Laugardagur 26.01.2013 - 13:25 - FB ummæli ()

Af öfgastefnu vinstri grænna

Undarleg finnst mér umræðan um Vg sem róttækan vinstri flokk eða jafnvel öfgasinnaðan vinstri flokk.

Ég bý í Bretlandi. Hér borgar almenningur ekki eitt penný fyrir komu á heilsugæslustöð. Ekki heldur fyrir komu á bráðamóttöku. Ég fór í krabbameinsskoðun nýlega, þurfti ekkert að borga þar og ekki fyrir blóðrannsókn heldur. Og nei, það er ekki af því að ég borgi í einhvern sérstakan sjóð, þetta eru bara þau kjör sem almenningur í Bretlandi nýtur. Hér borgar fólk  heldur ekkert fyrir þjónustu augnlækna eða húðlækna, ég veit ekki um aðra sérfræðiþjónustu. Ég borga ekkert fyrir lyf sem læknir skrifar upp á og í næstu matvörubúð get ég keypt 16 stykkja pakka af 500 gr parasetamóltöflum á 15 pence sem samsvarar 30 íslenskum krónum.

Ég fór til tannlæknis í haust. Hann skoðaði mig og prentaði svo út yfirlit yfir það sem þyrfti að gera og kostnað fyrir hverja aðgerð um sig. Ég spurði hvort þetta væri bara gróf áætlun og hætta á að ég þyrfti að borga meira, hann skildi ekki hvað ég var að tala um. Hann rukkaði mig ekkert fyrir skoðunina og vegna niðurgreiðslu hins opinbera var kostnaðurinn við viðgerðirnar um 65% lægri en það sem Íslendingar greiða fyrir samskonar þjónustu.

Ég er ekki að segja að velferðarkerfið í Bretlandi sé betra en á Íslandi. Ég þekki það ekki nógu vel til að geta lagt mat á það og hér er ég bara að tala um heilbrigðismál. Vel má vera að Íslendingar standi sig betur í t.d. húsnæðismálum og skólamálum. En heilsugæsla er mjög mikilvægt velferðarmál og fyrst Bretar geta niðurgreitt heilbrigðisþjónustu og lyf að því marki sem raun ber vitni, ætti íslensk ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir vera vinstrisinnuð, í það minnsta að afnema gjöld fyrir komu á heilsugæslustöð og bráðamóttöku. Ég hef ekki séð Vg taka eitt einasta skref í þá átt á þessum tíma sem þau hafa setið í ríkisstjórn. Það hefur hugsanlega farið fram hjá mér svo endilega leiðréttið mig ef svo er.

Vg hafa beitt sér í umhverfismálum. Sumar þeirra aðgerða eru umdeilanlegar en þar hafa þau þó allavega fylgt stefnu sinni. En ég hef ekki séð Vg taka nein mikilvæg framfaraskref í velferðarmálum fyrir utan fæðingarorlofið. Ekkert markvert hefur gerst í húsnæðismálum (nema ef 110% reglan er talin velferðarmál) né heldur í heilbrigðismálum. Helsta afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum er ekki það að koma fólki á atvinnuleysisskrá í aðlögunarvinnu, eins og tíðkast í nágrannalöndunum, heldur að hætta að veita flóttamönnum atvinnuleyfi.  Þrátt fyrir yfirlýsingar um endurskipulagningu háskólakerfisins hefur ekkert gerst í þeim málum og helsta afrekið í málum grunnskóla er samningur við fulltrúa kapítalismans (samtaka fjármálafyrirtækja, þessara sem settu landið á hausinn, muniði) um kennslu í „fjármálalæsi“.

Hvar í ósköpunum liggur þessi margumtalaða vinstri róttækni Vg? Liggur hún í njósnafrumvarpinu, happdrættisstofu og klámstofu? Ef svo er þá snúast öfgar vinstri manna um eitthvað allt annað en velferðarmál.

 

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics