Föstudagur 30.11.2012 - 01:53 - FB ummæli ()

En ég mun samt ekki ræða Erp á feminiskum forsendum

Þrátt fyrir að ég tæki það skýrt fram í pistli mínum í gær að ég væri ekki að kalla eftir gagnrýni á Erp Eyvindarson eða ætlast til þess að feministar gagnrýndu annað en þeim bara sýnist, hafa viðbrögðin að miklu leyti snúist um það hvort eigi að gagnrýna Erp og hvort það séu þá feministar sem eigi að taka það að sér eða ég sjálf. Greinin snerist ekkert um það, heldur var ég að færa rök fyrir því sem ég tel augljóst, að það sem ráði því hvort eitthvað er túlkað sem kvenfyrirlitning, sé ekki það hvað er sagt, heldur pólitísk tengsl þess sem talar. Ég talaði sérstaklega um afskipti Erps af pólitík en ég hef áður bent á að þeir sem eru í náðinni hjá menningarelítunni komast upp með það sem yrði vafalaust túlkað sem klám og kvenhatur hjá minni spámönnum.

Ég fékk ýmis viðbrögð við þessum pistli og mun e.t.v. síðar taka einhver þeirra til umræðu en aðeins eitt svar svar hef ég enn séð sem er hvorttveggja í senn, andsvar við þessum pistli og viðleitni til að nálgast viðfangsefni pistilsins en ekki eitthvað allt annað. Það svar var frá Hildi Lilliendahl. Hún sagðist ekki hafa séð menntaskólamyndbandið fyrr og benti á að sjálf hefði hún gagnrýnt Erp áður en auk þess kysi hún stundum að sýna ömurlegheitum bara enga athygli. Mér finnst Hildur trúverðug og hef ekki séð neinn elitisma í gagnrýni hennar hingað til. Hún hefur m.a.s. gagnrýnt Tómas Guðmundsson fyrir að vísa til barnungra telpna sem kynvera svo ekki virðist hún á valdi hugmynda um hámenningu og lágmenningu, svo mikið er víst. (Ég tek fram að ég er ekki að lýsa mig sammála Hildi um Tómas, heldur er ég að benda á að hún er sjálfri sér samkvæm) Ég hef heldur ekki séð að hún láti pólitískar yfirlýsingar annarra ráða því hverja hún gagnrýnir og hverja ekki. Svo gott og vel, hér er ein skýring til viðbótar við mína skýringu; semsagt sú að myndbandið hafi annaðhvort ekki náð augum feminista eða þeir ákveðið að hundsa það til að gefa því ekkert vægi. Þetta er svar sem ég tek til greina.

Önnur andsvör standa ekki undir því að snúast um efni greinarinnar. T.d. fékk ég svör sem eru efnislega á þann veg að með því að benda á að Erpur og fleiri sem tala ósmekklega séu ekki gagnrýndir, sé ég að verja Egil Einarsson. (Ég bar reyndar viðbrögðin við dónaskap Jónsa saman við viðbragðaleysið við sambærilegri orðræðu Erps en ég hefði auðvitað alveg eins getað tekið Gillz sem dæmi.) Það er á mörkunum að mér finnist þetta svaravert en þar sem ætla má að margir lesendur þekki ekki fyrri skrif mín, ætla ég að svara þessum ummælum:

Þó svo að tilgangurinn væri sá að verja Egil, svarar það ekki spurningunni um það hvort pólitískar yfirlýsingar hafi áhrif á það hvort menn komast upp með ruddaskap. En þar fyrir utan er af og frá að ég hafi nokkurntíma afsakað tuddaganginn í Agli. Ég hef þvert á móti gagnrýnt þá orðræðu og menningu sem hann stendur fyrir, t.d. hér og hér. Mér finnst mál Egils mjög áhugavert og ekki síst það hvernig umræðan um það afhjúpar viðhorf sem full ástæða er til að ræða. Ég hef margsinnis lýst andúð minni á því að maðurinn skuli hafa verið nánast tekinn af lífi í fjölmiðlum og ég hef bent á að hatrið gegn honum er réttlætt annarsvegar með margra ára gamalli bloggfærslu sem hann er löngu búinn að biðjast afsökunar á og hinsvegar með því að hann fékk á sig nauðgunarkæru sem var vísað frá. Það þarf góðan túlkunarvilja til að taka slíkum ábendingum sem sérstökum stuðningi við subbulegan karlrembuhúmor og menningu sem hampar yfirborðsmennsku. Ennþá betri vilja þarf til að skilja ábendingar um hlutdrægni í gagnrýni á karlrembulegt tal sem réttlætingu á ógeðshúmor en þá vantar víst ekki viljann sem kæra sig ekki um að horfast í augu við sinn eigin tvískinnung.

Önnur svör sem ég ætla að bregðast við eru fullyrðingar um að mér finnist ekki ástæða til að gagnrýna Erp. Það er rangtúlkun. Ég sagði ekki að Erpur væri ekki gagnrýniverður heldur að gagnrýni á hann væri ekki efni pistilsins. Mér finnst í fínu lagi að gagnrýna Erp. Ég efast hinsvegar að það þjóni góðum tilgangi að standa á öndinni af hneykslun á dægurlagatextum eða einhverjum subbuskap sem menn missa út úr sér í hugsunarleysi. Mér finnst áhugaverðara að skoða þau viðhorf sem skína í gegnum niðrandi orðræðu og viðbrögðin við henni en að benda á sökudólg. Þannig hef ég frekar talað um kynjaímyndir í dægurlagatextum allt frá Einsa kalda og til mellutexta Erps en að ráðast með offorsi á Erp. Í þessum pistli er áherslan á þau viðhorf sem endurspeglast í viðbrögum við dónaskap Jónsa fremur en það hvað Jónsi sé mikið ógeð. Ég jós heldur ekki persónulegum svívirðingum yfir Egil og hans aðdáendur þegar ég bað húmorista af því tagi að hugsa sig aðeins um. Semsagt, mér finnst ástæða til að ræða niðrandi umtal um konur, hvort sem það kemur frá Agli, Jónsa, Erpi eða einhverjum öðrum. Ég tek hinsvegar ekki þátt í þeirri umræðu á feminskum forsendum. Ég neita að afgreiða þessa menn einfaldlega sem kvenhatara því ég held að orðræða þeirra eigi sér miklu flóknari og áhugaverðari skýringar.

Mig langar að vekja athygli á tveimur svörum til viðbótar. Annað þeirra er í megindráttum það að Erpur sé sko bara víst rauðsokka og þar sem hann hafi stutt mörg pólitísk mál sem snerta mannréttindi og umhverfisvernd, sé óþarfi að gagnrýna hann fyrir niðrandi orðræðu um konur. Takk Snærós, ég átti ekki von á því að fá svona afdráttarlausa staðfestingu á því að tilgáta mín væri rétt. Hitt svarið er komment frá Magnúsi Helgasyni en hann segir að þarna hafi Erpur tekið þátt í „listrænum gjörningi“ og feministar líti það öðrum augum en daglega umræðu. Við þessu útspili Magnúsar á ég aðeins eitt svar: Dæs.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics