Nýverið frétti ég að skrif mín væru til umfjöllunar við kynjafræðina í HÍ. Ég varð að vonum afskaplega ánægð með að heyra að kennslan byði upp á fleiri sjónarhorn á dólgafeminisma en eitt allsherjar Halleljújah en þar sem ég hef ekki séð annað en fúsk frá svokölluðum kynjafræðingum, langaði mig að fá að skoða glærur sem notaðar eru við kennsluna. Gyða Margrét Pétursdóttir hafnaði þeirri beiðni með þeim rökum að glærurnar væru nemendaverkefni.
Kennslugögn en ekki vinnuskjöl nemenda
Um er að ræða kennslu á BA stigi, sem MA nemendur í kynjafræði sjá um. Í námskeiðslýsingu stendur:
Verkefni III (15%): Hópverkefni staðnema. Framhaldsnemar, tvö eða þrjú vinna saman og velja námsefni (í samráði við kennara) og sjá um kennslu (40-60 mínútur hver hópur).
Samkvæmt þessu er um kennslu að ræða og þannig var það lagt upp fyrir BA nemana. Hér var því ekki um nemendafyrirlestur að ræða í þeirri venjulegu merkingu að nemendur væru að æfa sig og hópurinn fengi viðbrögð kennara við hugsanlegum misskilningi heldur voru þetta fullunnin verkefni, framhaldsnemar voru að kenna byrjendum.
Glærurnar eru ekki “vinnuskjöl nemenda” eins og margir hafa haldið fram. Þetta eru fullfrágengin gögn sem hafa staðist kröfur kennara að því marki að þær eru notaðar til kennslu við Háskóla Íslands. Þær eru aukinheldur vistaðar með öðrum kennslugögnum námskeiðsins án nokkurrar aðgreiningar. Það er því út í hött að tala um þær sem eitthvað annað en kennslugögn.
Hversvegna er ég óánægð með þetta?
Ég fjallaði nánar um forsendurnar fyrir kröfu minni um að fá aðgang að glærunum í þessum pistlum. Nokkurs misskilnings hefur gætt um það hvað vakir fyrir mér, ég er ekki, eins og einhverjir halda óánægð með að fjallað sé um skrif mín, heldur vildi ég leiðrétta rangfærslur og benda á villandi tengingar. Það hefði verið eðilegast að koma ábendingum mínum á framfæri við nemendur beint en boð mitt um að mæta sjálf eða svara skriflega var afþakkað með þeim orðum að sjónarmið mín séu vel þekkt og sérstök kynning myndi ekki bæta miklu þar við.
Ég hef skrifað hátt á annað hundrað pistla um feminisma svo það verður að teljast frábær árangur ef MA nemendum hefur tekist að kynna allt sem skiptir máli í þeim skrifum í einni kennslustund. Svo er auðvitað ekki og nú þegar ég hef fengið aðgang að þessum gögnum eftir krókaleiðum og sannreynt að glærurnar gefa ekki rétta mynd af gagnrýni minni, ætla ég að benda á það helsta sem skiptir máli á hverri glæru fyrir sig.
Inngangsskyggnan
Einhver gæti haldið að inngangsglæran sem sýnir tiltil fyrirlestrarins, “Frá fórnarlambsfeministum til fasystra” bjóði ekki upp á umfjöllun en þessi titill er góður og reyndar mun betri en þeir sem eiga heiðurinn af honum gera sér grein fyrir.
Ég efast um að ég hafi verið fyrst Íslendinga til að nota hugtakiðfórnarlambsfeminismi en sennilega hefur enginn notað það jafn mikið í opinberum skrifum og ég. Fasystur er hugtak úr minni smiðju. Bæði hugtökin eru lýsandi fyrir gagnrýni mína þar sem áherslan hefur annarsvegar verið á þann skaða sem kvenhyggjusinnar valda jafnréttisstöðu kvenna með því að útmála okkur sem fórnarlömb og hinsvegar einkennist kvenhyggjan af yfirvaldstilburðum og eftirlitsstefnu sem vekur áhyggjur og óbeit með öllu lýðræðissinnuðu fólki.
Hin ómeðvitaða snilld
Ómeðvitaða snilldin við þennan tiltil liggur í mínu eigin ferðalagi um drullupytti feminískrar orðræðu. Fram til ársins 2009 leit ég á femínista sem saklausa kjána. Ég skrifaði stundum pistla þegar þvælan í þeim gekk fram af mér en var almennt sammála því sem ég taldi víst að væri málstaður þeirra; þ.e. að nauðsynlegt sé að samfélagið sé þess meðvitað að konur eigi á sumum sviðum erfiðara uppdráttar en karlar og séu berskjaldaðri fyrir ákveðnum tegundum yfirgangs og ofbeldis.
Smámsaman rann upp fyrir mér að áherslan á veika stöðu kvenna hafði yfirtekið alla umræðu um kynjamál. Það var orðið markmið í sjálfu sér að draga upp mynd af konunni sem fórnarlambi og í því skyni beittu meintir feministar ýkjum, rannsóknum sem stóðust ekki vísindalegar kröfur, blekkingum og hreinum og klárum lygum. Lengi fylgdist ég með án þess að leggja mikið til umræðunnar. Það var ekki fyrr en 2011 sem ég byrjaði að gagnrýna feminista af alvöru og þá fyrst og fremst fyrirýkjur og lygar annars vegar og hinsvegar fyrir píslarvættisblætið sem mér finnst niðurlægjandi fyrir konur og vinnur okkur á engan hátt gagn. Á þeim tíma hélt ég þó í einlægni að aðeins lítill hópur hegðaði sér svona og því aðgreindi ég fórnarlambsfeminsta frá því sem ég taldi heiðarlega feminista.
Þegar ég uppgötvaði hversu mikið feministar beita lygum og falsvísindum í málflutningi sínum, fór ég að kynna mér skrif svokallaðra “kynjafræðinga”. Mér varð ljóst að þarna var um samfélagsvandamál að ræða en ég gerði mér enga grein fyrir því hversu djúprætt og ljótt það var orðið. Eftirlitsástin, baráttan gegn tjáningarfrelsi og gegn kynfrelsi kvenna gekk fram af mér en ennþá trúði ég því þó að femínistum gengi gott til og að þeir gerðu jafnréttisstefnunni gagn. Það var ekki fyrr en síðla árs 2011 sem mér varð ljóst hversu mikill fasimi einkennir þennan söfnuð. Sá fasismi opinberaðist í gjörningi Stóru systur og orðið fasystur varð til.
Fæðing andfeminsma á Íslandi
Fasystrauppákoman markaði straumhvörf í skrifum mínum um feminisma. Áður hafði ég gagnrýnt ýmislegt í málflutningi þeirra og áherslum, en það var fyrst þarna sem mig fór að gruna að það væru ekki bara nokkrar manneskjur sem þyrfti að leiðrrétta, heldur þyrfti að uppræta hugmyndafræðina sjálfa. Enginn hafði áður, svo ég viti, skrifað beinlínis gegn feminisma nema Sigurður Jónsson sem hefur skrifað um forréttindafemnisma frá 2009. Síðan þá hefur margt orðið til þess að staðfesta þá skoðun mína að feminismi sé ekkert annað en fasismi með píku. Ég áttaði mig á því að kvenhyggjusinnar hafa háð virka baráttu gegn mannréttindum og ég reis gegn viðbjóðslegu mannhatri þeirra.
Það má því með sanni segja að mín þroskasaga frá umburðarlyndi gagnvart því sem ég áleit ómarktækt fimbulfamb örfárra kjána, til einarðrar andstöðu gegn stórri og hættulegri hreyfingu ofstækisfólks, hafi legið frá kynnum mínum af fórnarlambsfemnistum til fasystra. MA nemar í kynjafræði hittu því sannarlega naglann á höfuðið í þetta sinn.
———————
Pistillinn var upphaflega birtur hér og við þá slóð má sjá ummæli lesenda.