Föstudagur 20.12.2013 - 12:43 - FB ummæli ()

Enn af afrekum Hönnu Birnu

Ráðsnilld íslenskra stjórnvalda er með ólíkindum þegar þau vilja losna við flóttamenn. Oftast er Dyflinnarsamkomulagið misnotað til þess að troða flóttamanninum upp á ríki sem þegar taka við miklu fleira fólki en þau ráða við. Það sem gerist þá er að Útlendingastofnun sendir þarlendum stjórnvöldum erindi þess efnis að hún telji að hinu ríkinu beri að taka við manninum.  Ef Dyflinnarreglan á við getur hitt ríkið ekkert gert annað en að samþykkja.

Tony Omos var sendur til Sviss á dögunum. Hann á að vísu von á barni á Íslandi og ljóst að með því tiltæki er verið að brjóta alþjóðasamninga um rétt barna og foreldra til að umgangast. Núverandi innanríkisráðherra virðist þó ekki bera sérstaka virðingu fyrir alþjóðasamningum eða íslenskum lögum svo það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart þótt brotið sé gegn réttindum Tonys og ófædda barnsins hans eins og annarra sem sækja um hæli á Íslandi. Það sem kemur mér á óvart í þessu máli er að þegar Tony lenti í Sviss fékk hann þær upplýsingar að svissnesk yfirvöld hefðu ekki samþykkt að taka við honum. Þar með neituðu þau að hýsa hann. Það sem getur hafa gerst hér er eitt af þrennu;

  • Verið getur að svissnesk stjórnvöld hafi dregið að svara erindinu og að þegar frestur þeirra var útrunninn hafi háttvirtur innanríkisráðherra ákveðið að senda manninn úr landi án þess að nokkur trygging væri fyrir því að mál hans yrði tekið fyrir í Sviss.
  • Vera má að svissnesk stjórnvöld hafi svarað erindinu á þá leið að þau telji Dyflinnarregluna ekki eiga við, sem er ekkert ólíklegt þar sem Tony er búinn að vera á Íslandi í tvö ár. Ef svo ólíklega vill til hefur Innanríkisráðuneytið farið enn verr að ráði sínu en ég hefði talið trúlegt.
  • Einnig er hugsanlegt að svissnesk stjórnvöld hafi aldrei móttekið neitt erindi frá Íslandi.

Hver sem ástæðan er, er staðan þessi; Tony Omos er staddur í Sviss. Meðalhitastig á þessum árstíma er 5°C. Þegar þetta er ritað er hitastigið í Bellinzona, þar sem Tony er staddur,  2°C. Tony er á götunni og hefst við á lestarstöð.

Það er Hanna Birna Kristjánsdóttir sem ber ábyrgð á því.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics