Mánudagur 05.04.2010 - 22:33 - FB ummæli ()

Krefjumst rannsóknar á morðum í Írak

Almannasamtökin Wikileaks og ríkisstofnunin RÚV sönnuðu tilvistarrétt sinn enn frekar rækilega í kvöld. Þau birtu ekki aðeins hrátt myndband úr árásarþyrlu bandaríska hersins þar sem sjá mátti morð á fjölda íraskra borgara 2007 heldur fylgdi vel undirbúin þýðing, félagslegt samhengi og tæknileg útskýring – auk stærðar og almenns áhorfs sjónvarpsskjásins.

Nú er komið að okkur.

Ég er samsekur

Þó að ég hafi verið passivur félagi í Samtökum hernaðarandstæðinga (áður Samtökum herstöðvarandstæðinga) u.þ.b. frá sjálfræðisaldri eða líklega í nær aldarfjórðung er ég líka borgari í sjálfstæðu ríki sem studdi móralskt og með aðstöðu sinni innrás í Írak – enda þótt réttilega hafi verið efast um lögmæti þeirra ákvarðana samkvæmt íslenskum stjórnskipunarreglum; það mál er óútkljáð enn. Auk þess er ég félagi í flokki þar sem þáverandi formaður og utanríkisráðherra samþykkti þessa aðild íslenska ríkisins. Ég er líka sekur um að hafa hvorki beitt mér gegn innrásinni í Írak – hvorki fyrr né síðar, a.m.k. ekki aktivt. Ég verð að bæta úr því.

Reglur um stríðsátök

Í fljótu bragði kann ég enga betri leið sem lögfræðingur en að fara yfir og þýða aðgengilegar reglur um stríðsátök þó að þetta tilvik falli nú varla undir stríðsátök – en þess þá heldur. Þá finnst mér stundum að reglur um stríð feli í sér innri andstæðu (e. contradiction in terms) en staðreynd er að slíkar reglur hafa verið við lýði í aldir.

Í fávisku minni hélt ég sem sagt að um athafnir bandaríska hersins eins og annarra herja giltu virkar reglur um hvenær, hvar, gegn hverjum og hvernig beita mætti hernaðarvaldi. Oft hefur maður í fréttum og bíómyndum heyrt um „rules of engagement.“ Ef leitað er á vefnum finnst að bresku reglurnar eru einmitt þannig fram settar að þær lúti að þessu:

  • When military force may be used
  • Where military force may be used
  • Against whom force should be used in the circumstances described above
  • How military force should be used to achieve the desired ends.“

Bandarísku reglurnar samkvæmt sömu heimild eru að vísu tengdar „Marine Corps“ frá 1999 og kenndar við návígi en varla eru þær óhagstæðari almennum borgurum en aðrar reglur af sama tagi. Þær virka frekar stigskiptar og hljóða þannig í fljótlegri þýðingu minni:

  • Stig 1: Eftirgjöf (í samvinnu). Viðfangsefni svarar og verður við munnlegum skipunum. Bardagatækni í návígi á ekki við.
  • Stig 2: Vörn (passiv). Viðfangsefni bregst ekki við munnlegum skipunum en verður strax við hvers konar stjórnun í návígi. Bardagatækni í návígi á ekki við.
  • Stig 3: Vörn (aktiv). Viðfangsefni sýnir í upphafi andstöðu í verki. Notið stjórntæki til þess að ná fram eftirgjöf í því skyni að ná stjórn á aðstæðum. Í þriðja stigi felst að beita bardagatækni í návígi til að þvinga viðfangsefni líkamlega til að verða við skipunum. Tæknin felur m.a. í sér: „Come-along holds, Soft-handed stunning blows, Pain compliance through the use of joint manipulation and the use of pressure points.“
  • Stig 4: Árás (Líkamleg meiðsl). Viðfangsefni kann að gera líkamlega árás en notar ekki vopn. Notið varnartækni til að eyða hættunni. Varnartækni felur m.a. í sér: „Blocks, Strikes, Kicks, Enhanced pain compliance procedures, Impact weapon blocks and blows.“
  • Stig 5: Árás (Banvæn). Viðfangsefnið hefur venjulega vopn og mun annað hvort drepa eða særa einhvern ef það er ekki stöðvað þegar í stað og yfirhöndinni náð. Nauðsynlegt er að ná viðfangsefni undir stjórn með banvænni árás – annað hvort með skotvopnum eða ekki.

Svo kemur þessi texti:

Rules of engagement are most often decided upon by battle-space commanders and are created to carry out and fall in line with over-arching orders or goals from higher command. In order for this to be accomplished, battle-space commanders must manufacture rules of engagement that will not violate the trust of the local population, but will instead foster a relationship of respect and understanding.

Krefjumst rannsóknar sem aðilar að stríðinu

Í stuttu máli er mér ómögulegt að skilja hvernig tilvik sem ég felli undir stig 1 eða 2 (ef yfirleitt er hægt að fella umræddar aðstæður undir reglur um stríðsátök) – ef á hefði reynt – leiða til viðbragða á 5. og efsta stigi og dauða nær allra, að því er virðist saklausra borgara. Jafnvel þótt svo ótrúlega færi að einhver féllist á að tilefnislaus þyrluskotárás á nokkra menn með myndavélar (og að sögn með vopn) hefði verið réttlætanleg vegna þess að þyrlumönnum hefði missýnst að myndavél væri flugskeytavopn getur ekki verið að nokkur samþykki – eftir að hafa séð þetta myndband – að skotárás á borgara í bíl (með börn) sem vildu bjarga særðum manni teljist uppfylla kröfur framangreindra reglna um stríðsátök.

Eigum við ekki sem NATO-þjóð og (passivir) aðilar að Íraksstríðinu að krefjast – ekki skýringa, heldur – rannsóknar á því sem varla er hægt að kalla annað en morð á borgurum í Írak, þ.m.t. skotárás á saklaus börn?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur