Ég féll fyrir Harmageddongríninu. Ég hlustaði á viðtalið og hugsaði „rassgat og alnæmi, er þetta ekki grín?“ en trúði samt. Var byrjuð að skrifa Frosta skammarbréf þegar mér var bent á að dónagaurinn kallaði sig Millz. Ég skil ekki hvernig mér gat yfirheyrst það. Í framhaldinu benti Snjáldurvinur mér svo á þessa stuttu úttekt á lögmáli Poes.
Samkvæmt lögmáli Poes ganga öfgahópar svo langt í vitleysunni að það er illgerlegt að toppa hana með skopstælingu. Munurinn á raunverulegum málflutningi og háði verður svo lítill að ef maður gefur ekki greinileg merki um að maður sé að grínast, mun einhver trúa að manni sé alvara. Þetta rímar vel við umræðuna um feminisma, karlrembu og skopstælingar. Poe talar um bókstafstrú og öfgahópa, en það sama á við um grín sem gengur svo langt að það hættir að vera fyndið, það er ekki hægt að ýkja það. Fúsk íslenskra fjölmiðla er á svo alvarlegu stigi og grófasti karlrembuhúmor sem viðgengst gengur svo langt, að ég trúði því að Harmageddonmenn hefðu aulast til þess að lofa Millz að vaða á súðum án andsvara.
Poe hitti naglann á höfuðið. Það er ekki bara ég sem á það til að sjá ekki muninn á paródíu og veruleika. Karlremba, kynþáttahyggja, hégómleiki, efnishyggja; allt gengur þetta nógu langt til þess að Hugleikur Dagsson finnur sig knúinn til að árétta að hann sé að grínast. Að sama skapi gengur ruglið í feministum svo langt út fyrir mörk hins hlægilega að hversu mikla þvælu sem maður lætur frá sér er útilokað að toppa grínið sem maður er að reyna að grínast með. Skilin milli spaugs og veruleika eru svo óljós að ef þessi pistill hefði birst á Pressunni undir nafni óþekktrar manneskju hefðu margir tekið honum sem skopstælingu á feminiskum tvískinnungi. Þessi grein var víst hugsuð sem háð á paródíu á femniska túlkun tákna en kemur í skársta falli út sem paródía á feminisma.
Meint paródía
Lögmál Poes rifjaði upp fyrir mér misheppnaða tilraun til skopstælingar á texta Billy Joel She’s Always a Woman. Texti Billys lýsir konu sem beitir sálfræðihernaði til þess að stjórna karlinum. Hún gerir hann óöruggan með óræðum svipbrigðum, mislyndi og duttlungafullri hegðun. Hún þiggur en gefur engin fyrirheit um endurgjald og hann veit almennt ekkert hvar hann hefur hana. En hann elskar hana nú samt, hann er ekki beinlínis að kvarta undan henni, heldur að lýsa ástandi sem hann sættir sig við þótt það valdi honum sársauka. Saman kalla texti og lag fram hughrif sem hafa komið laginu á blað með vinsælustu ballöðum 20. aldarinnar; flestir myndu kalla þetta ástarsöng.
Billy Joel hefur oft verið gagnrýndur fyrir karlrembu (eitt dæmi hér) og þeir sem leggja sig fram um að sjá kvenhatur í öllum hugsanlegum aðstæðum túlka þennan mansöng sem afhjúpun kvenfyrirlitningar. Textinn sem á að vera skopstæling, lýsir sjálfhverfum og tillitslausum karlmanni.
Stæling? Já vissulega. Kannski svar. En skopstæling? Hvar er þá skopið? Textinn er nákvæm lýsing á manni sem ég þekki persónulega, ekki einu sinni ýkt. Þetta gæti verið paródía ef svona sambönd væru sjaldgæf en kvölin sem fylgir því að elska narkissista er algengt stef bæði í poppmenningu og klassískum kveðskap.
Ekki paródía
Margir dægurlagatextar sem sannarlega eru ekki hugsaðir sem neitt spaug segja nokkurnveginn það sama og meint paródía. Stand by Your Man er t.d. engin skopstæling, heldur lýsing á hugrenningum konu sem sættir sig við stórkostlega galla mannins síns af því að hann er ‘just a man’ og þar með er ekki hægt að gera miklar kröfur til hans. Á sínum tíma var textinn gagnrýndur sem and-feminiskur áróður en hver er munurinn á honum og meintri paródíu á Billy Joel?
Ég býst við að kynjafræðingar líti á texta Tammy Wynette sem dæmi um „styðjandi kvenleika“. Eins mætti fara með kvæði Jónasar Árnasonar um árans kjóann hann Jó(h)ann. Þar lýsir konan lífi sínu með úrillum frekjuhundi sem kann hvorki tillitssemi né þakklæti, en hún elskar hann, jafnvel þótt hann sé eins og hann er. Ég sé engin sérstök „skilaboð“ í þessum textum, þetta eru bara lýsingar á upplifun kvenna sem vita að þær geta ekki breytt þeim mönnum sem þær elska. En auðvitað finna þeir djöfulinn allsstaðar sem að honum leita.
Konan er alltaf fórnarlamb
Billy Joel samdi lagið til þáverandi konu sinnar, Elizabeth Weber, eftir að hún tók við stjórn fyrirtækisins sem hann sjálfur réði ekkert við. Elizabeth er lýst sem hörkutóli sem alltaf hafði sitt fram. Fyrir því fann Billy ekki aðeins þegar hún bjargaði fyrirtækinu hans heldur líka þegar þau skildu og hún tryggði sér bæði helminginn af því sem hann þegar hafði þénað og helminginn af framtíðartekjum hans líka. Þetta varð til þess að trommarinn Liberty DeVitto sneri út úr öðrum texta sem Billy hafði ort til Elizabeth, það var ástarsöngurinn Just the Way You Are, en í meðförum DeVitto varð þessi lína She Got the House, She Got the Car.
Þótt textar Billy Joel og Tammy Wynette snúist um sama efni eru þeir samkvæmt feminiskri hentistefnu túlkaðir á ólíkan hátt. Í hugum þeirra sem gagnrýna Billy Joel fyrir karlrembu er karl sem lýsir brestum konu ekki að lýsa veruleika manns sem býr við sálrænt ofbeldi heldur er hann kvenhatari. Kona sem lýsir tillitslausum karli, eins og í textanum sem Tammy Wynette gerði frægan, er hinsvegar að lýsa veruleika feðraveldisins. Konan er fórnarlamb.
Harmageddon og paródían
Það væri vel hægt að gera skopstælingu af ástarsöng Billy Joel en tilraun stúlkunnar sem sneri textanum upp á karlmann er misheppnuð. Spaug er alltaf á einhvern hátt á skjön við það sem maður á von á en þessi meinta paródía felur ekki í sér neina afbökun á veruleikanum og gengur ekkert lengra en upprunalegi textinn.
Ég trúði því um stund að það hefði verið alvöru aulagangur hjá Harmageddon að hleypa Millz áfram, en þar er þó veruleikinn afbakaður nógu mikið til þess að ég sé húmorinn þegar mér er bent á hann. En það er annað í þessu Harmageddondæmi sem á að vera fyndið, sú staðhæfing að útvarpsmenn hafi sett sér að vinna eftir „feminiskum gildum“. Það grín er alveg jafn misheppnað og hin meinta paródía á Billy Joel. Það er nefnilega miklu sennilegra að stjórnendur útvarpsþáttar láti feminista stjórna sér en typpagrínista og því hefði ég vel trúað, jafnvel þótt væri fyrsti apríl og ég hefði lesið það á Knúzinu.