Fimmtudagur 07.11.2013 - 12:24 - FB ummæli ()

Ljósvakamiðlar tala bara við karla

Enn einu sinni er það staðfest að konur fá töluvert minna vægi í fjölmiðlum en karlar. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Svona hefur þetta alltaf verið. Við njótum jafnréttis að lögum en jafnræði ríkir ekki með kynjunum og ef maður álítur að það efli lýðræði, upplýsingu og velferð að sem flestar ólíkar raddir heyrist, þá er þessi mikli kynjahalli vandamál. (Það er þá einnig vandamál hversu lítið heyrist frá ýmsum minnihlutahópum.)

Það er samt afskaplega ódýrt að afgreiða kynjahallann í fjölmiðlum sem merki um að blaðamenn sniðgangi konur. Blaðamenn eru annarsvegar að reyna að framleiða efni sem almenningi finnst áhugavert og hinsvegar að sinna því hlutverki að koma til skila upplýsingum um atburði og umræðu sem hefur að líkindum afleiðingar fyrir samfélagið, til góðs eða ills. Ástæðan fyrir því að konur fá minna vægi í fjölmiðlum er miklu frekar sú að þær eru sjaldan í lykilstöðum en sú að blaðamenn séu kvenfjandsamlegir.

Önnur augljós ástæða er áhugaleysi kvenna á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég hef margoft bent á að þegar maður skoðar fjölda greina og pistla sem fólk birtir af eigin frumkvæði koma fram svipuð kynjahlutföll, ef eitthvað er eru konur færri í þeim flokki. Nærtækasta skýringin á þessu er sú að konur sækist síður eftir því en karlar að tjá sig opinberlega.

Árum saman hafa feministar velt sér upp úr kynjahallanum í fjölmiðlum og bent á sökudólga, sem eru aldrei konurnar sjálfar.  Sumir hafa viðrað tillögur um að fjölmiðlar taki upp eitthvert form kynjakvóta eða leggi meiri áherslu á það sem konur eru að fást við enda þótt þau viðfangsefni hafi sáralítil áhrif, nema á örfáa einstaklinga. Staðreyndin er samt sú að á okkar tímum hafa konur ekkert minni möguleika en karlar á því að seilast til áhrifa og valda og það er nákvæmlega ekkert sem hindrar konur í því að tjá sig opinberlega.

Ég sé ekkert gagn í því að leita að sökudólgum. Ég vildi hinsvegar gjarnan sjá umræðu um það hvernig stendur á því að konur sækjast síður eftir því að hafa áhrif og hvað sé hægt að gera til að það breytist. Því jafnvel þótt næðist almenn sátt um þá aðferð að setja kynjakvóta á fjölmiðla þá handstýrum við því ekki hvað fólk birtir á internetinu, svo þar verður hallinn í það minnsta ekki réttur með neinni ritstjórnarstefnu.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics