Ég frétti af eldgosinu við Eyjafjallajökul í nótt um kl. 00:50 á sjónvarpsskjá Ríkisútvarpsins rétt áður en ég ætlaði að slökkva. Það sýnir mér að almannavarnarhlutverk RÚV er ekki hjóm eitt eins og stundum er talið. Áhugavert er þó að fara yfir hvernig fréttastreymi var af gosinu. Það, sem virðist standa upp úr, er að hið formlega viðvörunarkerfi kom af fjöllum; fréttir bárust hins vegar undan Eyjafjöllum eftir öðrum og óformlegri leiðum, t.d. frá sjónarvottum eða lögreglu til hinna ýmsu miðla. Fyrstu klukkustundirnar stóð aðeins þetta með smáu letri á vef Veðurstofu Íslands:
Ath Eldgos er hafið norðanvert í Fimmvörðuhálsi
með lítin gulan þríhyrning fyrir framan en þessi litla viðvörun virðist hafa birst töluvert eftir að fasbók og vefmiðlar voru komnir með fréttina.
Fasbók öflugust – mbl.is fyrst með fréttina
Sjálfur held ég að fasbók hafi verið lykilatriði við skjóta útbreiðslu fréttanna, svo og önnur svipuð net – á borð við Twitter, sem ég fylgdist lauslega með í fyrsta skipti í nótt. Strax og ég sá fréttina á sjónvarpsskjánum – og áður en ég fékk hana staðfesta annars staðar – setti ég inn fasbókarfærslu um kl. 00:50 á ensku um að hugsanlega væri hafið gos í Eyjafjallajökli.
Hvað eiginlega fjölmiðla varðar kom FréttaGáttin – Allar fréttir á einum stað – í góðar þarfir við að sjá fréttastreymið án þess að þurfa sífellt að skipta á milli vefsíðna eða endurhlaða síðum. Um 15 mínútum áður en ég sá fréttastrimil yfir sjónvarpsskjáinn birtist fréttin fyrst hjá mbl.is kl. 00:35 með fyrirsögninni:
Fréttastrimill á sjónvarpsskjánum sem birtist milli 00:45 og 00:50 vísaði á útvarpsfréttir. Í kjölfarið fylgdi dv.is kl. 00:52 með fullyrðingu um að eldgos væri hafið þar. Önnur frétt mbl.is birtist kl. 00:53 og pressan.is birti frétt um gosið kl. 00:58. Útvarpsfréttir RÚV fylgdu svo ekki fyrr en rétt eftir kl. 1. Ég fór ekki að fylgjast með Bylgjunni fyrr en seinna en frétti líka af umfjöllun á Útvarpi Sögu. Svo var það ekki fyrr en töluvert eftir kl. 2 að ég held að fréttir á ensku, skandinavísku og þýsku fóru að berast á RÚV. Kannski þurfum við að koma upp fjölmenningarlegri viðbraðgsáætlun.
Fréttaröðin á vefmiðlum samkvæmt Fréttagáttinni
Svona var fréttaröðin (í öfugri röð) frá fyrstu frétt á mbl.is kl. 00:35 og til kl. 6 í morgun: