___________________________________________________________________________________
Úganda er land undarlegrar þversagnar. Hér er paradís á jörð. Fullkomið veðurfar; hitastigið á bilinu 20-27 gráður árið um kring. Hér er nóg vatn og frjósamur jarðvegur, góðar koparnámur, olía, m.a.s. heitt vatn. Engu að síður býr þorri Úgandafólks við sára fátækt. Hér rignir reglulega en samt búa um 40% Úgandamanna við ófullnægjandi aðgegni að drykkjarvatni. Viktoruvatn fullt af fiski, ræktarskilyrði frábær og meira en 80% þjóðarinnar eru bændur en samt sem áður þjáist stór hluti þjóðarinnar af næringarskorti. Um 40% barnadauða má rekja beinlínis til vannæringar og 38% barna undir 5 ára aldri eru vannærð. Þetta er Úganda. Landið er auðugt, þjóðin snauð.
Ég reiknaði með að sjá fátækt í Úganda. Ég vissi að til eru stórir hópar fólks sem búa í moldarkofum og öðrum hreysum. En ég vissi ekki að byggingar sem standa undir nafninu „hús“ í mínum huga teldust beinlínis lúxus. Ég hélt að fréttamyndir segðu aðeins hluta af sannleikanum og að fátækrahverfi væru hverfi en ekki normið sjálft. Ég reiknaði með að meirihlutinn byggi við þröngan kost, kannski svona eins og Palestínumenn og að stórir hópar væru blásnauðir. En ég gerði mér enga grein fyrir því hvað fátæktin en mikil og almenn.
Koman til Kampala
Það fyrsta sem við sjáum þegar við lendum í Kampala er kýr á beit í útjaðri flugvallarins. Andrúmsloftið hér minnir meira á Ísland fyrir 40 árum en alþjóðlegan flugvöll og engum virðist liggja neitt á. Gestgjafi okkar bíður fyrir utan flugstöðvarbygginguna og við höfum á orði að ef ekki væru öll þessi pálmatré gæti þessi flugvöllur allt eins verið á Egilsstöðum. Hann jánkar því. „Svona er þetta líka í Kampala, eini munurinn á Egilsstöðum og Kampala er allt þetta svarta fólk“, segir hann. Fljótlega komumst við að því að það er hin mesta lygi.
Ég átti ekki von á hraðbraut inn í vestræna borg en ekkert af því sem ég sé á leiðinni er í neinni líkingu við það sem ég hafði ímyndað mér. Hér gengur búfénaður um götur, ekki bara í þorpunum heldur líka inni í miðri borg. Við ökum til Kampala eftir rauðum leirvegum og sjáum hvert kofatildrið á fætur öðru. Þetta eru mestmegnis fyrirtæki, skýli sem menn hafa hróflað upp úr spýtnabraki, greinum og bárujárni og skreytt með marglitum auglýsingaskiltum. Við sjáum líka heimili og þau eru ekkert veglegri en fyrirtækin en gestgjafinn segir mér að oft sé heimili fólks í sama „húsnæði“ og fyrirtækið.
Í borginni ægir saman andstæðum ríkidæmis og fátæktar. Hér standa hlið við hlið hrófatildur á borð við þau sem sjást á myndinni hér að ofan og veitingahús og verslunarmiðstöðvar að vestrænni fyrirmynd.
Byggingin sem sést hér í bakgrunni er ítalski markaðurinn. Aðeins ríka fólkið verslar þar.
Veitingastaðir almúgans eru meira í þessa veru
Túristabúðir eru í þokkalegum húsum með snyrtilegu umhverfi
Húsgagnaverslun í Kampala
Vestræn klæði
Svo margt sem vekur athygli okkar þennan fyrsta dag okkar í Kampala. Karlar flyytja ótrúlegustu byrðar á reiðhjólum og vélhjólum. Konur bera stórar ávaxtakörfur á höfðinu. Börn leika sér að ónýtum reiðhjóladekkjum í drullunni en hér er lítið um malbik eða steypar gangstéttar og flísar, allsstaðar þessi rauði, fíngerði leir sem verður að leðju í rigningu.
Það sem kemur okkur þó mest á óvart er tvennt: Annarsvegar það að að þrátt fyrir alla drulluna og þrátt fyrir að við vitum að margir hafi ekki aðgang að rafmagni og því síður þvottavél, virðast allir svo hreinlega til fara. Hvernig í ósköpunum tekst fólki að halda sér hreinu við þessar aðstæður? Hinsvegar kemur okkur það verulega á óvart að þrátt fyrir fátæktina sjáum varla nokkra hræðu í afrískum fatnaði. Hér eru allir klæddir að vestrænum sið, bæði konur og karlar og einnig þau börn sem á annað borð eru í fötum.
Þessi hreinu og snyrtilegu börn
búa hér
Eins og svo margar aðrar þversagnir Úganda skýrist klæðaburðurinn að nokkru leyti af vestrænum kapítalisma. Vestræn fyrirtæki hasla sér völl í þriðja heiminum. Ráða ódýrt vinnuafl til að fjöldaframleiða fatnað (gjarnan úr bómull sem þrælar hafa tínt) fyrir Vesturlönd. Við kaupum svo 10 sinnum fleiri flíkur en við komumst yfir að nota og samt sem áður sitja framleiðendur og verslanir uppi með miklar birgðir af óseljanlegum fatnaði og annarri vefnaðarvöru. Umframbirgðir eru sendar til Afríku auk óendanlegs magns af notuðum fatnaði sem við losum okkur við af því að við nennum ekki að gera við saumsprettu eða festa tölu. Nú eða bara af því að flíkin er ekki lengur í tísku. Hjálpin kemur sér vel. Fátæklingar fá fatnað og geta jafnvel opnað eigin verslanir. En þessi góðmennska okkar hefur samt sem áður óæskilega aukaverkun. Hjálparstarf hefur nánast gengið af innlendum fataiðnaði dauðum. Nýr fjöldaframleiddur kjóll úr dýrustu túristabúð kostar aðeins þriðjung af því sem klæðskerinn þarf að taka til að standa undir sér.
Fátæklingar þurfa fatnað en það síðasta sem Úganda þarf er atvinnuleysi heillar stéttar og það á við um fleiri Afríkuríki. Ég hef velt því fyrir mér hvort væri kannski réttast að leggja þróunarhjálp niður og láta Afríku bara í friði. Leiðtogar Afríkuríkja hafa haldið því fram að ef Vesturlönd borguðu sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum, og gæfu þriðja heims löndum aðgang að mörkuðum, gætu þeir ráðið við sínar þróunaráætlanir á eigin spýtur. Ég held að það sé rétt hjá þeim; þeir gætu vel ráðið við það. Hvort leiðtogar Afríku myndu skyndilega afspillast og taka upp sérstaka umhyggju fyrir sínum minnstu bræðrum, það efast ég aftur á móti um. En á hinn bóginn efast ég líka um að allt þetta fólk, sem svíður í nískupúkann vegna þeirra smáaura sem við verjum til neyðarhjálpar og þróunarsamvinnu, væri tilbúið til að afsala sér þeim gæðum sem ódýrt vinnuafl og auðlindarányrkja Vesturlanda hefur fært okkur.
_____________________________________________________________________________________