Miðvikudagur 06.11.2013 - 11:58 - FB ummæli ()

Valdboð og lýðræði

Ég held því fram að við séum hægt en örugglega að þokast í átt til lýðræðis. Æðsta stig lýðræðis er anarkí. Það merkir ekki allsherjarupplausn þar sem engar reglur gilda og menn vaða bara um í einhverju stjórnleysi, heldur merkir það samfélag án yfirvalds. Það merkir að ríkisvald verður afnumið. Ekki að samfélagið verði afnumið heldur að valdakerfið verður stokkað upp. Ekki að engin stjórn verði á nokkrum hlut heldur að hlutverk stjórnenda verður eingöngu að leiðbeina og halda utan um verkefni en ekki að ráðskast með aðra.

Þetta er að gerast á mörgum sviðum. Staða stjórnenda á vinnustöðum er að breytast og óttablandin virðing fyrir yfirmanninum þykir bara frekar hallærisleg nú orðið. Í dag þykja það góðir stjórnhættir að hafa samráð við starfsfólk og einnig skjólstæðinga eða viðskiptavini þegar það á við. Góðir stjórnendur sjá sér hag í því að koma fram við starfsfólk sem jafningja, bæði vegna þess að reynsla þess og sýn getur verið dýrmæt en einnig vegna þess að þátttaka í ákvörðunum eykur starfsánægju og samheldni starfsfólks og stuðlar að hollustu þess við vinnustaðinn. Margt bendir til þess að frjálsræði starfsfólks komi atvinnurekandanum betur en strangar reglur og mikið eftirlit eins og komið er inn á í þessum skemmtilega fyrirlestri.

[ted id=618]

Vinnustaðalýðræði er að nokkru leyti sjálfsprottið og að nokkru leyti afurð rannsókna. Allir græða á því og þessvegna eru góðar líkur á að æ fleiri atvinnurekendur taki það upp á arma sína.

Nú hef ég meira áliti á Svandísi Svavarsdóttur en flestum þingmönnum og efast ekki um að hún vilji vel með tillögu sinni um að lögbinda vinnustaðalýðræði. En er það ekki dálítið þversagnakennt að ríkisvaldið taki að sér að troða lýðræðinu ofan í kok stjórnenda og starfsfólks?

Ef Alþingi hefur í alvöru áhuga á því að auka lýðræði þá ætti það að ganga fram með góðu fordæmi og leita álits almennings í meiri mæli en það gerir í dag. Eða í það minnsta að ganga ekki þvert gegn vilja almennings þegar hann liggur fyrir, eins og raunin varð t.d. í umræðunni um stjórnarskrárfrumvarpið þar sem þingmenn VG og Samfylkingar sáu sjálfir um að slátra málinu á meðan Sjálfstæðismenn og Framsókn sátu glottandi hjá. Það er satt að segja dálítið kaldhæðnislegt í ljósi þess hvernig fór um það mál að einmitt þjóðfundurinn og stjórnarskrárfrumvarpið skuli vera talið til í greinargerð með þessari tillögu um vinnustaðalýðræði.

Kannski ættu þingmenn VG og Alþingismenn aðrir bara að laga dálítið til heima hjá sér áður en þeir fara að segja atvinnurekendum hvernig þeir eigi að stjórna sínum fyrirtækjum. Ríkisvald sem boðar lýðræði á öðrum vettvangi en sínum eigin er nefnilega jafn ótrúverðugt og einvaldur sem reynir að banna persónudýrkun gagnvart öllum öðrum en sjálfum sér.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics