Sunnudagur 02.12.2012 - 16:10 - FB ummæli ()

Finnum djöfulinn í jólasöngvum

Eins og ég hef fjallað um í pistlunum sem ég tengi á hérna neðst, er meginmakmið feminista að koma á nýju kennivaldi, kennivaldi kvenhyggjunnar. Í því skyni vinna kvenhyggjusinnar markvisst að því að yfirtaka alla umræðu og orðræðu sem snertir kynjamál. Einn þátturinn í þeirri viðleitni felst í endurtúlkun bókmennta og annarra lista. Ég mun síðar fjalla um endurtúlkanir þekktra skáldsagna en í tilefni af því að aðventan er að hefjast langar mig að benda á feminiska djöflaleit í þekktum jólasöngvum.

Leitin að djöflinum

Í þessu myndbandi kynnir feministi hugmyndir sínar um kvenhatur, klám og nauðgunarmenningu í vinsælum jólalögum. Að sjálfsögðu finnur hún feðraveldisdjöfulinn og alla hans ára hvar sem hún leitar.

Konan er alltaf fórnarlambið

Hún er ekki að grínast konan. Hún meinar í alvöru að All I Want for Christmas Is You skipti um merkingu eftir kyni þess sem syngur. Ef það er kona eru „skilaboðin“ þau að konur geti ekki verið hamingjusamar án karlmanns. Ef flytjandinn er karlmaður merkir textinn hinsvegar ekki að karlinn geti ekki verið hamingjusamur án konu, heldur hefur hann allt í einu breyst í sögu eltihrellis sem situr um stúlku sem vill ekkert með hann hafa. Finnst ykkur þetta skynsamlegt?

Jólasveinninn sem táknmynd klámvæðingardjöfulsins

Ég sá mömmu kyssa jólasvein er í rauninni klámsaga. Þetta er kvæði sem flestir hafa skilið sem krúttlega sögu af barni sem verður vitni að sakleysilegu keliríi foreldra sinna þegar pabbinn er að máta jólasveinsbúninginn. Barnið virðist gruna hvernig í öllu liggur og glaðlegt lagið gefur ekkert tilefni til þeirrar túlkunar að þarna sé á ferð einhver hryllingur. Feministanum tekst að sjá klám út úr þessu. Barnið neyðist til að horfa upp á framhjáhald móður sinnar. Og jú í skársta falli gæti jólasveinninn verið faðir barnsins en þá er það samt eitthvert oj, án þess að nánar sé farið út í það í hverju ojið er fólgið.

Ég er mest hissa á því að hún skuli ekki hafa notað þetta gullna tækifæri til að túlka textann á þann veg að þarna sé jólasveinninn að stunda mansal. Hann kemur jú með gjafir og mamman kyssir hann og kitlar hann undir skegginu. Sagan af því þegar hann fer með hana heim á Norðurpólinn og leyfir öllum álfunum að sprengja í’ana er svo bara of hræðileg til þess að það sé á börn leggjandi að heyra hana.

Og enn á að neita litlum stúlkum um stríðsleikföng

It’s Beginning to Look a Lot Like Christmas frá 1951, er einnig algert ógeð því þar eru drengjum gefin hefðbundin drengjaleikföng en telpum brúður. Feministinn ann höfundi þess ekki einu sinni að vera barn síns tíma, hvað þá að reiknað sé með að þarna sé bara ákveðnum veruleika lýst; að óskir barna séu kynbundnar. Þetta hljóta að vera „skilaboð“ um að svona eigi þetta að vera. Jeminn hvað ég  hefði orðið svekkt ef ég hefði fengið byssu í jólagjöf þegar ég var barn – en það er náttúrulega bara staðfesting á hinu illa feðraveldi.

Kvenhatrið birtist líka í þeirri goðsögn að konur langi í dýra hluti

„Santa Baby“ er svo enn ein árásin á konur því samkvæmt textanum hljóta allar konur að vera gullgrafarar. Jájá, auðvitað þekkja fáar konur það í alvöru að langa í lúxuslíf og auðvitað eru engin dæmi um söngva þar sem karlar gæla við hugmyndina um að fá auðævi upp í hendurnar. Þetta er alltsaman einn allsherjar sexismi.

Og að lokum nauðgunarmenningin

Það hroðalegasta af öllu er svo nauðgunarlagið Baby it’s Cold outside.  Mörg okkar hafa misskilið textann á þann veg að þarna sé verið að lýsa tilhugalífi árið 1944. Að karlmaður sé að reyna við stúlku sem segist þurfa að fara heim þótt hana dauðlagi að vera lengur.

Hér er textinn.  Stúlkan er mjög upptekin af því hvað ættingjar hennar og nágrannar muni hugsa ef hún kemur ekki heim en það er ekki að heyra annað en að hana langi að vera lengur. Hún talar um hvað þetta hafi verið gott kvöld og það er hún sjálf sem stingur upp á þvi hvað eftir annað að hún fái sér hálfan drykk til viðbótar. Hún talar um að það sé erfitt að hrinda þessum álögum en í kveðskap er algengt að líkja ástinni við álög eða töfra. Hún reynir jafnvel að útskýra hrifningu sína á riddaranum með því að drykkurinn sé einhverskonar ástarelexír. Og svo segir hún I ought to say no, no, no, sir – At least I’m gonna say that I tried. Stúlkan býr við siðprýðiskröfur stríðsáranna, það er eiginlega siðferðisleg skylda hennar að segja nei og hún ætlar allavega að segja [fjölskyldunni og sjálfri sér] að hún hafi reynt að afþakka gistingu.

Mikið óskaplega erum við nú heppin að hafa feminista sem geta útskýrt fyrir okkur hver hin raunverulega merking textans er. Þarna er semsagt verið að hvetja til stefnumótanauðgana, jafnvel lyfjanauðgana. Misskilningurinn kemur að hluta til af því að við búum við „nauðgunarmenningu“, þ.e. samfélag sem samþykkir kynferðisofbeldi og hvetur til þess. Þessvegna vaða mörg okkar enn í þeirri villu að til sé eitthvað sem heitir daður, nokkurskonar mökunarleikur sem snúist að hluta um að láta ganga á eftir sér.

Feminismadjöfullinn er jafn auðfinnanlegur og feðraveldisdjöfullinn

Feminisk túlkunarfræði orka á mig eins og leit öfgakristlinga að djöflinum í rokktextum. Með sömu aðferð og feministar og kristnir bókstafstrúarmenn beita má svo rökstyðja að þetta sé allt saman eitt stórt feminiskt samsæri.

Þannig má skilja All I Want for Christmas sem kröfu feministans um að svokallaðir öðlingar taki við kvenréttindabaráttunni, nú þegar þeir eru ekki lengur uppteknir við háskólanám og  stjórnun pungfýluklúbba.

Ég sá mömmu kyssa jólasvein er lýsandi dæmi um karlfyrirlitningu þar sem karlinum er líkt við jólasvein og konan á allt frumkvæði að kossum og kitli. Barnið gerir sér m.a.s. grein fyrir því að pabbi þess myndi hlæja að vesalings jólasveininum ef hann sæi hann svívirtan af konu.

It’s Beginning to Look a Lot Like Christmas er sömuleiðis dólgafeminiskur áróður. Draumurinn er sá að drengirnir skjóti hver annan, því aðeins þegar karlkynið er búið að tortíma sjálfu sér munu konur hætta að vera passívar dúkkur, aðeins þá munu þær tala að eigin geðþótta og gagna í þá átt sem þær vilja.

Santa Baby má skilja sem áróður fyrir kynjakvótum og öðrum forréttindafeminsma. Feminstinn biðlar til öðlingins (sem er óttalegur jólaveinn og hleypur á eftir öllum hennar duttlungum) að færa sér upp í hendurnar völd og auð, með því að fara sjálfur í gegnum reykháfinn sem er táknmynd fyrir leggöng mæðraveldisins. Karlinn á þannig að fæðast inn í mæðraveldið um leið og hann gerir konuna ríka.

Og að lokum Baby it’s Cold Outside. Takið eftir línunum What’s in this drink? og At least I’m gonna say that I tried. Er hún ekki bara að búa sig undir að sofa hjá honum sjálfviljug en saka hann svo um nauðgun?

Langsótt? Ójá. Svona álíka langsótt og að Stairway to Heaven sé ástaróður til Satans ef það er spilað aftur á bak eða að All I Want for Christmas feli í sér þann boðskap að konur komist ekki af án karlmanna.

————————————–

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Stórveldið, Monitor og kennivald kvenhyggjunnar
Lokaorð um jafnréttisfræðslu – í bili
Hugtakaskýringar Kynungabókar
Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics