Miðvikudagur 13.11.2013 - 16:28 - FB ummæli ()

Vantrúin, heilsufrelsið og umræðan

Ég er trúleysingi en trúi á galdur. Þetta virðist vera þversögn. Það sem ég á við er þetta; ég trúi ekki á „yfirnáttúru“ en ég held að mannshugurinn geti haft áhrif á veruleikann. Við tölum um það sem við skiljum ekki sem eitthvað „dularfullt“ en hvað eftir annað varpa vísindin dulúðinni af því sem vekur undrun okkar og það reynist fullkomlega náttúrulegt.

Ég tel að galdraþulur og rúnaristur eigi töluvert skylt við það sem dag kallast sálfræði. Vísindin hafa skýrt fáein fyrirbæri sem áður voru kölluð „kraftaverk“ (t.d. þegar manneskjur sem sjá ástvini í lífshættu öðlast skyndilega ofurkrafta) og ég trúi því að margt fleira undursamlegt eigi eftir að koma á daginn um mátt mannsins. En vísindi eru ekki „forn viska“ eða „aldagamlar aðferðir“. Vísindi eru ekki reynslusögur. Vísindi eru áreiðanleg þekking sem hægt er að sannprófa og útskýra. Og að hafna því að nota orðið „vísindi“ um kukl  merkir ekki að maður fyrirlíti hvern þann sem hefur gaman af stjörnuspám eða telur sýklalyf neyðarúrræði, heldur að maður fer fram á að orðið „vísindi“ sé notað í réttri merkingu. Því annað er lygi.

Kerlingabækur og vísindi

Vísindin eiga sér rót í hugmyndum og fikti sem upphaflega tengjast dulúð og galdri. Nútíma lyfjafræði er að hluta sprottin úr hugmyndum sem stundum eru kallaðar „kerlingabækur“. Kerlingar töldu sig sjá samband milli lækningar og notkunar jurta. Þegar þessar hugmyndir voru prófaðar með vísindalegum aðferðum staðfestist að sumar jurtir hafa raunveruleg áhrif á sjúkdóma.  Áhrifin standa þó ekki í sambandi við lögun rótarinnar, lit krónunnar eða blessun jómfrúr Maríu, heldur eru í þeim efni sem hafa áhrif á líkamsstarfsemina.

Stundum notuðu kerlingar jurtir mjög blessunarlega, þrátt fyrir þekkingarleysi sitt, en nóg eru dæmin um lækningatilraunir sem höfðu skelfilegar afleiðingar. Hugmyndin um að sjúkdómar séu „í blóðinu“ er ekki alvitlaus, en blóðtökulækningar fyrri alda eiga lítið skylt við blóðmeinafræði nútímans, þær gerðu ekkert gagn en ollu stundum tjóni. (Áhugavert er að þótt „læknar“ sem notuðu þá aðferð hafi flestir verið karlar hef ég aldrei heyrt talað um það rugl sem „karlabækur.“)

Í þessu liggur munurinn á visku kuklarans og vísindamannsins; kuklarinn byggir á vafasamri reynslu og hugmyndum sem hafa ekki verið sannprófaðar. Þær reynast oft rangar og stundum skaðlegar. Það er hættulegt að kynna kukl sem vísindi og gagnrýni Svans Sigurbjörnssonar á hugmyndir um að ríkið eigi að greiða veg hjávísinda er réttmæt og þörf.

Gangrýni Hörpu Hreinsdóttur

Í grein sinni Dr. Svanur og hinir Vantrúarfélagarnir gagnrýnir Harpa Hreinsdóttir það sem hún kallar augljósar gloppur í málflutningi Svans. Harpa er ekki að öllu leyti sanngjörn. Hún gagnrýnir t.d. Svan fyrir að taka öfgafull dæmi en tekur nú samt öfgafull dæmi sjálf. Ábendingar Hörpu eru samt áhugaverðar og ég held að ef engin fyrirlitning ríkti á milli Hörpu og Vantrúar og framsetningin væri aðeins öðruvísi, þá væri margt efahyggjufólk tilbúið til að skoða þær með opnum huga. En Harpa er ekki að tala við harðkjarna efahyggjufólk. Augljóst er af skrifum Hörpu að henni þykja Vantrúarmenn hrútleiðinlegir hrokagikkir. Framsetning hennar bendir til þess að þrátt fyrir að ávarpa Svan og Vantrú sé markmiðið ekki að halda uppi samræðu við þá sem andæfa hugmyndum um „lækningafrelsi“  (það eru ekkert bara Vantrúarmenn sem leggjast gegn því) heldur einhverja aðra.

Mér finnst ágætt að fólk sem engar líkur eru á að geti orðið sammála reyni að koma sjónarmiðum sínum í almenna umræðu með því að talast á fremur en að tala saman. Þeir sem ekki eru í einhverju liði geta haft gagn af röksemdum bæði Svans og Hörpu. Gagnrýni Hörpu snýst um eftirfarandi:

– Að almennir borgarar eigi rétt á því að meta upplýsingar og taka ákvarðanir um eigin meðferð.
– Að sumt af því sem flokkast sem viðurkenndar lækningar skorti vísindalega undirstöðu.
– Að vísindin sjálf hafi margsinnis afsannað það sem áður var álitin vísindaleg þekking.
– Að málflutningur Svans sé ekki laus við öfgar.

Nú er rétt að halda því til haga að hvorki Vantrú né Svanur sjálfur hafa lagt til að fólk verði svipt sjálfsákvörðunarrétti sínum.  Það er þó sjálfsagt að benda á að læknisfræðin hefur oft verið notuð til þess að réttlæta yfirgang og vísindin eru ekki hafin yfir gagnrýni almennings. Efahyggjumenn eru ekki undanþegnir mannlegri tilhneigingu að verða kreddufullir í sannfæringu sinni og eins og það er vitlaust að tala um efahyggju sem „trúarbrögð“, þá er  samt ekki við öðru að búast en að þeir sem kjósa lífræna ræktun og vilja ekki nota lyf að óþörfu, dæsi eitthvað um „ofsatrúarmenn“ þegar Heilsuhúsið er talið varhugavert og dregið í efa að apótek eigi að selja vörur frá framleiðanda sem merkir vörur sínar svo heiðarlega sem „galdur“ en ekki vísindi. Lyfjabúðir selja líka naglalakk og brjóstsykur og er það ekki fullmikil vantrú á ályktunarhæfni sauðmúgans að vilja að sótthreinsa apótek af öllu sem ekki telst óumdeilanlega til lyfja?

Getum við rætt þetta?

Samantekt Svans um kukliðnaðinn er sjokkerandi og þótt gagnrýna megi einstaka atriði er hún í heildina skynsamleg og þörf. Ég vona að allir þingmenn skoði hana og ég vona að sem flestir almennir borgarar geri það líka. En ég vona líka að sjúklingar sem treysta ekki heilbrigðiskerfinu fái áheyrn. Það er of algengt að ákvarðanir séu teknar án þess að þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta sé boðið til umræðunnar.  Réttmæt gagnrýni Svans á „lækningafrelsi“ annarsvegar og hinsvegar ágætar ábendingar Hörpu um að kukl og kennivaldsdýrkun hafi alltaf þrifist innan viðurkenndra lækninga, geta, ef áhugi er fyrir því, orðið grunnur að gagnlegri umræðu.

  • Er hægt að tryggja neytendum réttar upplýsingar um áreiðanleika greiningar og áhrif lyfja, tækja og meðferðar án þess að setja upplýsingafrelsi óþarfa skorður?
  • Er hægt að útrýma skæðum sjúkdómum án valdníðslu gagnvart þeim sem óttast bólusetningar?
  • Hversu langt eigum við að ganga í því að virða sjálfsákvörðunarrétt sjúklings og hvenær erum við sem samfélag farin að vanrækja verndarskyldu okkar gagnvart þeim sem ekki hafa forsendur til að taka upplýsta ákvörðun?

Þessar spurningar og margar fleiri eru langt frá því að vera einkamál heilbrigðiskerfis og stjórnvalda. Ég vona því að umræðan um heilsufrelsi og markaðssetningu hjálækninga verði víðtækari, dýpri og áhugaverðari en svo að hægt sé að afgreiða hana sem pissukeppni milli Vantrúar og kuklara.

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics