Miðvikudagur 27.10.2010 - 16:30 - FB ummæli ()

Býð mig fram á stjórnlagaþing

Framboð í þágu valdajafnvægis

Nú – þegar réttur mánuður er til kosninga til stjórnlagaþings og 523 framboðstilkynningar hafa verið staðfestar – vil ég upplýsa að 

ég býð mig fram til þess að sitja stjórnlagaþing í ykkar umboði í því skyni að bæta stjórnarskrána – og jafna völd mismunandi aðila og hagsmuna. 

  

Þrjú stefnumál til að jafna völd

Það vil ég gera með þremur meginstefnumálum, sbr. nánar hér að neðan: 

  1. Sveitarfélögin fái stjórnskipulega stöðu sem fjórða valdið til mótvægis.
  2. Skylt verði samkvæmt stjórnarskrá að viðhafa jafnt samráð við ólíka aðila.
  3. Hæstiréttur fái hlutverk stjórnlagadómstóls til þess að auka aðhald.

Þjóðin svari – á undan Alþingi

Áður en lengra er haldið vil ég nefna mikilvægt formsatriði: 

Ég tel afar mikilvægt að niðurstöður stjórnlagaþings verði fyrst bornar undir þjóðina – til samþykktar eða synjunar – áður en Alþingi fær þær til afgreiðslu. 

Með þeirri aðferð má draga úr þeirri hættu að alþingismenn og stjórnmálaflokkar falli enn og aftur í þá gryfju að karpa og hugsa frekar um eigin hag en hagsmuni þjóðarinnar – eins og ég hef áður skrifað um. Þetta er ekki síður mikilvægt en hin eiginlegu stefnumál um nýja stjórnarskrá. 

En hvaða breytingar vil ég þá leggja til? 

Valdajafnvægi, valdajafnvægi og valdajafnvægi

Stjórnarskrá kveður fyrst og fremst á um skiptingu valda 

  • milli ríkis og borgara eða hlutverk hvors um sig annars vegar og
  • milli æðstu handhafa ríkisvalds (nú: löggjafa, ríkisstjórnar og dómstóla) hins vegar.

Hið upphaflega markmið með stjórnarskránni – valdajafnvægi – hefur skolast til í 136 ára framkvæmd! 

Því vil ég setja þessi þrjú mál á oddinn – en hef auk þess fjölda annarra stefnumála eins og fram hefur komið og mun verða fjallað meira um

  1. Ég vil auka valdajafnvægi í því skyni að enginn einn aðili ráði lögum og lofum. Það vil ég gera með því að bæta við nýjum aðila á æðsta stig okkar stjórnskipunar – fjórða valdinu: sveitarfélögum. Nú njóta sveitarfélög í orði kveðnu stjórnarskrárvarins sjálfstæðis en þurfa samt að sæta ofríki í viðskiptum við ríkið við ákvörðun um tekjustofna og „samráð“ eða ójafna samninga um verkefni sem löggjafinn felur sveitarfélögum að sinna. Með því stefnumáli að skipta t.a.m. fjárstjórnarvaldinu (skatt- og fjárveitingarvaldi) jafnar á milli ríkis og sveitarfélaga tel ég að slá megi tvær flugur í einu höggi – jafna miðstjórnarvald ríkisins annars vegar og hins vegar styrkja héruðin svo að þau séu ekki aðeins veikir viðsemjendur heldur fullburða gerendur.
  2. Einnig vil ég stuðla að valdajafnvægi með því að stjórnarskrárbinda skyldu til þess að viðhafa jafn mikið samráð við ólíka aðila sem gæta andstæðra hagsmuna, t.d. fulltrúa atvinnurekenda annars vegar og málsvara launafólks og neytenda hins vegar, eins og ég hef fjallað um áður; alltof algengt er að fyrr, meira og ítarlegar sé haft samráð við þá sem síst skyldi, hina sterku.
  3. Loks vil ég að tryggt verði valdajafnvægi milli bæði ríkis og borgara og á milli mismunandi handhafa ríkisvalds með því að bjóða upp á óháð aðhald af hálfu handhafa dómsvalds með handhöfn löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. hlutverki eins konar stjórnlagadómstóls – sem ég legg raunar til að verði falið Hæstarétti. Eins og ég mun fjalla nánar um síðar má í þessu skyni kveða á um að tilteknir aðilar hafi heimild til þess að bera undir slíkan dómstól stjórnskipuleg álitaefni sem enn hefur ekki reynt á – sem sagt áður en skaðinn er skeður. Með þessu stefnumáli er einnig brugðist við einum helstu mótrökum gegn stjórnlagaþingi af hálfu andstæðinga þess: að ekkert sé að stjórnarskránni sjálfri – aðeins þurfi að fara eftir henni; þá er eitthvað að – ef ekki er farið eftir stjórnarskrá og nægt tilefni til umbóta eins og hér eru lagðar til.

Jafnvægi milli miðstjórnar og héraðs, æðstu stjórnar ríkisins og milli ólíkra hagsmuna

Ofangreindar hugmyndir eru að mínu mati til þess fallnar að stuðla að valdajafnvægi milli 

  • miðstjórnarvalds og héraða,
  • æðstu handhafa ríkisvalds og
  • ólíkra hagsmuna í samfélaginu.

Í tillögum mínum felst að aukið valdajafnvægi sé eftirsóknarvert og gott í sjálfu sér – eins og ég mun rökstyðja betur í komandi Eyjupistlum.  Ég mun halda áfram umfjöllun hér um stjórnarskrána og helstu stefnumál til úrbóta – enda hefur þetta málefni, sem sagt, lengi verið mér hugleikið. 

Aldur stjórnarskrárinnar ekki aðalástæðan

Eins og ég hef skrifað um í daglegum Eyjupistlum undanfarið tel ég tímabært að endurskoða stjórnarskrána – á stjórnlagaþingi – í kjölfar hrunsins enda hef ég áður haldið því fram hér að fyrir hendi sé 

augljóst orsakarsamhengi milli hrunsins og þess stjórnarfyrirkomulags sem leyfði nær alræði forystumanna ríkisstjórnar og alltof gott aðgengi sterkra aðila að stefnumótun. 

Fleiri hafa talað á sömu lund. Aldur stjórnarskrárinnar – þótt hár sé – er því hvorki eina né aðal ástæðan fyrir tillögu minni um stjórnlagaþing í kjölfar hrunsins. Þar og í fleiri pistlum hef ég rökstutt ástæður þess að boða beri til stjórnlagaþings – en orðlengi ekki frekar um það enda stjórnlagaþing loks á dagskrá.

  

Aðferð í aðdraganda stjórnlagaþings

Ég mun leitast við að kynna framboð mitt og stefnumál ítarlega og án annarra fjárútláta en vegna funda með kjósendum, með 

  • áframhaldandi Eyjubloggi á hverjum degi,
  • gestapistlum ráðgjafa, meðframbjóðenda og stuðningsfólks á sama vettvangi,
  • umfjöllun á fasbók (http://www.facebook.com/gisli.tryggvason) og með
  • þátttöku í fundum og jafnvel skipulagningu funda í samstarfi við aðra frambjóðendur.

Enn fremur mun ég 

  • koma á fót sem breiðustum hópi ráðgjafa til þess að leita eftir viðhorfum sem flestra,
  • nálgast aðra frambjóðendur í því skyni að eiga við þá rökræður um tilgang stjórnlagaþings og tillögur að breytingum á stjórnarskránni og
  • bjóða upp á umræður og upplýsingu gagnvart kjósendum þessum vettvangi sem öðrum.

20 ára reynsla

Í um 20 ár hef ég „stúderað“ stjórnarskrár Íslands og Danmerkur – sem laganemi, fræðilegur aðstoðarmaður prófessors við endurskoðun rits um stjórnarskrána, þátttakandi í réttindagæslu stúdenta, lögmaður, háskólakennari, þjóðfélagsrýnir og sem hagsmunagæslufulltrúi fyrir réttindi launafólks og neytenda undanfarin 12 ár. Sem slíkur hef ég rannsakað og túlkað stjórnarskrána, kynnt hana og kennt – auk þess að leggja til úrbætur á henni – enda hafa stjórnarskrármál auk þess verið eitt helsta áhugamál mitt allan þennan tíma. Þá hef ég frá nóvember 2008 barist fyrir stjórnlagaþingi og samið eða tekið þátt í að semja tvö frumvörp um sjálfstætt stjórnlagaþing.  

Kjósendur til stjórnlagaþings eiga því ekki að koma að tómum kofanum hjá mér – hvorki varðandi það sem  

  • gildandi stjórnarskrá felur í sér né
  • hvaða umbætur þarf að gera.

 Ég mun því halda áfram að gera það sem ég hef gert í ríkum mæli í 20 ár – að skrifa og fjalla opinberlega um lögfræði fyrir ólöglært áhugafólk.

Hver er ég?

Í stuttu máli er ég þriggja barna faðir, búsettur í Kópavogi og alinn upp á Akureyri auk þess sem ég bjó í tæp fimm ár í Danmörku frá 17 ára aldri. 

Ég hef verið talsmaður neytenda undanfarin fimm ár, var framkvæmdarstjóri og lögmaður Bandalags háskólamanna í sjö ár og er auk þess aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá 2008. Ég er lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1997, öðlaðist lögmannsréttindi 1998 og lauk MBA-prófi með áherslu á mannauðsstjórnun frá HR 2004. Þá hef ég lokið námskeiði í sáttamiðlun sem er valkostur við hefðbundna meðferð ágreiningsmála. Eins og áður segir hef ég lagt stund á stjórnskipunarrétt undanfarin 20 ár en hef einkum starfað við vinnumarkaðsrétt og neytendamarkaðsrétt frá því að ég lauk lagaprófi.

Frekar má fræðast um lífshlaup mitt, menntun og störf hér – svo og ritsmíðar, m.a. á sviði stjórnskipunarréttar.

Varfærinn umbótasinni

Ekki er rétt að mínu mati að umbylta stjórnarskrá og stjórnskipan landsins nema að vel athuguðu máli eins og framangreind stefnumál sýna væntanlega; stjórnarskrána má hins vegar bæta stórlega. Fyrst og fremst þarf þjóðin sjálf að ræða, meta og ákveða hvernig valdskipting og valdajafnvægi skuli vera milli helstu aðila sem ráða ríkjum í landinu. Þar hef ég fleiri hugmyndir og er opinn fyrir nýjum.

Eitt af því sem ég er enn í vafa um er framtíðarstaða forseta Íslands – m.a. af því að hann hefur ekki síst gegnt því hlutverki undanfarin ár að veita aðhald og stuðla að valdajafnvægi sem ég legg svo mikla áherslu á; ljóst er þó að hvort sem það embætti á að haldast, breytast eða ekki þarf að skrifa skýrari reglur um hvaða hlutverk forseti hafi – og hafi ekki.

Því býð ég mig fram sem varfærinn umbótasinni á stjórnlagaþing. 

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur