Ég þakka lesendum skjót viðbrögð við beiðni minni um afrit af glærum sem ég nefndi í pistli gærdagsins. Ég fékk póst frá fólki sem ætlaði að útvega umrædd gögn en greip í tómt þar sem búið var að fjarlægja allt efni námskeiðsins af vefnum og einnig frá lesanda sem gat engu að síður gefið mér miklar og gagnlegar upplýsingar. Einnig heyrði ég frá fólki sem hefur á sama hátt og ég frétt af því að verk þess séu til umfjöllunar í kynjafræðinámskeiðum en á þess ekki kost að skoða hvort sú umfjöllun er fagleg og sanngjörn.
Aðalefni pistilsins var aðgengi að upplýsingum. Glærurnar sem mér var synjað um skipta kannski litlu máli fyrir aðra en sjálfa mig, það skiptir hinsvegar máli hvort almenningur hafi tök á að fylgjast með því sem er að gerast innan vísindasamfélagsins og hvort ríkisrekinn háskóli á að gegna menntunarskyldu gagnvart samfélaginu öllu. Ég hefði gjarnan viljað fá álit lesenda á því en umræður á tjásukerfinu og facebook snerust að mestu um höfundarétt að kennslugögnum.
Tilgangur höfundaréttar
Höfundalög snúa að rétti til birtingar og dreifingar jafnframt því sem þeim er ætlað að verja heiður höfunda. Áherslurnar eru þrjár:
– Réttur höfundar til að heiðurs af eigin verki. Það er t.d. brot gegn höfundarétti ef ég birti ljóð eftir Sigurð Pálsson undir mínu nafni.
– Réttur höfundar til tekna af eigin verki. Það væri brot gegn höfundarétti ef ég seldi eftirprentanir af ljósmyndum Ingólfs Júlíussonar án samráðs við hann jafnvel þótt ég birti nafn hans.
– Að vernda höfund gegn því að verk hans sé misnotað, t.d. nýtt í því skyni að varpa rýrð á hann. Þetta getur verið snúið, það er t.d. ekki hægt að hindra fólk í að gera grín að verkum annarra en það sem skiptir mestu máli er að ef verk er sett í nýtt samhengi, þá sé augljóst að það samhengi sé ekki frá upprunalegum höfundi komið. Það væri t.d. eðlilegt að Gyða Margrét Pétursdóttir léti reyna á það hvort það væri brot gegn höfundalögum ef ég fengi leyfi hennar til að birta grein eftir hana í safnriti sem ég kynnti fyrir henni sem safnrit í tilefni af afmæli Feministafélagsins en gæfi svo ritið út undir heitinu „Fánaberar fávísinnar.“
Það sem höfundaréttur er ekki
Höfundarétti er ekki ætlað að hindra aðgengi almennings að upplýsingum enda skerðir birting ekki höfundarétt. Kennari sem setur fyrirlestra sína á netið heldur að sjálfsögðu sínum höfundarétti. Höfundaréttarlög hindra háskóla þannig alls ekki í því að gera allt námsefni sem framleitt er við skólann aðgengilegt. Einkaréttur höfundar á heldur ekki við um gerð eintaka sem hafa enga fjárhagslega þýðingu og því er það ekki brot gegn höfundarétti að afrita eintak af fyrirlestri eða önnur slík gögn til einkanota.
Höfundaréttur ógildir ekki upplýsingalög. Samkvæmt upplýsingalögum á einstaklingur rétt á því að fá aðgang að skjölum sem varða hann sjálfan. Hugsanlegur höfundaréttur að þeim skjölum breytir engu þar um. Þessi lög eiga við rafræn skjöl sem ekki eru birt opinberlega en því fremur á maður rétt á að fá upplýsingar um það sem sagt hefur verið um hann opinberlega á vegum ríkisstofnunar. Það telst opinber birting ef verk er flutt í útvarpi eða á annan hátt dreift til almennings. Það er einnig opinber birting ef verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðvum, þar sem 10 manns eða fleiri vinna. Andi laganna býður því engan veginn upp á þá túlkun að hugsanlegur höfundaréttur kennara eða nemanda að glærum eða öðrum kennslugögnum sem hafa verið birt á innra neti háskólans og flutt í fyrirlestraformi fyrir fjölda manns, ógildi rétt almennings til að fá aðgang að þessum verkum, hvað þá að þau ógildi rétt einstaklings til þess að sjá hvernig um hann er fjallað innan ríkisstofnunar.
Hvenær eru glærur höfundarverk?
En það er önnur hlið á þessu glærumáli sem er ekki síður áhugaverð og það er spurningin um það hvenær gögn teljist höfundarverk.
Setjum sem svo að ég flytji fyrirlestur við Háskóla Íslands um hugmyndafræði og vinnubrögð kynjafræðinga, undir heitinu Fánaberar fávísinnar. Væri inngangsglæra sem liti svona út varin af höfundaréttarlögum?
Gerum ráð fyrir glæru þar sem ég nota mynd sem ég fann á netinu, af Þorgerði Einarsdóttur, og tengi hana skoðun sem Þorgerði var eignuð, á tjásukerfi Forréttindafeministans. Ég á ekki höfundarétt að myndinni. Málsgreinin er ekki mitt hugverk. Er glæran þá mitt hugverk?
Reiknum með að á þriðju glærunni væri bein tilvitnun í Þorgerði Einarsdóttur. Ætti ég höfundarétt að þessari tilvitnun eða fælist höfundarverk mitt í því að slá hana inn í glæruforrit?
Á fjórðu glærunni notaði ég orð Gyðu Margrétar Pétursdóttur til að sýna fram á ranghugmyndir hennar um þá mynd sem samfélagið hefur af drengjum. Væri ástæða til að verja þessa útkomu með höfundarétti?
Ímyndum okkur að á fimmtu glærunni tengdi ég saman kynjafræði og karlhatur með því að skeyta mynd sem kynjafræðin á enga aðild að, við tvö kvennapólitísk slagorð, en annað þeirra er einnig titill á ritgerð Þorgerðar Einarsdóttur. Hvaða höfundarétt hef ég? Á ég höfundarétt að slagorðunum, titlinum á ritgerð Þorgerðar eða jólakortinu af Askasleiki? Eða fellur „hugverkið“ í þessari samsetningu undir höfundalög?
Fúsk í skjóli leyndarhyggju
Á glærum þeim sem mér er synjað um aðgang að koma fram fullyrðingar og tengingar sem ég er síður en svo sátt við. Það sem vakir fyrir mér er þó ekki að skerða „akademískt frelsi“ neins til þess að bera rangfærslur og rangtúlkanir á borð fyrir stúdenta, heldur vil ég fá að svara fyrir mig og til þess er lágmark að skólinn veiti mér aðgang að gögnunum.
Rétt er að komi fram að ég álít Þorgerði Einarsdóttur og Gyðu Margréti Pétursdóttur vissulega fánabera fávísinnar. Allt sem ég hef séð frá þeim er í skársta falli vafasamt en oftar þó óstjórnleg þvæla. Hvort væri viðeigandi að kynna háskólastúdentum það álit mitt með glærum af þessu tagi er svo allt annað mál og það væri ekki í anda gagnsæis og fagmennsku að neita þeim Þorgerði og Gyðu Margréti um aðgang að slíkum kennslugögnum. Slík vinnubrögð yrðu að flokkast sem fúsk í skjóli leyndarhyggju og það gengi allavega ekki upp að synja þeim um aðgang á grundvelli höfundaréttar.
Að síðustu er rétt að ítreka að þessi skrif mín um höfundarétt eru viðbrögð við ummælum lesenda minna. Hvorki Gyða Margrét né neinn annar á vegum kynjafræðideildar HÍ hefur synjað mér um aðgang að gögnum á grundvelli höfundalaga. Mér sýnist helst að í þeim fílabeinsturni fúsks og fávísi tíðkist ekki að rökstyðja eitt eða neitt.
————————–
Nokkrir pistlar um höfundarétt
Nei, Facebook getur ekki selt eða gefið myndirnar þínar
Stal amma hönnun Baldrúnar og Rebekku?
Borðar Siv SS pylsur?
Að tengja á heimildir
Hver á að greiða listamönnum laun?