Fimmtudagur 8.8.2013 - 16:53 - FB ummæli ()

24. Feministar hafa ranghugmyndir um norm samfélagsins

Snemma í sumar birti ég nokkrar stuttar færslur, yfirlit yfir 33 ástæður til að hafna feminisma. Nú er ég búin að vera í löngu fríi frá feminisma en hyggst ljúka birtingu þessarra smápistla fyrir haustið. Tenglar á fyrri færslur eru neðst í færslunni.

24. ástæðan fyrir því að við höfum ekkert gagn af feminisma er sú að feministar eru haldnir ranghugmyndum um orðræðu samfélagsins. Fyrst þegar ég heyrði hugmyndina um druslugönguna fannst mér hún gífurlega góð enda hafði ég djúpa samúð með öllum þessum fórnarlömbum sem höfðu tapað nauðgunarmálum vegna lauslætis og dræsulegs klæðaburðar. Dag nokkurn árið 2011 sló því svo niður í kollinn á mér að þótt ég fylgdist vel með dómum í kynferðisbrotamálum og læsi allar fréttir af þeim, gat ég ekki bent á eitt einasta dæmi um að kynhegðun og klæðaburði konunnar væri teflt fram sem rökum í nauðgunarmálum. Ég hef heldur ekki fundið nein dæmi um að fjölmiðlar eða áhrifafólk afsaki nauðganir með klæðaburði konunnar.

Nú er verslunarmannahelgin nýliðin. Sjaldan ef nokkurntíma hafa færri kynferðisbrot verið tilkynnt um verslunarmannahelgi. Engu að síður tekur hópur „kolbrjálaðra feminista“ sig til og fremur gjörning sem beint er gegn svonefndri „nauðgunarmenningu“ sem fígúran Gillzenegger á víst að vera ábyrg fyrir. Að sögn eru það „róttæklingar“ sem standa á bak við myndbandið en „róttækni“ þessa hóps felst fyrst og fremst í því að apa upp það subbulega orðbragð sem einkenndi frægustu bloggfærslu Íslandssögunnar (þessa sem feministar gerðu fræga muniði.) Fólk sem aðhyllist nákvæmlega sömu hugmyndafræði og „kolbrjálaða kuntan“ feikar svo „svar“ við myndbandinu. Sorry krakkar en þetta er einum of augljóst. Þeir einu sem trúa því að þær hugmyndir sem meintur rappari setur fram séu útbreiddar, eru feministar.

femugla24

33 ástæður til að uppræta feminisma
1. Við þurfum ekki feminisma til að tryggja jafnrétti
2. Grundvöllur feminismans er lygi
3. Feminismi notar lygar í áróðursskyni
4. Feminisminn lítur á karlmenn sem illmenni
5. Feminisminn lítur á konur sem fórnarlömb
6.  Feminismi firrir konur ábyrgð
7.  Feminisminn er í stöðugri mótsögn við sjálfan sig
8. Feminismi skaðar konur í kynlífsiðnaði
9.  Feministar takmarka sjálfsákvörðunarrétt kvenna
10.  Feminisk áhrif veikja réttaröryggi sakborninga
11. Feministar nota háskóla til að breiða út gervivísindi
12. Feminismi er ríkisstyrkt valdanet
13.  Feministar vilja fá að stunda trúboð í skólum
14.  Feminismi leggur kynhlutverk að jöfnu við kvennakúgun
15. Feminismi er kvennamenningu fjandsamlegur
16. Feminismi er nýhreintrúarstefna
17. Feministar vilja ákveða normin í kynferðismálum
18. Feminismi er að festa sig í sessi sem kennivald
19. Feminismi vinnur gegn kvenréttindum
20. Feminismi er dólgapólitík
21. Feminismi er hugsjónastríð
22. Feministar sinna þjónustu sem ætti að vera í höndum fagfólks
23. Feminismi er fasísk hugmyndafræði
24. Feministar hafa ranghugmyndir um norm samfélagsins
25. Feminismi einkennist af pólitískum rétttrúnaði
26. Feministar rangtúlka listaverk í áróðursskyni
27. Feministar eru með klám á heilanum
28. Feministar vilja ráða því hvað skuli teljast valdeflandi
29. Feministar ýkja tölur um kynbundinn launamun
30 Feministar styðja kynbundna mismunun
31 Feminismi vinnur gegn lýðheilsumarkmiðum
32 Feminismi nærir sorpblaðamennsku
33 Feministar hafa eyðilagt hugtakið feminismi

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 8.8.2013 - 09:28 - FB ummæli ()

Íslenska aðferðin

Byggja sem flest hótel til að taka vel á móti ferðamönnum og gera allt sem hægt er til að laða sem flesta til landsins. Rukka þá svo (og einnig Íslendinga því ekki getum við mismunað fólki) fyrir aðgang að náttúrunni til að sporna gegn eyðilegginunni sem álagið hefur í för með sér.

Væri ekki einfaldara að vernda landið gegn ágangi ferðamanna með því að byggja bara ekkert fleiri hótel?

Væri það ekki líka afbragðs forvarnaraðgerð gegn gjaldþrotum þegar krónan styrkist og dregur úr ferðamannastraumnum?

Af hverju í ósköpunum er þessi bóluhagfræði svona vinsæl?

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Sunnudagur 4.8.2013 - 10:07 - FB ummæli ()

Þrjúþúsund sjöhundruð níutíu og sex

Þegar ég kom til Íslands í sumar líkti ég sölu á grænmeti og ávöxtum á Íslandi við skipulagða glæpastarfsemi. Ég er nefnilega vön að kaupa gulrætur á 181 kr/kg í Glasgow og tvær melónur saman á sem svarar 544 kr. (tilboð sem hefur verið í gildi í matvörubúinni næst okkur þessa 18 mánuði sem ég hef búið þar.) Ég fann þessar vörur ekki á svipuðu verði í Reykjavík. Stuttu síðar birtust fréttir af því að á Íslandi væri  innkaupakarfan ódýrust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað.

Nú veit ég ekki hvað var í þessari ódýru innkaupakörfu en mig langar að vita það. Mjólkin er sennilega á lægra verði en dýrasta mjólkurfernan í Danmörku en íslenska mjólkin er nú samt dýrari en sú ódýrasta sem ég keypti meðan ég bjó í Danmörku.

Ég fékk paprikur á góðu verði í síðustu viku, innan við 600 kr kílóið. Það er aðeins lægra en verðið á paprikunum sem ég kaupi í Skotlandi en ég hef líka séð paprikur á tæpar 900 kr. í Reykjavík. Í gær sá ég kirsuberjatómata, lífrænt ræktaða, á 3796 kr/kg. Ólífrænu tómatarnir í sömu búð kostuðu tæpar 1800 kr/kg sem er mun hærra en við erum vön að greiða fyrir sambærilega tómata úti.

imagesÉg veit ekki hvað var í matarkörfunni sem sögð er ódýrust á Íslandi en ég á bágt með að trúa því að það sé ekki hægt að gera töluvert hagstæðari innkaup í bæði Danmörku og Bretlandi.

Ég hef geymt kassastrimlana þennan tíma sem ég hef verið á Íslandi og þegar ég kem til Glasgow aftur ætla ég að bera saman verðið á þeim vörum sem við kaupum raunverulega. Við kaupum hvorki dýrustu tómatana né hleypt soð dulbúið sem skinku, heldur eitthvað þar á milli.

 

Flokkar: Allt efni

Laugardagur 3.8.2013 - 09:48 - FB ummæli ()

Pistill handa sjoppueigendum

31264622_soft_different_hard_ice_cream_800x800_xlargeÁ Íslandi tíðkast ekki að kenna nýju starfsfólki vinnubrögð eða gefa því þær upplýsingar sem það þarf til þess að geta veitt góða þjónustu. Á mörgum vinnustöðum er nýju fólki bara hent út í djúpu laugina og þetta á ekki síst við um fyrirtæki sem ráða aðallega kornungt, ófaglært fólk til starfa.

Á Íslandi er ekki hægt að reikna með að afgreiðslufólk í matvörubúðum þekki muninn á hænueggi og eggaldini, hvað þá að það viti hvar edikið er geymt. Það er heldur ekki hægt að reikna með að starfsfólk á veitingahúsum viti hversu lengi á að steikja franskar kartöflur.  Ennfremur virðast sjoppueigendur jafnan ganga með þá grillu í höfðinu að hæfileikinn til að afgreiða ís sé meðfæddur og/eða að það skipti engu máli hvernig það er gert. Það er ekki einu sinni hægt að reiða sig á að starfsfólk sérstakra ísbúða kunni til verka.

Þegar viðskiptavinur biður um ís í brauðformi á hann við eitthvað í líkingu við það sem sést á myndinni hér að ofan. Hann vill ekki að unglingurinn sem afgreiðir hann segi „heyrðu hann misheppnaðist aðeins, er ekki í lagi að ég hvolfi honum í box?“ Ef viðskiptavinurinn hefði viljað ís á hvolfi í boxi þá hefði hann tekið það fram. Þegar kúnninn fellst á að fá ísinn framborinn á þennan séríslenska máta, er það ekki af því að honum finnist það góð hugmynd, heldur af því að hann skilur vandræði sjoppubarna sem eru svikin um þjálfun, vill ekki tefja hina viðskiptavinina sem bíða eða þarf að flýta sér til að aðstoða barnið sitt af því að það er í vandræðum með ís sem lítur út eins og skakki turninn í Písa og er við það að detta út úr boxinu.

Svona á ekki að afgreiða ís í boxi

Svona á ekki að afgreiða ís í boxi

Svona á að gera það og ef er ekki pláss fyrir sósuna á að nota stærra box

Svona á að gera það og ef er ekki pláss fyrir sósuna á að nota stærra box

Ísinn á að nema við brún brauðformsins en ekki að leka yfir hana. Hann á að mynda fallegan kúf en ekki halla út á hlið þannig að nauðsynlegt sé að rétta hann af með skeið til að komast hjá því að hann detti niður í kjöltuna á manni.

body_flake_72561948_37510c

Ef þú skilur ekki hvað er að þessum annars girnilega ís, ekki þá reyna að kenna afleysingafólki á ísvélina

Ef ísinn er með dýfu á hún að ná niður á brún brauðformsins en hún á ekki að sullast niður eftir því. Það getur verið fallegt að setja dýfuna aðeins á toppinn og það hentar börnum vel en ef dýfan myndar tveggja millimetra gap við brún formsins lekur ísinn undan henni.

stock-footage-a-time-lapse-shot-of-chocolate-ice-cream-melting1

Réttupphend sem langar í þennan ís

Ef starfsfólk sjoppunnar kann ekki að dýfa ís er betra að það taki það fram svo kúnninn geti gert upp við sig fyrirfram hvort hann vilji fá ísinn á hvolfi í boxi eða sleppa dýfunni.  Um daginn kom ég í ísbúð þar sem var tilkynning uppi á vegg um að ekki væri hægt að fá stóran ís með dýfu. Frekar slappt af sérverslun með ís en þó skárra en að svekkja viðskiptavini með gallaðri vöru. Ísinn á að vera nógu stífur til þess að hægt sé að dýfa honum án þess að hann detti út á hlið en þó ekki svo kaldur að dýfan myndi hnausþykka skel. Ætlunin er að borða súkkulaðið með ísnum og þessvegna þarf dýfan að vera þunn. Ef hún er svo þykk að maður þurfi að bíta hraustlega til að komast að ísnum gerist tvennt; súkkulaðiskelin brotnar í stykki sem hrynja niður á föt viðskiptavinarins og ísinn bráðnar á meðan hann er að bryðja súkkulaðið. Sá sem ætlar að borða þykka súkkulaðiplötu með ísnum biður um síríuslengju, ekki dýfu.

images

Allt of oft bjóða sjoppur upp á ís sem er of linur. Ef hann byrjar að leka áður en maður byrjar að borða hann er hitastigið á vélunum ekki rétt. Það eyðileggur ánægjuna ef maður þarf að hafa sig allan við til að koma í veg fyrir að ísinn sullist niður.

Ef ísinn er borinn fram í vöffluformi er gott ráð að setja lítinn kúlulaga sælgætismola í vöffluna til að loka forminu betur því það kemur fyrir að vöfflurnar leka. Þetta ráð hefur einhver kennt ísbúðarstúlku sem afgreiddi mig í síðustu viku. Það tókst þó ekki betur til en svo að í stað þess að loka fominu með einni kúlu, setti hún hálfa matskeið af nóakroppi í vöffluna. Tvær kúlur lentu saman og mynduðu stíflu í miðri vöfflunni sem ísinn rann svo greiðlega framhjá. Hefði verið mun skárra að sleppa þessari varnaraðgerð. Það sama gerist ef lakkrísbiti er settur í vöffluna. Ef á að nota sælgætismola til að loka forminu verður hann að vera kúlulaga og það þarf að setja eina kúlu fyrst, það er svo hægt að setja fleiri mola á eftir ef þess er óskað.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: , ,

Laugardagur 20.7.2013 - 12:47 - FB ummæli ()

Athyglissýki

Í umræðunni um mál Edwards Snowden hef ég nokkrum sinnum séð því fleygt að hvati Snowdens að uppljóstrunum sé ekki einskær mannréttindaást heldur kannski bara „athyglissýki“.  Ég hef einnig séð nokkra netverja tala um þingmenn Pírata sem athyglissjúka, fyrir það að nota aðstöðu sína í þinginu til að tala fyrir mannréttindum Edwards Snowden. Við erum að tala um þessa sem voru kosnir á þing einmitt til þess að vekja athygli á upplýsingafrelsi, persónuvernd og borgaralegum réttindum.

Þetta er hvoki í fyrsta sinn né það hundraðasta sem ég sé baráttu fyrir réttlætismálum afgreidda sem „athyglissýki“. Reyndar hefur reglan lengst af verið sú að þegar stjórnmálamaður tjáir sig af ástríðu er hann mælskur, skeleggur eða mikill baráttumaður en þegar sá sem gagnrýnir stjórnvöld gerir það er hann sagður athyglissjúkur.

 

image

Geðsjúkdómur eða löstur?

Hið sjúka er óeðlilegt. Ástand sem hefur í för með sér vanlíðan og/eða skaða. Ég veit ekki hvort athyglissýki er til sem læknisfræðilegt hugtak en ef svo er þá hlýtur það að eiga við um hegðun sem víkur nokkuð langt frá norminu. Í daglegu tali er orðið notað í sömu merkingu og „attention seeking“ í ensku, kannski aðallega vegna þess að „athyglssýki“ hljómar líkar enska orðinu en „athyglissækni“ sem nær merkingunni betur. Enska  orðið felur ekki beinlínis í sér hugmynd um geðsjúkdóm heldur frekar hégómleika. Mér finnst hvorug merkningin þó eiga við um það að vilja koma baráttumálum sínum á framfæri.

Athyglissýki

Ef athyglissýki er á annað borð til sem geðrænn kvilli, þá hlýtur hún bæði að koma fram í óvenjumikilli eftirsókn eftir persónulegri athygli og óþægilegum eða jafnvel skaðlegum aðferðum til þess að fullnægja þeirri þörf. Þá erum við að tala um hegðun sem veldur fleira fólki en pólitískum andstæðingum ama og grefur undan velferð þess athyglissjúka.

Allt fólk hefur þörf fyrir viðurkenningu en sá sem er athyglissjúkur í þessari merkingu þjáist af vanmetakennd og virðist ekki trúa á verðleika sína sjálfur. Hann reynir því að öðlast viðurkenningu með allt öðrum aðferðum en þeim að þroska hæfileika sína, standa sig vel og eiga góð samskipti við aðra. Sá athyglissjúki tekur ekki þátt í gleði og sorg annarra heldur finnur hann til öfundar og reynir að stela senunni.

Mér finnst kannski réttlætanlegt að tala um athyglisþrá sem sjúkleika ef fólk notar eftirfarandi aðferðir til að svala þörf sinni fyrir viðurkenningu;

  • að taka orðið af þeim sem hefur athygli hópsins, ekki til að leggja eitthvað til málanna heldur með einhverju óviðeigandi, sem beinir athyglinni frá umræðuefninu og að honum sem persónu,
  • að hegða sér á óviðeigandi hátt, sýna dónaskap eða valda truflun,
  • gera sér upp veikindi eða ýkja vanlíðan sína,
  • stæra sig af afrekum sem lítil eða engin innistæða er fyrir
  • stæra sig af tengslum við þekkt fólk og ýkja þau stórlega
  • eigna sér verk annarra
  • sækjast eftir samúð með ósönnum fullyrðingum um að aðrir hafi komið illa fram við sig
  • skaða sjálfan sig

Athyglissækni

Eflaust er hægt að nefna margar fleiri vondar og skaðlegar aðferðir til að  verða sér úti um samúð, aðdáun eða aðra persónulega athygli en fólk sem kann vel við sig í sviðsljósinu er oft sagt athyglissjúkt enda þótt enginn skaði hljótist af hegðun þess. Enska orðið „attention seeking“ (eða athyglissækinn) er svosem ágætlega lýsandi fyrir þá hegðun en mér ofbýður stundum fyrirlitningin sem skín í gegn þegar orðið athyglissjúkur er notað í þeirri merkingu. Nauðsynlegt þykir að lýsa vanþóknun á þeim sem skreyta sig á óvenjulegan hátt og hnýta aðeins í stuðboltann sem stelur senunni í samkvæminu, í það minnsta  ef hann nýtur sín í hlutverkinu hrókur alls fagnaðar. Hégómi er höfuðsynd og nauðsynlegt að berja niður þá sem sækjast eftir aðdáun með skemmtilegheitum, útliti sínu eða öðrum hégóma.

Það eru ekki alltaf skýr mörk á milli persónunnar og þess sem hún gerir og jafnvel þeir sem eiga afkomu sína undir persónulegri athygli fá á sig stimpilinn „athyglissjúkur“.  Íþróttamaðurinn sleppur oft fyrir horn (því hann er að minnsta kosti vel að athyglinni kominn) en listamaður sem sýnir áberandi vilja til að vekja athygli á verkum sín er hættulega nálægt gráa svæðinu.

Er gagnrýni á valdhafa merki um geðveiki?

Og lengra gegnur það. Orðið athyglissýki er einnig notað til að lýsa fyrirlitningu á þeim sem vekur athygli á málstað enda þótt hann haldi persónu sinni algerlega utan við. Hörður Torfason, sem hefði vel getað nýtt sér Búsáhaldabyltinguna til þess að pota sér í einhverja valdastöðu en hefur aldrei sýnt neina tilhneigingu í þá átt, hefur sannarlega verið stimplaður athyglissjúkur. Að maður tali nú ekki um þá aðgerðasinna sem hylja andlit sín. Djös athyglissýki í þeim alltaf.

Og djös athyglissýki í þessum Snowden maaaar. Alveg til í að upplýsa alheiminn um stórfelldar persónunjósnir bara til að komast í blöðin eða eitthvað…

Síríjösslí?  Er það sjúkdómur eða neikvæð eftirsókn eftir viðurkenningu að finnast eitthvað athugavert við það að bandarísk stjórnvöld fylgist með tölvupóstsamskiptum almennra borgara? Er það persónuleikabrestur að hafa pólitískar skoðanir sem falla valdhöfum ekki í geð? Er við hæfi að nota sama orð um pilt sem sér fjöldamorð sem heppilega leið til að koma skólasystkinum sínum í skilning um að einelti sé ekki í lagi, stúlku sem tekur þátt í fegurðarsamkeppni, konu sem býður sig fram til formennsku hjá KSÍ og mann sem upplýsir alheiminn um mannréttindabrot?

Að sjálfsögðu vill fólk sem vinnur að mannréttindamálum að áhyggjuefni þess fái athygli en er  ekki lágmark að sú athygli sem „hinn sjúki“ sækist eftir sé persónuleg og gerðir hans skaðlegar til þess að rétt sé að líkja ástandi hans við geðsjúkdóm? Eða er það kannski ennþá, árið 2013, talið jaðra við  geðveiki að gagnrýna stjórnvöld?

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Þriðjudagur 16.7.2013 - 08:43 - FB ummæli ()

Íslenska velferðarkerfið?

Vinkona mín veiktist alvarlega á síðasta ári. Kostnaður hennar við læknisþjónustu og lyf á árinu nam 330.000 krónum.

Ég á tvær vinkonur sem hafa leitað á slysadeild á síðustu vikum. Önnur beið í 6 klukkustundir áður en læknirinn rétt leit á hana og sagði henni að ekkert væri hægt að gera fyrir hana. Hún borgaði 5600 kr fyrir það. Hin beið í 7 klukkustundir og var sagt að fara til heimilislæknis.

Um daginn átti ég netspjall við konu sem lýsti samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið á nokkurnveginn sama hátt og einn vina minna lýsti árið 2003. Lítið virðist hafa breyst á 10 árum.

Ég hef búið bæði í Danmörk og Bretlandi síðustu árin og það sem hefur komið mér allra mest á óvart í báðum þessum löndum er verðið á heilbrigðisþjónustu. Hér eru nokkur skemmtileg samanburðardæmi um kostnaðarhlutdeild sjúklings í heilbrigðisþjónustu. Miðað er við almennt verð fyrir fólk sem nýtur almennra sjúkratrygginga og er ekki með afsláttarkort.

Koma á bráðamóttöku:
Ísland  5600 kr  – Bretland 0 kr

Koma á heilsugæslu á dagvinnutíma:
Ísland 1000 kr   –  Bretland 0 kr

Legstrok til krabbameinsleitar:
Ísland 4000 kr  – Bretland 0 kr

Koma á göngudeild sjúkrahúss:
Ísland 3000 kr  – Bretland 0 kr

Heimsókn til sérgreinalæknis:
Ísland 4500 kr  – Bretland 0 kr
Þetta er almenna gjaldið á Íslandi og kostnaður getur verið lægri. Hann getur þó einnig orðið hærri eða allt að 31.000 kr.

Rannsókn á blóðsýni eða þvagsýni:
Ísland 1900 kr – Bretland 0 kr

Ég ætla ekki að reyna að reikna út lyfjakostnað fyrir Íslendinginn en í Skotlandi borgar sjúklingur yfirleitt ekki krónu fyrir þau lyf sem læknir skrifar upp á. Heilbrigðiskerfið hefur lagaheimild til gjaldtöku fyrir lyfseðla en hún hefur að minnsta kosti ekki verið nýtt síðustu 2 árin. (Lesandi benti mér á að í Englandi væri ennþá rukkað fyrir lyfseðilsskyld lyf, ég fann skýringu á þessu misræmi hér.)  Það sama gildir um þjónustu auglækna, í Skotlandi er hún niðurgreidd að fullu.  Í Bretlandi eiga fáæklingar rétt á aðstoð vegna kostnaðar sem ekki er niðurgreiddur að fullu. Ég hef einu sinni þurft að taka lest í annan bæjarhluta til að fara til sérfræðings og mér var sérstaklega bent á að kynna mér hvort ég ætti rétt á að fá lestarferðina endurgreidda (án þess að ég léti neinar áhyggjur vegna kostnaðar í ljós.) Tannlæknaþjónusta barna er foreldrum að kostnaðarlausu og tannlækningar fyrir fullorða niðurgreiddar að hluta.

Ég finn ekki í fljótu bragði upplýsingar um kostnaðarþátttöku sjúklinga í Danmörku  en þegar ég bjó þar borgaði ég ekkert fyrir komu til heimilislæknis eða á slysadeild.

Mér var bent á þessa umfjöllun í tengslum við umfjöllunarefnið. Mér finnst þetta mjög áhugavert.

Ísland

Bretland

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál

Laugardagur 13.7.2013 - 16:49 - FB ummæli ()

Kristján Þór er alveg meðetta

Í Speglinum í gærkvöld ræddi heilbrigðisráðherra nauðsyn þess að „tryggja þjónustustig“ heilbrigðiskerfisins (hvað sem það nú merkir.) Ráðherrann telur að hægt sé að ná inn þeim áttakommaeitthvað milljörðum sem vantar til þess að hægt sé að halda uppi góðri þjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur með annarri forgangsröðun og aukinni framleiðni.  Hann útskýrði þó ekki hvernig ætti að breyta forgangsröðuninni eða í hverju þessi aukna framleiðni fælist.

Í þessu langa og leiðinlega viðtali benti ráðherrann aðeins á eina leið til að rétta hallann. Þá leið að auka hlutdeild sjúklinga í kostnaði.

Hversu hátt hlutfall kjósenda ríkisstjórnarflokkanna skyldi hafa séð þá lausn fyrir sér á kjördag?

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð: ,

Laugardagur 13.7.2013 - 10:14 - FB ummæli ()

Norska aðferðin í fréttamennsku?

Ég fnæsti dálítið á Vísi þegar ég sá þessa frétt. Henni hefur verið breytt en upphaflega var textinn svona:

Screenshot from 2013-07-11 16:11:19

Þessi frétt er í fyrsta lagi hroðalega illa skrifuð. Fólk er ekki sjálfráðasvipt en það getur verið sjálfræðissvipt. Verra er þó að nafn konunnar er ekki rétt beygt. Nafnið Karen er að vísu beygt á tvo vegu en engu að síður er venjan sú að halda sig við eina beygingu. Hér er nafnið beygt á mismunandi hátt í fyrirsögn og undir myndinni. Ég veit engin dæmi þess að nafnið Björk sé ekki Bjarkar í eignarfalli.

Mér var bent á að tilkynningin hefði komið svona frá lögreglunni svo það væri ekki við Vísi að sakast. Ég skrifa nú reyndar ekki undir það að fjölmiðill beri enga ábyrgð á því hverskonar málvillur og ambögur hann birtir en lögreglan ber þó mesta ábyrgð á óþarflega miklum  persónuupplýsingum og það er öllu verra en vont málfar.

Ég skil að löggunni geti þótt rétt að taka fram að fólk sem lýst er eftir sé ekki grunað um afbrot (þótt það sé reyndar sjaldan tekið fram) en hver er tilgangurinn með því að segja alheiminum að manneskjan hafi verið svipt sjálfræði og að hún hafi strokið af geðdeild?  Er ekki nóg fyrir lesendur að vita að konunnar sé leitað?   Það er líka óþarfa virðingarleysi að nota orðið horuð. Þetta orð er venjulega notað um búfénað, eða í niðrandi merkingu um manneskjur. Síðar kom fram í fjölmiðlum að konan þjáist af lystarstoli og vegi aðeins 45 kg.  Hér hefði mátt segja áberandi grönn, undir kjörþyngd, eða bara vegur aðeins 45 kg.

Það hlýtur að teljast einkennilegt af stofnun sem er svo umhugað um persónuvernd, að hún flokkar jafnvel beinar lýsingar á atburðum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum sem trúnaðarmál, að telja nauðsynlegt að gefa allar þessar upplýsingar um veika um manneskju sem er ekki í neinni aðstöðu til að sækja rétt sinn gagnvart yfirvaldinu.

Ég ætlaði að láta mér nægja að tuða aðeins yfir þessu í umræðukerfinu en þegar ég sá þessa frétt skipti ég um skoðun.

hrot

 

Er ég ein um þá skoðun að það sé eitthvað athugavert við þennan fréttaflutning af hálfu lögreglunnar og/eða fjölmiðilsins? Hvað finnst ykkur?

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál · Menning og listir · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Föstudagur 12.7.2013 - 11:22 - FB ummæli ()

Skemmtiþjófar á Facebook – hópar

Eitt af því sem er verulega slæmt við Facebook er að maður er stundum skráður í hópa án þess að vera spurður álits.  Einu sinni var hægt að senda fólki boð um að skrá sig í hóp en ég sé þann möguleika ekki lengur. Flestum finnst það öllu kurteislegra og mér finnst líklegt að margir telji sig vera að senda boð þegar þeir skrá einhvern í hóp. (Það er hinsvegar hægt að bjóða fólki að læka síðu en það er efni í annan pistil.)

Þegar maður er skráður í hóp fær maður tilkynningu um það svo maður á að geta tekið afstöðu til þess hvort maður hefur áhuga eða ekki en tilkynningar geta bara auðveldlega farið fram hjá manni. Síðast þegar ég skoðaði yfirlitið yfir þá hópa sem ég var skráð í, komst ég að því að ég var skráð í meira en 30 hópa án þess að hafa hugmynd um það. Þ.á.m. hóp kaþólikka í Danmörku, aðdáendaklúbb einhvers manns sem ég hef aldrei heyrt getið og Framfarastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (alveg ég eða þannig).  Einn félagi minn áttaði sig á því að hann var m.a. skráður í hóp teppabúðar í Íran og hóp sem heitir „jólaskraut liðinnar aldar“.

 

Í hvaða hópa ertu skráður?

Screenshot from 2013-07-07 18:46:11

Til þess að sjá í hvaða hópa þú ert skráður, geturðu skoðað hliðarslána vinstra megin við fréttaveituna. Þar svona í kringum miðju eru hóparnir.

Þú smellir á Groups (Hópar) og þá færðu upp mynd af þeim hópum sem þú ert skráður í.

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan sjást þeir hópar sem ég er virkust í. Reyndar vissi ég ekki af einum þeirra, leynihópnum sem heitir Ostavinafélagið en hann hefur orðið útundan þegar ég hreinsaði til um daginn. Ég smellti á tengilinn áðan til að athuga hvað þetta væri eiginlega (þessvegna stendur „used today“) og þar sem ég hef engan áhuga á að vera í honum ætla ég að skrá mig úr honum. Ég get gert það með því að smella á tengilinn og fara þannig inn á síðu hópsins en það er fljótlegra að gera það með því að smella á blýantinn.

 

Screenshot from 2013-07-07 19:02:58

Þegar ég smelli á blýantinn fæ ég upp möguleika á að skrá mig úr hópnum. Ég get líka skráð hann sem uppáhalds. Ef ég fer í Edit Settings get ég stjórnað því hvað ég fæ miklar upplýsingar frá hópnum inn á fréttaveituna. Í þessu tilviki ákveð ég að yfirgefa hópinn.

 

Ef þú vilt hvíla þig á hópnum eða takmarka fjölda tilkynninga

Um daginn hafði vinur minn samband við mig og bað mig að skrá sig í hóp sem hann hafði einu sinni tilheyrt. Hann hafði skráð sig úr honum af því að hópurinn var mjög virkur og hann var þreyttur á því að fá 50 tilkynningar frá honum á dag. En það er hægt að takmarka fjölda tilkynninga án þess að yfirgefa hópinn. Til þess smellir maður á blýantinn og velur Edit Settings.

Screenshot from 2013-07-07 19:10:08

Hér er hópur sem ég hef verið að hvíla mig á og valdi þessvegna Off á sínum tíma. Nú vil ég sjá innlegg en ekki öll innlegg sem koma inn á síðu hópsins heldur bara þau sem mínir vinir pósta. Til þess vel ég Friend’s Posts, og svo vista ég breytinguna að sjálfsögðu.

 

 

Meiri fb kennsla:

Það er hægt að draga úr leikjaboðaflóði

Þú getur stjórnað því hvað birtist á fréttaveitunni

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Fimmtudagur 11.7.2013 - 00:45 - FB ummæli ()

Hvenær hættu þeir að vera þjónar?

Tungumálið kemur upp um okkur.

Þegar ég hafði skrifað þennan pistil rann allt í einu upp fyrir mér að ég var nánast hætt að nota orðið lögregluþjónn.  Ég spurði Gúggul vin minn hversu algengt það væri og hann fann 247,000 niðurstöður þegar ég sló inn orðið „lögreglumaður“ en 77,700 þegar ég sló inn „lögregluþjónn“.  „Lögreglumenn“ gaf 686,000 niðurstöður „lögregluþjónar“ 50,500.

Erum við hætt að líta á löggæslu sem þjónustu? Og ef svo er hvernig stendur þá á því? Og hvernig skilgreinir lögreglan störf sín? Sem þjónustustörf eða eitthvað annað?

Ég skoðaði lögregluvefinn. Þar eru starfsmenn lögreglunnar kallaðir lögreglumenn, ekki þjónar. Það er að því leyti skiljanlegt að í lögum er bæði talað um lögregluþjóna og lögreglumenn. Ef til vill er ætlunin sú að gera greinarmun á þjónum og stjórnendum. Það er samt athyglisvert að orðið „lögregluþjónn“ virðist ekki lengur vera til í orðaforða lögreglunnar sjálfrar, ekki heldur í því efni lögregluvefjarins  sem tengist Lögregluskólanum. Ætli þeir heiti nokkuð lögregluþjónar í námsefninu?

Hvenær hætti almenningur að tala um störf lögreglunnar sem þjónustu við almenna borgara? Og hvenær tók lögreglan sjálf upp á því að endurskilgreina hlutverk sitt? Og með hvers leyfi?

sersveitin_220610Er kannski ekkert skrýtið að við séum hætt að tala um þá sem þjóna?

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics