Miðvikudagur 21.8.2013 - 22:27 - FB ummæli ()

Fyrstu hundrað dagarnir

Nú sýnist mér um það bil 100 dagar vera liðnir frá því ný ríkisstjórn tók við á Íslandi.

Hér í Bandaríkjunum eru fyrstu 100 dagarnir oft taldir mikilvægir til þess að mæla dug og kjark nýrra stjórnvalda (sjá t.d. hér).

Þetta á rætur að rekja til þess þegar Franklin D. Roosevelt (FDR) varð forseti í Bandaríkjunum 1933 og hleypti af stað ótrúlega miklum þjóðfélagsumbætum á ævintýralega skömmum tíma (meðal voru lagðar helstu útlínur the ´New Deal´). Sjálfur hef ég reyndar skrifað um þetta (sjá til dæmis tvær greinar í American Economic Review hér og hér) þar sem ég færi rök fyrir því að þessar miklu þjóðfélagsumbætur hafi átt þátt í því að rífa bandarískt þjóðfélag upp úr kreppunni miklu fyrr en ella hefði orðið. Fyrstu 100 dagarnir hjá FDR voru með ólíkindum viðburðarríkir og síðan þá hafa þeir alltaf verið mikilvægur mælikvarði nýrra stjórnvalda því þetta er sá tími sem stjórnvöld hafa mestan meðbyr til að hrinda stórum verkum í framkvæmd. Þannig að fyrstu dagarnir 100 eru ágætis prófsteinn.

Þegar Obama tók við völdum var til dæmis sett af stað tiltölulega metnaðarfullt prógram. Meðal annars var hleypt af stokkunum 700 milljarða efnahagsáhætlun, the American Recovery and Reinvestment Act of 2009, lagður var grunnurinn að umbótum í heilbrigðiskerfinu, og ýmisslegt annað.

Metnaðurinn var einnig mikill hjá vinstristjórninni sem tók við völdum á Íslandi um svipað leiti og Obama, og ef til vill of mikill að margra mati. Sótt var um aðild að ESB, grunnurinn lagður að stjórnlagaþingi, breytingum á kvótalögum, lög um Seðlabanka voru endurskrifuð og stjórnin látin fara enda bankinn nýlega gjaldþrota, stórauknu fé veitt í sérstakan saksóknara og í rannsóknarskýrslur Alþingis, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er því athyglivert að skoða hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert á sínum fyrstu 100 dögum.

Hvað stendur eiginlega uppúr? Eiginlega bara tvennt frá mínum sjónarhóli sem er óneitanlega úr nokkurri fjarlægð.

1. Skattar. Strax voru lækkaðir skattar á útgerðarmenn svo nemur 10 milljörðum og svo samstundis boðaður harður niðurskurður í ríkisfjármálum á næstu fjárlögum (því staða ríkisstjóðs sé svo miklu verri en búist var við!). Þetta var gert þvert á ráðleggingar flestra hagfræðinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (og ýmissa annarra ´erlendra skammstafana´). Mér sýnist einnig vera uppi áætlanir um að lækka skatta á auðugustu íbúa landsins (afnema hinn svokallaða auðlegðarskatt) og hugmyndir um að fella niður hæsta skattþrepið. Eina sem sagt hefur verið um fjármögnun er að boðaður hefur verið umfangsmikill niðurskurður ríkisútgjalda, stefna sem hefur reynst afleitlega í Evrópu í miðri niðursveiflu.

2. RÚV. Annað helsta forgansverkefnið var að leggja fram og samþykkja nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið sem kvað á um að Alþingi myndi skipa stjórn þess beint — á þeim rökum að ´Ríkisútvarpið væri svo mikilvægt´ og því þyrfti Alþingi að skipa stjórnina sjálft (ekkert hafði heyrst af þessu heita stefnumáli fyrir kosningar sem lá svo voðalega mikið á að því var troðið í gegnum sumarþing á handahlaupum). Rökin fyrir þessum lagabreytingum voru harla skrítin, helst var á menntmálaráðherra að skilja að ópólitískt útvarpsáð væri ólýðræðislegt. Horfið var þannig frá þeirri stefnu sem þróast hefur undanfarin ár að reyna að minnka bein pólitísk afskipti af RÚV. Sú var nú einmitt tíðin að hið ´lýðræðislega´ útvarpsráð réði því beint og óbeint hverjir væru ráðnir inn á fréttastofu RÚV og væntanlega er hugmyndin að færa það aftur í þetta lýðræðislega horf. Um tíma var það til dæmis þannig, þegar ég var ungur maður, að að einfaldasta leiðin til að fá sumardjobb í sjónvarpsfréttum RÚV var að skrá sig í SUS og Vöku (félag lýðræðissinnaðra stúdenta), vinna dálítið sem aðstoðarmaður Hannesar Hólmsteins í Háskólanum, og þá lá leiðin greið inná RÚV í nafni lýðræðisins væntanlega. (Það verður forvitnilegt að vita hvort svipuðum lýðræðisrökum verði beitt þegar kemur að ´umbótum´ á skipan dómara eða seðlabankastjóra.) Frumvarpið kemur í kjölfar þess að stjórnarþingmenn virðast vera með RÚV á heilanum og telja fréttaumfjöllun í landinu vera einhvers konar allsherjar vinstra samsæri og loftárasir sem svara verði með því að ekki einasta skipa nýja stjórn heldur líka skera fjárframlög niður til RÚV hressilega ef loftárásunum linnir ekki.

Eftir að búið var að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn fóru flestir í frí og fjárlögum var frestað framyfir venjubundinn tíma — því þau væru svo voða flókin (og þyrftu þannig miklu meiri undirbúning en 100 daga sem virtust þó duga í ´the New Deal´og 700 milljarða efnahagsáhætlun Obama). Helst spurðist af forsætisráðherra í karókí í Danmörku og í Kanada að hella brennivíni yfir leiði rómaðs skálds, og að því er virðist útum allar koppagrundir í óljósum tilgangi. Þetta er óneitanlega athygliverð forgangsröðun þegar manni skildist rétt fyrir kosningar að allt væri á heljarþröm á Íslandi og nú þyrfti ´efndir en ekki nefndir´ eftir ´verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar.´ Litlar spurnir hef ég haft af fjármálaráðherra undanfarið. Er hann kannski búinn að vera í sumarfríi?

Lítið spurðist einnig af helsta baráttumáli Framsóknarmanna sem voru skuldamál heimilanna. Að vísu var samþykkt þingsályktunartillaga um þetta mál á sumarþingi þegar búið var að ganga frá forgangsverkefnunum að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn. Sigmundur Davíð sagði þessa þingsályktunartillögu vera stærstu aðgerðir í heimi.

Stærstu aðgerðir í heimi voru, sumsé, að skipa nefnd til að leggja til tillögur um aðgerðir.

Ekkert spurðist hins vegar til þessara nefndar, fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar í ljós kom að hún hafði ekki einu sinni verið skipuð. Þá var loksins drifið í því um það bil 100 dögum eftir að ríkisstjórnin tók til valda. Nú skilst mér að það séu um 30 dagar til stefnu fyrir nefndina að skila tillögum.

Á fyrstu 100 dögum sínum umbreytti FDR bandarísku þjóðfélagi á meðan það tók SDG 100 daga til að skipa nefnd og setja fram áætlun um að fresta fjárlögum.

Á sama tíma virðist hagvöxtur fara minnkandi og erlendar skammstafanir lækka lánshæfnismat landsins í ljósi sérkennilegrar skattastefnu og óljósrar umræðu um skuldamál heimilanna.

Mig rekur ekki minni til að nokkur ríkisstjórn íslensk hafi byrjað jafn slysalega og sú sem nú situr. En kannski er þetta allt að koma? Ef til vill, en fyrstu 100 dagarnir lofa ekki góðu hvað sem síðar verður.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.6.2013 - 15:11 - FB ummæli ()

Bunker mentality og Sigmundur Davíð

Af einhverjum ástæðum kom enska orðið „bunker mentality“ upp í hugann þegar ég sá grein forsætisráðherra um „fyrsta mánuð loftárása.“ Þetta er dálítið sérkennileg hugvekja Sigmundar Davíðs um fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna um hann sjálfan sem hann líkir við loftárásir.

Bunker þýðir loftvarnarbyrgi. Enska orðabókaskilgreining á „bunker mentality“ er:

„An attitude of extreme defensiveness and self-justification based on an often exaggerated sense of being under persistent attack from others.“

Ég sé að nafni hans uppí Hádegismóum klappar á svipaðan stein í dag sem kemur ekki á óvart (og ég sé að menntamálaráðherra er önnum kafinn við að kippa þessu í lag með því að breyta lögum um Ríkisútvarpið til að fá þar pólitíska yfirstjórn skipaða af Alþingi, sem ku vera svo lýðræðislegt, en þetta mun vera liður í loftvarnaraðgerðum ríkisstjórnarinnar).

En sumsé spurningin er: Kann einhver á þessu enska orði áferðafallega íslenska þýðingu? Mig grunar að notkun þessa orðs kunni að aukast mjög á komandi misserum og því eins gott að maður sé með tungumálið á hreinu og þurfi ekki að menga málið með ensku slettum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.6.2013 - 14:17 - FB ummæli ()

Hótfyndni ríkisstjórnar um veiðigjöld

Sérkennilegt hefur verið að fylgjast með helstu röksemdum ríkisstjórnarinnar fyrir að fella niður um 10 milljarða veiðgjald á næstu tveimur árum þegar stefnir í harkalegan niðurskurð ríkisútgjalda.

Ástæðan á að vera sú að það sé svo afskaplega flókið að innheimta þessi afnotagjöld af útgerðarmönnum.

Hvað er svona flókið? Enginn hefur útskýrt það í mín eyru. Gjaldið virðist byggja á upplýsingum sem að veiðigjaldsnefnd ætti vel að geta aflað sér, fái hún til þess lagaheimildir, en á það virðist skorta. Það vandamál ætti að vera sáraeinfalt að leysa.

Það sýnir ekki mikla virðingu fyrir umræðu í landinu að snúa þessu máli upp í útúrsnúninga um að það sé svo voðalega flókið að innheimta gjöld af þessum toga.

Almennt sýnist mér þetta gjald í núverandi mynd vera ágætlega í samræmi við gjöld sem oft eru tekin af fyrirtækjum sem stunda nýtingu náttúruauðlinda (á ensku svokölluð ´Production sharing agreements´ sjá hér). Gjöld af þessu tagi eru algeng þegar í hlut eiga fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir með blessun ríkisins.

Við nýtingu náttúruauðlinda takmarkar ríkið sókn annarra í þessar auðlindir og skapar þannig rentu til þeirra sem nýtingarréttinn fá. Þá þykir almennt skynsamlegt að ríkið selji þennan rétt með einhverjum hætti, enda er ríkið að búa til verðmæti fyrir þessi fyrirtæki með því að takmarka aðgang annarra. ´Production sharing agreement´er ein útfærsla á þessari leið en í henni er fólgið að ríkið fái ákveðna hlutdeild í rentunni sem skapast. Uppboð er annað form og kannski einfaldara. (Hér í New York borg, til dæmis, þá takmarkar borgin fjölda leigubíla af ástæðum sem eru umdeildar. En þetta skapar rentu. Hérna þýðir þetta að þegar ný leyfi fyrir leigubíla akstur eru gefin út eru þau einfaldlega sett í uppboð og skapa þannig tekjur fyrir borgina, sjá t.d. hér. Með sama hætti mætti auðvitað setja fiskveiðikvóta á uppboð).

Mér sýnist að oft sé miðað við í ´production sharing agreements´ að 80 prósent rentunnar gangi til ríkisins og 20 prósent til fyrirtækisins sem réttinn fær, oftast er hér um olíu að ræða. Í íslensku löggjöfinni virðist þetta heldur hóflegra, því að mér sýnist að þar sé gert ráð fyrir að útgerðin fái í kringum 40 prósent í sinn hlut.

Á síðasta ári skilst mér — af fréttum að dæma — að hrein auðlindarrenta hafi verið í sögulegu hámarki (Einhvers staðar sá ég tölur á bilinu 60 til 80 milljarðar? Ábending um áreyðanlegar tölur væri vel þegin í athugasemdum). Því er spáð að hún verði enn hærri í ár. Er ákaflega ósannsgjarnt að eigandi auðlindarinnar fái einhvern hluta þessarar rentu? Myndi okkur þykja eðlilegt ef að vinir okkar Norðmenn gæfu rentu sína af olíunni úr Norðursjó beint til besta vinar aðal? Vegna þess að það sé svo voða flókið að reikna út hvað olía og vinnsla hennar kostar?

Og ætlar einhver að segja mér að það sé flóknara að skilgreina afnotagjöld veiða á fiski úr sjó, en þegar um er að ræða olíunýtingu, þar sem fyrirtæki þurfa að leggja upp í gífurlega háar fjárfestingar til mjög langs tíma (og stundum er borað lang undir sjó) og óvissan er gífurleg um heimtir og framtíðarverð vörunnar?

Nú kann vel svo að vera að til séu góð rök fyrir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Gott og vel. En þá er lágmark að ástæður ríkisstjórnarinnar fyrir þessari 10 milljarða stefnubreytingu séu settar á borðið með skýrum rökum en ekki útúrsnúningum og hótfyndni.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.6.2013 - 02:17 - FB ummæli ()

Vísvitandi dreifing rangra upplýsinga?

Ég sé að forsætisráðherra talar um „vísvitandi dreifingu rangra upplýsinga“ vegna umræðu sem sprottið hefur upp vegna stórfelldrar niðurfellingu veiðigjalda á íslensk útgerðarfyrirtæki sem ég hef lesið um í fréttum að heiman.

Hér er hann kannski meðal annars að vísa til þess að Alþjóðagjaldeyristjóðurinn (sjá hér), og ýmsir hagfræðingar hafa bent á að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella niður að mestum hluta innheimtingu veiðgjalds sé óskiljanlegt frá hagfræðilegu sjónarmiði. Skattaheimta af þessu tagi er mun hagkvæmari en önnur skattheimta (líkt og tekjuskattur eða auðlegðarskattur sem hafa neikvæða hliðaráhrif. Hið sama gegnir ekki um auðlindaskatt, því þrátt fyrir hóflegt gjald er eftir sem áður er sami fiskur veiddur úr sjó — með sem minnstum tilkostnaði. Á sama tíma letur tekjuskattur fólk til vinnu og auðlegðarskattur hefur neikvæð áhrif á fjárfestingu).

Af fréttum að dæma myndi þessi ákvörðun þýða 10 milljarða tekjutap fyrir ríkissjóð næstu tvö árin.

Um þetta segir forstætisráðherrann hér m.a.

„Tilbúningurinn um tannlækningarnar er svo settur í samhengi við annan skáldskap, þann að verið sé að fella niður öll veiðigjöld. Það er ekki verið að fella niður veiðigjöldin heldur fresta gildistöku breytingar á veiðigjöldunum….“

Nú vandast málið. Því í sama vettfangi les ég á rúv hér m.a.

„LÍÚ fagnar nýju frumvarpi sjávarútvegsráðherra um lækkun veiðigjalda. Framkvæmdastjórinn segir það vera skýra yfirlýsingu um að þau lög sem fyrri ríkisstjórn setti um veiðigjaldið verði afnumin.“

Forsætisráðherrann nýbakaði virðist hafa á réttu að standa? Það er einhver vísvitandi að dreifa röngum upplýsingum? Hver?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.6.2013 - 16:02 - FB ummæli ()

Furðuleg ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar

Nýja ríkisstjórnin heldur blaðamannafund þessa vikuna með pompi og pragt og lýsir í löngu máli að staða ríkisfjármála sé hreint skelfileg, og miklu verri en þeir héldu.

Seinna um daginn er svo kynnt ákvörðun um að aflétta innheimtu á veiðigjaldi. Tekjutap ríkissjóðs nemur mörgum milljörðum króna, í kringum 10 milljarðar næstu tvö árin af fréttum að dæma.

Það er erfitt að sjá nein skynsamleg rök fyrir þessari ákvörðun, aðra en þrönga sérhagsmuni þeirra sem kvótann eiga. Sú röksemd að þetta muni auka hagvöxt — líkt og sumir talsmenn ríkisstjórnarninnar láta í veðri vaka — er í meira lagi furðuleg. Þetta er eiginlega hrein rökleysa.

Er hugmyndin sú að fleiri fiskar verði veiddir úr sjónum ef útgerðin greiði ekki fyrir aðganginn að auðlindinni? Varla. Heildarfjöldi veiddra fiska er ákvarður af stjórnvöldum með kvóta. Hagfræðin segir okkur að þeir skattar valdi minnstum skaða sem hafi sem minnstar hliðarverkanir. Innheimta veiðigjalds er einmitt dæmi um hagkvæman skatt því að gjaldið hefur engin hliðaráhrif af þeim toga sem menn yfirleitt hafa áhyggjur af. Eftir sem áður munu útgerðirnar reyna að ná inn aflanum með sem minnstum tilkostanði, þótt þær þurfi að greiða fyrir afnot af auðlindinni. Svo lengi sem það er peningur í því að veiða þann fiskveiðkvóta sem stjórnvöld setja, verður hann veiddur, og umræðan um veiðigjald snýst því einfaldlega um það hvernig skipta eigi rentunni sem þessi auðlind skapar.

Nú þegar ríkið lækkar þennan skatt, þarf að hækka einhverja aðra í staðinn, eða skera niður í útgjöld í miðri kreppu. Það er erfitt að sjá að það hafi jákvæða áhrif.

Ekki byrjar þetta nú vel.

PS. Ég sé að sendinefndin frá mínum gamla vinnustað, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir niðurfellingu þessa gjalds afar óskynsamlega, sjá hér. Jón Steinsson, dósent við Columbia háskóla, tekur í sama streng. Mér er það til efs að hægt sé að draga á flot nokkurn málsmetandi hagfræðing utan Íslands sem myndi mæla þessu bót við núverandi aðstæður á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.5.2013 - 01:18 - FB ummæli ()

Stærsti efnahagsvandi næstu ríkisstjórnar

Úrslit kosninganna eru býsna fróðleg. Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn eru auðvitað sigurvegarar kosninganna. Ég er líka ekki frá því að Bjarni Ben hafi unnið nokkurn varnarsigur, að minnsta kosti miðað við að flokkurinn var á tíma í frjálsu falli eftir að tepokahreyfingin tók yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur því að teljast frekar líklegt að þessir tveir flokkar sameinist í stjórn og alls ekki óeðlilegt í ljósi niðurstöðu kosninganna.

Ég var í dálitlu pallborði hérna í New York um kosningarnar og var þá spurður hver yrði helsti efnahagsvandi sem næsta ríkisstjórn þarf að glíma við. Ég svaraði eitthvað á þessa lund: Helsti efnahagsvandi ríkisstjórnarinnar verður kosningaloforð tilvonandi stjórnarflokka Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er að segja ef þeim var alvara í aðdraganda kosninganna.

Það er erfitt að sjá hvernig stórtækar skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins fara saman við skuldaniðurfellingu Framsóknar, án þess að ríkissjóður fari á hliðina. Ekki síst vegna þess að samhliða þessu sá ég eingöngu loforð um aukin – en ekki minni – útgjöld ríkissjóðs. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta fer. Að minnsta kosti verða eftirtekjur haglabyssu og kylfuleiðangurs ríkisstjórnarinnar á lendur erlendra kröfuhafa að vera ansi ríkulegar til að allt gangi upp. Það verður líka áhugavert að sjá hvað verður um skattlagninguna sem vinstri stjórnin tók upp á sjávarútveginn. Í ljósi þess hversu dýr kosningaloforðin eru, kann að vera snúið að sleppa takinu af þessari skattheimtu. Ekki síst af þeirri ástæðu að hún er afar hagkvæm og því óskynsamlegt að fella hana niður útfrá öllum eðlilegum sjónarmiðum við núverandi aðstæður.

Sjálfur vona ég – og reikna reyndar fastlega með – að ný ríkisstjórn taki svipaða stefnu og Besti flokkurinn eftir sinn kosningasigur í Reykjavík. Þá getum við líklegt fundið stærstu og stórkarlalegustu kosningaloforðin á svipuðum slóðum og ísbjörninn í húsdýragarðinum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.4.2013 - 19:09 - FB ummæli ()

Meira um efnahagstillögur

Eitthvað hefur nú skolast til hjá honum Birgi Þór Runólfssyni, mínum ágæta fyrrum kennara við Háskóla Íslands, þar sem hann gerir að umtalsefni blogg mitt um tilllögur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í efnhagsmálum (sjá hér).

Birgir segir að ég haldi því fram að óraunhæft að semja við erlenda kröfuhafa. Það hef ég aldrei sagt. Það sem ég benti hins vegar á var að þeir peningar sem þannig fengjust myndu nýtast afar illa ef þeir væru notaðir í skattalækkanir á þá efnamestu, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn vill, eða flatan niðurskurð lána um 20 prósent líkt og Framsókn leggur til.  Flatur niðurskurður skulda myndi gagnast þeim best sem síst þurfa á skuldaleiðréttingu að halda, og raunar að því er virðist aðallega höfuðborgarsvæðinu, líkt og Jón Steinsson bendir á í Fréttablaðinu í dag. Flatur niðurskurður lána jafngildir 20 milljarða landsbyggðaskatti að mati Jóns (sjá hér).

Hvað varðaði skattalækkanir og flatan niðurskurð lána sagði ég ekki að þær hugmyndir væru “óraunhæfar”.  Það er vel hægt að lækka skatta á þá sem mest hafa og afskrifa skuldirnar þeirra. Ég sagði að þessar hugmyndir væru lýðskrum. Afhverju lýðskrum? Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn lætur að því liggja að þessar skattalækkanir borgi sig sjálfar (sjá hér). Og vegna þess að Framsóknarflokkurinn heldur því fram að þessi flata niðurskurðarleið muni ekkert kosta ríkissjóð. Bæði er gott dæmi um lýðskrum. Báðar aðgerðir yrðu skattborgurum landsins dýrt spaug.

Annað efni færslu Birgis er dálítið undarlegt og fjallar meðal annars um fund sem ég átti með stjórnvöldum 2008, fjölskyldublogg sem ég hélt einu sinni úti og — en ekki hvað — icesave(!), osfrv.

Ekki er ég viss um að það sé þess virði að eyða í þetta orðum. Eitt samt áhugavert sem ég vissi ekki og fjalla kannski betur um seinna. Ég sé að það hefur verið einhver umræða um fund sem ég átti 2008 nokkrum mánuðum fyrir hrun og ég hef ekki sagt frá áður. Hann var afar fróðlegur en hann sótti auk fjölda ráðherra, Már Guðmundsson og Friðrik Már Baldursson.  Það getur vel verið að ég reyni aðeins að gramsa í þeim gögnum sem ég á og sjá hvort ég geti ekki reynt að varpa ljósi á það sem um var rætt, úr því þetta er nú orðið opinbert, þótt óneitanlega sé nú dálítið langur tími liðinn. Ef til vill kann fólki að þykja áhugavert að heyra mitt sjónarhorn. (Ég var aldrei boður til skýrslutöku um þennan fund, en Birgir heldur því fram að þáttur minn í honum hafi verið til umræðu í Landsdómi. Þetta hef ég ekki heyrt áður en það væri gaman ef einhver gæti bent mér á heimildir þess efnis.)

Það er rangt hjá Birgi að ég hafi “lagt til að bönkunum yrði bjargað” á þessum fundi. Ég þekkti ekki til eignasafns þeirra á þeim tíma, og tók það reyndar skýrt fram, og gat því ekki lagt slíkt mat á stöðuna.

Það efni sem ég fjallaði um, að því er ég best man, var aðallega hvernig við höguðum lánveitingum til fjármálakerfisins í Bandaríkjunum með svokölluðum „special liquidity facilities“.  Á þessum tíma starfaði ég nefnilega sem ráðgjafi hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og þekkti ágætlega til mála. Ef hjálpa ætti bönkunum með einhverjum hætti á Íslandi væri ekki sama hvernig það væri gert og benti ég fólki á að skoða þær leiðir sem við höfðum farið hérna í Bandaríkjunum á þeim tíma.

Lykilaskilyrði þess að veita fé inn í fjármálageirann hér í Bandaríkjunum var alltaf að trygg veð væru gegn þeim lánum sem veitt voru, þannig að seðlabankinn sæti uppi með verðmætar eignir ef allt færi á versta veg. Þannig reyndi bankinn yfirleitt að sjá það fyrir hvert virði eigna hans yrði, ef allt hryndi, og tók ég þátt í nokkrum slíkum útreikningum. Auðvitað var og er ekki hægt að útiloka tap á einhverjum tímapunkti, en aðalatriðið var að reyna að lágmarka hugsanlegt tjón.

Því miður var ekkert slíkt gert í Seðlabanka Íslandis. Lánað var villt og galið með litlum eða engum veðum (svokölluð ástarbréfarviðskipi), og niðurstaðan var tap Seðlabankans uppá hundruðir milljarða króna, eins og staðfest hefur verið meðal annars í Rannsóknarskýrslu Alþingis, OECD, Ríkisendurskoðanda, osfrv. Þetta höfum ég og margir aðrir hagfræðingar gagnrýnt harðlega því þetta stríddi gegn öllum góðum vinnureglum sem eiga að vera til staðar í seðlabönkum, og var auðvitað í engu samhengi við þær leiðir sem farnar voru hér í Bandaríkjunum og ég fjallaði um á þessum fundi. Aðalgagnrýnin á Seðlabankann hefur yfirleitt ekki verið að hann lánaði bönkum (en það er meðan annars hlutverk seðlabanka), heldur hitt, hvernig hann gerði það. Tap Seðlabanka Íslands er langmesta tjónið sem Íslendingar urðu fyrir í hruninu. Ef að rétt hefði verið á málum haldið væri það Seðlabankinn sem nú væri stærsti kröfuhafinn á þrotabú bankanna — á kostnað erlendra kröfuhafa – og án þess að hafa nokkurn tíma þurft á kylfum og haglabyssum að halda.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.4.2013 - 13:39 - FB ummæli ()

Afsökunarbeiðni

Í pistli mínum „Lýðskrum“ á blogginu hérna í gær líkti ég efnahagstillögum Framsóknarflokksins við hrossalækningar.

Hér er augljóslega of djúpt í árina tekið. Og rétt að biðjast afsökunar.

Er það hér með gert.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er í hæsta máti óeðlilegt að líkja æfingum Framsóknarflokksins við hrossalækingar. Lækningar hrossa byggja á vísindum, eins og ég get vel vitnað um, enda er pabbi dýralæknir líkt og hans fyrrum samstarfsmaður á Keldum Árni Mathiesen fyrrum fjármálaráðherra (og raunar varaformaður Framsóknarflokksins). Þessi skrif mín voru augljós óvirðing við dýralækna, innlenda sem erlenda. Ég held að bæði pabba og Árna gangi mun betur að lækna hross en Framsóknarflokknum gangi að koma saman skynsamlegum efnahagstillögum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.4.2013 - 15:15 - FB ummæli ()

Lýðskrum

Það er heldur ömurlegt uppá það að horfa, að minnsta kosti fyrir svona útlending eins og mig, sem búið hefur erlendis í 16 ár og kannski úr öllum tengslum við allt og alla, að tiltölulega flatneskjulegt lýðskrum virðist vera að hrífa meirihluta þjóðarinnar.

Fyrst er það Sjálfstæðisflokkurinn. Mér sýnist hann lofa að lækka skatta, sem aðallega virðist koma eignafólki vel, um gífurlega fjárhæðir. Gott og vel. En hvernig á að borga? Jú mér sýnist að skattalækkanirnar á efnafólkið eigi að skapa svo stórkostlega uppsveiflu í efnahagslífinu að þær einfaldlega borgi sig sjálfar með auknum umsvifum hagkerfisins (sjá t.d. samantekt hér).

Ef þetta hljómar of gott til þess að vera satt, þá er það ekki tilviljun. Ronald Reagan setti fram svipaða kenningu, og sýndi eftirminnilega fram á að hún stæðist ekki með því að reka gífurlegan ríkissjóðshalla. George Bush eldri kallaði þetta vúdúhagfræði eins og frægt er.

Víkur nú sögunni til Framsóknarflokksins. Nú lofar hann því að taka stórfenglegar eignir frá útlendingum – byggða á því sem þeir kalla „Framsóknarleið“– til þess að aflétta skuldum af Íslendingum svo nemur 20 prósentum að ég best get séð. Við þessu er gleypt sem nýju neti.

Hér er mörgu grautað saman. Fyrst er það svo að þær samningarviðræður sem fram fara við erlenda kröfuhafa eru engin sérstök „Framsóknarleið“. Samningstaða Íslendinga byggist á gjaldeyrishöftum sem sett voru á Alþingi án stuðnings Framsóknarflokksins og hafa verið rekin af Seðlabanka Íslands löngu áður en nein „Framsóknarleið“ dúkkaði upp nokkrum vikum fyrir kjördag. (Í þessu samhengi má benda á að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefur haldið því fram að erlendir kröfuhafar kunni að þurfa að afskrifa um 75 prósent krafna og að viðræður um þetta séu löngu hafnar, sjá t.d. fréttir hér). Svo er það hitt að það er allsendis óvíst hvort og hversu mikið takist að afskrifa þessar kröfur, slíkur ferill gæti endað fyrir dómstólum.

Það er engin ný „Framsóknarleið“ í boði. Það eina sem hefur gerst er að Framsóknarflokkurinn endurvann illa hugsað kosningaloforð frá síðustu kosningum um tuttugu prósent flata afskriftir lána með því að þvæla útlendingum inní málið og kalla þá ´hrægamma´(og hóta að skjóta þá með haglabyssum og berja þá í höfuðið með kylfum), vegna þess að síðast strönduðu hugmyndirnar á því að þær væru allt of dýrar. Nú er málið þvælt með að því að blanda útlendingum inní málið.

En samningarviðræður við erlenda kröfuhafa er algerlega aðskilið mál frá fjárhagsvandræðum heimila. Hugmyndin um flata hlufallslega afskrift skulda er alveg jafn slæm nú og hún var fyrir síðustu kosningar. Og hún er alveg jafn dýr og nýtist fyrst og fremst þeim sem mest hafa efnin, en ekki því fólki sem í mestum erfiðleikum er (sjá grein okkar Jóns Steinssonar fyrir síðustu kosningar hérna). Ef vel tekst til í samningum við erlenda kröfuhafa væri miklu skynsamlegra að verja þeim fjárhæðum sem þannig vinnast til að verja velferðarkerfið, borga skuldir, eða þá hjálpa þeim sem í mestum vanda eiga við endurgreiðslu húsnæðislána, fremur en þeim helst sem ekki þurfa á því að halda líkt og tillögur Framsóknar fela í sér. Flatur niðurskurður á öll lán er rándýr hrossalækning.

Þegar allt kemur til alls, og efnahagstillögur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins eru skoðaðar er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þessari: Þetta er lýðskrum. Á þeim grunni verður ný helmingaskiptastjórn mynduð næstu helgi, rétt örfáum árum eftir hrun. Eða eins og maðurinn sagði, Guð blessi Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.4.2013 - 18:01 - FB ummæli ()

Nýja helmingaskiptastjórnin

Ég verða að játa að þegar maður skoðar stjórnmálaástandið héðan að utan kemur margt á óvart.

Nú er sumsé komið í ljós að kjósendur ætla að afhenda lyklavöldin að stjórnarráðinu til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það sem kemur mér fyrst og fremst á óvart er hversu lítil umræða er um hvernig sú stjórn muni líta út og hvað hin nýja helmingaskiptastjórn muni gera, og hvernig starfsaðferðirnar verði.

Samt sem áður er ekki lengra síðan en nokkur ár að allt saman hrundi í hausinn á Íslendingum, og það kom í ljós, meðal annars með Rannsóknarskýrslu Alþingis og umfjöllun sem því tengdist, að þessir tveir flokkar hefðu gefið sjálfum sér og tengdum aðilum gífurlegar fjárhæðir, meðal annars í gegnum ákaflega spillta einkavæðingu bankanna. Allt er þetta skjalfest í dag.

Það verður fróðlegt að skoða hvernig ýmsum þeim eignum sem ríkið hefur yfirráð yfir í dag verður dreift næstu árin. Þetta hefur verið merkilega lítið í umræðunni. Hvernig ætlar hin nýja helmingaskiptastjórn að selja Landsbankann? Hluti í hinum bönkunum? Eignarhluti í öðrum þeim fyrirtækjum sem ríkið á nú hlut í eftir hrunið beint eða óbeint í gegnum bankana? Er eitthvað sem bendir til þess að þessir flokkar hafi lært eitthvað af fenginni reynslu? Kannski Flugleiðir verði teknir úr höndum kommúnistanna?

Annað: Verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður? Seðlabankinn tekinn aftur úr höndum hagfræðinganna og settur til baka undir Framsóknar og Sjálfstæðisflokkshesta?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur