Laugardagur 13.02.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

Enginn er dómari í eigin sök

Að gefnu tilefni vil ég gera grein fyrir gráum svæðum – og svörtum – að því er varðar hagsmunaárekstra – m.a. hér í Kópavogi.

 

Frá því að ég hóf laganám fyrir um 20 árum hefur mér verið sérlega umhugað um að greina á milli andstæðra hlutverka og gæta þess að ekki komi upp hagsmunaárekstrar – hvorki hjá mér né öðrum. Sumum félögum mínum hefur reyndar stundum þótt ég vera „kaþólskari en páfinn“ í slíkum efnum en mér finnst betra að vera ekki á gráu svæði. Í öllum störfum mínum síðan hef ég leitast við að gæta þessa. Gildir það hvort sem er í kjörnum félagsstörfum – nú síðast sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins undanfarin ár – eða í launuðum störfum – svo sem nú sem talsmaður neytenda sem er embætti sem ég hef gegnt um nær fimm ára skeið. Hef ég því vikið úr sviðsljósi þessara hlutverka fram að prófkjöri okkar Framsóknarfólks í Kópavogi sem er eftir réttar tvær vikur, 27. febrúar nk. Sjálfur get ég auðvitað ekki metið hvort mér hefur alltaf tekist að forðast hagsmunaárekstra eða vantraust en víst er að í störfum mínum sem framkvæmdarstjóri og lögmaður BHM og svo sem talsmaður neytenda í yfir áratug samtals hef ég nokkrum sinnum vikið sæti að eigin frumkvæði vegna svonefndra vanhæfissjónarmiða eins og sjálfsagt er, t.d. þegar bræður mínir hafa átt hlut að máli sem ég kem að álitsgerð um.

 

Skýringar á sérstöðu

Ekki veit ég hvort það er vegna uppeldis, lagamenntunar eða langdvalar í Danmörku að ég hef þessa sýn – sem mér hefur oft þótt skorta á hér á Íslandi. Nú sjá þetta margir í öðru ljósi – eftir hrunið, því miður. Slík sjónarmið þykja sjálfsögð í ríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Ég hefði haldið að sátt væri um að maður getur ekki gætt andstæðra hagsmuna á sama tíma – enda segir gamalt íslenskt máltæki að enginn sé dómari í eigin sök.

 

Þó eru enn mörg – og sum gróf – dæmi um frávik frá eðlilegum hæfis- og traustsjónarmiðum áberandi á Íslandi. Vonandi er það vegna skemmri reynslu okkar af borgaralegu samfélagi en ekki inngróinnar siðvillu hjá okkur Íslendingum. T.a.m. er aðeins hálfur annar áratugur síðan settar lagareglur tóku gildi um svokallað vanhæfi en áður áttu lögfræðingar að þekkja óskráðar lagareglur um það efni. Nýlega varði dr. Páll Hreinsson, nú hæstaréttardómari og sem stendur formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, afar ítarlega og trausta doktorsritgerð um hæfisreglur stjórnsýslulaga. Því horfir þetta vonandi til betri vegar.

 

Fasteignasali á að gera hið ómögulega

Eitt dæmi vil ég fyrst nefna sem ég hef áður vakið athygli á. Lengi hefur mér þótt hæpið að sami aðilinn, maðurinn, sérfræðingurinn, atvinnurekandinn gæti andstæðra hagsmuna tveggja í stærstu viðskiptum flestra á lífsleiðinni. Þó er það þannig hér á landi að þegar eigandi fasteignar vill selja hana velur hann sérfræðing til þess að miðla henni en sá er oftast nefndur fasteignasali. Sá sem sýnir áhuga verður a.m.k. óbeint fyrir þrýstingi um að þiggja ráðgjöf frá sama sérfræðingi og er jafnvel settur í þá aðstöðu að neyðast til að greiða honum þóknun fyrir tiltekna umsýslu. Lög um fasteignaviðskipti og starfsemi svonefndra fasteignasala og allt umhverfi þeirra viðskipta og slíkrar starfsemi ýta á væntanlegan kaupanda að láta bjóða sér þetta – enda þótt ekkert sé í sjálfu sér því til fyrirstöðu að hugsanlegur kaupandi leiti sér sérfræðiráðgjafar annars staðar eins og ég hef jafnan gert í slíkum tilvikum. Báðir aðilar málsins (og sérfræðingurinn) hafa að vísu þá hagsmuni sameiginlega að samningur takist en hagsmunir þeirra eru að öðru leyti andstæðir; kaupandinn vill væntanlega fá eignina á sem hagstæðustum kjörum og seljandi vill fá sem hæst verð og skjóta greiðslu fyrir. Við það bætast andstæðir hagsmunir varðandi skoðun fasteignar, ástand hennar o.s.frv. Þetta kannast margir við af eigin reynslu þegar á reynir – eftir að ágreiningur rís; þá gætir fasteignasalinn vitaskuld frekar hagsmuna þess sem réð hann til starfa og greiðir honum þóknun.

 

Löggjafinn hefur hingað til látið nægja að kveða á um að fasteignasali eigi að leitast við að gæta réttmætra hagsmuna beggja – sem er ómögulegt ef þeir eru andstæðir. Ég hef vakið athygli á þessum vanda og til eru sérfræðingar á sviði fasteignaviðskipta sem eru tilbúnir til þess að veita væntanlegum kaupendum óháða ráðgjöf og aðstoð við þessi mikilvægu og vandasömu viðskipti.

 

Fjögur dæmi úr Kópavogi

Í tilefni af framboði mínu til oddvitasætis í prófkjöri 27. febrúar nk. fyrir lista Framsóknarflokksins í kosningum til bæjarstjórnar Kópavogs í vor vil ég halda uppteknum hætti. Því vil ég hér á eftir nefna fjögur nýleg dæmi er tengjast þessu álitamáli um hagsmunaárekstra í stjórn Kópavogsbæjar – bæði fyrirbyggjandi reglur, síðbúnar lausnir, kerfisbundinn annmarka og gróft brot á hæfissjónarmiðum.

  1. Siðareglur kjörinna bæjarfulltrúa og stjórnenda hjá Kópavogsbæ. Fyrst vil ég nefna siðareglur sem Kópavogur hefur – fyrstur íslenskra sveitarfélaga – sett sér og einkum sínum stjórnendum, kjörnum sem ráðnum. Þær voru samþykktar 12. maí í fyrra og eru einfaldar og skýrar í 14 greinum og verða vonandi til þess að fyrirbyggja frekar en hingað til hagsmunaárekstra og spillingu í stjórn og fjármálum Kópavogsbæjar. Það er til fyrirmyndar.
  2. Stjórnarfyrirkomulag Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Nýverið sömdu stjórnir Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) um að LSS tæki við rekstri LSK. Ég þekki vel til LSS enda var hann stofnaður sama ár og ég tók við sem framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna 1998 en BHM, var einn stofnaðila LSS. Var ég þar varafulltrúi í stjórn um skeið. Fylgdist ég því vel með uppbyggingu LSS og rekstri fyrstu sjö árin. Nokkrir eldri lífeyrissjóðir sveitarfélaga sömdu fljótt við LSS um rekstur auk þess sem nýir starfsmenn eiga beina aðild að LSS. Illu heili var það ekki gert af hálfu LSK en þá hefði e.t.v. mátt forðast misfellur og hugsanleg lögbrot af hálfu stjórnenda hans – sem voru sumir báðum megin borðsins þó að sami maður geti að mínu mati t.a.m. ekki verið bæði bæjarfulltrúi og fulltrúi starfsmanna í stjórn. Eins og kunnugt er er starfsemi LSK og stjórn undir opinberri rannsókn eftir að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við reksturinn, vék stjórn LSK frá og tók yfir stjórn sjóðsins um mitt ár í fyrra en í kjölfarið voru stjórn og framkvæmdarstjóri LSK kærð til lögreglu fyrir brot á lögum í kjölfarið; ég hef ekki upplýsingar um hver staða þess máls er nú.
  3. Háttsettir stjórnendur bæjarins sitja í bæjarstjórn.  Eitt af því sem ég hef undrast mest eftir að ég flutti í Kópavoginn fyrir um 10 árum og hóf að taka þátt í félagsstarfi og fylgjast með bæjarmálum er að nær helmingur ellefu manna bæjarstjórnar er í vinnu hjá sjálfum sér. Ekki er aðeins um að ræða almenna bæjarstarfsmenn eins og vart verður komist hjá – einkum í smærri sveitarfélögum en Kópavogur er reyndar stærsti bær landsins, með yfir 30.000 íbúa, fjölmennasta sveitarfélagið á eftir sjálfri höfuðborginni. Vitaskuld er hvorki rétt né fært að banna opinberum starfsmönnum að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa í sínu sveitarfélagi en kannski þarf einhverja frekari umræðu hvar mörkin liggi í þessu efni. Staðan hjá Kópavogi undanfarið kjörtímabil var sú að þrír af fjórum flokkum, sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs, eru með bæjarfulltrúa sem samtímis eru hátt settir stjórnendur eða millistjórnendur hjá bænum! Ímyndið ykkur hvort ekki myndi heyrast hljóð úr strokki ef sviðsstjórar hjá Reykjavíkurborg væru samtímis borgarfulltrúar eða ráðuneytisstjórar sætu á Alþingi. Eigum við Kópavogsbúar eitthvað síðra skilið?
  4. Skoðunarmaður skoðar (ekki) eigin mál. Grófasta dæmið er nýtt – nei; afsakið – það er nýframkomið í fjölmiðlum en hefur varað við árum saman en af einhverjum ástæðum kemur það ekki í DV fyrr en í gær og á forsíðu Fréttablaðsins í dag – viku fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Kópavogi. Þar kemur fram að skoðunarmaður reikninga hjá Kópavogsbæ – og jafnframt einn helsti stuðningsmaður fyrrverandi bæjarstjóra – hafi á fimm árum þegið yfir 70 millj. kr. í greiðslur fyrir rúmlega 70 verk. Þetta gengur ekki lengur – eða réttara sagt: svona hefur aldrei gengið. Ekki er fært að segja – eins og einhverjir gera í Fréttablaðinu í dag – „ég vissi þetta ekki.“ Í þessu máli hafa allir brugðist – bæjarfulltrúar meirihluta og minnihluta, stjórnendur, fjölmiðlar og við í baklandinu. Vonandi bregðast kjósendur ekki – sjálfum sér sem skattgreiðendum og börnum sínum.

 

Færum til betri vegar 

Vonandi verða umræður um þessi mál til þess að bæði Ísland í heild og stjórn Kópavogsbæjar færist til betri vegar í þessu efni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur