Föstudagur 26.10.2012 - 23:33 - FB ummæli ()

Hið augljósa samhengi

Í hugum margra nútímamanna voru galdramál miðalda skýrt dæmi um grimmdarlega skoðanakúgun á grundvelli hjátrúar og ofstæki.  Frá seinni hluta 15. aldar og fram á 18. öld voru tugir þúsunda dæmdir til dauða og líflátnir vegna samskipta sinna við Djöfulinn. Konur voru í yfirgnæfandi meirihluta en einnig voru dæmi um karla og börn sem hlutu þessi örlög. Í fyrstu var galdrafólkið brennt lifandi en síðar voru teknar upp mannúðlegri aðferðir, svo sem henging eða eiturgjöf, að loknum pyntingum að sjálfsögðu, og líkin svo brennd. Ísland hefur að þessu leyti sérstöðu, 20 karlar voru brenndir fyrir galdur en aðeins ein kona.

Þekkt eru dæmi um  galdrabrennur  allt frá 13. öld en í fyrstu voru það ekki yfirvöld, heldur hjátrúarfullur almenningur sem ofsótti nornir. Rannsóknarrétturinn var ekki stofnaður í þeim tilgangi að brenna sem flesta heldur til þess að uppræta villutrú. Óttinn við djöfulinn og samband hans við galdrafólk náði að skjóta rótum innan prestastéttarinnar og til urðu miklir sérfræðingar í djöflafræðum. Einn þeirra var  Heinrich Kramer, þýskur klerkur og höfundur hins mikla fræðirits, Nornahamarsins. Ritið lýsir því hvernig Djöfullinn starfar og greinir einkenni galdrafólks.

Á 14. öld var lítil stemning fyrir kenningum um áhrifavald Djöfulsins innan Kaþólsku kirkjunnar en að lokum náðu djöflafræðingar á borð við Kramer þó áhrifum og boðskapur þeirra hafði afgerandi áhrif á réttarkerfið. Rannsóknarrétturinn sendi út skýr skilaboð: Djöfullinn ógnaði réttindum almennra borgara, „velferð þeirra og heilsu með beinum hætti. Þegar slík skilaboð koma frá lykilstofnunum samfélagsins er óhætt að segja að allar viðvörunarbjöllur ættu að vera komnar í gang og vert að staldra við og ræða í alvöru hvernig samfélagið eigi að bregðast við.“ Og það var líka gert. Hreinsun samfélagsins hófst fyrir alvöru og konur voru pyntaðar og drepnar í tugþúsunda tali.

Þótt nútímafólki finnist nornahreinsanirnar grimmdarlegar skyldi enginn efast um heiðarleik dómstólanna. Eflaust hafa komið upp einhver dæmi um að fólk hafi verið líflátið saklaust en það hafa þá verið slysalegar undantekningar. Í flestum tilvikum voru málin rannsökuð og réttað í þeim af lögmætum yfirvöldum og fólk sætti ekki refsingu nema kæmi fram sönnun um að það hefði valdið einhverjum skaða með fordæðuskap eða a.m.k. reynt það. Sannanir fólust stundum í játningum, að undangengnum játningahvetjandi aðgerðum en í sumum tilvikum þurfti enga játningu til. Sönnunargögnin blöstu við allsstaðar. Náttúruhamfarir riðu yfir. Heilu sveitirnar glímdu við uppskerubrest og búfjárfelli. Stúlkur sem höfðu orð á sér fyrir kukl töldu sig eiga harma að hefna og skömmu síðar veiktust fjandmenn þeirra.

Ekki voru allir á einu máli um ágæti þeirra aðferða sem yfirvöld notuðu til að uppræta áhrif Djöfulsins. Einn þeirra sem efuðust var Dietrich Flade, þýskur háskólarektor og borgardómari. Hann efaðist um gildi játninga sem fengnar voru fram með þess tíma hvatningaraðgerðum og hann efaðist líka um að plágur og uppskerubrestur væru bein afleiðing af samneyti galdrafólks við Djöfulinn.

Flade var kyrktur til dauða í Treves, 1589. Það var andstyggilegt verk en nauðsynlegt þó. Menn eins og hann tefja nefnilega framgang réttvísinnar með því að hafna því sem öllum er augljóst, fylgni milli tveggja breyta, svosem djöflamessu og búfjársjúkdóma.

Flade var ekkert sá eini sem dró réttmæti galdramála í efa og olli þannig Kaþólsku kirkjunni óþarfa óþægindum. Og enn í dag glíma yfirvöld og áhrifamenn við raunhyggjumenn sem vilja hindra yfirvaldið í baráttu sinni við djöfulinn. Menn sem eru  voðalega uppteknir af einhverju orsakasamhengi.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál
Efnisorð: , ,

Föstudagur 26.10.2012 - 15:12 - FB ummæli ()

Kynungabók og vinnumarkaðurinn

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

Í fyrri pistlum um Kynungabók, gagnrýndi ég það hve lítið vægi hún gefur stærstu vandamálum karla og drengja. Í fjölskyldukaflanum er ekkert fjallað um veika stöðu feðra í forræðismálum og í skólakaflanum er sá mikli fjöldi drengja sem þrífst ekki í skóla ekki einu sinni til umræðu. Á vinnumarkaði hallar meira á konur en karla svo það er kannski eðlilegra að þar sé sjónarhorn kvenna ríkjandi. Engu að síður hef ég nokkrar athugasemdir. Eða eiginlega margar.

 

Vinnumarkaður og heimilisstörf 

Það er varla hægt að ræða jafnréttismál á vinnumarkaði nema koma einnig inn á heimilsstörf og það er að sjálfsögðu gert í Kynungabók. Vakin er athygli á því að ábyrgð kvenna á börnum og heimili sé meiri en karla en heimilisstörf séu hinsvegar ekki metin til launa. Mér finnst gott að unglingar séu hvattir til að velta þessum hlutum fyrir sér og spurning á bls 20 býður upp á áhugaverðar umræður:

Hvað myndi gerast ef farið væri að meta vinnu á heimilum til launa?

Ég get svarað fyrir sjálfa mig að ég væri rík kona í dag ef ég hefði fengið laun fyrir alla þá fermetra sem ég hef skúrað heima hjá mér. Nema náttúrulega ef ég hefði þurft að nota þau til að borga þeim körlum laun sem hafa gert við bílana mína og fleiri tæki, bjargað tölvugögnum og sinnt annarri tölvuþjónustu, dregið bílinn minn upp úr snjósköflum, borið fyrir mig heilu búslóðirnar, smíðað fyrir mig innréttingar, tengt ljós og rafmagnstæki… En þessir hlutir eru heldur ekki metnir til launa á heimilum.

Í Kynungabók er fullyrt að þegar heimilisstörf séu tekin með í reikninginn sé heildarvinnutími kynjanna nokkuð svipaður. Gallinn er sá að í rannsókninni sem vísað er til eru heimilisstörf ekki skilgreind. Eru það t.d. heimilisstörf að aka börnum í leikskólann og sjá um innkaup? Það er mjög vafasamt að álykta um fjárhagslegt misrétti miðað við vinnuframlag út frá svo opinni spurningu.

Spurningin um það hvað myndi gerast ef heimilisstörf yrðu metin til launa á rétt á sér en þarf þá ekki líka að spyrja hvað myndi gerast ef farið yrði að meta tækjaviðhald og margt annað sem karlar gera oftar í þágu heimilisins til heimilisstarfa?

 

Fjárhagsstaða kynjanna

Kynbundninn launamunur er eðlilega tekinn fyrir í Kynungabók, enda um stórt jafnréttismál að ræða. Einföldunin er þó sú sama og fyrr. Á bls 20 er eftirfarandi fullyrt:

Þegar laun kvenna og karla eru skoðuð  kemur í ljós að konur hafa úr minna fjármagni  að moða en karlar.

Fullyrt að enn viðgangist óútskýrður kynbundinn launamunur, nú síðast er það niðurstaða rannsóknar, sem almennum borgurum er neitað um aðgang að. Sé það rétt að slíkt viðgangist á auðvitað að lögsækja þau fyrirtæki. Það er líka óréttlátt að kvennastörf séu minna metin en karlastörf og það er jafnréttismál að breyta því. Hinsvegar eru það ekki eingöngu laun sem ráða því hversu miklu fé fólk hefur úr að spila en í Kynungabók er algerlega sneitt hjá spurningum um aðra þætti sem snerta fjárhagsstöðu og kynferði. Hvernig lítur dæmið t.d. út þegar búið er að taka meðlög, barnabætur og vaxtabætur með í reikninginn?

Enginn kemst í gegnum Kynungabók án þess að komast að því hversu aumur hlutur kvenna í æðstu embættum er. Ekkert er þó minnst á að þótt karlar séu í meirihluta þeirra örfáu sem hafa yfir völdum og auðæfum að ráða, eru karlar líka í yfirgnæfandi meirihluta þeirra verst settu í samfélaginu. Hætt er við að það sem eftir situr hjá nemendum sé ímynd af samfélagi þar sem karlar eru mun betur settir en konur, þegar raunveruleikinn er sá að mjög fáir karlar eru miklu betur settir en flestar konur og flestir karlar.

Fjárhagsstaða fátækra karla hefur orðið útundan í jafnréttisumræðunni. Uppi er raddir um að hátt hlutfall meðlagsgreiðenda berjist í bökkum. Ég verð vör við þá skoðun að karlar séru líklegri til að taka á sig sameiginlegar skuldir við skilnað og/eða eftirláta hinu meirihluta eigna. Hvort það hefur eitthvað verið rannsakað veit ég ekki en ef svo er fara niðurstöðurnar lágt.  Þetta eru þættir sem hljóta að eiga heima í jafnréttisumræðu en „jafnréttisfræðslan“ tekur fullan þátt í þögguninni.

 

Ranghugmyndir kynhyggjusinna um forneskjulegar hugmyndir samfélagsins

Í vinnukaflanum og á fleiri stöðum í Kynungabók virðast hugmyndir höfunda um kynjaímyndir samtímans algjörlega úr takti við veruleikann T.d. er þeirri spurningu velt upp hvort sé ekki óraunhæft að tengja hugtakið „fyrirvinna“ eingöngu við karla. (Bls 19) Ég minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn mann  nota hugtakið „fyrirvinna“ um karla eingöngu, síðustu 30 árin, svo um hvað eru höfundar eiginlega að tala?

Álíka undarleg hugmynd kemur fram í skólakaflanum, þar sem fjallað er um viðhorfsrannsókn sem leiði í ljós íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk. Börnin voru m.a. spurð hvort þau teldu eðlilegra að eiginkona eða  eiginmaður sæju um fjármál heimilisins. Það er út af fyrir sig gagnrýnivert að spyrja um viðhorf til mála sem alls óvíst er að þátttakendur hafi nokkurntíma velt fyrir sér, án þess að bjóða upp á möguleikann „tek ekki afstöðu“ en þessi spurning er vafasöm af fleiri ástæðum.  Hvað er átt við með því að „sjá um fjármál“ heimilisins í nútímasamfélagi? Samfélagi þar sem fólk lætur greiðsluþjónustu bankana um að borga reikinga, notar netbanka til að millifæra og hvort hjóna um sig er með eigin greiðslukort. Er átt við stórar ákvarðanir eða það hvort hjóna fer oftar inn á heimabankann í tölvunni? Eða eitthvað annað? Þekkist það yfirhöfuð að annað hjóna „sjái um“ fjármálin? Sjá íhaldssömu börnin fyrir sér að eiginkona rétti eiginmanni laun sín til ráðstöfunar og hann skammti henni heimilispeninga? Hversu hátt hlutfall þessara krakka býr á heimili þar sem eiginmaður er yfirhöfuð til staðar? Ef spurningin er hönnuð fyrir ungling sem ólst upp á eftirstríðsárunum, er þá við því að búast að það skili vitrænni niðurstöðu að leggja hana fyrir ungling sem elst upp fjórum áratugum síðar?

Í atvinnukaflanum er a.m.k. enn ein vísbending um að þeir sem stjórna kynjaumræðunni hafi ranghugmyndir um viðhorf almennings til jafnréttismála. Á bls 19 er eftirfarandi umræðuefni að finna:

Í viðhorfskönnun frá 2003 kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti telur að jafnrétti sé ábótavant í íslensku samfélagi en meirihluti þess hóps telur samt jafnrétti ríkja á sínum vinnustað. Hvað skýrir þetta misræmi?

Þetta er góð spurning, kannski sú besta sem varpað er fram í Kynungabók. Mér finnst líklegt að innan kynjafræðinnar sé stemning fyrir því að skýra þetta sem meðvirkni með eigin atvinnurekanda eða afneitun á því að maður sjálfur og manns nánustu séu fórnarlömb feðraveldisins. Augljósari skýring í mínum huga er þó að reynsla fólks samræmist ekki umræðunni. Umræðunni sem kvenhyggjufólk hefur stjórnað í marga áratugi og stjórnar enn. Kynjamisréttið er kannski orðið mýta; við þekkjum að vísu ekki mörg dæmi um kynjamisrétti á vinnumarkaði sjálf, en það hlýtur samt að vera stórt vandamál fyrst feministar segja það.

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 25.10.2012 - 22:45 - FB ummæli ()

Að klæða virðingarleysi í kurteislegan búning

______________________________________________________________________________________

Í umræðunni um umræðuna ber á ásökunum um ómálefnalegan málflutning. Ábendingar um vondan málflutning eiga oft við en stundum sér maður líka ummæli stimpluð ómálefnaleg af því að einhver sem hefur góð rök fyrir máli sínu er óþarflega hvassyrtur eða bregst ókvæða við útúrsnúningum og rangfærslum. Verra er þó þegar fólk álítur að til þess að vera málefnalegur sé nóg að sýna kurteisi.

Ef markmið samræðu er að komast að sameiginlegri niðurstöðu, víkka sjóndeildarhringinn eða bæta við upplýsingum og sjónarmiðum, þarf sú samræða bæði að vera  málefnaleg og einkennast af gagnkvæmri virðingu. En markmiðið með samræðu er ekki alltaf sameiginleg niðurstaða. Stundum eiga sér stað rökræður milli fólks sem hefur svo ólíka afstöðu að það væri harla tilgangslaust að hefja samræðu með því markmiði stilla saman strengi, hvað þá að sannfæra hinn aðilann. Slík rökræða fer iðulega út í kappræður. Hvor aðili um sig hefur það að markmiði að upplýsa áheyrendur um það hversvegna hann telji málflutning hins aðilans ótækan og leggur því meiri áherslu á að hrekja rök andmælandans en að skoða málin út frá hans sjónarmiði. Slík samræða á fullan rétt á sér. Hún getur orðið hvöss, jafnvel jaðrað við að vera dónaleg án þess að það merki endilega að hún sé ómálefnaleg.

Það er ómálefnalegt að ráðast að persónu enda er sú kappræðutækni einmitt dæmi um rökvillu. Þó verður ekki fram hjá því litið að þegar fólk, sem er að reyna að ræða málin út frá rökum og gögnum, fær engin svör sem nálgast það að vera marktæk, þá er varla við öðru að búast en það bregðist við með reiði. Það er oft óheppilegt því það býður upp á tilgangslausa þrætu og skítkast á báða bóga og stundum verður tilfinningahitinn í umræðunni svo áberandi að hann yfirskyggir efnislega umfjöllun. Það hefur lítið upp á sig að setja góða rökfærslu fram með fjandskap því þegar áherslan er á tilfinningar týnast rökin. Samt sem áður er hörkurifrildi ekki endilega ómálefnalegt.

Málefnaleg umræða hefur eitt og aðeins eitt einkenni sem greinir hana frá ómálefnalegri umræðu: Hún er laus við rökvillur.

Málefnaleg umræða getur verið, og er oft, kurteisleg en það er ekki kurteisin sem gerir hana málefnalega. Fólk getur komið afskaplega virðulega fyrir á meðan það lýgur. Það getur beitt útúrsnúningum af stakri kurteisi og afvegaleitt umræðuna án þess að hækka róminn. Það getur haldið ró sinni á meðan það  fer með ósannindi eins og þau séu staðreyndir sem andmælandinn hafi ekki haft upplýsingar um. Þótt sé kannski erfiðara að átta sig á slíkum rökvillum en persónuárásum og stóryrðum eru þær ekkert málefnalegri en öskur og yfirdrull.

Það er ekkert málefnalegt við ræðutækni sem felst í  því að klæða virðingarleysi sitt í kurteislegan búning. Ekki frekar en það eru vísindi að nota málskrúð til að gefa gervivísindum fræðilegt yfirbragð.

______________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 25.10.2012 - 01:14 - FB ummæli ()

Skólakafli Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–
Mér skilst að feministar undrist mjög skrif mín um innrás kvenhyggjutrúboðs í skólakerfið. Munu m.a. hafa farið fram umræður um meintan fávitahátt minn á facebookvegg eiginmanns Menntamálaráðherra í framhaldi af þessum pistli.

Ekki hefur þó nokkur sála, mér vitanlega, gert tilraun til að svara því sem ég hef um skólamál og kvenhyggju að segja. Skrif mín um forræðishyggjuna sem birtist í stríðinu gegn klámi og vændi hefur heldur aldrei verið hrakin með rökum, ekki heldur umfjöllun mín um hættuna á öfugri sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Eina gagnrýnin sem ég hef orðið fyrir úr herbúðum feminista, sem gerir tilraun til einhverskonar greiningar, er þessi pistill eftir Magnús Helgason, þann hinn sama og tjáir sig í skjáskotinu hér að ofan. Engin rök er þó að finna gegn málflutningi mínum í pisli Magnúsar, fremur en annarsstaðar, heldur er ég afgreidd sem narkissisti. Margir urðu til að svara Magnúsi Sveini í umræðum, greinilega með þeim afleiðingum að hann hefur gefist upp á tilraunum sínum til að vera málefnalegur og nú er ég ekki bara narkissisti heldur líka afturhaldssamur hálfviti. Merkilegt að enginn treysti sér þá til að svara mér með öðru en rökvillum og persónuárásum; maður þarf ekki að vera sleipur í rökræðum til að afhúpa bjána. Ég tek fram að mér er ósárt um mat Magúsar Sveins á gáfnafari mínu; ég fer ekki fram á kurteisi af hans hálfu, svo fremi sem mér er svarað efnislega.

Hvað um það, þessi útúrdúr er orðinn allt of langur. Síðustu tvær færslur sem ég hef birt, í þessari pistlaröð, snúast um Kynungabók, kennsluefni í svokallaðri jafnréttisfræðslu. Rétt er að taka fram að ég er hlynnt jafnréttisfræðslu, ég vil bara ekki jafnréttisfræðslu sem byggir á þeim feminiskum kenningum sem Kynungabók gerir og því síður að svokallaðir kynjafræðingar verði látnir um kennsluna. Í þetta sinn er ætlunin að skoða þann kafla Kynungabókar sem fjallar um skólamál.

 

Skólakafli Kynungabókar (bls 13-16)  Kynjaímyndir sem stærsta vandamálið

Þau jafnréttismál skólakrakka sem höfundar Kynungabókar leggja áherslu á, snúa fyrst og fremst að staðalmyndum kynjanna.

Tölfræðilegar upplýsingar er að finna um það hversu oft (eða öllu heldur sjaldan) stúlkur hafa verið nemendafélagsformenn og tekið þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna. Bent er á að telpur fái minni athygli kennara en drengir og  athygli er vakin á því að stúlkur taki minni þátt í félagsstarfi, sem oft sé undirbúningur fyrir opinberan frama. Það er þarft að vekja athygli unglinga á þessu.

Ég er ekki eins ánægð með áherslur Kynungabókar hvað varðar drengi. Ekki er minnst orði á það háa hlutfall drengja sem rekst ekki í skóla. Þó er það ekki einu sinni umdeilt að drengjum líður að jafnaði mun verr í skóla en stúlkum. Þeim finnst námið leiðinlegra, þeir sýna slakari námsárangur og hegðunarvandamál eru mun algengari hjá þeim. (Sjá t.d. hér) En þetta virðist ekki vera jafnréttismál í hugum höfunda Kynungabókar. Áherslan á vanda drengja í skólum snýr að því hversu erfitt kvenlegu strákarnir eigi uppdráttar félagslega og einnig er talið vandamál hve lítið piltar sæki í „kvenlægar“ námsgreinar.

Komið er inn á það hvað karlastörf njóti miklu meiri virðingar en kvennastörf og áhugaleysi drengja á hefðbundnum kvennagreinum skýrt með því að þeir sem velji kvennagreinar þurfi frekar að réttlæta val sitt en stúlkur sem velja karlagreinar. Það finnst mér trúverðug skýring. Ég tel þó hreint ekki útilokað að eðlislægir þættir getið spilað inn í áhugaleysi drengja á umönnunarstörfum og áhugaleysi stúlkna á að taka þátt í spurningakeppni, en í Kynungabók er öllum slíkum hugmyndum hafnað. (Nánar er um þetta rætt er í pistlinum sem varð tilefni fyrrnefndar umræðu á facebook vegg eiginmanns Menntamálaráðherra. Endilega horfið á heimildamyndina sem birt er neðst í þeim pistli ef þið eruð ekki búin að því.)

Í lok kaflans er svo sögð óstaðfest reynslusaga af einum fávita, þjálfara ræðuliðs, sem sagði stúlkur of skrækróma til að geta tekið þátt í Morfís. Þessi saga á væntanlega að endurspegla hið almenna viðhorf eða hver er annars tilgangurinn með henni? Trúa höfundar bókarinnar því í alvöru að margar stúlkur sem sækjast eftir frama í félagslífi fái skilaboð af þessu tagi?

 

Viðhorf unglinga til kynhlutverka

Í skólakaflanum er fjallað um kynjaímyndir í tengslum við verkaskiptingu á heimilum. Sagt er frá viðhorfskönnun sem sýni fram á íhaldssöm viðhorf unglinga til kynhlutverka. Aðalheimilidin er óbirt BA ritgerð, þar sem umrædd rannsókn er borin saman við aðra könnun sem gerð var 1992. Niðurstaðan er sú að unglingar hafi íhaldssamari hugmyndir um kynhlutverk árið 2006 en 1992.

Vel má vera að íhaldssemi meðal ungs fólks hafi aukist. Athugum samt að sú ályktun er dregin af aðeins einni viðhorfskönnun. Það er út af fyrir sig varasamt að alhæfa út frá einni rannsókn, en sé það rétt að viðhorf til kynhlutverka séu íhaldssamari en fjórtán árum fyrr, væri þá ekki eðlilegt að spyrja hversvegna? Ekki var jafnréttiskennsla í skólum svona miklu betri árið 1992 en 2006.

En líklega þarf ekkert að spyrja. Samkvæmt feminiskum rétttrúnaði er það klámvæðingin sem er sökudólgurinn og móteitrið við henni er kvenhyggjutrúboð í skólum. Það er því rökrétt að leita engra skýringa, heldur drífa í því að framleiða pólitískt námsefni.

Kynjahallinn í skólakerfinu fær lítið vægi

Sé kynjahalli einhversstaðar sérstakt áhyggjuefni fyrir ungt fólk er það kynjahallinn í skólakerfinu. Þetta vandamál er afgreitt í eftirfarandi efnisgrein í framhaldi af umfjöllun um aukið námsval (bls 15)

Brottfall á framhaldsskólastigi hefur lengi verið kynjað og virðast strákar frekar hverfa frá námi en stelpur. Von margra er sú að brottfall eigi eftir að minnka við þessar breytingar. Í langtímarannsókn á brottfalli þeirra sem fæddir eru 1975 voru niðurstöður þær að 38% kvenna og 48% karla hafði ekki lokið lokaprófi úr framhaldsskóla við 24 ára aldur. Konum hefur fjölgað jafnt og þétt sem nemendum og kennurum frá því um 1970 og  eru nú orðnar fleiri en karlar á framhalds- og háskólastigi.

Ekki orð um það meir. Eins og sjá má er áherslan ekki á vanda drengja heldur árangur stúlkna. Ekkert er komið inn á það á hvaða grunni „margir“ byggi þá von að meira námsval auki áhuga drengja á námi. Ekkert er heldur fjallað um það hversvegna piltar sæki síður í langskólanám en stúlkur; ekki er það takmörkun á námsframboði eða skortur á ráðgjöf sem stendur í vegi fyrir þeim þar.

Sú skoðun að kynjahallinn í kennarastéttinn skýri að einhverju leyti það hversu margir drengir eiga erfitt uppdráttar í grunnskólum er svo afgreidd sem mýta í kafla um varasamar fullyrðingar (bls 16.) Vinstri textinn er flokkaður sem „fullyrðing“ en sá hægri sem „staðreynd“.

Ég hef rætt stöðu drengja í skólum við marga sem telja að kynjahalli meðal kennara sé vandamál. Ekki minnist ég þess þó að nokkur eldri en 15 ára hafi skýrt það á þann veg að kvenkennarar hygli stúlkum. Ég hef tekið þátt í samræðum um það hvort drengir þurfi á karlmannlegum fyrirmyndum að halda, hvort konur temji sér aðrar kennsluaðferðir en karlar, sem höfði þá meira til stúlkna, hvort karlar skilji stráka betur en konur og svo mætti lengi telja.

Er það viðunandi í unglingakennslubók sem að nafninu til snýst um jafnréttismál að hafna þeim möguleika að fjarvera karla hafi áhrif á slakan árangur drengja? Er viðunandi að  fjalla ekkert um stöðu stráka í skólum nema þeirra sem verða fyrir barðinu á fordómum gagnvart „stelpulegum“ strákum?

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 24.10.2012 - 14:57 - FB ummæli ()

Já en ÉG hef aldrei verið siðlaus

Fyrir hrun fengu umræður um spillingu á Íslandi lítinn hljómgrunn nema meðal róttækra vinstri manna. Spillingin var í Afríku. Eða allavega ekki hjá okkars.

Jú kannski svona ponkulítill heimóttarháttur, eins að hafa ekki hugsun á því að smáræði til einkaneyslu mætti ekki fljóta með á bensínnótu sem tilheyrði starfinu; engar alvöru upphæðir bara smá klink, sem bíttaði ekki baun. Varla spilling, bara fyndið að nokkur gerði sig sekan um svona aulagang. Eða hlunnindataka sem skaðaði engan, eins og að misnota aðstöðu sína til að birgja sig upp af ódýru áfengi. Jú og kannski smá klíkuskapur eins og að fá dómarastöðu af því að maður á ekki að gjalda þess að eiga merkilegan pabba. Kannski fullbíræfið að láta ráðuneyti borga afmælisveislu…

Jújú, allskonar svona hallærisklúður viðgekkst en almennilegar mútur þekktust ekki og þar með var spilling ekki vandamál. Ég held að stór hluti Íslendinga sé meðvitaðri um það í dag en fyrir hrun, hvað spilling merkir og hvaða afleiðingar hún getur haft. Ennþá sér maður þó ótrúleg dæmi um skilningsleysi á hugtakinu, jafnvel meðal ráðamanna.

Spilling er það að nota aðstöðu sína til að hygla sér og sínum. Spilling á sér stað þegar einhver fær eitthvað, hvort sem það eru völd, verðmæti eða fyrirgreiðsla, á grundvelli tengsla sinna, áhrifastöðu, eigna eða hvers sem er, annars en lögbundins réttar og/eða verðleika. Það er líka spilling þótt verðleikarnir séu til staðar ef þessir þættir geta skekkt samkeppnisstöðuna.  

Spilling merkir ekki bara að stela og svindla, valta yfir aðra af fullkomnu samviskuleysi og hlæja svo eins og Láki jarðálfur að óförum fórnarlambanna. Spilling merkir líka það að misnota aðstöðu sína af einskærum velvilja. Vald spillir. Eða getur allavega spillt; einnig hinum góðu og óeigingjörnu. Jafnvel ómerkilegasta svindl og sjálftaka er með öllu óviðunandi vegna þess að það eru engin skýr mörk á milli smáspillingar og gjörspillingar.

Eitt af því sem gerir spillingu erfiða viðfangs er það hvað hún er í rauninni eðlileg. Það er ósköp mannlegt að vilja hjálpa þeim sem eru manni kærir, treysta þeim best sem maður þekkir og meta þá að verðleikum sem maður er tengdur. Þetta er í raun fallegur eiginleiki og mannlegt samfélag gæti ekki þrifist án hans. Flest okkar hafa einhverntíma notið góðs af tengslum eða „lagt inn gott orð“ fyrir einhvern, hjálpað til við að koma á fundi eða prentað eitthvað til einkanota á kostnað fyrirtækisins. Munurinn á spillingu og klíkuskap eða smávægilegri misneytingu, liggur fyrst og fremst í því hvort almannahagsmunir eru í húfi. Hvatinn er sá sami, hvort sem það er Binni í blómabúðinni eða stjórn OR sem ræður börn starfsmanna til vinnu. Bara eðlileg samhjálp. Já nema það er bara ekki „eðlilegt“ að slík tengsl séu stefna fyrirækis í almannaeigu; í því tilviki heita almennilegheit af þessu tagi kerfisbundin spilling.

Það er einmitt vegna þessa mannlega þáttar, þessarar eðlislægu tilhneigingar til að gera sjálfum sér og sínu fólki lífið auðveldara, sem er bráðnauðsynlegt að forðast það að koma stjórnmálamönnum og öðru valdafólki í aðstæður sem bjóða upp á spillingu. Ekki vegna þess að stjórnmálamenn séu spilltir, heldur vegna þess að þeir geta spillst.

Þegar ríkisstjórn Geirs Haarde féll, átti ég samræður við mann sem þótti verulega gott mál að VG kæmust til valda. Sjálf var ég ekkert uppveðruð því ég hafði vonast eftir kerfisbyltingu.
– Hversvegna heldur þú að spillingin hverfi með nýrri ríkisstjórn? Heldur þú að vinstri grænir séu eitthvað öðruvísi innréttaðir en sjálfstæðismenn? spurði ég.
– Nei, sagði hann, það held ég ekki. En það er tímabært að við sem ekki erum sjálfstæðismenn, fáum að nóta góðs af spillingunni.
Er það í boði? Gæti vinstri maður gert sig sekan um spillingu? Stjórnmálamaðurinn Sóley Tómasdóttir virðist álíta að það sé ótrúlegt. Hún leggur til að ábendingar rannsóknarnefndar OR um þá spillingu sem seta stjórnmálamanna í stjórnum fyrirtækja býður upp á, verði hundsaðar. Ekki af því að hún vilji misnota aðstöðu sína, heldur af því að hún telur sig hafna yfir mannlega tilhneigingu til að spillast.

Og þetta er vandamál íslenskrar spillingar í hnotskurn. Vandinn er ekki sá að fólk smygli sér inn í áhrifastöður með útsmogna áætlun um að sölsa undir sig völd og eignir, það bara gerist einhvernveginn af almennu andvaraleysi.  Stærsta spillingarvandamál Íslendinga er ekki einbeittur brotavilji, heldur fullkomið skilningsleysi of margra ráðamanna á eðli spillingar; og jafnvel á sjálfri merkingu hugtaksins.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Þriðjudagur 23.10.2012 - 16:45 - FB ummæli ()

Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–

Tilefni þessarar pistlaraðar eru ítrekuð ummæli um að ég sé að gera feministum upp skoðanir. Ætlun mín er að gera í eitt skipti fyrir öll grein fyrir því á hverju ég byggi hugmyndir mínar um markmið hreyfingarinnar. Í fyrri pistlum hef ég bent á dæmi um það hvernig kvenhyggjufólk er að koma á nýju kennivaldi, m.a. með því að koma áróðri sínum inn í barna- og unglingaskóla.  Síðast fjallaði ég um þá pólitísku hugmyndafræði sem býr að baki svokallaðri “jafnréttisfræðslu”. Í dag ætla ég að ræða efnistökin í inngangi og fyrsta kafla Kynungabókar.
Kynungabók er kennsluefni ætlað unglingum, gefið út af Menningar- og menntamálaráðuneytinu. Bókin skiptist, fyrir utan inngangsorð í sjö meginkafla. Textinn hefur fræðilegt og hlutleysislegt yfirbragð, hvergi eru nein gífuryrði höfð uppi né ráðist gegn karlkyninu. Áhersla er lögð á að jafnréttismál varði bæði kynin. Engu að síður er hugmyndafræði kvenhyggjunnar undirliggjandi þ.e. sú skoðun að konan sé fórnarlamb karlsins, og að jafnréttismál séu númer eitt, tvö og tíu, kvennabarátta. Þessi skoðun birtist ekki síður í því sem er ósagt látið. Skoðum aðeins hvaða túlkanir Kynungabók býður helst upp á og hvernig líklegt er að kennarar muni leggja út af henni.
Söguskoðun kvenhyggjunnar (inngangur bls 7)
Tónninn er sleginn strax í inngangi Kynungabókar (bls 7) þar sem sögutúlkun kvenhyggjunnar er kynnt:

Talið er að rekja megi núverandi  kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum.

“Talið er”. Hvað eiga manneskjurnar eiginlega við? Engra heimilda er getið né er að finna neinar aðrar vísbendingar um það hverjir það eru sem hafa þessa barnalegu söguskoðun. Hún er sett fram sem jafn almenn sannindi og þau að jörðin snúist um möndul sinn.

Ekki er minnst á það í þessu samhengi að flestir karlar voru ekki og hafa aldrei verið nein valdastétt eða að óréttlæti hafi ekki aðeins bitnað á konum, heldur einnig á kotbændum og öðrum fátækum körlum; vinnumönnum, flækingum og niðursetningum. Fullorðinni manneskju kann að þykja það augljóst en við erum að tala um námsefni fyrir unglinga, þar sem megin áherslan er á kynjamál. Það er því fullkomlega rökrétt ályktun ungs lesanda að takmarkað frelsi og undirokun hafi beinlínis ráðist af kyni.

Þótt valdastétt hvers tíma hafi vitanlega mikil áhrif á gildismat og lagaumhverfi er það djarfleg túlkun að ein stétt móti samfélagið eftir sínum hagsmunum. Margra alda hefð liggur að baki hverri menningu og að sjálfsögðu voru ýmis einkenni á gamla bændasamfélaginu sem þjónuðu hagsmunum kvenna og barna. Karlar tóku sér hættulegustu störfin og enginn vafi er á að mörgum  manninum hefur verið áþján að því að ferðast hreppa á milli eftir aðföngum eða sækja sjó í vitlausu veðri, frá barnsaldri. Nú er heldur ekki farið nánar út í aðstæður kvenna á þessum óræða tíma, og ég reikna með að höfundar telji sig alls ekki draga taum annars kynsins. Útgangspunkturinn er þó sá að samfélagið sé sniðið eftir hagsmunum karla, án þess að nokkuð sé minnst á að þeir hafi lagt eitthvað af mörkum. Tilfinningin sem eftir situr er sú að samfélagið hafi hentað körlum vel en konum illa.

 

Fjölskyldan (bls 9-11)

Áherslurnar í fjölskyldukaflanum eru á áhrif aukinnar atvinnuþátttöku kvenna á lagasetningu, og aðlögun atvinnumarkaðar að breyttu fjölskyldulífi. Vakin er athygli á að launajafnrétti sé bundið í lög og minnst á hvað jafnréttisbaráttan hafi skilað konum miklu frelsi og auðveldað körlum samneyti við börn. Einnig er komið lítillega inn á forsjármál og fæðingarorlof.

Í öðrum köflum er komið inn á verkaskiptingu á heimilum en hvorki hér né annarsstaðar í bókinni er fjallað um kynbundin vandamál tengd forsjármálum. Á skífuriti má sjá að það heyrir til undantekninga að karlar fari einir með forræði en ekkert minnst á það sem áhyggjuefni eða neinna skýringa leitað. Reyndar eru hefðbundnar kynjaímyndir eina skýringin á misjafnri stöðu kynjanna sem boðið er upp á í bókinni allri, fyrir utan þá söguskýringu að karlar hafi bara ráðið þessu öllu, og verður það að teljast full yfirborðslegt.

Velt er upp spurningu um það hvar þeir séu, sem ekki eru á vinnumarkaði og bent á að hægt sé að nálgast gögn um það hjá Hagstofunni. Engin tilraun er þó gerð til að svara þessari spurningu. Ólíklegt er að margir nemendur muni leggjast í rannsóknir á þessu sjálfir og ég velti því fyrir mér hvernig heittrúaður feministi (en líklegt er að þeir verði í meirihluta þeirra sem taka þessa “fræðslu” að sér) muni fjalla um þessa spurningu. Verður áherslan sú að hærra hlutfall kvenna en karla sé ekki á vinnumarkaði af því að konur beri svo mikla ábyrgð á börnum? Verður yfirhöfuð boðið upp á dýpri skýringar? Hvernig verður fjallað um karla sem eru ekki á vinnumarkaði? Hvernig verða kynjahlutföll meðal útigangsfólks, fanga og annars utangarðsfólks útskýrð fyrir unglingum? Kynungabók svarar því ekki.

Hvað situr eftir þegar unglingurinn hefur lesið þennan kafla um fjölskyldu og jafnrétti? Ég held að það sé eftirfarandi:

– Sókn kvenna út á vinnumarkaðinn leiddi til lagabreytinga hvað varðar launajafnrétti og fæðingarorlof.
– Karlar eru meira með börnum sínum en áður og margir foreldara kjósa sameiginlega forsjá við skilnað.

Það sem bókin upplýsir ekki um er að á einu sviði er kynjamisrétti ennþá bundið í lög og það varðar tilkall feðra til barna. Karl sem telur sig föður barns hefur enn ekki rétt til þess að höfða faðernismál ef kona hefur kennt barnið einhverjum öðrum. Ekki er heldur minnst einu orði á baráttuna fyrir jafnrétti í forræðismálum eða getuleysi kerfisins til að bregðast við umgengnistálmunum. Má þó ætla að þetta sé það jafnréttismál tengt fjölskyldunni sem mest snertir hagsmuni barna og unglinga.


                           
Félagar í Fathers 4 Juctice mótmæla umgengnistálmunum, við Buckingham höll í september 2004

 

Þótt til séu ánægjulegar undantekningar, eru réttindi barna og feðra til samvista jafnréttismál sem sjaldan er rætt af þeim sem kenna sig við feminisma. Ég geri ekki þá kröfu til feminista að þeir berjist fyrir réttindum karla enda snýst feminsmi um réttindi kvenna en ekki janfrétti. Ég geri hinsvegar þá kröfu til skólanna að jafnréttisfræðslu verði sinnt út frá sjónarhornum beggja kynja.

Í næsta pistli í þessari röð mun ég skoða skólakafla Kynungabókar. Þeim sem telja ástæðu til að kynna unglingum jafnréttishalla innan fjölskyldunnar, bendi ég á þennan fyrirlestur Stefaníu Karlsdóttur, sem hún flutti á ráðstefnu um umgengnistálmanir í febrúar 2010.  Hér er fjallað um umgengnistálmanir og ljótar ásakanir sem oft koma upp við skilnað og setja börn vitanlega í hryllilega stöðu. Ég man ekki eftir neinni umfjöllun fjölmiðla um þessa ráðstefnu. Enda ekkert kennivald sem að henni stóð.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Mánudagur 22.10.2012 - 19:56 - FB ummæli ()

Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

Á sama tíma og efahyggjufólk berst fyrir því að koma trúboði þjóðkirkjunnar út úr barna-skólum, berjast feministar fyrir því að koma sínu trúboði inn í skólana undir merkjum jafnréttisfræðslu. Og hverjir eru þessir feministar? Því er svarað á vefsíðu Femínstafélags Íslands:

Femínisti er kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því.

Þessi skilgreining er ágætt dæmi um það hvernig kennivaldið leggur út af grundvallarhugmynd sem góð sátt ríkir um.  Kirkjan byggir sitt kennivald á „kristnum gildum“, feministahreyfingin ætlar að reisa sitt kennivald á jafnréttishugsjóninni.

Kennivald er byggt á viðteknum hugmyndum

Sú manneskja er vandfundin sem hvergi sér merki þess að fólki sé mismunað á grundvelli kynferðis og að kynferði geti verið hindrun í vegi bæði karla og kvenna. „Jafnréttisfræðsla“ hljómar því vel í eyrum þess sem heldur að eitthvað sé að marka skilgreiningu feministafélagsins. Grandalausir foreldar telja jafnréttisfræðslu merkja að börnin verði vakin til umhugsunar um það hversvegna verk kvenna séu oft vanmetin og hversvegna karlar eigi frekar á hættu að vera sviptir samvistum við börnin sín. En feminismi er annað og meira en jafnréttisstefna, allavega sá kynungur hans sem veður uppi á Íslandi í dag. Ég hef lagt til eftirfarandi skilgreiningu:

Feminismi er trúarhreyfing fólks sem álítur að konur séu alltaf og í öllum aðstæðum fórnarlömb, sem eigi að njóta forréttinda út á það að konur fyrri tíma hafi verið fórnarlömb. Hver sá sem ekki er sammála því er fulltrúi feðraveldisins og sennilega kynferðislega brenglaður.

Þetta er það viðhorf sem afhjúpast í orðræðu og verkum feminista. Svörin sem svokallaðir kynjafræðingar munu gefa börnum við ofangreindum spurningum um kynjamisrétti eru því þau að konur séu vanmetnar vegna þess að karlar sjái sér hag í að halda þeim niðri og að feður séu hindraðir í umgengni við börnin sín af því að þeir séu ofbeldismenn.

Þjóðkirkjan byggði kennivald sitt á „kristnum gildum“; hugmyndum sem samstaða ríkti um og höfðu lítið með kristindóm að gera. Miðlægt var það viðhorf að kærleikur og fyrirgefning ættu að einkenna samskipti manna. Til skamms tíma lagði svo kirkjan út af þessum hugmyndum, m.a. á þann veg að mismuna bæri fólki á grundvelli kynhneigðar en fyrirgefa þeim villu sína sem snerust til guðlegra lífernis.

Þannig verður kennivald til; handhafar sannleikans túlka viðtekin gildi á sínum eigin forsendum. Nú er feminstahreyfingin komin vel á veg með að gerast handhafi sannleikans í jafnréttismálum, og þegar hún segir okkur að það sé jafnréttismál að koma á ritskoðun eða mismuna fólki eftir kynferði (svokölluð „jákvæð mismunun“) þá lendum við í þeirri stöðu að þurfa annað hvort að beygja okkur undir kennivaldið, eða eiga það á hættu að vera álitin jafnréttishatarar.

Tilgangurinn með jafnréttisfræðslu í skólum

Tilgangur feminista með svokallaðri jafnréttisfræðslu er sá að taka sér kennivald. Nýta aðgengi að börnum og unglingum til að endurmóta hugmyndir komandi kynslóða um allt sem lýtur að samskiptum kynjanna. Á yfirborðinu er þetta allt saman voða fallegt og lýðræðislegt. Losa skal börnin úr viljum staðalmynda og kenna þeim virðingu fyrir einstaklingsmun. Þetta fellur í kramið og tilraunaverkefni í jafnréttisfræðslu hafa þegar verið keyrð í nokkrum skólum og leikskólum.

Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að „fræðslan“ er á forsendum feminista. Takið eftir því hvernig fjallað er um kynjafræði sem forsendu jafnréttisfræðslu t.d. hér. Nái þessi áform fram að ganga verður jafnréttisfræðsla fyrst og fremst „fræðsla“ um það að karlar beiti öllum ráðum til að kúga konur. Þegar er verið að gera tilraunir á leikskólabörnum og einnig hefur verið stigið stórt skerf í átt að kynjafræðitrúboði í skólum með útgáfu Kynungabókar sem virðist vera ætluð framhaldsskólum og kannski efstu bekkjum grunnskólans.

Pólitískar forsendur Kynungabókar

Kynungabók er gefin út undir yfirskini jafnréttishugsjónar. Höfundar hennar eru fimm konur en enginn karl. Bókin ber öll merki kvenhyggju, jafnvel sjálf skilgreiningin á orðinu feministi, sem notuð er í hugtakalistanum (bls 41) er fengin að láni frá feministafélaginu. Ég hef oft gagnýnt aðferðafræði og heimildanotkun kynjafræðinnar. Ég ætla ekki út í þá sálma hvað Kynungabók varðar, heldur benda á ágætan pistil Hörpu Hreinsdóttur um þetta öndvegisrit.

Þrátt fyrir hið fræðilega yfirbragð sem stöplaritin gefa henni, er Kynungabók er ekki fræðirit heldur hápólitískt verk, þar sem skoðunum höfunda er haldið fram sem staðreyndum. Áróðurinn er grímulaus og strax í inngangnum (bls 7) er pólitískur grunnur bókarinnar kynntur:

Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju

Feminiskum hugmyndum og mótunarhyggju. Ekki vísindum, heldur trú.

Hvað er mótunarhyggja?

„Mótunarhyggja“ er sú skoðun að drengir og stúlkur séu fædd með sömu getu og tilhneigingar á öllum sviðum. Kynjamunur hvað varðar áhugasvið, áhættuhegðun o.sfrv. sé eingöngu vegna samfélagslegra áhrifa. Andstæða mótunarhyggju er eðlishyggja sem gengur út frá því að kynin séu ólík frá náttúrunnar hendi.

Þótt hreinræktuð eðlishyggja eigi sáralitlu fylgi að fagna innan félagsvísindanna, er langt frá því að mótunarkenningar hafi verið sannaðar. Almennt er viðurkennt að félagslegt umhverfi hafi áhrif en fjöldi vísindamanna telur félagslega þætti engan veginn nægja til að skýra kynjamun. Ég hvet þá sem láta sig jafnréttismál varða að skoða þessa rökræðu milli tveggja sálfræðiprófessora, Stevens Pinker og Elizabeth Spelke um skýringar á því að yfirgnæfandi fjöldi afreksmanna á sviði raunvísinda eru karlar. Fyrirlestrarnir eru bæði á myndbandi og rituðu formi og einnig er hægt að skoða glósur úr hvorum fyrirlestri. Gaman væri ef lesendur segðu svo álit sitt á því, eftir að hafa kynnt sér bæði sjónarmið, hvort eðlilegt sé að leggja mótunarhyggju til grundvallar í skólastarfi.

Í næsta pistli í þessari röð mun ég skoða efnistök Kynungabókar. Í millitíðinni geta áhugasamir t.d. skoðað Jafnréttisþversögnina, norska heimildamynd þar sem leitað er skýringa á því hversvegna starfsval er ennþá kynbundið í Noregi eftir áratuga frelsi í námi og starfsvali.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Mánudagur 22.10.2012 - 16:05 - FB ummæli ()

Læk

Sú ákvörðun að birta pistla á Eyjunni hefur vafist fyrir mér. Að sumu leyti af því að mér þykir vænt um lénin mín. Að sumu leyti af því að ég er ekki hrifin af útliti Eyjunnar og finnst dálítið kvíðvænlegt að geta ekki stjórnað útlitinu á mínu svæði sjálf. Auk þess er ég ofboðslegur tækniklaufi en það stoppar mig ekkert í því að prófa eitthvað sem ég kann ekki á, svo ég sá fyrir mér endalaust vesen ef ég gæti ekki kvabbað í mínum eigin sérlegu aðstoðarmönnum til að laga til eftir mig þegar ég er búin að klúðra einhverju.

Ég lenti strax í smávegis tækilegum vandræðum þegar ég fór fyrst inn á vefsvæðið. Varð auk þess frekar pirruð þegar ég sá að lokað er fyrir möguleikann á að setja inn viðbætur. Ég hafði samband við umsjónarmann vefsins, Birgi Erlendsson og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Það var síðla kvölds og ég átti alls ekki von á svari fyrr en í fyrsta lagi næsta dag en viðbrögðin komu ánægjulega á óvart. Viðbótin var sett inn strax, öllum spurningum svarað vel og skilmerkilega og öll vandamál leyst í hvelli.

Ég er hæstánægð með þessa þjónustu; eða eins og netverjar segja „læk!“

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Sunnudagur 21.10.2012 - 13:15 - FB ummæli ()

Að kjósa í útlöndum

Allt útlit er fyrir að ný stjórnarskrá verði grundvölluð á tillögum Stjórnlagaráðs. Með gerð þessarar tillögu var stigið mikilvægt skerf í átt til þátttökulýðræðis. Fordæmi hefur verið sett og rökrétt framhald er að almennir borgarar taki beinan þátt í því að móta lagafrumvörp um stór mál og að fleiri mál verði borin undir almenna borgara.

Ég kaus í útlöndum. Mér þótti dálítið óþægilegt að afhenda kjörseðilinn minn einhverjum starfsmanni pósthúss og velti því fyrir mér hvort hann kæmist örugglega til skila. Ábyrgðarsending kostar sem svarar 4.193 íslenskum krónum og það er ekki nein trygging fyrir því að bréfið komist til skila, aðeins trygging fyrir því að maður fái staðfestingu á því að hún hafi komist í réttar hendur ef hún kemst svo langt. Ég efast því um að margir þeirra sem kjósa í útlöndum sendi atkvæðin sín með ábyrgðarpósti.

Það sem truflar mig þó meira er að umslögin á að merkja með nafni og heimilisfangi. Það er hægt að stinga umslaginu í annað umslag og senda það án þess að setja nafnið sitt utan á umslagið. Það verður þó ekki framhjá því litið að  kerfið gerir beinlínis ráð fyrir því að utankjörfundaratkvæði séu send um langan veg, nánast eins og opin póstkort. Þetta býður heim hættunni á því að starfsmaður pósthúss eða kjörstjórnar sem þekkir nafn sendanda og veit um pólitískar skoðanir hans, finnist óþarfi að skila atkvæði sem hann álítur óæskilegt. Ég er ekki að tortryggja starfsmenn pósthúsa og kjörstjórna en ástæðan fyrir því að við setjum ekki upplýsingar á borð við „í þessu umslagi er að finna lykilorðið að netbanka Evu Hauksdóttur, vinsamlegast opnið ekki í umslagið“ er ekki sú að líklegt sé að fólk misnoti aðstöðu sína, heldur sú að það getur gerst.

Fleira við framkvæmd utankjörfundarkosninga vekur spurningar. Víða eru það ræðismenn sem hafa umsjón með utankjörfundakosningum og annaðhvort eru ekki til samræmdar reglur um það hvernig að því skuli staðið, eða þá að sumir þeirra fara ekki eftir þeim. Ég veit þess dæmi að hópum fólks var boðið sæti við borð þar sem allir fylltu út kjörseðla sína í sameiningu. Ég efast ekki um að hlutaðeigandi ræðismaður hefði brugðist vinsamlega við tilmælum um að bjóða upp á aðstöðu til að kjósa leynilega en er við því að búast að sá sem fylgir fjölskyldu sinni eða vinahópi veki sérstaka athygli á því að hann vilji leyna afstöðu sinni? Ég veit líka dæmi þess að fólk hefur fengið óútfyllta kjörseðla með sér heim, ásamt stimpli frá ræðismanni. Ef ég á óútfylltan kjörseðil, get ég gefið seðilinn eða jafnvel selt. Ég efast um að slík tilvik hafi komið upp, allavega eru hverfandi líkur á að það myndi hafa áhrif á úrslit kosninga en þeir sem kjósa á Íslandi fá ekki kjörseðlana með sér heim og við hljótum að gera þá kröfu að framkvæmd kosninga sé eins samræmd og mögulegt er.

Það er ekki við því að búast að fólk sem rekur sig á svona klaufaskap hjá sínum ræðismanni tilkynni kjörstjórnum það, í mörgum tilvikum yrði auðvelt að giska á hvaðan ábendingin kæmi og í litlum samfélögum gæti það valdið árekstrum. Það væri meira öryggi í því fólgið að gefa fólki sem kýs í útlöndum kost á að skila atkvæði sínu rafrænt en að setja þetta í hendur einnar manneskju á hverjum stað. Það væri líka mun öruggara að senda atkvæði rafrænt en í umslögum sem eru rækilega merkt hverjum og einum.

Það er amk eitt kosningatengt vandamál í viðbót sem Íslendingar í útlöndum standa frammi fyrir. Eftir átta ára búsetu erlendis dettur fólk út af kjörskrá. Til þess að fá að kjósa þarf maður að kæra sig inn á kjörskrá. Það er enginn sýnilegur tilgangur með þessu fyrirkomulagi. Rétturinn er skýlaus; niðurstaðan er alltaf sú sama, sá sem kærir fær að kjósa. Engin rök hníga að því að íslenskur ríkisborgari eigi að þurfa að sækja þann rétt sinn sérstaklega. Þyngra vegur þó að við kosningar skiptir öryggið máli. Það skiptir máli að kosningar séu raunverulega leynilegar. Það skiptir máli að atkvæði merkt með persónuupplýsingum fari ekki á flakk. Væri ekki rétt að enduskoða framkvæmd utankjörfundakosninga fyrir næstu Alþingiskosningar? Bara svona upp á prinsippið.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Laugardagur 20.10.2012 - 11:40 - FB ummæli ()

Kynjafræðin þjónar kennivaldinu

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

 

Hvernig veit ég að femnistar vilja stjórna umræðu um kynjamál? Ég veit það af því það er auðvelt að sjá í gegnum þá. Meira að segja „fræðimennska“ þeirra virðist hafa þann megintilgang að innleiða þá trú að konur séu allstaðar undirokaðar, einnig í vestrænum samfélgögum, hið óljósa „feðraveldi“ sé orsök alls ills og klámvæðingin helsta aðferð þess til að viðhalda sjálfu sér.

Gervivísindi

Kynjafræðin sem kennd er við HÍ fellur undir „feminist theory“ eða kvenhyggjukenningar. Um er að ræða gervivísindi sem eiga meira skylt við trúarbrögð en fræðimennsku. Það er til marks um hversu vel feministum gengur að festa kennivaldið í sessi, að pólitískri hreyfingu, sem virðir engar vísindalegar aðferðir, skuli vera leyft að predika hugmyndir sínar í háskólum. Það sama gildir auðvitað um prestaskóla HÍ, (sem er kallaður Guðfræðideild) enda er þetta tvennt náskylt. Að kenna greinar sem byggja beinlínis á hugmyndum sem standast enga vísindalega skoðun, svo sem Guði og þrá karla til að kúga konur, er álíka sjúkt og rangt og að gera „hugmyndafræði frjálshyggjunnar“ að sérstakri vísindagrein.

Kvenhyggjufræðimenn eru að því leyti ólíkir öðrum félagsvísindamönnum að starf þeirra byggir ekki á vísindum heldur á hugmyndafræði. Þannig er gengið út frá því sem óumdeilanlegum sannleika að konur séu alltaf í veikari stöðu en karlmenn í öllum samskiptum kynjanna og í öllum stofnunum samfélagsins. Oft er það tekið fram í inngangi   ritgerða (sem kallaðar eru rannsóknir) að gengið sé út frá þessari hugmyndafræði eða öðrum tengdum hugmyndum sem engin sátt ríkir um. Hér er eitt dæmi:

We began this work from the perspective that prostitution itself is violence against women.

Þetta er mjög langt frá því að vera einstakt. Algeng rannsóknaraðferð kynjafræðinga er sú að gefa sér niðurstöðurnar fyrst,  taka svo fullt af viðtölum við fólk sem er líklegt til að gefa svör sem styðja niðurstöðurnar og ef svörin standast ekki væntingar að túlka þær í pólitísku ljósi.

Í umfjöllun kvenhyggjusinna um kynjamál er slíkum „rannsóknum“ sem ekki standast vísindalegar kröfur, eða sniðganga jafnvel vísindalegar aðferðir með öllu, haldið á lofti. „Sérfræðingum“, sem eru aðallega sérfræðingar í þvælunni í hausnum á sjálfum sér, er hampað sem vísindamönnum og frelsishetjum og sótt í opinbera sjóði til að fá áróðursmeistara kvenhyggjuhreyfingarinnar til að predika gervivísindi yfir áhrifafólki.

Sjálffræðingurinn Gail Dines

Nýjasta dæmið um slíkan sjálffræðing, sem hampað er á Íslandi, er Gail Dines. Um er að ræða konu sem gefur sig út fyrir að vera vísindamaður en staðhæfir m.a:
– Að „dæmigert klám“ einkennist af hópnauðgunum og pyntingum. Hvernig hún metur hvað er „dæmigert“ er í meira lagi vafasamt.
– Að 36% alls efnis á internetinu sá klám. Hvernig í ósköpunum fær manneskjan þessa tölu?
– Að karlmenn sem alast upp við þá tísku kvenna að fjarlægja kynhár séu líklegir til að þróa með sér barnagirnd og í þessu myndbandi (mín 18:24-18:48) gefur hún í skyn að hætta sé á að ungir menn muni nauðga dætrum sínum ef þeir horfi á klám þar sem kynhár kvenna eru fjarlægð.
– Að karlar horfi á vægt klám aðallega í þeim tilgangi að fá konur til að stunda klámmyndakynlíf.  Þetta lætur hún út úr sér á sama tíma og tugir milljóna kvenna liggja í klámi af þeirri gerð sem Dines telur niðurlægjandi, svo fremi það er selt sem litteratúr. En Dines hefur auðvitað skýringu á því. Málið er ekki það að margar konur hafi bara smekk fyrir það sem henni finnst niðurlægjandi. Neinei, þær eru bara svo vitlausar greyin að þær trúa á öskubuskuævintýrið og fatta ekki hvað þetta er vond bók:

 And yet women of all ages are swooning over this guy and misreading his obsessive, cruel behavior as evidence of love and romance.  Part of the reason for this is that his wealth acts as a kind of up-market cleansing cream for his abuse, and his pathological attachment to Anastasia is reframed as devotion, since he showers luxury items on her.

Vísindi? Nei, djöflafræði er nær lagi. Sannleikurinn er sá að eftir 25 ára „vísindaferil“ Gail Dines, liggur lítið eftir hana annað en trúboð. Bók hennar Pornland er ásamt fleiri feminstarannsóknum gagnrýnd í þessari grein eftir Ronald Weitzer. Ég mæli sérstaklega með kaflanum The Evidence sem hefst á bls 670 en þar fjallar hann um aðferðafræði Dines.

Í umfangsmesta gagnagrunni heims yfir ritrýndar greinar, Web of Science, finnast aðeins þrjár greinar eftir Gail Dines. Aðeins ein þeirra virðist vera ritrýnd. Það er eldgömul grein um teiknimyndir. Hinar eru svör við réttmætri gagnrýni á verk hennar og aðferðafræði. Sjálf segist Dines byggja niðurstöður sínar á viðtölum, gögnum sem hvergi er hægt að rýna, í einni af þessum þremur greinum sínum sem birst hafa á vettvangi sem nýtur virðingar vísindasamfélagsins. Eins og sjá má er þessi grein, þriðjungurinn af vísindaafrekum hennar, engin rannsókn, heldur varnargrein sem hún skrifaði eftir að Ronald Weitzer var búinn að rassskella hana opinberlega.

 

 

 

Leikurinn FarmVille er óhemju vinsæll meðal facebook notenda. Dregin er upp glansmynd af landbúnaði, ímynd sem hver einasti bóndi getur staðfest að á sér enga stoð í veruleikanum. FarmVille bændur eru ekki bundnir yfir búskap á meðan annað fólk er í sumarfríi. Þeir þurfa ekki að umbera áburðarfnykinn, skíta sig út eða missa svefn vegna sauðburðar eða heyanna. Talið er að á næstu árum muni milljónir skrifstofufólks og iðnaðarmanna um allan heim leiðast út í búskap af völdum FarmVille spilunar.

 

 

 

 

Næsti pistill í þessari röð fjallar um það hvernig kennivaldið reynir að hasla sér völl innan skólakerfisins undir merkjum jafnréttisfræðslu.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics