Sunnudagur 10.03.2013 - 14:36 - FB ummæli ()

Okkur kemur ekki við hvað Davíð gerir við milljarðana sína

____________________________________________________________________________________

Kariusogbaktus

 

Við megum ekki vita hvað Geir sagði við Davíð. Eða hvað Davíð sagði við Geir. Við vitum að það var eitthvað um 80 milljarða lán en það kemur okkur ekki við. Þetta voru sko peningar Seðlabankans en ekki okkar. Davíð er líka búinn að útskýra fyrir okkur að þetta símtal hafi ekki verið neitt merkilegt og fyrst Davíð segir það sjálfur þá getum við andað léttar. Ég meina það var hann sjálfur sem lánaði helling af peningum. Sem hann átti en ekki við. Eða sko sem Seðlabankinn hans átti og þar með hann sjálfur. Einhvernveginn svoleiðis.

Geir sagði ekkert merkilegt við Davíð. Davíð sagði ekkert merkilegt við Geir. Þetta samtal þeirra var svo ómerkilegt að við megum ekki fá aðgang að því. Við megum bara fá aðgang að merkilegum upplýsingum, ekki ómerkilegum. Það hefur Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfest. Segir Davíð. Og það er ákvörðun Seðlabankans að veita ekki þessar upplýsingar, Davíð og Geir hafa ekkert um það að segja. Segir Davíð.

Að vísu kom fram hér að Seðlabankinn vildi upplýsa um málið. En hérna að hann hafi enn ekki gert það og að skýringin sé líklega sú að vegna persónuverndarsjónarmiða þurfi leyfi frá Geir. Sem Davíð segir að hafi ekki verið spurður. Auðvitað getur vel verið að þeir vinirnir hafi nefnt einkamál sín í framhjáhlaupi.

Ég finn ekki úrskurð Upplýsinganefndar. Getur einhver sagt mér hvar hann er að finna? Mig langar nefnilega svo að sjá rökstuðninginn. Hér eru upplýsingalögin. Samkvæmt þeim ætti að vera lítið mál að klippa út þau atriði sem snúa að persónuvernd. Nema auðvitað að það stefni öryggi landsins í hættu að almenningur fái upplýsingar um það hvernig það kom til að Davíð og Geir lánuðu Kappa Fling Fling 80 milljarða.

 

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics