin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísrael hið fyrsta.

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics