Gamalt máltæki kveður á um að byrgja skuli brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Síðdegis í dag birtist frétt um að Dönum þætti ekki fært út frá sinni stjórnskipan að banna starfsemi félagasamtakanna Hells Angels. Ég óttast að lögfræðingar hérlendis dragi sömu ályktun um íslensk lög og aðstæður að því er varðar íslenskt samfélag; ég er m.ö.o. hræddur um að það gleymist að þótt lögin séu lík – þá eru aðstæður ólíkar.
Skýrslan að baki er þó ekki auðfundin á netinu.
Stjórnarskráin hér eins og þar heimilar bann
Lögfræðingar eiga að læra í lagaskólum að tengja lagareglur (jus) við atvik (faktum). Það meginatriði gleymist oft. Hérlendis – eins og reyndar í skandinavísku ríkjunum, þaðan sem Hells Angels reynir að ná fótfestu hér – gildir eftirfarandi stjórnarskrárákvæði, lítt breytt í yfir 135 ár (áhersla GT):
Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.
Ég tel að hlutaðeigandi ráðherra eigi þegar að undirbúa slíkt bráðabirgðabann samhliða því að undirbúa málsókn til staðfestingar því banni með dómi. Rök mín – í stuttu máli – er að finna hér að neðan.
Lögin lík – aðstæður ekki
Dönsk stjórnskipan er vissulega ekki aðeins lík okkar eigin – heldur er danska stjórnarskráin frá 1848-9 beinlínis fyrirmynd okkar stjórnarskrár sem sameiginlegur konungur okkar og Dana færði okkur einhliða 1874; síðan hefur hún lítið breyst.
Í fyrsta lagi er ekki víst að þessi niðurstaða stjórnskipaðra nefnda sé rétt (jus); á það reynir ekki nema fyrir dómi. Ég tel það skyldu íslenskra stjórnvalda að láta reyna á heimildir í þessu efni; annars gerist það ekki – nema hjá fjölmiðlum, í fræðibókum og svo á fjölskyldum.
Í öðru lagi er þetta ólíkt að því er varðar staðreyndir (faktum) – og rétt að hafa í huga – að hér hafa samtökin Hells Angels sem betur fer enn ekki fest rætur. Í Danmörku hafa þessi samtök fest rætur sem glæpasamtök undir yfirskyni annarrar og e.t.v. að hluta til lögmætrar starfsemi. Oft má þó sjá af erlendum miðlum að meginstarfsemi slíkra samtaka er eitthvað sem við viljum – og getum – spornað við, t.d. mansal.
Þá verður að hafa í huga að hægt er að banna félög samkvæmt stjórnarskrá en ekki hópamyndun eftir þjóðerni eða öðrum atriðum sem njóta ríkrar stjórnarskrárverndar. Í gær féll hérlendis héraðsdómur í mansalsmáli sem var tengt einum þjóðernishópi frekar en öðrum.
Aðal- og aukatilgangur
Eitt af ákvæðunum sem í stjórnarskrá, áðurgreint, lítið breytt vissulega, kveður á um nær algert félagafrelsi en bann við félögum með ólöglegan tilgang. Þegar metið er hvort félag hefur ólöglegan tilgang (í skilningi 150 ára gamallar stjórnarskrárhefðar) hljóta að koma til álita
- málamyndaröksemdir,
- sniðgöngusjónarmið og a.m.k. aldarlöng reynsla af því að meta hvað sé
- aðaltilgangur og aukaatriði í starfsemi félaga.
Frelsi án ábyrgðar?
Ofangreind stjórnarskrárregla er mótvægi við nánast algert frelsi til stofnunar félaga. Hugsun stjórnarskrárgjafans – eða Founding Fathers eins og Ameríkanar orða það – er að félög eru nánast alltaf til góðs; þau efla
- almannahag (t.d. Rauði Krossinn),
- vinna að hugsjónum (t.d. Feministafélagið),
- verja hagsmuni (t.d. stéttarfélög),
- stjórna þjóðfélaginu (t.d. stjórnmálaflokkar) eða
- koma frumkvæði í framkvæmd (t.d. hlutafélög, m.ö.o. fyrirtæki).
Bönnum samtökin áður en það er of seint
Ég hef hallast frekar „til vinstri“ í mannréttinda- og félagmálum en hér eru skýr lagarök og staðreyndir til grundvallar því að fyrirbyggja frekari skaða af glæpastarfsemi á sviði mansals og fíkniefnasölu og banna starfsemi samtaka sem sannarlega hafa slíkt að meginmarkmiði. Skoðum niðurstöðu væntanlegs dóms Hæstaréttar um brottvísun þekkts leiðtoga samtakanna í leit að vísbendingum um hvort og hvernig megi takmarka starfsemi og tilvist Hells Angels hérlendis – áður en skaðinn er skeður.
***
Af fyrstu viðbrögðum að dæma eru hlutaðeigandi stjórnmálaleiðtogar sammála.