Fimmtudagur 07.02.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Vítisenglamálið sem reyndist ekki Vítisenglamál

Ísland er andverðleikasamfélag. Samfélag þar sem undirmálsfólk kemst auðveldlega í áhrifastöður. Þar sem þingmaður sem hefur misfarið með almannafé í starfi og hlotið fangelsisdóm fyrir er kosinn aftur á þing. Þar sem fólk hefur verið ráðið til háskólakennslu án þess að hafa einu sinni lokið meistaraprófi. Þar sem það telst blaðamennska að renna greinum úr erlendum þvaðurblöðum í gegnum google translate. Þessi upphafning vanhæfninnar kemur sér vel fyrir nokkra einstaklinga en bitnar almennt á fjöldanum. Einn stór kostur fylgir þó andverðleikasamfélagi; vanhæfni valdafólksins nær einnig til undirheima.

Andverðleikar stjörnuglæpamanna

Íslenskir glæpamenn eru upp til hópa vanhæfir. Íslendingar hafa blessunarlega ekki átt raðmorðinga síðan þeir hálshjuggu Axlar-Björn. Þeir einu sem hafa burði til þess að stunda skipulagða glæpastarfsemi af einhverju viti eru varla, eða jafnvel alls ekki, glæpamenn í skilningi laganna. Þeir hæfustu (sem glæpamenn) hafa m.a.s. fengið asnalegt barmmerki hjá forsetadindlinum og mega þessvegna mæta í partýin hans. Þeir sjást hinsvegar ekki aka mótorhjólum í stórum hópum, útbelgdir af sterum og húðflúraðir upp að eyrnasneplum.

Þeir sem venjulega er átt við þegar talað er um glæpamenn eru ekkert af svipuðu kaliberi og útrásarvíkingar. Stjörnuglæpamennirnir okkar eru lúðar á borð við Jón Stóra og Annþór. Þetta eru mennirnir sem hafa komist til áhrifa í undirheimum. Vitleysingar sem stunda skítalabbaglæpi eins og dópmang og handrukkanir. Menn sem eru einstaklingum stórhættulegir en svo langt frá því að vera fagmenn að þeir ráða ekki einu sinni við að halda kjafti yfir því að þeir séu glæponar þegar þeir koma fram í fjölmiðlum. Enda þurfa þeir þess svosem ekki því aumingjadýrkun samfélagsins er á því stigi að menn sem lemja aðra geta auðveldlega orðið glæpaselebb.

Andverðleikar íslenskra glæpamanna hafa lengi verið yfirvaldsdýrkendum mikið áhyggjuefni. Vanhæfni krimmanna gerir yfirvaldinu erfitt að sölsa undir sig meiri völd vegna þess að það er mjög ólíklegt að þú, lesandi góður, kaupir þá kenningu að þótt einhver glæpalubbi sjáist í námunda við heimili þitt, gefi það Lögmundi og félögum rétt til þess að hlera símann þinn. Það er því sannkallaður hvalreki fyrir þá sem vilja koma á eftirlitssamfélagi þegar mótorhjólabullur fara að gera sig breiðar undir merkjum hinna illræmdu Vítisengla. Það eru nefnilega viðtekin sannindi að þar séu á ferð menn sem ráða við alvöruglæpi. Fagmenn í allt öðrum flokki en stjörnubófarnir.Þessari firru trúir fólk enda þótt þessar fimm eða tíu hræður sem fjölmiðlar kenna við Vítisengla séu ýmist í fangelsi eða á leið í fangelsi og hafi ekki sýnt sig færa um að skipuleggja eitt eða neitt framyfir það sem bófar hafa alla tíð skipulagt hvort sem þeir hafa merkt sig vélhjólaklúbbum eður ei.

En áróður virkar. Borgari sem hefur áhyggjur af því að til verði stórt samfélag þar sem ágreiningur er leystur með ofbeldi gæti fallist á að svo brýna nauðsyn beri til þess að stöðva þessa menn að friðhelgi einkalífsins sé fórnandi fyrir þá vernd sem skósveinar Lögmundar ætla að veita okkur út á forvirkar njósnaheimildir.

Vítisenglamálið var ekki Vítisenglamál

Það sem mér finnst áhugavert við hæstaréttardóm 521/2012 er efni í marga pistla en það atriði sem stingur mig mest er það hversu langt lögreglan virðist hafa seilst í viðleitni sinni til að tengja þessa árás meintum skipulögðum glæpasamtökum. Vítisenglum.

Einar „Boom“ Marteinsson sat í gæsluvarðhaldi í næstum því fimm mánuði, grunaður um aðild að málinu. Þegar hann losnaði hélt ég að hann hlyti að hafa sloppið naumlega. Það kom mér því á óvart að sjá á hversu veikum forsendum honum var haldið svo lengi. Af dómnum að ráða voru forsendur eftirfarandi:

1. Brotaþoli sagði á slysadeild að Einar hefði hótað sér. Tók það þó ekki fram í lögregluskýrslum. Ekkert kemur fram í dómnum sem bendir til að vitni eða nein önnur gögn styðji þetta.

2. Konan sem átti mestan þátt í árásinni hafði í samtali á facebook talað um að Einar myndi „væntanlega“ koma með henni til fórnarlambsins. Ekkert annað styður þá hugmynd að Einar hafi gefið nokkurt vilyrði fyrir því.

3. Brotaþoli hringdi í Einar fyrir árásina. Hann hafði ekkert hringt í hana og ekkert kemur fram um að hann hafi á neinn hátt átt frumkvæði að samskiptum.

4. Einar bauð árásarfólkinu afnot af sendibíl til að sækja vélhjól sem þau sögðust vera að endurheimta en því hefði verið stolið,  (þau þurftu ekki bílinn) og að geyma hjólið í bílskúrnum sínum.

5. Mörg símtöl eru á milli aðila málsins og Einars dagana á undan. Ekkert bendir þó til þess að það sé neitt nýtt og þau staðfesta öll langvarandi vinskap sín á milli.

6. Fundargerðabækur mótorhjólaklúbba benda til þess að meðlimir þeirra hafi einhver samskipti sín á milli. Ekkert bendir til að þau samskipti tengist neinu ólöglegu.

Þetta eru þau atriði sem lögreglan notaði til að bendla Einar við málið og dugðu dómurum til að halda honum í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Ekki nóg með það að engin gögn staðfesti að  Einar sem persóna hafi átt hlut að þessari árás, heldur er ekkert að sjá í dómnum sem gaf tilefni til að bendla Vítisengla sem samtök við árásina annað en óformleg frásögn brotaþola í áfalli, sem hún staðfestir ekki í formlegri skýrslugerð. Hæstiréttur komst enda að þeirri niðurstöðu að gögnin sýni hvorki fram á aðild Einars að málinu, né því að árásin flokkist sem skipulagt brot eða teljist liður í starfsemi skipulagðra glæpasamtaka.

Ég er ekki að segja að Vítisenglar séu ekki skipulögð glæpasamtök og stórhættulegir menn. Ég er ekki að segja að Vítisenglar tengist þessu ofbeldisfólki ekki.  Ég er heldur ekki að segja að Einar Marteinsston hafi ekki átt hlutdeild í þessu máli. Um það get ég ekkert fullyrt. Ekki frekar en hæstiréttur. Hitt leyfi ég mér að fullyrða að það að halda manni í gæsluvarðhaldi svo lengi þegar grunur er reistur á svo veikum gögnum, er í skársta falli vafasamt, í versta falli hreint og klárt mannréttindabrot.

Njósnaheimildir og Vítisenglaógnin

Meint glæpastarfsemi mótorhjólagengja hefur verið helsta áróðursbragð stjórnvalda til að sætta almenning við svokallaðar „forvirkar rannsóknarheimildir“. Slíkar heimildir hafa þó hvergi upprætt eða einu sinni dregið úr ofbeldi, fíkniefnaviðskiptum eða öðrum glæpum sem taldir eru einkenna vélhjólaklíkur. Njósnaheimildir hafa hinsvegar allsstaðar verið misnotaðar í pólitískum tilgangi. Þær eru notaðar til að fylgjast með grasrótarhreyfingum og pólitískum andstæðingum stjórnvalda. Allsstaðar.  (Ég fjallaði ýtarlega um misnotkun forvirkra rannsóknarheimilda hér.)

Nú er það staðfest af hæstarétti að engin efni séu til þess að tengja Vítisengla umræddu ofbeldismáli en með dyggri aðstoð fjölmiðla, hefur lögreglunni tekist að planta þeirri hugmynd meðal almennings að þarna hafi Vítisenglar verið að verki. Maður hefði kannski haldi að þetta yrði leiðrétt núna en þrátt fyrir að dómurinn staðfesti engin tengsl Vítisengla við málið, leyfir virtasti fréttaskýringaþáttur ríkisútvarpsins sér að kynna umfjöllun um dóminn sem „mál sem tengist meðlimum Hell’s Angels.“ Ef fréttamenn RÚV vita ekki betur, hvað hugsar almenningur þá?

Ég held að margir sem kenna sig við Vítisengla beri litla virðingu fyrir mannhelgi þeirra sem þeir telja sig eiga eitthvað sökótt við. Ég held að margir þeirra séu ótíndir glæpamenn og ég yrði ekki hissa þótt í ljós kæmi að mótorhjólagengi hafi stundað skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. En það að ég haldi það réttlætir hvorki að þeir séu tengdir við glæpamál að ósekju né sérstaka hörku réttarkerfisins gagnvart þeim; það réttlætir heldur ekki að yfirvöld noti ímynduð tengsl þeirra við ofbeldismál í áróðursskyni fyrir rýmri valdheimildum lögreglu og það réttlætir ekki að fjölmiðlar dreifi villandi eða röngum upplýsingum.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics