Miðvikudagur 10.07.2013 - 14:02 - FB ummæli ()

Og enginn spyr hvort þeim finnist það í lagi

Fjöltengið Jón Hákon Magnússon tjáði sig um mál Edwards Snowden á Bylgjunni í gærmorgun (viðtalið byrjar á 5. mínútu.) Ekki finnst Jóni Hákoni ástæða til þess að Íslendingar skipti sér af mannréttindum manns sem afhjúpaði stórfelldar persónunjósnir. Allt snýst þetta auðvitað um okkar viðskiptahagsmuni. Ekkert er minnst á þá hagsmuni okkar og annarra jarðarbúa að njóta einkalífs.

Þáttastjórnendur taka fullan þátt í svívirðunni. Annar þeirra talar t.d. um að Snowden hafi brotið samning með uppljóstrunum sínum. Heldur maðurinn í alvöru að einhver sé siðferðilega bundinn af samkomulagi um að leyna stórfelldum mannréttindabrotum? Flestir íslenskir fjölmiðlamenn eru tilþrifalitlir en þessi tvö eru beinlínis fyrirlitileg.

„Glæpur“ Edwards Snowden var ekki sá að kjafta hernaðarleyndarmálum í hryðjuverkamenn.  „Glæpur“ hans var sá að segja þér og mér og öllum hinum frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum stundi persónunjósnir, ekki bara gagnvart hryðjuverkamönnum og glæpaklíkum heldur gagnvart öllum almennum borgurum. Öllum.

  

Í þessu viðtali segir Snowden frá því að hvaða greinandi sem er (líka hann sjálfur á meðan hann var í þessu starfi) hafi vald til þess að hljóðrita síma- og netsamskipti hvers sem er. Almennra borgara, dómara, forsetans… ALLRA.  Það er sú hegðun sem Snowden kom upp um. Jóni Hákoni Magnússyni finnst engin ástæða til að við sýnum honum samstöðu.

Bandarísk yfirvöld taka upp nánast öll símtöl og netsamskipti almennra borgara. Og ekki bara bandarískra. Ef þú notar google, facebook, skype, twitter eða aðra samskiptamiðla þá getur verið að þú sért undir eftirliti bandarískra stjórnvalda. Það er stjórnarskrárbrot. Það er mannréttindabrot. Þáttastjórnendur spurðu Jón Hákon ekkert hvort honum þætti það í lagi.

Ég hef heldur ekki séð neinn blaðamann spyrja nokkurn þeirra þrjátíu og þriggja þingmanna sem neituðu að skjóta máli Snowdens til þingnefndar hvað þeim finnist um þetta háttalag bandarískra stjórnvalda. Ef slík umfjöllun hefur farið fram hjá mér þá þigg ég ábendingar.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lög og réttur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics