Fimmtudagur 28.02.2013 - 09:44 - FB ummæli ()

Ráðherraefnið og flóttamenn

Fyrir hönd félags áhugafólks um málefni flóttamanna (áður birt í DV)


Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram á alþingi fyrirspurn um málefni flóttamanna.

Fyrirspurnin lýsir áhyggjum af meintri eftirsókn flóttamanna eftir óverðskulduðu hæli á Íslandi ásamt þeirri hugmynd að flóttamenn séu öðrum glæphneigðari. Þingmaðurinn spyr hvort komi til greina að láta menn sem reyna að flýja land ganga með ökklabönd.

Laumufarþegar eru ekki umfangsmikið vandamál á Íslandi en þessar áhyggjur virðast spretta af máli ungmenna sem ítrekað hafa reynt að komast úr landi. Tveggja manna af þeim hundruðum sem sótt hafa um hæli á Íslandi á umliðnum árum og flestir verið sendir á áframhaldandi vergang.

Félag áhugafólks um málefni flóttamanna beinir eftirfarandi spurningum til Vigdísar:

  1. Veit þingmaðurinn hversu margir þeirra flóttamanna sem lent hafa á Íslandi á síðustu árum hugðust ekki að sækja um hæli á Íslandi heldur voru stöðvaðir á leið til Ameríku?
  2. Veit þingmaðurinn að flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir menn hafi rétt til að flýja ofsóknir enda þótt þeir þurfi að ferðast ólöglega og nota fölsuð skilríki?
  1. Hvað hefur þingmaðurinn fyrir sér í því að flóttamenn líti á Ísland sem „stökkpall“ til annarra landa? Hvernig virkar eyríki sem “stökkpallur” og hversu margir flóttamenn hafa notað Ísland sem „stökkpall“?
  1. Telur þingmaðurinn að ef Íslendingur ferðast með lest erlendis, án þess að kaupa farmiða, væri eðlilegt að hann yrði látinn bera ökklaband eða er það eingöngu fólk sem býr við ofsóknir og örbirgð sem verðskuldar slíka meðferð?

Ef fyrirspurn Vigdísar kæmi frá leikmanni væri hún hlægileg. En Vigdís er ekki leikmaður heldur ráðherraefni Framsóknarflokksins. Fólk, sem í örvæntingu reynir að flýja margra ára bið eftir afgreiðslu, vill ráðherraefnið beita sömu meðferð og víða er notuð til að fylgjast með dæmdum barnaníðingum. Nær væri alþingismönnum að hvetja innanríkisráðherra til að afleggja misnotkun á Dyflinnarákvæði flóttamannasamningins, veita fleiri flóttamönnum hæli og bjóða þeim sem vilja komast til annarra landa aðstoð til að koma hælisumsóknum á framfæri við þarlend yfirvöld.

Sá heimóttarháttur og fordómar sem afhjúpast í fyrirspurn Vigdísar á sér fáar hliðstæður meðal vestrænna stjórnmálamanna. Helst eru viðhorf hennar sambærileg við afstöðu forhertustu Færeyinga til samkynhneigðra. Sömu viðhorf einkenna Sverigedemokraterna, Dansk folkeparti og British National Party; flokka sem sækja fylgi sitt til nýnasistahreyfinga.

Félag áhugafólks um málefni flóttamanna hvetur Vigdísi Hauksdóttur til að endurskoða afstöðu sína og lýsir hryggð sinni yfir því að á alþingi Íslendinga þrífist meiri áhyggjur af meintri glæpahneigð hælisleitenda en þeim aðstæðum sem stökkva fólki á flótta frá fjölskyldu sinni og föðurlandi.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics