Föstudagur 12.02.2010 - 14:45 - FB ummæli ()

Með Blik í augum

Fyrsta minning mín frá Kópavogi – frá því fyrir um 30 árum – er sjónræn. Ég hafði gengið upp frá Kársnesbraut – þar sem frænka mín bjó í áratugi og ég heimsótti nær árlega er við ókum „suður“ á sumrin frá heimabæ mínum, Akureyri. Eftir að hafa gengið nærri klöppunum við Kópavogskirkju og túninu, þar sem nú standa menningarhús á borð við safnaðarheimilið, Gerðarsafn, Salinn, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs, stóðum við frændurnir og horfðum niður í Smárann. Þar var allt grænt – enda þykir mér vænt um þessa minningu.

 

Fögnum sextugsafmæli Breiðabliks

Það voru ekki aðeins engin sem voru græn og óbyggðar hlíðarnar á móti þar sem nú eru Smárahverfi, Lindahverfi og Salahverfi og enn nýrri hverfi uppaf. Niðri á vellinum hlupu græn- og hvítklæddir krakkar: Blikar – sem eiga afmæli í dag, 12. febrúar 2010. Til hamingju Breiðablik; hafið þökk, Blikar, fyrir allt sem þið hafið gert fyrir Kópavogsbúa undanfarin 60 ár; Kópavogur er grænni og vænni fyrir vikið.

 

Kynni mín af Breiðablik

Frændi minn var – eins og flestir Kópavogsbúar á þeim tíma, einkum í grónari hverfum – stoltur Bliki; HK var þá aðeins 10 ára gamalt félag en ég tók einmitt þátt í að fagna 40 ára afmæli þess öfluga félags fyrir þremur vikum. Aldarfjórðungi eftir þessa upphafsminningu mína af Blikunum grænu kynntist ég Breiðabliki fyrir alvöru og af eigin raun. Ég hafði reyndar í kringum aldamótin 2000 – skömmu eftir að ég flutti í Kópavoginn – verið beðinn um það af gömlum kunningja að taka að mér formennsku í Breiðabliki en taldi að stúdentspróf af íþróttabraut og reynsla af félagsmálum væri ekki nægilega breiður bakgrunnur til þess að taka að sér það mikilvæga trúnaðarstarf. Því var það þegar sonur minn var enn í leikskóla að ég fór að fylgja honum á völlinn og kynntist bæði Breiðabliki og boltanum á nýjan hátt. Frá unglingsárum hafði ég að vísu um árabil verið blaðaljósmyndari á Akureyri og myndað ófáa handknattleiks- og knattspyrnuleiki og aðrar íþróttir en lítið stundað þær sjálfur.  Segja má að sjónarhorn mitt á íþróttir framan af ævi hafi að mestu verið fræðilegt og fréttatengt.

 

Ég átti eftir að sjá aftur þetta blik í augum iðkenda sem ég minnist er frændi minn sagði mér stoltur frá afrekum Blikanna þegar við gengum niður í Smárann um árið.

 

Áfram Breiðablik!

Því kom það mér jafnvel meira á óvart en fólkinu í kringum mig þegar ég – algerlega upp úr þurru og í fyrsta skipti á ævinni – hrópaði upp á knattspyrnuleik úr eins manns hljóði eftir að hafa hvatt son minn með nafni:

 

Áfram Breiðablik!

 

Síðan hef ég – bæði í Breiðablik og öðrum íþróttafélögum og í fjölbreyttum íþróttagreinum – fylgt börnunum þremur á ótal æfingar, keppnisleiki og íþróttamót víða um land. Þetta hefur ekki aðeins verið ómetanlegur þáttur í þroska barna minna – heldur ný og skemmtileg reynsla fyrir mig, nýtt foreldri og nýbúa til 10 ára í Kópavogi. Þar hef ég ekki aðeins kynnst nýjum greinum, keppnisanda, félagsstarfi og félögum barnanna heldur fjölda foreldra og eldhuga sem stýra íþróttastarfinu og styðja það með ráðum og dáð. Þar sem ég bjó fyrst í Smárahverfi kemur ekki á óvart að þáttur Breiðabliks er þar stærstur. Íþróttastarfið er einn veigamesti þátturinn í að skapa tryggð við hverfið sitt og trausta umgjörð um lífið í hverjum bæ. Hafið þökk fyrir Blikar;

 

áfram svona!

Flokkar: Íþróttir · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur