Sunnudagur 04.04.2010 - 21:59 - FB ummæli ()

Verður hann dæmdur?

Í fyrri viku var í Kastljósi rætt við konu sem var ásamt manni sínum stödd á árshátíð í Fljótshlíð um gosnóttina. Höfðu þau neytt áfengis og töldu sig ekki eiga neinn annan kost en að aka ölvuð af stað þegar rýma þurfti svæðið. Það endaði svo með árekstri á brúarstólpa eins og málinu er lýst á heimasíðu Kastljóss. Spurning er hvort þau geta borið fyrir sig svonefndan neyðarrétt ef til þess kemur – eins og líklegt er – að höfðað verði sakamál á hendur ökumanni og krafist refsingar (væntanlega sektargreiðslu) auk sviptingar ökuleyfis.

Þrír nýlegir dómar Hæstaréttar

Um svipuð mál eru til þrír nýlegir hæstaréttardómar en vitaskuld eru engin atvik eins í dómsmálum. Auk  þeirra eru til eldri dómar íslenskir og norrænir sem gætu verið til viðmiðunar en ég fjalla aðeins um hugsanlegt fordæmisgildi þessara þriggja hér – sem allir varða tilvik þar sem maður var ákærður fyrir ölvunarakstur en bar fyrir sig neyðarrétt. Í almennum hegningarlögum er svohljóðandi ákvæði:

Það verk er refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni.

Tvívegis hafnað neyðarrétti – hjá sama manninum

Tveir umræddra dóma varða reyndar sama manninn – þekktan síbrotamann sem margoft hafði fengið dóm fyrir ölvunaraktstur – sem bar fyrir sig í báðum málunum að hann hefði verið í yfirvofandi hættu. Í fyrra sinnið, 1999, var fallist á að um raunverulega hættu hefði verið að ræða en ekki var fallist á að honum hefði verið nauðugur kostur að aka ölvaður vegna aðsúgs, sem gerður var að honum, enda hafi honum verið önnur úrræði tæk. Rök héraðsdómara, sem Hæstiréttur féllst á, voru þessi:

Eins og rakið hefur verið var ákærði lagstur til hvílu í bifreið sinni er hópur unglinga safnaðist kringum bifreið hans og gerði hróp að honum, auk þess sem bifreið ákærða var lýst upp með ljósum nokkurra bifreiða á bifreiðaplaninu. Af framburði vitna hjá lögreglu verður að ganga út frá því að bifreið ákærða hafi verið hrist til, auk þess sem upplýst er að sparkað var einu sinni í bifreiðina. Þá er einnig upplýst að tilgangur unglinganna var að fá ákærða með einhverjum ráðum brott frá Hvolsvelli. Mátti ákærði því hafa beyg af þeim skara unglinga sem safnast höfðu saman á bifreiðaplaninu og í kring um bifreið hans. – Hins vegar ber að líta til þess að þótt unglingarnir hafi kallað ókvæðisorðum að ákærða, verður samkvæmt framburði vitna í málinu ekki byggt á þeirri fullyrðingu ákærða að honum hafi verið hótað lífláti eða líkamsmeiðingum. Þá er ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða að bifreið hans hafi orðið fyrir grjótkasti. Ekki er heldur trúverðugur framburður ákærða um að ungmennin hafi að eigin frumkvæði ýtt þannig með samstilltu átaki á bifreið ákærða að ákærði gat gangsett hana, heldur ber að miða við framburð vitna um að ákærði hafi átt orðaskipti við ungmennin og sjálfur óskað eftir aðstoð þeirra. Ákærði mátti vita að akstur hans var vítaverður þar sem hann ók undir áhrifum áfengis um götur Hvolsvallar og eftir þjóðvegi nr. 1, þar sem umferð getur verið töluverð, í stað þess til dæmis að leita eftir aðstoð á matsölustaðnum Hlíðarenda eða hringja þaðan eftir aðstoð, en atvik gerðust snemma kvölds og bifreið ákærða var lagt rétt við matsölustaðinn. Verður því hvorki fallist á með ákærða að réttlætanlegt hafi verið fyrir hann að aka bifreiðinni réttindalaus og verulega undir áhrifum áfengis né að atvik hafi verið með þeim hætti að fella beri refsingu ákærða niður.

Í síðara skiptið, 2001, var skýring ákærða um hættu ekki eins trúverðug og höfnuðu bæði héraðsdómur og Hæstiréttur skýringu hans, sá síðarnefndi með þessum röksemdum:

Á það verður ekki fallist með ákærða að háttsemi hans hafi verið honum refsilaus samkvæmt neyðarréttarákvæði 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem honum hafi verið nauðugur sá kostur að aka bifreiðinni til að forða lífi sínu, limum og eignum vegna ógnunar „eiturlyfjagengis“ um að hann yrði beittur ofbeldi ef hann hefði sig ekki á brott innan klukkustundar.

Athyglisvert er að báðir þessir dómar koma í kjölfar hæstaréttardóms þar sem fallist var á neyðarrétt sem refsileysisástæðu við ölvunarakstur.

Einu sinni fallist á neyðarrétt við ölvunarakstur

Í elsta dóminum, sem hér eru til skoðunar, frá 1999, féllst Hæstiréttur hins vegar – eins og héraðsdómur – á að ölvunarakstur væri refsilaus vegna aðstæðna í því máli – og leiddi hann því ekki heldur til ökuleyfissviptingar. Atvik voru á þessa leið:

Stúlkan B og D ákváðu að næturlagi að fara frá starfsmannahúsi við Búrfellsvirkjun að Þjórsárdalssundlaug og ók B, sem var án ökuréttar. Á leiðinni til baka missti hún stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt. Var B í miklu uppnámi eftir slysið og kvartaði mjög undan verkjum í baki og hálsi og var ekki í ástandi til að aka. Ók D því bifreiðinni um vegaslóðann aftur að virkjuninni, til að koma B undir læknishendur, þótt hann væri undir áhrifum áfengis. Var hann ákærður fyrir ölvunarakstur. Talið var nægilega sýnt fram á að B hefði verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað og að D hefði ekki verið stætt á því að skilja hana eina þar eftir á meðan hann gengi til byggða eftir aðstoð. Þá var talið að D hefði haft ástæðu til að ætla að meiðsl B væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Var fallist á að D hefði ekki átt annarra kosta völ en að aka sjálfur bifreiðinni, en engin umferð var á veginum og áfengismagn í blóði hans fór ekki verulega fram úr lágmarki umferðarlaga. Var talið að þrátt fyrir það að háttsemi D væri andstæð ákvæði 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga hefði hún verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Var verknaðurinn því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga og niðurstaða héraðsdóms um sýknu D staðfest.

Nánar tiltekið voru röksemdir Hæstaréttar þessar:

