Í tengslum við niðurstöður prófkjara þessar vikurnar vakna oft spurningar um kynjaskiptingu og jafnvel kynjakvóta. Í fyrra starfi mínu hjá heildarsamtökum háskólamenntaðs launafólks, BHM – þar sem meirihluti félagsmanna er konur – vann ég í nær sjö ár að því að rétta hlut kvenna. Stærsti áfanginn í því var þegar fallist var á kröfu BHM varðandi ný lög um launatengt fæðingarorlof. Þá féllust stjórnvöld ekki aðeins á kröfu okkar um formlegt jafnrétti milli kynjanna. Þrír mánuðir skyldu koma í hlut móður og þrír mánuðir í hlut föður en þrír mánuðir vera til skiptanna milli foreldra. Einnig var tekið undir það meginatriði í málflutningi okkar að hluti föður yrði bundinn við hann.
Krafa um að fæðingarorlof föður væri bundið við hann var ekki aðeins af umhyggju við blessuð börnin, sem eiga rétt á jöfnum samvistum við feður frá fæðingu. Þetta skilyrði af hálfu heildarsamtaka launafólks var heldur ekki einungis sett til þess að leiðrétta hlut feðra – sem fram að því höfðu oft farið á mis við þá einstöku reynslu að hugsa um börn sín frá blautu barnsbeini.
Raunverulegt jafnrétti á vinnumarkaði – og heima
Ein aðalástæðan fyrir bundnum hlut feðra var sú að við vildum jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði – með því að feður yrðu jafn ”óöruggur” vinnukraftur og konur á barnseignaraldri. Örfáar raddir töldu – réttilega – að við og stjórnvöld værum með þessari reglu að skerða frjálst val eða samningsfrelsi foreldranna innbyrðis um verkaskiptingu. Við töldum á hinn bóginn mikilvægara að kjör kvenna næðu þannig fremur sannvirði og yrðu því fyrr jöfn kjörum karlanna sem höfðu fram að því betri kjör – m.a. í krafti meiri sveigjanleika og ”öryggis” frá óvissu vegna barna og vegna ábyrgðar á heimili. Þetta tókst – jafnvel þó að enn sé nokkuð í land og enda þótt enn nýti konur frekar þá þrjá mánuði sem foreldrar geta skipt á milli sín. Það breytist ekki fyrr en ábyrgðin verður jafnari á heimilinu líka.
Hví kynjakvóti?
En hvað með kynjakvóta? Sumir telja – eins og í feðraorlofsmálinu – að kynjakvótar feli í sér óhæfileg afskipti af frjálsu vali og segja að konur eigi að komast áfram á eigin verðleikum – rétt eins og verðleikaleysi sé ástæða ójafnréttis í garð kvenna hingað til! Ég hef verið fylgjandi kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga og hef rökstutt þá skoðun mína opinberlega. Þá er það engin tilviljun að ég hef í 15 ár verið félagsmaður í stjórnmálaflokki sem hefur um árabil haft það í lögum sínum að við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skuli hlutur hvors kyns ekki vera lægra en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins hef ég tekið þátt í að framfylgja þessari skýru reglu okkar Framsóknarfólks.
Virkar aðgerðar – þær virka
Í stuttu máli tel ég ekki hægt að bíða önnur 50 ár eftir jafnrétti – en u.þ.b. hálf öld er nú liðin frá því að löggjafinn hóf regluleg afskipti af kynja(ó)jafnrétti með því að setja lög um jöfn laun og jöfn réttindi karla og kvenna; slík lög dugðu skammt þegar félagslegur veruleiki kvenna á heimili og á vinnumarkaði hélst að mestu óbreyttur. Á næsta ári eru að vísu 100 ár frá því að sett voru lög um jafnan rétt kvenna og karla sem lykju embættisprófi frá Háskóla Íslands enda á hann aldarafmæli 2011. Við lögfræðingar vitum hins vegar af eigin reynslu að almenn lagasetning dugar ekki ein og sér; virkari aðgerðir þarf til.
Fæðingarorlof feðra er vel heppnuð aðgerð sem þegar er farin að virka – eins og ég gerði ráð fyrir þegar ég tók þátt í að berjast fyrir þeim og semja um inntak og texta laganna í mjög góðu samráðsferli sem stjórnvöld áttu þá við fulltrúa launafólks. Enn er þó nokkuð í land til þess að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði og heima fyrir.
Kynjakvóti í þágu betra samfélags
Kynjakvóti er önnur slík virk aðgerð – sem ég styð. Stundum heyrir maður þá mótbáru frá andstæðingum virkra aðgerða til þess að ná jafnrétti: hvers vegna er þá ekki settur kvóti fyrir sköllótta eða fyrir örvhenta o.s.frv.? Svarið við því er einfalt. Kynjakvóti er settur eins og aðrar virkar aðgerðir eru ákveðnar til þess að rétta hlut hópa sem hafa – t.d. af félagslegum ástæðum – ekki notið fulls jafnréttis eins og saga 20. aldar geymir fleiri dæmi um.
Ég veit ekki dæmi þess að sköllóttum eða örvhentum hafi sem hópi verið mismunað kerfisbundið eða óbeint. Ég þekki hins vegar – bæði af eigin stjórnunarreynslu og námi mínu í mannauðsstjórnun – að konur eru ekki ávallt metnar að verðleikum en eru þó ekki síður hæfir starfsmenn og stjórnendur. Auk þess hafa konur almennt eiginleika sem karlar hafa yfirleitt ekki. Þessir eiginleikar mega ekki missa sín – eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við hér á Íslandi.
Þetta – og annað sem hvílir á konum – vil ég gjarnan ræða frekar við þær sjálfar í konukaffi á bolludag, á morgun, mánudag 15. febrúar, kl. 17:15, á kosningamiðstöð minni að Smiðjuvegi 6 (rauð gata). Verið velkomnar.
Framsókn í forystu
Þess má til gamans geta að þegar lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett var félagsmálráðherra, sem flutti málið á Alþingi, framsóknarmaðurinn Páll Pétursson.