Svona á að gera þetta! Ekkert að vera að eyða tímanum í að ræða við dauðadrukkið fólk heldur hóta því strax frelsissviptingu og ofbeldi. Já og þegar hálfrænulaus manneskja gónir í forundran á lögguna, skal umsvifalaust túlka gónið sem „ögrandi augnaráð“ og hefja forvirkar refsiaðgerðir hið snarasta. Það ku aukinheldur virka einkar vel á almenna borgara að gera þeim ljóst að hegðun þeirra beri vott um greindarskort að því marki að það teljist fötlun, sér í lagi mun ölvað fólk taka slíkar athugasemdir til gaumgæfilegrar athugunar og leggja sig fram um að hegða sér af sömu skynsemi og yfirvaldið.
Ríkislögreglustjóri þykist yfir það hafinn að gefa skýringar á samstarfi sínu við erlendar leyniþjónustur. Innanríkisráðherra neitar að tjá sig um refisivert brot ráðuneytisins á persónuverndarlögum. Þessi lögguhrotti kemst reyndar ekki upp með að neita að svara en hann svífst þess ekki að tala eins og HANN sé þolandinn í þessu máli.
Þótt þessar fréttir séu ótengdar vakna ósjálfrátt nokkrar óþægilegar spurningar þegar maður les þær allar á sama háftímanum. Ef ögrandi augnaráð telst svo sterkt merki um að manneskja sé hættuleg, að lögreglan telji það réttlæta það ofbeldi sem við höfum sjálf séð á myndbandi sem almennir borgarar náðu af atburðinum, hvernig hugsa þá valdníðingar í æðstu stöðum? Er ögrandi augnaráð nóg til þess að almennir borgarar sæti ólöglegu eftirliti? Er nóg að fyrir ólétta konu að ögra yfirvaldinu með því að kvarta yfir framkomu þess í fjölmiðlum til þess að það telji nauðsynlega refsiaðgerð að leka perónuupplýsingum eða þarf hún að vera svört líka?
Yfirvald er réttlætt með því að einhvernveginn þurfi að koma böndum á hina andfélagslegu. Ofbeldismenn og þjófa. Drukkið fólk og útlendinga. Orðið „andfélagslegt“ á þó öllu betur við hegðun opinberra stofnana sem neita að svara fyrir gjörðir sínar og starfsmenn sem misbeita valdi sínu og kunna ekki einu sinni að skammast sín. Við þurfum að koma á ytra eftirliti (ekki innra heldur ytra) með ofbeldisstofnunum ríkisvaldsins; Lögreglunni, Fangelsismálastofun og Útlendingastofnun, sem fyrst, því andfélagslegri fyrirbæri finnast varla og vald þeirra er þegar allt of mikið.