Eins og ráðið verður af framangreindu virðast hvorki ákærði né [stúlkan] hafa borið fyrir lögreglu um meiðsl hennar eða einkenni á fyrstu stigum eftir slysið. Hvorugt þeirra virðist hafa fært þar í tal að ákærði hafi ekið í umrætt sinn af neyð, heldur var því fyrst borið við fyrir héraðsdómi. Verður ekki séð að leitað hafi verið skýringa á þessu við skýrslugjöf ákærða eða [stúlkunni] fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að vegna vitneskju lögreglunnar um atvik málsins, þar á meðal um flutning [stúlkunnar] á sjúkrahús, var ríkt tilefni vegna ákvæðis 2. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að beina spurningum til ákærða með tilliti til þessa þegar hann gaf fyrrnefndar skýrslur sínar 14. og 16. júlí 1998 án þess að óska eftir því að réttargæslumaður yrði kvaddur til. Getur tómlæti ákærða um að bera fyrir sig neyðarrétt því ekki orðið honum til réttarspjalla. – Í hinum áfrýjaða dómi er staðháttum lýst svo að vegurinn, sem bifreið ákærða var ekið út af, liggi að sundlaug, sem sé í miðri sandauðn í Þjórsárdal. Séu 8 til 11 km frá slysstað að malbikuðum þjóðvegi, en þaðan 3 til 4 km til byggða. Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið leitast við að hnekkja þessari lýsingu með nýjum gögnum. Ber því að leggja hana til grundvallar. – Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á það með héraðsdómara að sýnt sé nægilega fram á að [stúlkan] hafi verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað, svo og að ákærða hafi ekki verið stætt á að skilja hana þar eina eftir. Af framburði vitna, sem hefur nú fengið frekari stuðning í fyrrgreindum læknisvottorðum, er jafnframt nægilega leitt í ljós að ákærði sem leikmaður hafði ástæðu til að ætla að meiðsl [hennar] væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Eins og atvikum var háttað verður að fallast á að ákærði hafi ekki átt annarra kosta völ til að sinna þessum þörfum en að aka sjálfur bifreiðinni til byggða, enda gátu þau ekki vænst mannaferða í námunda við slysstað fyrr en að liðnum þó nokkrum tíma. Áfengismagn í blóði ákærða fór ekki verulega fram úr því lágmarki, sem um ræðir í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Leggja verður til grundvallar að hann hafi ekið hægt eftir vegum, sem aðrir áttu ekki leið um á sama tíma. Þessi háttsemi ákærða var að sönnu andstæð fyrrnefndu ákvæði umferðarlaga. Í ljósi framangreinds verður hins vegar að telja sýnt að hún hafi verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Verknaður ákærða var því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga.

Í öllum tilvikum sátu þrír hæstaréttardómarar í dómi og í tveimur eldri málunum var um að ræða sama héraðsdómara – en það skiptir ekki meginmáli frekar en sú áhugaverða tilviljun að bæði fordæmin gerast eins og gosmálið á Suðurlandi.

Voru raunhæfir valkostir?

Ef þessir tveir dómar eru bornir saman má gera ráð fyrir að aðalálitaefnið fyrir dómi í máli varðandi ölvunarakstur vegna rýmingar í kjölfar eldgossins verði hvort fólkið átti annarra raunhæfra kosta völ miðað við aðstæður. Líklegt er að þá spili inn í möguleikar á að kalla á aðstoð, t.d. hringja með GSM-síma, og aðrir möguleikar til brottfarar og hversu yfirvofandi hættan mátti teljast. Eins og sjá má á tilvitnuðum dómum verður þar væntanlega byggt á huglægu mati fólksins sjálfs en ekki hvernig hættan er metin síðar af yfirvegun og af hálfu fagfólks. Miðað við fordæmin tvö er einnig líklegt að litið verði til áfengismagns í blóði en Hæstiréttur gat þess sérstaklega í málinu þar sem sakfellt var að ákærði hefði verið „verulega undir áhrifum áfengis“ en í sýknudóminum var á hinn bóginn tekið til þess að „[á]fengismagn í blóði ákærða fór ekki verulega fram úr því lágmarki, sem um ræðir“ – þ.e. 0,50 prómill. Miðað við síðara fordæmið er einnig líklegt að dómstólar horfi til þess hversu (ó)varlega ekið var. Hvort tveggja hefur stoð í tilvitnuðu neyðarréttarákvæði þar sem rætt er um að fórna minni hagsmunum fyrir miklu meiri – en ölvunarakstur er vitaskuld hættulegt athæfi og akstur undir verulegum áfengisáhrifum er vitaskuld hættulegri en minniháttar ölvunarakstur. Að öðru leyti vil ég ekki spá fyrir um niðurstöðu dóms Hæstaréttar – en segi:

Gleðilega páska.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur