Sunnudagur 15.12.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Aðventuljósin eru ekki gyðingaljós

 

adventuljos-688x400Aðventuljósin, stjaki með sjö kertum sem mynda tind, eru oft kölluð „gyðingaljós“ á Íslandi enda telja margir þau tengd ljósahátíð gyðinga. Þessar vinsælu aðventuskreytingar hafa þó litla ef nokkra tengingu við gyðingdóm.

Aðventuljósin eru upprunnin í Svíþjóð. Þar var siður í sveitum að setja kertaljós í glugga frá Lúsíuhátíðinni þann 13. desember og fram að jólum, til þess að varða leiðina fyrir kirkjugesti sem voru á ferð í skammdeginu. Rafmagnsljósin voru fyrst fjöldaframleidd í Gautaborg 1939 eftir hönnun manns að nafni Oscar Andersson sem smíðaði fyrstu skreytinguna af þessu tagi, að minnsta kosti þá fyrstu sem vitað er um, nokkrum árum fyrr.

Ljósin sjö eru sumstaðar sögð tákna hina sjö daga vikunnar en ég hef ekki séð skýringar á því hvaða máli dagafjöldinn skipti eða hvernig hann tengist þessum árstíma. Talan sjö er miklvæg í flestum trúarbrögðum svo auðvitað getur verið að sé djúp hugsun á bak við það að hafa kertin 7 talsins en kannski var hönnuðurinn líka bara að hugsa um útlitið. Fyrstu aðventuljósin sem voru fjöldaframleidd mynduðu brú en síðar komst í tísku að láta þau mynda hvassan tind og það útlit er sennilega vinsælast á Íslandi.

julottestaken

Aðventuljósin bárust til Íslands 1964. Íslenskur kaupsýslumaður, Gunnar Ásgeirsson keypti fyrst nokkra stjaka til persónulegra gjafa en hóf síðar innflutning á þeim, löngu áður en þau náðu útbreiðslu í Svíþjóð.

Íslendingar hafa kallað aðventuljósin „gyðingaljós“. Þessar sænskættuðu ljósabrýr eru þó að útliti ólíkar þeim kertastjökum sem einkenna hanukkah, þ.e. ljósahátíð gyðinga. Þar eru kertin 9 talsins, 4 þeirra mynda beina línu en miðjukertið ber hærra. Ljósahátíðin stendur í 8 daga og kveikt er á einu kerti hvern dag hátíðarinnar. Miðjukertið má loga hvenær sem er en hin kertin eru eingöngu notuð við trúariðkun. Einnig er til í gyðingdómi sjöljósa stjaki, menorah, sem er ekki sérstaklega tengur ljósahátíðinni. Hann hefur einnig allt annað útlit en sænsku aðventuljósin, því þar eru öll kertin í sömu hæð. Einnig er til afbrigði þar sem miðjukertið ber hæst eins og á hanukkah stjakanum Bæði hanukkah ljósastjakinn og menorah ljósastjakinn standa á fæti, ólíkt „gyðingaljósum“ Svía.

Auk þess sem aðventuljósin eru ólík hanukkah-ljósum í útliti er gyðingdómur ekki útbreiddur í Svíþjóð. Það er því ekkert sérstakt sem bendir til þess að aðventuljósin hafi neitt með gyðingdóm eða önnur trúarbrögð að gera. Fyrst og fremst eru þau huggulegt sænskt jólaskraut, ætlað til þess að lýsa upp skammdegið, og sennilega ekkert meira en það.

===

Áður birt í Kvennablaðinu.

Flokkar: Allt efni · Menning og listir · Ýmislegt
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics