Sunnudagur 30.12.2012 - 13:08 - FB ummæli ()

Klámmyndir ársins 2012

 

Þessi dræsulega háskólastúdína var klárlega klámmyndafyrirsæta ársins 2011. Myndin var notuð á auglýsingu fyrir sloppasölu lyfjafræðinema. Ég skrifaði stutta hugleiðingu um þessa mynd á sínum tíma. Þessi klámmynd kom í óvæntar þarfir feminista, því þegar mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar gekkst fyrir ritun sérstaks klámbæklings til þess að sporna gegn kláminu á vinnustöðum borgarinnar, kom í ljós að þar var eiginlega ekkert klám að finna. Til þess að bæklingurinn yrði ekki bara auðar blaðsíður var því brugðið á það ráð að gera þessa klámvæðingu lyfjafræðinnar að vinnustaðavandamáli í Reykjavíkurborg þannig að hneykslunin á henni entist vel fram á árið 2012.

Ég varð ekki vör við klámvæðingu í tengslum við sloppasölu lyfjafræðinema þetta árið svo líklega hafa þeir látið sér segjast. Ekki var þó neinn skortur á safaríku klámi í menningu okkar og verður ekki betur séð en að siðnum í landinu hnigni ár frá ári. Nú þegar árið er á enda vil ég benda á nokkur dæmi um þá klámvæðingu sem gegnsýrir menningu okkar.

 

Klámvædd leikföng

Í tilefni af umræðunni um klámvæddu Legókubbana vil ég benda á þessa leikfangaklámmynd af lególeikföngum sem eru sérhönnuð fyrir telpur, í þeim illa tilgangi feðraveldisins að hindra þær því í að leika sér að stríðsleikföngum og geimstöðvum. Krafa feðraveldisins er sú að aðgengi að alvöru leikföngum skuli áfram vera forréttindi drengja.

Í myndinni endurspeglast allur sá sjúkleiki sem kynjakerfið hefur í för með sér; hlutgerving kvenverunnar, bleikar slaufur, stutt pils, sítt hár og telpan er auk þess sýnd í umönnunarhlutverki þar sem hún er að fóðra hund. Samtímis er umönnunarhlutverkið klámvætt þar sem beinið er augljóslega fallosartákn.

 

Klámvædd barnaföt 

Þessi grímubúningamynd er ein þeirra mynda sem teknar voru sem dæmi um þá klámvæðingu sem birtist í öskudagsbúningum barna. Hún var m.a. birt á Smugunni við umfjöllun sem bar fyrirsögnina; Hvað er að að því að vera vændiskona á öskudag? Spurningin er óþörf því vændiskonur eru augljóslega miklu ógeðslegri skepnur en sjóræningjar, þungvopnaðir skæruliðar, vampýrur og aðrar fígúrur sem þykja drengjum samboðnar.

Myndin sýnir annarsvegar það sem feministar telja hefðbundinn klæðnað gleðikonu og hinsvegar eftirlíkingu í barnastærð. Ég skrifaði nokkra pistla í tilefni af umræðunni um öskudagsbúninga, hér er einn stuttur.

 

 

Klámvædd menntun

Kvikmyndaskóli Íslands vakti athygli fyrir hamslaust kvenhatur stjórnenda með klámfenginni auglýsingu. Svo langt gekk einn af kennurum skólans í kvenfyrirlitningu sinni að kalla kvartanir nemenda óþarfa viðkvæmni.

Málinu var gæfusamlega vísað til klámvarnamiðstöðvar internetsins og Hildur Lilliendahl, brást við og fékk klámið bannfært. Hefur sú framganga eflt til muna kvenfrelsi í landinu.

 

Klámvæddar unglingaskemmtanir

Stærsta klámvæðingarhneyksli ársins var uppátæki framhaldsskólanema sem auglýstu salsaball á vegum nemendafélagsins með þessari mynd. Myndin var sögð lýsa kvenfyrirlitningu enda fáheyrt að ungir menn telji sig hafa dottið í lukkupottinn ef þeim bjóðast þær trakteringar sem myndin gefur til kynna, nema þeir hati konur. Einhverjum tókst að lesa það út úr myndinni að graðar stelpur séu ekki samþykktar nema í þeim tilgangi að svala greddu strákanna. Einnig tókst hneykslendum að tengja myndina við Gillzenegger, nauðganir og mansal svo nokkuð sé nefnt.

Auglýsingin var nefnd sem sönnun þess að samfélagið þurfi á feminisma að halda enda mun ungæðisháttur og vanhugsuð sniðugheit alls ekki þrífast í því dýrðarríki kvenhyggjunnar sem sér klámdjöfulinn í hverju horni.


Klámvædd jól

Á netmiðli kvenhyggjusinna, knuz.is, hafa pistlahöfundar birt fjölda klámmynda á árinu. Því miður er ekki hægt að birta mynd af klámvæðingunni sem felst í g-strengjanærbuxum á fjögurra ára börn.  Sú klámvæðing er nefnilega ímyndun. Það er þó ekki þar með sagt að hún hafi ekki skemmandi áhrif og nauðsynlegt er að sporna gegn slíkum viðbjóði og öðru ímynduðu klámi með öllum ráðum.

Á knúzinu má annars sjá mikið og fjölbreytt úrval klámmynda sem eru altsvo ekki ímyndun og mæli ég með þeim vef fyrir hvern þann sem vill kynna sér þau brengluð viðhorf til kvenna og kynlífs sem vaða uppi í samfélagi voru. Ég læt nægja að benda á þessa mynd sem birtist með grein núna á aðventunni undir fyrirsögninni; Klámvæðing jólanna. Myndin sýnir dýrakynlíf í hátíðasamhengi en ekki hefur fengist staðfest hvort hundurinn er gerandi eða þolandi.

 

Hvar endar þetta?

Klámvæðingin er allsstaðar og alltumlykjandi. Hún hvíslar í brjóstum mannanna og teygir sig inn í innstu afkima samfélagsins. Dæmi eru um að konur komnar yfir fimmtugt reyni að vera kynþokkafullar og með sama áframhaldi má reikna með að klámvæðingin yfirtaki elliheimilin með tilheyrandi saurlifnaði.

Eini kimi samfélagsins sem ennþá er ósnortinn af þessum ógnvaldi er feministahreyfingin en ef ekkert verður að gert hlýtur hún að fara sömu leið. Erlendis eru dæmi þess að sjálf druslugangan sé klámvædd og að meintar druslur sprangi þar léttklæddar um götur í netsokkum og stuttum pilsum. Slík ósköp hafa enn ekki gerst á Íslandi en komi skjaldborgin ekki til varnar gæti farið svo að á næstu árum þurfum við að horfa upp á klámvædda druslugöngu.

 

     

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics