Föstudagur 01.03.2013 - 13:59 - FB ummæli ()

Jæja Vigdís – byrjum á Dyflinnarreglunni

Vigdís Hauksdóttir heldur áfram að opinbera kjánaskap sinn í útvarpsviðtali um afstöðu hennar til flóttamanna.  Bullið í henni er efni í heila pistlaröð. Byrjum á þeirri vondu réttlætingu fyrir mannvonsku sem í daglegu tali er kölluð Dyflinnarreglan.

Ekki skylda heldur heimild

Vigdís staðhæfir að samkvæmt Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins beri Íslendingum að vísa flóttamönnum til annara Evrópulanda. Þetta er ósatt. Dyflinnarákvæðið heimilar ríkinu að endursenda flóttamanns til þess lands þar sem hann sótti fyrst um hæli. Það er engin skylda og aðrar þjóðir tækju því fegins hendi ef Íslendingar dröttuðust til að taka þátt í því að leysa flóttamannavandann.

Markmið Dyflinnarreglugerðarinnar

Samkvæmt Dyflinnarreglunni svonefndu er það ríki ábyrgt fyrir afgreiðslu hælisumsóknar sem fyrst fær hana til meðferðar. Reglunni er ekki ætlað að velta vandanum yfir á fáar þjóðir og firra aðrar ábyrgð. Markmiðið er að taka af vafa um það hver bæri ábyrgð á hælisumsókn. Bæði til að tryggja rétt flóttamannsins og til að hindra að sama fólkið sæki um hæli á mörgum stöðum í senn og lágmarka þannig álagið á kerfinu í hverju landi.

Þar sem ekkert beint flug er til Íslands frá Asíu og Afríku, sækir enginn um hæli á Íslandi nema stoppa annarsstaðar fyrst. Ef Dyflinnarákvæðið er túlkað á þann hátt sem Vigdís Hauksdóttir og fleiri stjórnmálamenn gera þurfa Íslendingar aldrei að taka við flóttamanni. Heldur Vigdís að hugmyndin með Dyflinnarreglugerðinni hafi verið sú að gera Íslendinga að ábygðarlausum dekurbörnum í samfélagi þjóðanna? Mannréttindadómstóll Evrópu lítur allavega ekki svo á.

Túlkun Mannréttindadómstólsins

Dyflinnarreglugerðin segir ekki að ríki sé óheimilt að taka hælisumsókn til meðferðar ef flóttamaðurinn á óafgreidda umsókn annarsstaðar. Íslendingar geta vel skuldbundið sig til að taka við ábyrgð hælisumsóknar og reyndar höfum við verið skikkuð til þess að hætta að endursenda flóttamenn til Grikklands með stefnumarkandi dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli afghansks hælisleitanda gegn Belgíu og Grikklandi. Í þessari reifun dómsins segir:

Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.

Það er skömm að því að Íslendingar þurfi skilaboð dómstóla til að axla ábyrgð. Dómurinn sýnir þó svo ekki verður um villst að það er gróf rangtúlkun á Dyflinnarreglugerðinni þegar yfirvöld þykjast ekki mega afgreiða hælisumsóknir.

Hættið að misnota Dyflinnarákvæðið

Landfræðileg staða Íslands býður upp á misnotkun á Dyflinnarákvæðinu og það hafa íslensk yfirvöld nýtt sér blygðunarlaust til þess að firra sig samfélagslegri ábyrgð.

Þótt hælisumsóknum hafi fjölgað á Íslandi er hlutfall þeirra miðað við íbúafjölda þó ennþá mun lægra en gerist í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Við höfum þegar fengið gula spjaldið með dómnum gegn Grikklandi og Belgíu og ef flóttamaður sem Íslendingar hafa vísað brott færi í mál gegn íslenska ríkinu eru góðar líkur á að hann myndi vinna það mál. Vigdís Hauksdóttir og aðrir þingmenn ættu því frekar að sjá sóma sinn í því að stuðla að því að Íslendingar taki við sanngjörnum hluta ábyrgðarinnar en að bíða eftir flengingu frá Mannréttindadómstól Evrópu.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics