Þriðjudagur 3.6.2014 - 12:31 - FB ummæli ()

Þú ert víst miðaldra!

Áður birt á Kvennablaðinu

Þegar ég var lítil voru ömmur með svuntur. Þær steiktu kleinur og prjónuðu vettlinga og sungu Guttavísur fyrir barnabörnin.  Í dag eru ömmur hinsvegar skvísur. Allar í ræktinni eða útlöndum, og ekki slæðu bunda yfir rúllurnar í hárinu heldur með grænar strípur og tattútveraðan upphandlegg. Ef þær verða þá á annað borð ömmur áður en þær eru komnar með elliglöp því nú er fólk hætt að eignast börn fyrr en rétt undir tíðahvörf. Heimur versnandi fer og mikil er sú mæða og allt það.

En það er alveg sama hversu vel þér tekst að skvísa af þér aldurinn og þótt þú eigir smábörn í stað barnabarna, þú ert samt miðaldra ef eftirtalin atriði eiga við þig:

simigrar

Þú kannt á skífusíma og manst eftir fimm stafa símanúmerum. Á bernskuheimili þínu var sími af þessari gerð, annaðhvort grár eða fölgulur.

Þú vaknar við að einhver ýtir við þér og segir „veistu hvað klukkan er?“ og þú svarar í svefnrofunum „nei, ég veit það ekki, hringdu bara í núll fjóra.“

Þú áttir sunnudagaföt þegar þú varst barn.

Þú skilur hvað orðið „strætógrænn“ merkir.

Þú sérð palmolive sápu og þótt þú vitir betur segir rödd lengst inni í hausnum á þér „palmólæf“ með áherslu á fyrsta atkvæði. Þér finnst tilgerðarlegt að bera bugles fram öðruvísi en „böggleis“.

Þú manst eftir sígarettuauglýsingum í kjörbúðum og grófu, daufgulu hansatjöldunum í mjólkurbúðinni.

Þú manst eftir mjólkurhyrnum og veist hversvegna þér var ekki leyft að hella úr þeim.

mbl131264

Þessi auglýsing birtist í Mogganum 13. desember 1964. Kannast einhver af kynslóð foreldra minna við að þessir tappar hafi verið nothæfir?

Fyrsta myndskreytta verklýsingin sem þú last var fjögurra ramma vinnuteikning á 2ja lítra mjólkurfernu með yfirskriftinni „Þannig á að opna“.

Á bernskuheimili þínu, afa þíns og ömmu eða öðru heimili sem þú dvaldist á var að minnsta kosti eitt af eftirtöldu og sennilega allt: Stórrósótt veggfóður, eitthvert afbrigði af myndinni af drengnum með tárið, jólaplattar Bing & Grøndahl, hansahillur og hringlaga eldhússkollar með þremur fótum.

plattar

Þú manst eftir því þegar þú smakkaðir hnetusmjör í fyrsta sinn.

Þú gerir greinarmun á „eftirmat“ og „desert“. Þú minnist þess að hafa trúað því að ekki þyrfti annað en dálítinn kanelsykur til þess að orðin „hæft til manneldis“ gætu átt við makkarónur mauksoðnar í mjólk og þú veist hvernig heitur rommbúðingur lítur út þegar búið er að hella út á hann berjasaft og hræra dálítið. (Ég lofaði því aldrei að lesendur kæmust í gegnum þennan pistil án þess að gubba.)

Þú hefur drukkið Mírinda og Spur og manst ekki betur en að það hafi verið hinir bestu drykkir þótt þig gruni reyndar að smekkur þinn kunni að hafa breyst.

sanitas

Þú tókst plastbrúsa með „djús“ eða mjólk með þér í skólann og þú hefur drukkið kakó úr flösku klæddri ullarsokk.

Þú getur útskýrt setninguna „grauturinn er sangur“, hvort sem þú hefur borðað sangan graut eður ei og hefur skrifað  málsgreinar á borð við; „Þráinn Ingason hlægi ef hann sæi Kristin hneigja sig fyrir meyjunum við heyskapinn“ án þess að fá hláturskast eða spyrja hver sé að reyna að hafa þig að fífli og hversvegna.

Þú veist hvað kemur á eftir „Sísí segir s-s-s…“

Þér finnst Tinnabækurnar vel geta átt heima á lista yfir merkustu rit 20. aldarinnar.

Þér finnst Andrés önd betri á dönsku en íslensku.

Þú heyrir orðin „ríkisútvarpið sjónvarp“ og fyrstu myndirnar sem koma upp í hugann eru Magnús Bjarnfreðsson um fertugt og svarthvíta stillimyndin.

stillimynd

Þú heyrir einhverja eldgamla vemmu á borð við „Jón er kominn heim“ eða „Á skíðum skemmti ég mér“ í útvarpinu og áttar þig á því að þú kannt textann utan að þótt þú hafir aldrei þolað lagið.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Miðvikudagur 28.5.2014 - 19:26 - FB ummæli ()

Svo þeir hylmi ekki yfir mistök sín

Áður birt á Kvennablaðinu

Það má vel vera að það hafi verið röng ákvörðun hjá ríkissaksóknara að gefa út ákæru á hendur Landspítlanum og tilteknum hjúkrunarfræðingi vegna mistaka sem leiddu til dauða sjúklings. Við skulum samt hafa hugfast að hér er einungis um ákæru að ræða, manneskjan hefur enn ekki verið dæmd og það getur bara vel verið að dómstólar komist að sömu niðurstöðu og formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að ekki hafi verið um vítavert gáleysi að ræða; að ekki sé hægt að gera eina manneskju ábyrga heldur hafi margir þættir spilað saman. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu verður hjúkunarfræðingurinn væntanlega sýknaður.

Ég er ekkert hissa á því að það sé áfall fyrir starfsfólk Landspítalans að missa sjúkling og þurfa svo að horfast í augu við að ríkissaksóknari telji málið eiga erindi fyrir dómstóla. Ég undrast hinsvegar fréttatilkynningu Landspítalans og ályktun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna málsins.  Í báðum tilkynningunum kemur fram að með þessari ákvörðun standi starfsmenn Landspítalans frammi fyrir nýjum veruleika.

Er það virkilega „nýr veruleiki“ fyrir starfsfólk Landspítalans að mistök sem leiði til dauða sjúklings geti hugsanlega verið refsiverð? Hefur þetta fólk hingað til talið sig ósnertanlegt?  Og hvað á formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við þegar hann segir ákæruna jafnvel geta orðið til þess að starfsfólk reyni að hylma yfir mistök sín? Er maðurinn að láta að því liggja að það eigi ekki að gefa út ákærur þótt ríkissaksóknari telji að einhver hafi sýnt vítavert gáleysi með alvarlegum afleiðingum?

Allir gera mistök, líka heilbrigðisstarfsfólk og almennt má telja það jákvætt viðhorf að reyna frekar að læra af mistökum en að finna sökudólg. En ef við tökum þá afstöðu jafnvel þegar mistök leiða til andláts eða annars óbætanlegs tjóns, ætti það þá ekki að eiga við um allar stéttir? Hvað ef löggan skýtur mann fyrir mistök? Hvað ef strætisvagnsstjóri ekur á gangandi vegfaranda? Hvað ef leikskólakennari leggur flugbeittan hníf frá sér þar sem börnin ná til hans og stórslys hlýst af? Í öllum tilfellum er líklegt að mistökin megi skýra með röð atvika en ættu slíkir atburðir aldrei að hafa neinar afleiðingar vegna þess að þá gæti fólk reynt að breiða yfir mistök sín?

Ég held að refsingar séu oft óþarfar og geri stundum meira ógagn en gagn og ég vil að réttarkerfið einkennist af mannúð og mildi. Og ég vona að ef þessi hjúkrunarfræðingur verður sakfelldur (sem er alls ekki víst) þá verði dómurinn vægur. Ég vona líka að það fari í styttast í hinu teygjanlega straxi ríkisstjórnarinnar og að Landspítalinn fái fljótlega þessa 12-13 milljarða sem Vigdís Hauksdóttir lofaði fyrir kosningar.

En sú hugmynd sem skín í gegnum ályktun hjúkrunarfræðinganna, að það sé hægt að koma í veg fyrir læknamistök með hærri fjárveitingum, og fyrrnefndar yfirlýsingar um „nýjan veruleika“, vekja grun um að meðal heilbrigðisstétta ríki sú skoðun að það sé ósanngjarnt að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að axla  ábyrgð á mistökum sínum rétt eins og aðrir. Öryggi sjúklinga er ekki síður hætta búin af því viðhorfi en af slæmum vinnuaðstæðum á sjúkrahúsunum.

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð: ,

Sunnudagur 25.5.2014 - 13:12 - FB ummæli ()

Eiga skattgreiðendur að styrkja djöflafræðinga?

Áður birt á Kvennablaðinu

Malín Brand sagði frá reynslu sinni af söfnuði Votta Jehóva í DV fyrir rúmu ári. Í viðtalinu lýsir hún því hvernig söfnuðurinn stuðlar að félagslegri einangrun. Hún segir einnig frá bannfæringunni sem hún varð fyrir þegar hún fór að skoða trúna með gagnrýnum augum, en bannfæringin fellur fullkomlega að skilgreiningum flestra skóla og vinnustaða á einelti.

Þann 9. apríl síðastliðinn birti svo Valdís Rán Samúelsdóttir grein á Speglinum þar sem hún lýsir reynslu sinni af trúfélagi. Hún nefnir ekki söfnuðinn en samkvæmt öðrum fréttum af trúarleiðtoga sem predikar að menn skuli ekki bjóða syndinni í kaffi, mun Valdís Rán hafa verið virkur meðlimur í Krossinum. Greinin fór fram hjá mér þegar hún birtist en mér var bent á hana í morgun og hún er ekki síður sláandi en sú reynsla sem Malín lýsir. Kvennakúgun, refsihyggja, hræðsluáróður, miðaldaheimsmynd, forheimskun, valdníðsla og almennt mannhatur eru meðal þeirra orða sem komu upp í huga minn við lesturinn.

En sú sem vakti athygli mína á grein Valdísar Ránar benti líka á annað sem ég hef ekki leitt hugann að lengi; því að trúfélög fá framlög úr ríkissjóði. Þetta er venjulega kynnt á þann veg að ríkið taki að sér að innheimta sóknargjöld en reyndin er auðvitað sú að framlögin koma frá öllum skattgreiðendum, hvort sem þeir tilheyra trú- eða lífsskoðunarfélögum eður ei.

Þetta þýðir að ríkið styrkir starfsemi félaga sem ala á ótta við andaverur og ráða meðlimum sínum (fólki sem óttast andaverur) frá því að leita sér geðlækninga. Félaga sem ástunda grímulaust einelti. Félaga sem úthýsa samkynhneigðum og ástunda alvöru kvennakúgun. Við erum ekki að tala um veggspjald með mynd af kyssilegum munni eða ósmekklegan brandara, heldur kerfisbundna kúgun með ströngum reglum um hegðun og klæðaburð ásamt yfirlýstri stefnu um að konur skuli vera körlum undirgefnar.

Umræðan um Snorra í Betel leiddi í ljós að mikill fjöldi manns telur eðlilegt að kennari sé rekinn úr starfi fyrir að tjá fullkomlega löglegar skoðanir á blogginu sínu. Það stenst auðvitað ekki lög og ég hef áður lýst þeirri skoðun að Akureyrarbær hafi orðið sér til skammar með tiltækinu. En af hverju umber sama samfélag það að skattgreiðendur séu látnir greiða styrki til þeirra sem láta sér ekki nægja að lýsa klikkuðum skoðunum, heldur fylgja þeim eftir með andlegu ofbeldi gagnvart kornungu fólki og jafnvel fólki á barnsaldri?

Einhverjir munu mótmæla því að hér sé um ríkisstyrki að ræða, þetta séu aðeins félagsgjöld. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðherra innheimtir ríkissjóður ekki sóknargjöld. Framlög til trúfélaga eru einfaldlega styrktarfé. En jafnvel þótt við gætum kallað það félagsgjöld, er þá virkilega sæmandi að ríkið hafi milligöngu um að innheimta félagsgjöld fyrir djöflafræðinga?

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Föstudagur 23.5.2014 - 16:03 - FB ummæli ()

Viðeigandi refsing fyrir öryrkja

Áður birt á Kvennablaðinu

Ég vissi ekki fyrr en las þessa frétt að þeir sem ríkisvaldið hefur svipt sjálfræði væru látnir bera kostnaðinn af því sjálfir. Þannig þarf sjálfræðissvipt manneskja á örorkubótum, sem með öllum uppbótum verður hæst 218.515 kr á mánuði (fyrir skatt), að greiða lögráðamanni sínum 12.000 kr á tímann fyrir að taka ákvarðanir varðandi fjármál, búsetu og aðra persónulega hagi.

Líklega er hugsunin sú að samfélagið eigi ekki að þurfa að líða fyrir það að fólk kunni ekki að hegða sér. Sú hugmynd er djúprætt, það hefur til dæmis löngum þótt sjálfsagt að láta fanga leggja eitthvað af mörkum til eigin refsingar. Jesús var látinn draga krossinn upp á hæðina. Þeir sem brenndir voru fyrir galdur á 15.-17. öld þurftu sjálfir, með aðstoð fjölskyldu sinnar, að útvega eldivið í bálköstinn. Fangarnir voru sjálfir þvingaðir til að reisa girðinguna í kringum fangabúðirnar í Auscwhitz.

Á sama hátt þykir það viðeigandi á Íslandi, árið 2014, að fólk sem ekki er fært um að bera ábyrgð á sjálfu sér, axli ábyrgðina á því sjálft.

Finnst ykkur þetta í lagi?

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð:

Þriðjudagur 20.5.2014 - 10:12 - FB ummæli ()

Heimsósómarausið í unga fólkinu

Áður birt á Kvennablaðinu

Mér er farið að leiðast heimsósómarausið í unga fólkinu. Þessa dagana hamast netverjar við að deila myndum af hópum fólks sem er að skoða snjallsímana sína, ásamt harmkveinum um það hvað þetta sé nú allt hræðilegt; fólk er bara hætt að eiga samskipti, heimur versnandi fer og allt það. Þetta illa rímaða runkljóð eftir einhvern kornungan leiðindagauk sem heitir Gary Turk, lýsir andanum prýðilega.

10178113_10152417138358010_4490586173332449607_n

Kommon krakkar! Haldið þið að mín kynslóð hafi spjallað huggulega við bláókunnugt fólk í strætó og eignast vini á biðstofu heilsugæslunnar eða að fólk af kynslóð ömmu minnar hafi ekki verið einmana? Haldið þið virkilega að í gamla daga hafi fólk alltaf verið að horfast í augu og tala saman? Njóta nátttúrunnar, gera eitthvað skapandi?

Neiónei börnin góð. Við héngum yfir sjónvarpinu á kvöldin og gamla fólkið óskapaðist yfir því að við værum ekki frekar að lesa heimsbókmenntir því þeir sem horfðu á sjónvarp urðu náttúrulega svo firrtir. Stundum vorum við einmana en samt góndum við frekar niður í gangstéttina en að tala við ókunnuga á meðan við biðum eftir strætó. Í nýjum skóla eða vinnustað þóttust þeir feimnu og ómannblendnu vera uppteknir við að lesa tilkynningar á korktöflum. Ég hefði selt sál mína fyrir iphone fyrstu vikuna mína í Flensborgarskóla og ég var ekki einu sinni feimin. Sumir settust niður á kaffistofunni með bók og könnuðu væntanlega félaga út undan sér. Ég prjónaði til að forðast samskipti þótt ég kynni eiginlega ekki að prjóna. Í dag hangir fólk á netinu, áður hékk það yfir engu. Börn voru meira úti jú, en bara af því að það var talið svo hollt fyrir börn að fá fjögur vindstig í andlitið og forheimskandi að lesa teiknimyndasögur.

Ég horfi á tölvuskjá meira og minna allan daginn. Það þýðir ekki að ég sé einmana, firrt eða að samskipti mín við aðra séu merkingarrýrari en fyrir daga netsins og reyndar á ég mun meiri samskipti en áður. Ég kynntist manninum mínum á netinu en þar sem við tilheyrum ólíkum menningarhópum hefðum við sennilega aldrei kynnst nema vegna þess að netið bauð upp á það. Við eigum fjölda vina og kunningja sem við höfum ákveðið að hitta eftir áhugaverðar samræður á Fésinu. Því miður hefur það alltaf verið svo að einmanaleiki og leiði hrjáir nokkuð marga en í dag er netið þó allavega valkostur fyrir þá sem eru ekki í góðum félagstengslum í raunheimum.

Við erum ekki hætt að líta upp og horfa í kringum okkur. Við erum ekki hætt að stunda íþróttir, sækja skemmtistaði, taka þátt í grasrótarstarfi, afla okkur þekkingar, skoða náttúru og menningu, leggja stund á listsköpun og sinna börnunum okkar. Við erum ekki hætt að verða ástfangin og börn eru ekki hætt að klifra í trjám og fá mold undir neglur. Sennilega hefur mannkynið aldrei notið lífsins betur. Við erum ekki einu sinni hætt að hlusta á heimsósómakveðskap, í það minnsta hefur þetta úldna ljóð hans Gary Turk fengið meira en 37 milljónir flettinga, þrátt fyrir nokkuð útbreidda trú á dauða ljóðsins.

Svo hættið þessu gömlukallarausi kæru krakkabörn. Tæknin er dásamleg og fólk er bara ekkert firrtara eða meira einmana í dag en það hefur alltaf verið. Og ef þið trúið því ekki, prófið þá að kíkja á internetið. Þar er hægt að finna grilljón dæmi um það sem þetta ægilega firrta fólk, sem nennir ekki að tala við ykkur á meðan það bíður eftir strætó, gerir þegar það er búið að sækja sér innblástur á samfélagsmiðla og læka myndbönd sem vara fólk við firringunni á internetinu.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Föstudagur 16.5.2014 - 08:38 - FB ummæli ()

Afnemum verkfallsrétt kennara

Ég hef ekki áhyggjur af afkomu flugmanna en til hvers í fjandanum er verkfallsréttur ef yfirvaldið getur svo bara bannað fólki að nýta sér hann?

Flugmenn eru þó í skárri aðstöðu en kennarar að því leyti að verkfall flugmanna skaðar atvinnurekandann og ríkið. Verkfall kennara bitnar fyrst og fremst á börnum og foreldrum. Ef eitthvað er þá hagnast hið opinbera á kennaraverkfalli.

Verkfallsvopnið er veikt nema atvinnurekandinn finni áþreifanlega fyrir því og mér finnst beinlínis ósæmilegt að bjóða fólki sem vinnur umönnunarstörf upp á þá valkosti að þurfa annaðhvort að sætta sig við léleg kjör eða grípa til aðgerða sem bitna á skjólstæðingunum. Þar að auki eru verkföll vítahringur; ein stétt fær „leiðréttingu“ og þá þarf sú næsta að gæta þess að dragast ekki aftur úr og þá er það orðið ósanngjarnt gagnvart hálaunafólki sem vill fá sömu prósentuhækkun og pöpullinn.

Best væri að afnema verkfallsrétt opinberra starfsmanna og binda öll laun þeirra við laun þingmanna. Leggja niður greiðslur fyrir „óunna yfirvinnu“ og aðrar dulbúnar launahækkanir og viðurkenna frekar að fólk verðskuldi almennileg laun fyrir þá vinnu sem það sinnir raunverulega. Hvert starf yrði metið til x% af launum þingmanns svo ef ein stétt fær launahækkun þarf að hækka allar án nokkurs samingaþvargs. Það yrði þokkalegur þrýstingur á ríkisstjórnina að tryggja stöðugleika.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin · Ýmislegt
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 15.5.2014 - 06:42 - FB ummæli ()

Að þagga niður í þingmönnum

Virðing Alþingis er ekki undir því komin hversu gæfulegar samþykktir þess eru, heldur skiptir meginmáli að þingmenn gæti þess að klæðast ekki lopapeysu eða gallabuxum og muni eftir ávarpsorðunum „háttvirtur þingmaður“ og „hæstvirtur ráðherra“ þegar þeir hreyta fúkyrðum í samstarfsfólk sitt.

Það er svosem ekki fallegt að segja félögum sínum að halda sér saman þótt stundum sé ástæða til. En Vigdís er náttúrulega gasprari og Steingrímur leyfir sér að segja það sem aðrir láta sér nægja að hugsa, tilmæli Steingríms um að háttvirtur þingmaður hætti að gjamma fram í fyrir honum ættu því ekki að koma neinum á óvart.

Sá sem helst ætti að skammast sín í þessu máli er forseti Alþingis. Fundastjóri sem andskotast á bjöllunni ef þingmenn virða ekki formreglur en lætur hinsvegar frammíköll viðgangast getur búist við því að fyrr eða síðar taki einhver að sér það verkefni hans að þagga niður í  þingmönnum sem trufla þann sem hefur orðið, hvort sem það er með frammíköllum, glósum um geðslag „kennarans“ eða öðrum unglingastælum háttvirts þingmanns.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 13.5.2014 - 09:31 - FB ummæli ()

Er til rétt aðferð við slefsöfnun?

Ég er ekki í minnsta vafa um að mikið ógeð þrífist í lyfjaiðnaðinum. Bad Pharma liggur einmitt á borðinu við hliðina á mér í þessum orðum skrifuðum, ég lagði hana frá mér hálflesna síðasta haust en nú er áhugi minn á henni endurvakinn. Lyfjaiðnaðurinn er algert oj, rannsóknir sem henta ekki fyrirtækjunum eru látnar hverfa, reglur eru sveigðar til ef fyrirtækið er nógu ríkt og voldugt, dýr eru pínd, sjúkdómar jafnvel búnir til. Ég mæli með þessari bók fyrir hvern þann sem þarf að æsa upp í sér mikla reiði.

Ég skal alveg trúa því að Amgen sé voða ljótt kapítalískt fyrirtæki, tilbúið til að fara á svig við reglur og siðferði til að græða. Bad Pharma minnist einmitt á Amgen að minnsta kosti á einum stað, þeir borga víst selebbum fyrir að nefna vörur þeirra í viðtölum. Það er skítatrix og kannski er skíturinn ekki bara í pokahorninu. Ég skil að fólk hafi áhyggjur af því hvernig stórfyrirtæki fari með viðkvæmar upplýsingar.

Ég skil líka vel að fólki þyki leitt að reka björgunarsveitarmenn frá sér tómhenta og mun hér komin skýringin á gífurlegum auðæfum Landsbjargar; fólk bara meikar ekki að segja nei þegar þeir banka upp á í eigin persónu og horfa biðjandi augum á húsráðendur, sem kannski hafa einhverntíma lent í stórhríð á illa búnum bíl eða eiga unglinga sem hafa gaman af fjallaferðum.

Hitt er svo annað mál að erfðarannsóknir verða ekki stundaðar án lífsýna og erfðarannsóknir eru mikilvægar fyrir læknavísindi og lyfjaþróun.

Mig langar alveg rosalega til þess að allir geti verið öruggir um að upplýsingarnar sem lesa má úr lífsýnum  séu ekki misnotaðar en mig langar líka alveg rosalega til þess að verði hægt að lækna og fyrirbyggja sjúkdóma. Mig langar það jafnvel þótt einhver kapítalistinn græði á því. Af því að það tekur mig sárara að fólk kveljist og deyi að óþörfu en að kapítalistar græði.  Eflaust hefði mátt standa betur að lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar (eða eiganda hennar) en ekki virðast menn par ánægðari með þau vinnubrögð sem notuð hafa verið í fyrri sýnasöfnunum ÍE. Ég hef lesið lýsingar á því að útsendarar Kára hafi setið fyrir viðföngum sínum á opinberum stöðum, horft allmynduglega í augu þeirra og mútað þeim með ljómandi fallegum bolum.

Ég er orðin nokkurs vísari um það hvernig á ekki að fara að því að afla gagna sem nýtast í erfðarannsóknum. Ekki með því að bera gjafir á þátttakendur. Ekki heldur með því styrkja góðan málsstað í skiptum fyrir slef. Ekki með því að ávarpa fólk mynduglega á fjölförnum stöðum og vaða upp í það með tunguspaða. Ekki heldur með því að senda því útbúnað og upplýsingar heim og láta það sjálft um að taka storkið ef það vill vera memm. Ekki með því að senda neyðarkalla heim til að sækja slefið, ég sá reyndar einhvern tala um liðsmenn Landsbjargar sem „handrukkara“ í þessu sambandi.

Ég hef semsagt heyrt heilmikið um hvernig eigi ekki að fara að þessu en enn hef ég ekki heyrt eina einustu tillögu um góða eða bara ásættanlega aðferð. Kannski væri gagnlegt að snúa umræðunni frekar að því hvernig hægt sé að stunda erfðarannsóknir án þess að beita fólk þrýstingi og hvernig hægt sé að tryggja þátttakendum vernd gegn persónunjósnum.

Eða er kannski réttast að leggja bara erfðarannsóknir alfarið á hilluna?  Ég meina úr einhverju verður fólk að deyja og hvað eru þjáningar af völdum sjúkdóma við hliðina á þeirri kvöl að þurfa að afþakka bol eða segja Landsbjörgu að hoppa upp í kapítalismann á sér?

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 8.5.2014 - 14:36 - FB ummæli ()

Hvert ætlar þú að hringja ef einhver ógnar þér?

Það stendur ekki á lögreglunni að handtaka fólk og yfirheyra þegar glæponarnir þvælast fyrir verktökum í Gálgahrauni eða fara í taugarnar á starfsmönnum Bandaríska sendiráðsins. Það stendur ekki á þeim þegar fréttist af hálfu grammi af hassi einhversstaðar, þá er rokið til -sérsveitin send á staðinn og húsleit gerð og ekki endilega beðið dómsúrskurðar.

En þegar almennir borgarar búa við ofsóknir ofbeldismanna, þá verðum við lítið vör við áhuga lögreglunnar á málinu. Jafnvel þegar stórhættulegur maður hefur mörg hundruð sinnum brotið nálgunarbann og til eru feykinógar sannanir fyrir því, þá aðhefst lögreglan ekki. Líklega eru þeir of uppteknir við að ganga um götur og hnusa eftir kannabisplöntum.

Mál konunnar á Þórshöfn sem fjallað var um í Kastljósinu í gær er að því leyti sjokkerandi að það sýnir glögglega að lítil takmörk eru fyrir því hversu langvinnar ofsóknir eru umbornar. En því miður er það ekki einstakt að lögreglan skipti sér ekki af hótunum. Ég þekki þó nokkuð mörg mál þar sem almennir borgarar hafa lagt fram myndir, sms og önnur gögn sem sýna svo ekki verður um villst að þeir hafa góðar ástæður til að óttast um öryggi sitt. Svörin eru ávallt á þá leið að þar sem ekkert ofbeldi hafi átt sér stað sé ekkert hægt að gera. Það er auðvitað helber lygi því samkvæmt 233. grein almennra hegningarlaga eru hótanir sem eru til þess fallnar að vekja ótta, refsiverðar í sjálfu sér.

 233. gr. Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum …1)eða fangelsi allt að 2 árum.

Í máli Ásdísar Viðarsdóttur á ekki aðeins þessi grein við heldur 232. grein líka:

232. gr. [Ef maður brýtur gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 2 árum.]1)

En auðvitað þýðir ekkert fyrir blaðamenn að reyna að ganga á eftir svörum. Yfirvaldið getur nefnilega alltaf skýlt sér bak við það að starfsmenn opinberra stofnana geti ekki tjáð sig um einstök mál.

Þegar ég gagnrýni lögregluna bregst það varla að einhver hugsuðurinn spyr „í hvern muntu hringja ef einhver ætlar að meiða þig eða drepa?“
Og mitt svar er: Að minnsta kosti ekki lögregluna því það er fullkomlega tilgangslaust.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 1.5.2014 - 15:27 - FB ummæli ()

Ætlar þú að hermast?

Nú eru páskafermingar nýafstaðnar og einhver börn verða víst fermd um hvítasunnuna. Búin með skyldumessurnar og útskrifuð úr kirkjunni. Flest þeirra munu ekki mæta aftur í messu fyrr en andlát verður í fjölskyldunni, eða, ef þau eru heppin, fyrr en þau gifta sig (venjulega eftir margra ára sambúð.)

Sum fermast reyndar ekki í kirkju heldur borgaralega. Sem felur víst í sér námskeið um lífsgildi og gagnrýna hugsun og fleira. Gott mál fyrir þá sem hafa áhuga á því. Auðvitað eru samt margir unglingar sem langar að halda partý þótt þeir hafi ekki minnsta áhuga á siðfræði; krakkar sem rúlla augunum þegar þeir heyra minnst á „lífsgildi“ og tengja það helst við yfirmáta hallærislega markaðssetningu fyrirtækja sem eru að reyna að beina athyglinni frá kapítalísku eðli sínu.

Margir Danir kalla borgaralega fermingu „nonfirmation“ sem er að því leyti réttnefni að með borgaralegri fermingu er ekki verið að staðfesta neinn samning sem foreldrarnir hafa gert fyrir hönd barnins.  En það þarf hvorki námskeið né ritúal til þess að fermast ekki og í Danmörku kynntist ég dreng sem hélt „nonfirmation-veislu“ án þess að ganga í gegnum neitt siðfræðiprógramm eða athöfn af neinu tagi. Hann og fjölskylda hans litu svo á að þau væru einfaldlega að fagna þeirri ákvörðun drengsins að mynda sér skoðanir án aðstoðar trúflokks eða lífsskoðunarfélags, og buðu vinum og vandamönnum til veislu af því tilefni.

Ég gæti best trúað að mörgum Íslendingum finnist það fagnaðarefni ef unglingur ákveður að hugsa fyrir sig sjálfur. Legg til að „nonfirmation“ verði „herming“ á íslensku.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics