Ég var 13 ára og stóð nakin í sturtuklefa þegar bekkjarsystir mín taldi viðeigandi að vekja athygli hinna stelpnanna á útliti kynfæra minna. Ekki svo að skilja að það kæmi mér á óvart. Ég hafði lengi haft af því töluverðar áhyggjur að dýrðin á mér væri að taka á sig mynd einhvers konar skordýrs. Í tepruskap mínum kallaði ég fyrirbærið meira að segja „fiðrildið“ í leyndarmáladagbókinni minni. Ef ég hefði ekki talið víst að alvarlegri vansköpun þyrfti til þess að fá lækni til að munda hnífinn hefði ég eflaust verið farin að safna fyrir lýtaaðgerð. Mér til nokkurrar hugarhægðar létu hinar stelpurnar sér fátt um finnast. Sennilega höfðu þær verið meðvitaðar um þennan fæðingargalla fyrir og sú háttvísasta í bekknum sneri talinu þegar í stað að öðru. Ég hef aldrei síðar fengið athugasemdir vegna þessa stóra og mikla vandamáls og hef þó átt fleiri bólfélaga en kristilegt getur talist.
Ég sættist við millifótastykkið á mér nokkrum árum síðar þegar tveir galgopar sögðu okkur vinkonunum flissandi frá klámmynd um konu með talandi píku. Ég hugsaði sem svo að ég gæti tekið að mér aðalhlutverkið í næstu mynd sem yrði þá um píku sem hlustaði, þar sem ég hefði mjög greinilega eyrnasnepla dinglandi neðan úr dýrðinni á mér. Á sama augnabliki rann upp fyrir mér að sumt fólk hefur varla neina eyrnasnepla og það þykir ekki vandamál. Kannski gilti bara það sama um píkur. Sumar þeirra prýða greinilegir sneplar, aðrar ekki. Síðar las ég grein þar sem fram kom að hlutfall kvenna með stóra skapabarma væri á bilinu 20-40 af hundraði, eftir því hversu sýnilegur dónaskapurinn á konunni má vera til þess að teljast umberanlegur. Ég hef ekki hugmynd um hvort þær tölur eru áreiðanlegar en fyrirbærið „síðir barmar“ er þó varla svo sjaldgæft að stúlku eigi að þurfa að líða eins og viðundri vegna þess.
Ljósmæður taka til máls
Þann 6. janúar birti Síðdegisútvarpið viðtal við tvær ljósmæður sem telja fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna mjög ámælisverðar. Enn fremur mæla þær gegn því að kynhár séu fjarlægð.
Ég get tekið undir sumar skoðanir þessara ljósmæðra. Það er óeðlilegt að lýtalæknar, einir lækna, þurfi ekki að standa landlækni nein skil á tíðni og tegund aðgerða. Ef þetta er rétt væri vert að blaðamenn leituðu skýringa á því hvers vegna annað gildi um lýtalækna en augnlækna og tannlækna.
Ég deili einnig með ljósmæðrunum grunsemdum um að meint líkamleg óþægindi vegna stórra skapabarma séu stórkostlega ýkt. Ef vandamálið er það að þröngar buxur særi kynfæri þá er augljóslega áhættuminni lausn að finna sér buxnasnið sem fellur að líkamanum en að reyna að sníða líkamann að buxunum. Ég hef ekki, fremur en ljósurnar, heyrt nokkra konu kvarta um önnur vandamál tengd stórum skapabörmum en þau að útlit þeirra sé til ama, en ef lesendur vita hvort einhver hefur rannsakað hversu algengar slíkar umkvartanir eru, þá þigg ég ábendingu.
Ég get enn fremur tekið undir það sjónarmið að rétt sé að upplýsa ungar stúlkur um að píkur séu jafn ólíkar í útliti og aðrir líkamshlutar. Líklega verður fólk uppteknara af áhyggjum þegar erfitt er um samanburð. Ég bendi þeim stúlkum sem hafa áhyggjur af sköpulagi sínu á að skoða myndbandið sem birt er í lok þessarar greinar.
Í gegnum umræðuna um lýtaaðgerðir og útlitsdýrkun, sem er þörf og að nokkru leyti skynsamleg, skína þó hugmyndir sem ég tel að eigi ekki við rök að styðjast.
Áhyggjur af útliti kynfæra eru ekki nýnæmi
Í máli ljósmæðranna kemur fram að áhyggjur kvenna af útliti kynfæra sinna sé splunkunýtt vandamál sem eigi rætur að rekja til hinnar alræmdu klámvæðingar.
The Great Wall of Vagina
eftir Jamie McCartney
Ég efast um að áhyggjur mínar af sýnilegum skapabörmum, fyrir meira en 30 árum, hafi verið einstakar á þeim tíma. Ég bendi enn fremur á að áhyggjur af útliti kynfæra eru síður en svo bundnar við konur. Árið 1977 gaf Guðrún Helgadóttir út barnabókina um Pál Vilhjálmsson, sem verður einmitt fyrir dálitlu áfalli í sturtuklefa þegar einhver talar um að typpið á honum sé asnalegt í laginu.
Áhyggjur af útliti kynfæra eru ekki nýnæmi, ekki bundnar við stúlkur, og eiga ekki rætur að rekja til klámvæðingar. Þær hafa fylgt manninum lengi, rétt eins og áhyggjur af útliti annarra líkamshluta.
Píkuháraruglið
Önnur algeng hugmynd sem ljósmæðurnar halda á lofti er sú að áhyggjur af stórum skapabörmum tengist kynhárarakstri. Áður hafi kynhár hulið sýnilega skapabarma en nú þegar allir líti út eins og 10 ára börn sé sköpulag okkar sýnilegt.
Í fyrsta lagi lítur fullorðið fólk ekki út eins og börn þótt kynhár séu fjarlægð. Útlit kynfæra breytist á kynþroskaskeiðinu og þær breytingar verða oft til þess að snípur og innri barmar verða sýnilegri en fyrr. Ég er dálítið hissa á því að ljósmæðurnar hafi ekki frétt það fyrr en þær geta kynnt sér þetta á augabragði með því að fletta upp í Wikipedíu.
Hárvöxtur virkar heldur ekki sem hulinsskikkja. Árið 1981 fjarlægðu stúlkur ekki kynhár en brúskurinn á mér kom nú samt ekki í veg fyrir að fólk með sæmilega athyglisgáfu tæki eftir þessu ógurlega lýti. Ég hef síðan séð nógu margar píkur til þess að fullyrða að barmasídd mín víkur ekki nærri nógu lagt frá norminu til þess að teljast afbrigðileg og barmarnir sáust nú þrátt fyrir hárvöxt. Þegar skömmin af fiðrildavængjunum var orðin opinber og ég gat beint athygli minni að einhverju öðru en áhyggjum af því að kæmist upp um vansköpun mína, tók ég enn fremur eftir því að ég var ekki sú eina í bekknum með þetta sköpulag. Kynhár annarra stúlkna huldu heldur ekki nógu mikið til þess að leyna stórum skapabörmum og framstæðum sníp.
Ég skal hins vegar trúa því að í samfélagi sem álítur dónalegt að tala um píkur séu áhyggjur af þessu tagi síður ræddar og að fjölgun aðgerða megi að hluta rekja til meira hispursleysis og til framfara í lýtalækningum og betra aðgengi að þeim.
Umræðan um kynháraeyðingu sem heilbrigðisvandamál er með ólíkindum. Nú halda ljósurnar því til dæmis fram að hlutverk kynhára sé að koma í veg fyrir sýkingar. Helstu sýkingar sem konur fá í leggöng eru sveppasýkingar og kynsjúkdómar og kynhár draga ekkert úr hættunni á þeim. Áhugavert væri að heyra skýringar ljósmæðranna, og annarra sem klifa á þessari hugmynd, ekki síst þeirra sem starfa í heilbrigðisgeiranum, á því hvaða sýkingar það eru sem kynhár koma í veg fyrir og hversu algengar þær eru.
Eru skapabarmaaðgerðir það sama og umskurður?
Samkvæmt ljósmæðrunum falla skapabarmaaðgerðir í fegrunarskyni undir skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á kynfæraumskurði. Skilgreiningin hljóðar svo:
all procedures that involve partial or total removal of the external female genitalia or other injury to the female genital organs for non-medical reasons.
Þegar skýringarnar á skilgreiningunni eru skoðaðar er þó fráleitt að túlka hana sem fordæmingu á vestrænum fegrunaraðgerðum. Markmiðið er augljóslega að vernda börn og unglinga gegn skaðlegum aðgerðum sem ætlað er að þjóna siðferðishugmyndum tiltekinna menningarsvæða. Mér finnst einkar ósmekklegt að setja það undir sama hatt þegar barn er tekið með valdi og kynfærin sörguð af því með skítugu glerbroti og svo hitt þegar fullveðja kona ákveður að láta skurðlækni fjarlægja holdsepa sem gegna ekki sérstöku hlutverki og eru að hennar eigin mati til óþurftar. Ég sé engan tvískinnung í því að gera skýran greinarmun á þessu tvennu og undarlegt finnst mér að ljósmóðir líti á læknisfræðimenntun sem aukaatriði í þessu samhengi.
Ég furða mig hins vegar á því að lýtalæknar geri slíkar aðgerðir á börnum nema læknisfræðilegar ástæður séu fyrir hendi. Fegrunaraðgerðir á börnum hljóta að orka tvímælis. Ég efast þó um að margir myndu fordæma lýtaaðgerðir á borð við þær að fjarlægja valbrá af andliti eða gera við klofna vör þótt um barn væri að ræða. Ég veit ekki hvort eru til neinar reglur sem skera úr um muninn á fegrunaraðgerð og lýtaaðgerð en það væri áhugavert að sjá góða umfjöllun um það hvernig ákvarðanir um þess háttar aðgerðir eru teknar þegar börn eiga í hlut.
Reynsla ljósmæðra er ekki röksemd
Eitt af því sem ljósmæðurnar nefna máli sínu til stuðnings er að þær viti dæmi þess að aðgerðir hafi mistekist og að þær hafi haft í för með sér sýkingar, blæðingar, verki og doða. Allar aðgerðir hafa einhverja áhættu í för með sér. Það að einhver þekki dæmi um sýkingar og önnur vandamál segir okkur ekkert um áhættuna af þessum aðgerðum. Til þess þarf gögn um hversu algeng þessi vandamál eru en ekki einhverjar flökkusögur.
Hins vegar má benda á að engin gögn hafa heldur verið lögð fram sem renna stoðum undir þá hugmynd að skapabarmaaðgerðir hafi almennt eða oft jákvæð áhrif á kynlíf kvenna eða að meint óþægindi við samfarir eða íþróttaiðkun hafi horfið eftir aðgerðina. Þær konur sem vilja láta skera af sér skapabarmana á þeim forsendum ættu kannski að fara fram á einhverja staðfestingu á því að líkur séu á að þær hafi tilætluð áhrif.
Ef er ólöglegt að fjarlægja heilbrigðan vef eru þá aðrar lýtaaðgerðir ólöglegar?
Það sem mér finnst þó athyglisverðast við viðtalið er sú fullyrðing að með fegrunaraðgerðum á kynfærum sé verið að gera aðgerðir á heilbrigðum vef og það sé ónauðsynlegt og ólöglegt. Ekki kemur fram til hvaða lagagreinar er vísað. Ef til vill er það a-liður 218. greinar almennra hegningarlaga sem ljósmæðurnar hafa í huga en í lögskýringargögnum kemur fram að hún byggist á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á kynfæraumskurði. Eins og fyrr segir er þó fráleitt að markmið stofnunarinnar sé að koma í veg fyrir fegrunaraðgerðir.
Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.]1)
Ef það er þessi lagagrein sem átt er við, þá eru ljósurnar að segja okkur að skapabarmaaðgerð jafngildi líkamsárás. Sé það rétt skilið þá hljótum við einnig að skilgreina augnpoka- og svuntuaðgerðir sem líkamsárásir því einnig þar er heilbrigður vefur fjarlægður.
Eignarhaldið á píkunni
Ef við skilgreinum nauðsynlega aðgerð, sem aðgerð sem þarf að framkvæma, til þess að líkaminn geti gegnt hlutverki sínu án þess að það valdi líkamlegum þjáningum eða ótímabærum skaða á vefjum, þá eru lýtaaðgerðir langoftast óþarfar. En tilgangur lýta- og fegrunaraðgerða er ekki sá að sjá til þess að líkaminn vinni rétt heldur oftast sá að auka ánægju viðskiptavinar af eigin líkama. Ánægja með útlit sitt er lífsgæði; oft lífsgæði sem eini réttmæti eigandi líkamans telur sig hafa brýna þörf fyrir. Og þótt vissulega sé gott mál að benda ungum stúlkum á að sköpulag kvenna sé með ýmsu móti, munu alltaf verða einhverjar konur sem eru óánægðar með útlit kynfæra sinna, rétt eins og annarra líkamshluta og vilja nýta sér nútíma lýtalækningar til þess að breyta þeim. Þær mega það enda eiga þær sín brjóst og píkur sjálfar.
Þær fegrunaraðgerðir sem mest eru gagnrýndar eru aðgerðir á brjóstum og kynfærum kvenna. Í umræðunni um skapabarmaaðgerðir og réttmæti þeirra kristallast sú skoðun að konur séu ekki raunverulegir eigendur kynfæra sinna. Að þær séu upp til hópa ófærar um að taka ákvarðanir sem varða þeirra eigin líkama, þ.e.a.s. þá hluta líkamans sem eru einkennandi fyrir kyn og kynferði. Það þykir í lagi að fjarlægja augnpoka. Kona sem lætur minnka skapabarma er hins vegar fórnarlamb klámvæðingarinnar. Þó eru þessar aðgerðir sama eðlis; tilgangurinn er oftast sá að breyta útliti í samræmi við óskir viðskiptavinar.
Þeirri skoðun að með fegrunaraðgerðum á kynfærum og brjóstum séu konur að þóknast körlum hefur aðallega verið haldið fram í nafni feminismans. Konur hafa samkvæmt því enga sjálfstæða skoðun á því hvernig líkami eigi að líta út, heldur hlaupa þær eftir kröfum karla og klámiðnaðarins. Þótt þetta afturhaldssama viðhorf til kvenna sé alltaf ömurlegt, má þó ætla að meirihlutinn taki fullyrðingum feminista með sæmilegum fyrirvara. Það er því öllu verra þegar heilbrigðisstarfsmenn taka sömu þvæluna upp. Enn þá verra er þegar þeir reyna að túlka lög á þann veg að óheimilt sé að nota læknavísindin til að aðstoða konu sem vill fá að ráða útliti kynfæra sinna.
Lögin gegn kynfærabrottnámi kvenna eru sett í því augnamiði að vernda stúlkur og konur gegn eignarhaldi illa upplýstra menningarsamfélaga á kynferði konunnar. Það er dálítið kaldhæðnislegt að nokkur skuli reyna að nota einmitt þau lög til þess að færa eignarhaldið á kynfærum kvenna til annars menningarsamfélags. Menningarsamfélags þeirra sem líta á konur sem veiklundaða hálfvita sem þarfnist verndar gegn sínum eigin ákvörðunum.
Að lokum langar mig að benda áhugasömum á þetta myndband þar sem fram kemur sú áhugaverða skoðun að hugmyndir um æskilegt útlit píkunnar haldist í hendur við ritskoðun á klámi.
Eins og sjá má af myndbandinu er sköpulag kvenna með ýmsu móti. Ef það er rétt að allar þessar píkuaðgerðir megi rekja til áhrifa frá klámi (ég efast um að það sé svo einfalt), væri þá kannski ráð að auka fjölbreytni í klámi fremur en að reyna hið vonlausa verk að uppræta það?