Mánudagur 08.07.2013 - 21:58 - FB ummæli ()

Skiljanleg viðbrögð löggunnar

[fb_video id=“10200167735496150″ height=“336″ width=“600″ ]

Fyrstu viðbrögð lögreglunnar við þessu umtalaða myndbandi voru ummæli á ímyndarrunkssíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Þar er bent á að fólki sé frjálst að leita réttar síns og staðfest að ríkissaksóknaraembættið muni skoða málið. Einnig segir:

Af þessu myndskeiði er ekki hægt að segja til um hvaða samskipti áttu sér stað milli lögreglumannanna og þessa einstaklings sem varð til þess að hún var handtekin.

Ég hef nokkrar athugasemdir í tengslum við þetta svar.

  • Að sjálfsögðu er fólki frjálst að leita réttar síns ef lögreglan fer offari en það ber sjaldan árangur. Í þessu tilviki er til gott sönnunargagn en venjulega er ekki hægt að sanna að harðræði hafi verið beitt eða að áverkar séu tilkomnir vegna óþarfa valdbeitingar.
  • Ríkissaksóknari getur aldrei talist hlutlaus en því miður hafa ábendingar til innanríkisráðherra, um nauðsyn þess að koma á ytra eftirliti með lögreglunni, engan árangur borið.
  • Það er rétt að ekki er hægt að segja til um það hvað hafði gengið á áður en konan var handtekin en málið snýst ekki um það heldur um það hvort handtakan var a) lögleg og b) rétt að henni staðið.

Fór lögreglan offari?

Það er tilgangslítið að ræða lögmæti handtökunnar. Lögreglan virðist hafa nær ótakmarkað vald til að segja almennum borgurum fyrir verkum og það að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu telst brot gegn valdstjórninni (sem reyndar er ekki skilgreind í lögum.) Strangt tiltekið mætti lögreglan handtaka mann sem óhlýðnaðist fyrirmælum hennar um að hoppa upp í rassgatið á sér. Við skulum samt gefa okkur að lögreglan hafi haft betri ástæður fyrir þessari handtöku. Sumir telja víst að konan hafi hrækt á lögregluþjóninn og að það hafi verið ástæða handtökunnar. Ég sé það reyndar ekki en vel má vera að það sjáist á stórum skjá.

Það sem ég sé hinsvegar mjög greinilega á myndabandinu er þetta:

  • Lögreglubíl er ekið af stað þótt manneskja sem er nýstaðin upp úr götunni og lítur út fyrir að vera ölvuð gangi alveg upp að bílnum (0:21)
  • Bíllinn ekur svo nálægt konunni að hliðarspegillinn fer utan í hana (0:24).
  • Lögregluþjónn notar bílhurðina til að stjaka við konunni (0:28).
  • Konan slagar að bílnum (0:33). Hurðinni er svipt upp og skellt utan í konuna. Um leið heyrist einhver sem fylgist með atvikinu segja „hún hrækti á hana-hann hræki á hana“ rétt eins og hann sé ekki alveg viss um hvort þeirra hrækti (0:35). Í báðum tilvikum segir hann „hrækti á hana“ sem gæti átt annað hvort við konuna eða bílhurðina.
  • Lögregluþjónn snarast út úr bílnum en ekki til að athuga hvort hann hafi meitt konuna, heldur grípur hann óþyrmilega um handlegg hennar (0:36).
  • Hann hendir konunni aftur á bak, svo mjóbakið á henni skellur harkalega niður á stálhandrið á garðbekk (0:37).
  • Lögregluþjónninn rífur konuna upp og skellir henni á grúfu í götuna (0:38).
  • Hann dregur hana eftir götunni (0:39).
  • Hann þrífur í handleggi hennar og þvingar þá aftur fyrir bak og um leið kemur annar lögregluþjónn að (0:41).
  • Lögregluþjónninn setur annað hnéð í bakið á konunni og hitt hnéð ofan á hnakka hennar  (0:43)
  • Þeir félagar hjálpast að við að handjárna konuna (0:46) og sá sem réðist á hana hvílir þunga sinn á hnjánum ofan á henni.
  • Konan er rifin á fætur um leið og járnin eru komin á hana (0:52) ekkert er hugað að því hvort hún sé meidd.
  • Hún er leidd að lögreglubílnum (0:55).
  • Henni er ekki gefið neitt færi á að stíga upp í bílinn heldur er henni ýtt inn í hann með andlitið á undan (0:57).

Þetta atvik vekur nokkrar spurningar, m.a. þær hvort það séu venjuleg vinnubrögð lögreglu;

  • að aka af stað á meðan manneskja sem er völt á fótum og sennilega með skerta dómgreind er í snertifæri við bílinn?
  • að nota bíl sem valdbeitingartæki?
  • að henda manneskju sem hefur fengið högg á hrygginn í götuna og handjárna hana án þess að huga að ástandi hennar?
  • að draga manneskju eftir götunni?
  • líka manneskju sem hugsanlega er meidd?
  • Eru það venjuleg vinnubrögð að beita líkamsþunga á hrygg og hnakka til að halda niðri manneskju sem e.t.v. er með bakmeiðsli?
  • og að flytja burt í járnum manneskju sem  hefur litla líkamsburði og hefur fengið á sig þungt högg sem e.t.v. hefur valdið skaða?

Ég get ekki svarað því hvort þessi vinnubrögð eru venjuleg en ég fullyrði að lögregluofbeldi er ekkert einsdæmi. Ég þekki mörg dæmi þess að fólk beri áverka eftir handtökur. Ég hef orðið vitni að algjörlega tilefnislausri handtöku, ég hef séð lögregluna draga mann á hárinu og ég hef sjálf orðið fyrir gjörsamlega óþarfri valdbeitingu af hálfu lögreglu. Lögregluofbeldi á sér ekki bara stað í undantekningatilvikum einmitt þegar myndatökuvél er nálægt, heldur oft og iðulega og þegar það fer fram í lögreglubíl eða fangaklefa eru engin vitni að því.

Eðlileg viðbrögð

Hver sem forsagan að þessu atviki kann að vera, er augljóst að hér missir lögregluþjónn stjórn á skapi sínu. Ég hef séð því fleygt að það sé eðlilegt að maður missi stjórn á sér þegar einhver hrækir á hann. Ég tek undir það sjónarmið, það er ákaflega mannlegt að bregðast við vanvirðingu með reiði (og hugsanlega var konan einnig að bregðast við slæmri framkomu). Það eru jafnvel eðlileg en engu að síður óviðunandi viðbrögð að grípa til ofbeldis.

Hversvegna hegða menn sér svona? Er það að einhverju leyti af því að þeir vita að það er ólíklegt að þeir þurfi að svara fyrir það? Getur verið að fólk sem fær mikið kikk út úr því að sýna vald sitt sé öðru líklegra til að vilja vinna við löggæslu? Elur löggan hrottaskap upp í starfsfólki sínu? Kannski eitthvað af þessu, en ég held líka að það sé bara frekar eðlilegt að menn sem alla daga standa í erfiðum samskiptum við fólk í misannarlegu ástandi, oft fólk sem ber enga virðingu fyrir þeim og því valdi sem þeim er gefið, missi stjórn á sér.

Og nei, ég er ekki að segja að það sé í lagi, síður en svo. Lögreglan hefur einkaleyfi á ofbeldi og það einkaleyfi setur henni mjög þunga ábyrgð á herðar. Lögreglan hefur skýr fyrirmæli um að beita aldrei meira valdi en nauðsynlegt er og flestir eru sammála um að misbeiting lögregluvalds sé með öllu ólíðandi. Engu að síður er lögregluofbeldi nokkuð sem búast má við, vegna þess að hvað sem öllum reglum líður þá eru lögregluþjónar ekkert siðferðilega yfir annað fólk hafnir. Lögregluþjónar sýna af sér hroka, missa stjórn á skapi sínu, misbeita valdi sínu og reyna að ljúga sig út úr vandræðum rétt eins og annað fólk. Og einmitt vegna þess að löggur eru mannlegar eru valdbeitingarheimildir lögreglu vafasamar og útheimta stöðugt eftirlit og stöðuga gagnrýni. Og einmitt vegna þess að það er manninum eðlilegt að bregðast við reiði og ótta með óskynsamlegum aðferðum, ætti aldrei, aldrei. aldrei að koma til álita að leyfa lögreglunni að bera rafbyssur eða önnur hættulegri vopn.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics