Laugardagur 05.04.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Foreldrabull

Áður birt í Kvennablaðinu

Flestir foreldrar halda alls konar hræðsluáróðri að börnum sínum og það á ekkert bara við um forvarnir gegn dópi. Oftast er bullinu ætlað að vernda börnin en stundum þjónar það þeim tilgangi að fá börn til að tileinka sér kurteisisvenjur og hreinlæti. Oft er heldur ekki um vísvitandi ósannindi að ræða heldur mýtur sem foreldrarnir trúa sjálfir.  Í minni barnæsku áttu ótrúlegustu hlutir að vera heilsu barna skaðlegir og eflaust hafa margir foreldrar sjálfir trúað á óheilnæmi þeirra. Hér eru nokkur dæmi sem ég man eftir.

Garnaflækjugrýlan

Miðað við þvæluna sem haldið var á lofti í mínu nærumhverfi mætti halda að garnaflækja væri algengt vandamál. Því var meðal annars haldið fram að maður gæti fengið garnaflækju af því að velta sér niður brekku og hoppa í hjónarúminu. Stór börn máttu ekki leika ærslaleiki við lítil börn, svo sem að snúa barninu „í kleinu“* því það gat valdið garnaflækju. Ég hefði frekar skilið áhyggjur af slysahættunni af hoppum og öðrum ærslum en ég man aðallega eftir þessari garnaflækjugrýlu. Að kyngja tyggjói átti svo bæði að valda garnaflækju og botnlangabólgu og með því að nota snúningsstól sem leikfang var hægt að verða sér úti um garnaflækju og heilahristing í senn.

* Að snúa í kleinu er leikur sem felst í því að litla barnið stendur klofvega, beygir sig í mjöðmunum og réttir hendur sínar milli fótanna. Sá fullorðni eða stærra barn stendur fyrir framan það, tekur í hendur þess og sveiflar því hratt upp á við, venjulega við mikinn fögnuð „kleinunnar“.

Hreinlætisbull

Ég minnist þess ekki að mínir foreldrar, fóstrur eða aðrir fullorðnir hafi haft miklar áhyggjur af sýklum nema þeim sem bjuggu í klósettinu og borðtuskunni. Ef barn setti smápening eða annan smáhlut í munninn hafði fólk áhyggjur af því að það myndi gleypa hann, fremur en að það innbyrti ótæpilegt magn af sýklum. Þó man ég eftir snjógrýlunni ægilegu:

  • Það eru pöddur/ormar í snjónum.
  • Þú færð orma í rassinn ef þú borðar snjó.

Ég hef varla verið eldri en fjögurra ára þegar ég tók sjálf þá afstöðu að pöddurnar væru eingöngu í óhreinum snjó. Ég borða snjó enn þá.

Lús var talin merki um sóðaskap og því haldið fram að hún kviknaði í óhreinum fatnaði eða óhreinu hári. Ég reyndi sjálf að telja sonum mínum trú um að göndlar (dreadlocks) ykju hættuna á lús. En þá hafði mér þegar orðið það á að ala þá upp við kröfu um gögn og rökstuðning svo sú uppeldisaðgerð mislukkaðist.

Ég minnist þess einnig að fullorðinn sagði mér að þvo alltaf ávexti áður en ég borðaði þá, því þeir kæmu frá heitu löndunum og því líklegt að svertingjar hefðu káfað á þeim.

Fæðubull

Fæða var ýmist holl eða óholl og hollusta merkti að maður átti að verða sterkur af því að borða. Matarmýturnar voru óteljandi. Í augnablikinu man ég þessar:

  • Börn sem drekka kaffi hætta að vaxa.
  • Börn sem taka ekki lýsi hætta að vaxa.
  • Maður verður stór og sterkur af því að borða hafragraut.
  • Maður verður sterkur af því að borða rúgbrauð.
  • Hýðið er það hollasta af kartöflunni.
  • Hollustan í brauðinu er öll í skorpunni.

Ég veit ekki hvort fólk hefur í alvöru haldið að brauðskorpan væri holl eða hvort það var bara af virðingu við rétta borðsiði og nýtni sem manni var talin trú um að skorpan væri holl.  Ég velkist hins vegar ekki í vafa um að stór hluti Dana trúir því enn í dag að fólk þrífist ekki nema borða rúgbrauð daglega.

Klæðnaðarbull

Á sumum heimilum var börnum sagt að það væri „óhollt“ og/eða „sóðalegt“ að sofa í nærfötum. Á öðrum heimilum var talið óhollt að sofa nærfatalaus. Ég minnist þess í fyrsta sinn að hafa heyrt móður mína segja hreint út að fullorðin manneskja væri kjáni þegar ég spurði út í þessa nærfatakenningu sem ég hafði heyrt hjá móður annarrar telpu. Ég fékk heldur aldrei neinar skýringar á því hvaða hræðilegu áhrif nærfatnaður eða nærfataleysi gæti haft. Hins vegar taldi ég eftirfarandi mýtur svo trúverðugar að ég taldi óþarft að biðja um rök:

  • Börn sem ganga oft með „krummafót“ verða útskeif.
  • Ef unglingsstelpur ganga í þröngum buxum hættir mjaðmagrindin að vaxa og þær geta orðið ófrjóar.

Amma mín sáluga hélt því einnig fram þegar ég var 13 ára að stelpur sem gengju í „píkuböndum“ eins og hún kallaði það (þ.e. nærbuxum sem náðu ekki upp í mitti) fengju blöðrubólgu og yrðu ófrjóar. Ég þekkti enga stelpu sem gekk í nærbrókum af því tagi sem amma mín taldi heilsusamlegar og bauðst til að taka  nærbuxnalagerinn til endurskoðunar um leið og ég fengi blöðrubólgu.


Bull sem varðar aðra meðferð á líkamanum

  • Ef þú heldur í þér getur þvagblaðran sprungið.

Ég veit ekki hvort fólk trúði þessu eða hvort þetta var forvarnaraðgerð gegn þeim aðstæðum að vera með barn í hlandspreng í aftursætinu, á Miklubrautinni á umferðartíma en ég man dæmi um heilsuverndarlygar sem fullorðnir trúðu örugglega ekki sjálfir svosem:

  • Ef þú gleypir eplafræ getur eplatré vaxið í maganum á þér.

Foreldrar sem héldu þessu fram hafa kannski haft áhyggjur af botnlangabólgu. Mínir foreldrar trúðu því í einlægni að ávaxtafræ og ómeltanlegir hlutir söfnuðust fyrir í botnlanganum og voru þau rök notuð á mínu heimili.

Annað dæmi um óforskammaða heilsuverndarlygi:

  • Ef eyru barna eru ekki þrifin þá fara að vaxa blóm út úr þeim.

Í minni barnæsku trúðu margar mæður á nauðsyn þess að fjarlægja eyrnamerg með því að reka bómullarpinna inn í hlustir barnsins. Eyrnamergur var talinn óheilnæmur og margir kölluðu hann „eyrnakúk“. Líklega hafa illa upplýstar mæður þó frekar haft óþarfa áhyggjur af eyrnabólgu en því að barnið myndi breytast í gangandi blómapott. Tilbrigði við þessa grýlu var:

  • Ef eyru barna eru ekki þrifin missa þau heyrnina.

Augu voru ekki síður í hættu en eyru:

  • Maður verður blindur af því að horfa mikið á sjónvarp.
  • Það skemmir augun að sitja mjög nálægt sjónvarpinu.

Þessu held ég að flestir foreldrar hafi trúað sjálfir. Síðar var börnum sagt að þau gætu soðið í sér heilann eða augun með því að horfa inn í örbylgjuofn og það er ekki langt síðan ég heyrði föður halda því fram við son sinn að hann gæti fengið heilaæxli af því að sofa með gsm-síma á koddanum.

Líkamsstaða skipti máli en maður átti ekki bara að temja sér góðar vinnustellingar og fallegan limaburð heldur áttu líkamsstellingar að geta haft áhrif á fitusöfnun, æðakerfi og liði. Á unglingsárunum heyrði ég eftirfarandi kenningar:

  • Stúlkur sem sitja með krosslagða fætur eða draga fæturna undir sig fá lærapoka.
  • Brjóstin stækka of mikið ef þú krossleggur handleggina og lætur þau hvíla á þeim.
  • Ef þú situr með fæturna klemmda undir þér hindrar það blóðstreymið og veldur æðahnútum.
  • Þú eyðileggur hné og ökkla með því  að liggja á hnjánum.
  • Það skemmir liðina og veldur gigt ef maður lætur smella í liðunum, því þannig hleypir maður lofti á milli liða.
  • Ef þú spennir fingurna og beygir fremstu kjúkurnar getur það valdið liðagigt.

Það nýlegasta sem ég man eftir af þessu tagi eru tröllasögur um sýkingarhættuna sem fylgir líkamsgötun. Eldri sonur minn talaði um það ungur að árum að láta gata á sér nefið. Ég var ekki hrifin af hugmyndinni og eftir að ég sá hryllingsmyndir af slæmum sýkingum eftir líkamsgatanir í tímariti hafði ég verulegar áhyggjur af smithættu og sýkingum. Reyndi að segja syni mínum að hann gæti misst nefið ef hann fengi sýkingu eftir götun. Hann trúði mér ekki.

Kynlífsforvarnabull

  • Fyrstu samfarir eru sársaukafullar fyrir stelpur.
  • Ef stelpur byrja ungar að stunda kynlíf verða leggöngin jafn víð og á kú.
  • Algengt er að fólk festist saman, og þurfi að leita til læknis til að losa sig, ef það hefur mök í tjaldi.

Ég býst við að þetta síðasta hafi oftast heyrst í vikunni fyrir verslunarmannahelgina.


Bull sem átti að draga úr sætindaáti og neyslu annarrar fæðu sem talin var óholl 

  • Tyggjó er búið til úr ristuðum kattagörnum og sykurleðju.
  • Þeir sem borða mikið sælgæti fá pöddur/orma í magann.
  • Kókosbollurnar í bakaríinu eru gerðar úr því sem sópað er upp af gólfunum.
  • Pylsur eru búnar til úr því sem dettur á gólfið í sláturhúsinu.


Vísvitandi bull sem átti að uppræta óæskilega hegðun

  • Börn sem skrökva fá svartan blett á tunguna.
  • Ef þú segir nafn ljóta kallsins þá heldur hann að þú sért að kalla á sig og kemur.
  • Ef maður ranghvolfir augunum, skýtur fram hökunni eða grettir sig getur andlitið fest í þeim skorðum.
  • Typpið getur dottið af þér ef þú ert alltaf að toga í það.
  • Nefið á þér stækkar ef þú borar í það.
  • Puttinn á þér getur fest uppi í nebbanum ef þú borar í nefið.

Þetta er svona það sem ég man eftir í fljótu bragði, fyrir utan hræðsluáróður sem varðar vímuefni og er efni í annan pistil. Gaman væri að heyra hvort lesendur muna eftir fleiri grýlum af svipuðum toga.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics